Virðisaukaskattur af handverksmunum úr íslenskum náttúruefnum

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 13:46:57 (6169)

1998-05-04 13:46:57# 122. lþ. 116.16 fundur 677. mál: #A virðisaukaskattur af handverksmunum úr íslenskum náttúruefnum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[13:46]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég get tekið undir það að sú starfsemi sem hér hefur verið gerð að umtalsefni er víða vaxtarbroddur og það er ánægjulegt. Ég er hins vegar ekki sannfærður um að besta leiðin til að koma til móts við það fólk sem þessa atvinnu stundar og hefur lagt fyrir sig handverk af þessu tagi sé að veita undanþágu frá virðisaukaskatti. Í því sambandi kunna að vera aðrar leiðir og aðrir möguleikar.

Ég hygg að meginreglan, að því er varðar virðisaukaskattinn, sé sú að listmunir eru undanþegnir en 200 þús. kr. undanþágan sem hér hefur líka verið nefnd er fyrst og fremst hugsuð fyrir þá sem standa fyrir smávægilegri vörusölu, hvort sem það eru bílskúrssölur, hlutaveltur eða þess háttar, mjög sjaldan og ekki í atvinnuskyni. Það er því í raun og veru annað mál en það sem hér er um að ræða. Ég hef svarað á þeim grundvelli að hér sé um að ræða vörusölu í atvinnuskyni.

Þær hugmyndir sem að öðru leyti hafa komið fram eru allra góðra gjalda verðar þegar menn skoða málið heildstætt, þann vaxtarbrodd og þá þróun sem hefur orðið á þessu sviði. Ég tel að það sem fyrirspyrjendur hafa nefnt sé um margt athyglisvert en ég get ekki gengið lengra í svari mínu en hér er komið fram. Ég endurtek að það eru engin áform uppi um að fella niður skattinn á þessum vörum. Reyndar er það svo, í sambandi við útflutning, að þar geta kaupendur þessara vara fengið endurgreiðslur samkvæmt hinum almennu reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í því tilfelli er skatturinn ekki til trafala fyrir framleiðendur vörunnar.