Iðnaðaruppbygging á Vestfjörðum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:26:31 (6162)

1998-05-04 13:26:31# 122. lþ. 116.15 fundur 666. mál: #A iðnaðaruppbygging á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:26]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 1144 spyr hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson: Hvaða athuganir hafa farið fram á vegum iðnrn. á möguleikum til iðnaðaruppbyggingar á Vestfjörðum? Hver var niðurstaða þeirra og hvaða upplýsingar liggja fyrir um möguleika á orkufrekum iðnaði eða annarri stóriðju í fjórðungnum?

Meginþunginn í starfsemi iðnrn. á þessu kjörtímabili hefur verið að efla atvinnu og nýsköpun. Þess sjást einkum merki í átaki til atvinnusköpunar, sjóðum til eflingar atvinnulífs á þeim svæðum sem ekki njóta stóriðjuuppbyggingar og efldu markaðsstarfi Fjárfestingarskrifstofu Íslands og Markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar. Hlutverk ráðuneytisins er að hvetja til aukinnar nýsköpunar og þar með að stuðla að fjölbreytni í atvinnulífinu. Þetta er bæði gert með því að treysta undirstöðu hagkerfisins þannig að umhverfi til nýsköpunar sé sem hagstæðast og með því að veita frumkvöðlum styrk til nýsköpunar. Stuðningsaðgerðir til nýsköpunar eru ekki landshlutaskiptar heldur er hvert verkefni metið fyrir sig.

Í vissum tilvikum hefur ráðuneytið þó veitt styrki til greiningar á styrkleikum ákveðinna landshluta. Á síðasta ári veitti ráðuneytið t.d. Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða styrk í gegnum Átak til atvinnusköpunar til greiningar á styrkleikum og veikleikum Vestfjarða með tilliti til víðtækrar atvinnuuppbyggingar. Á slíkri styrkleikagreiningu taldi iðnrn. brýna þörf ekki síst vegna þess að hlutur iðnaðar, að fiskiðnaði undanskildum, er hvergi lægri en á Vestfjörðum.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun voru laun í iðnaði 5,4% af heildarlaunagreiðslum á Vestfjörðum á árinu 1995 en laun í iðnaði á landinu öllu voru 11,5% af heildarlaunagreiðslum á sama ári og ég vona að þessi úttekt liggi fyrir innan tíðar.

Til viðbótar styrk til Atvinnuþróunarfélagsins voru á síðasta ári veittir nokkrir styrkir til einstakra fyrirtækja og einstaklinga á Vestfjörðum frá Átaki til atvinnusköpunar og má þar nefna styrk til Vestfirsks skelfisks sem þróunarverkefnis um bætta nýtingu kúfiskvinnslu og styrk til uppbyggingar byggðasafns að Hnjóti.

Ég vil nú víkja að orkufrekum iðnaði sérstaklega en eitt fyrirtæki í orkufrekum iðnaði er á Vestfjörðum, Þörungaverksmiðjan á Reykhólum. Erlendur aðili, Kelco, keypti meiri hluta í verksmiðjunni árið 1996 og hefur verið unnið að endurbótum á verksmiðjunni síðan. Nú um nokkurt skeið hefur Kelco skoðað möguleika á stækkun verksmiðjunnar og hefur iðnrn. reynt að stuðla að því eftir því sem hægt hefur verið í gegnum Fjárfestingarskrifstofu Íslands sem fékk á sínum tíma eða í fyrra styrk til að koma á samstarfi við heimamenn og eigendur Þörungaverksmiðjunnar um frekari fjárfestingu. Að þessu hefur verið unnið en enn er þó ekki hægt að segja til um það hvort af þessari stækkun verður eða ekki.

Staðsetning Þörungaverksmiðjunnar byggist á nálægð við hráefni en almennt verður að telja að möguleikar Vestfjarða til að laða að orkufrekan iðnað séu litlir. Kemur þar margt til. Í fyrsta lagi er vatnsafl og jarðhiti af skornum skammti í samanburði við önnur svæði. Í öðru lagi er landrými til orkufreks iðnaðar takmarkað. Í þriðja lagi er svæðið strjálbýlt og fámennt og samgöngur milli byggðakjarna oft og tíðum erfiðar. Í fjórða lagi má nefna að samgöngur milli annarra landshluta og annarra landa eru erfiðar frá Vestfjörðum. Það er því ljóst að staða Vestfjarða er veik á sviði orku- og mannaflafreks iðnaðar. Þessa skoðun mína byggi ég á skýrslu staðarvalsnefndar fyrir orkufrekan iðnað frá árinu 1983 þar sem gerð er grein fyrir staðarkostum á landinu öllu.

Á Vestfjörðum eru fáir meiri háttar virkjunarmöguleikar, þ.e. virkjunarmöguleikar á samkeppnisfæru verði. Þó er Ófeigsstaðavirkjun, 800 gígavattavirkjun, sem gæti framleitt orku á samkeppnishæfu verði. Iðnrn. hefur ekki verið með sérstaka könnun á staðháttum á Vestfjörðum með tilliti til orkufreks iðnaðar. Ráðuneytið hefur hins vegar styrkt fjölmarga einstaklinga og fyrirtæki til nýsköpunar og ýmiss konar sóknarfæra fyrir frumkvöðlastarfsemi á Vestfjörðum. Ég vil í því sambandi sérstaklega minna á fyrirtæki sem ég minntist á áðan auk fleiri aðila sem hafa birst í skýrslu sem ég hef lagt fyrir þingið.

Síðan vil ég minnast á framtakssjóð Nýsköpunarsjóðs þar sem gert er ráð fyrir að ráðstafa 1 milljarði til hlutafjárkaupa í því skyni að stuðla að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu með áherslu á landsbyggðina, einkum á sviði upplýsinga og hátækni og sóknarfærin eru fyrir hendi og það er undir íbúunum reyndar og fyrirtækjunum á hverju landsvæði komið hvernig það tekst til að nýta þau tækifæri sem eru til atvinnusköpunar og ekki síst á Vestfjörðum.