Álagning fjármagnstekjuskatts

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 14:01:47 (6174)

1998-05-04 14:01:47# 122. lþ. 116.17 fundur 698. mál: #A álagning fjármagnstekjuskatts# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[14:01]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Í raun og veru er ekki miklu við þetta að bæta. Síðasta ár var eins konar reynsluár að því er varðar þessa nýju skattlagningu og það litla sem enn er komið í ljós að því er hana varðar er nokkuð jákvætt. Greiddir hafa verið 2 milljarðar. Heildarinnborganir vegna þessa skatts eru 2 milljarðar en eins og áður hefur komið fram er stór hluti af því væntanlega bráðabirgðagreiðsla upp í væntanlegan álagðan tekjuskatt eða önnur opinber gjöld. Ýmsir, mörg hundruð aðilar reyndar, hafa þegar skilað þessum skatti, gerðu það á síðasta ári sem eins konar fyrirframgreiðslu upp í endanlegan útreikning.

En ég endurtek það sem ég sagði áðan að við þurfum að afla okkur og meta þá reynslu sem af þessu er fengin áður en við förum út í einhverjar breytingar. Ég geri ráð fyrir að eitt og annað í sambandi við þennan nýja skatt þarfnist lagfæringar og það má vel vera að þetta sé eitt af því. Ef það kemur á daginn að þarna sé um að ræða óeðlilega langan gjaldfrest á þessum skatti, kannski sérstaklega gagnvart hinum stærri aðilum, bönkum og fjármálastofnunum, þá kemur til greina að breyta því. Ég vil ekki útiloka það. En ég vil heldur ekki fullyrða að svo verði gert á þessu stigi málsins.