Iðnaðaruppbygging á Vestfjörðum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:31:59 (6163)

1998-05-04 13:31:59# 122. lþ. 116.15 fundur 666. mál: #A iðnaðaruppbygging á Vestfjörðum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:31]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin. Hann kom nokkuð víða við í þeim. Ég vil vekja athygli á því sem fram kom að þær upplýsingar sem lúta að orkufrekum iðnaði á þessu svæði eru frá árinu 1983. Það hefur vissulega margt breyst frá þeim tíma. Það hafa verið miklar framfarir í samgöngumálum, m.a. með gerð jarðganga sem hafa búið til atvinnusvæði upp á 6--7 þúsund manns. Einnig hafa orðið verulegar framfarir í samgöngum frá norðanverðum Vestfjörðum við aðra hluta landsins með því að opna heilsársveg yfir Steingrímsfjarðarheiði fyrir 11 árum eða eftir að þessar upplýsingar lágu fyrir.

Ég athugaði það lítils háttar í umræðunni um olíuhreinsunarstöð í Skagafirði hvaða skilyrði þyrftu að vera fyrir hendi til að landsvæði gæti talist líklegt til að geta tekið við slíkri starfsemi. Í ljós kom að það þurfti vinnusvæði upp á 4--6 þúsund manns og það er til staðar á Vestfjörðum. Það þurfti góða höfn og hún er til staðar á Vestfjörðum. Það þurfti aðgengi að orku, ekki í miklum mæli, og hún er líka til staðar á Vestfjörðum þannig að öll helstu skilyrði voru uppfyllt hvað það varðar. Þó er mér ekki kunnugt um að vakin hafi verið athygli á því svæði í þessu tilviki.

Ég held að menn þurfi að opna augun fyrir því, bæði opinberir aðilar og fleiri, að Vestfjarðafjórðungur býður upp á miklu fleiri möguleika en menn ætla að óreyndu. Virkjun Hvalár í Ófeigsfirði er jafnstór og virkjun Blöndu. Það er vel hægt að koma á fót iðnaðaruppbyggingu í tengslum við slíka virkjun þar eins og annars staðar á landinu.

Ég vildi því, herra forseti, með þessari fyrirspurn vekja athygli á því að á Vestfjörðum eru ýmsir möguleikar fyrir hendi sem mönnum hefur að mínu viti yfirsést hingað til.