Jöfnun flutningskostnaðar á sláturfé

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 14:14:57 (6178)

1998-05-04 14:14:57# 122. lþ. 116.18 fundur 684. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sláturfé# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 122. lþ.

[14:14]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Varðandi þennan mismun sem ég komst kannski illa yfir að gera grein fyrir í fyrra svari mínu og hv. þm. gerði að umtalsefni í síðari ræðu sinni, þá hafði ég gert grein fyrir því að mismunur er á milli reglugerðanna eftir því hvort sláturfé er flutt til húss sem hefur ESB- eða USA-leyfi. Sá mismunur felst þá fyrst og fremst í því að útflutningshúsin fá meira magn til slátrunar og geta stækkað sinn markað. Í raun er ekki um það að ræða að þau njóti sjálf flutningsstyrksins að neinu öðru leyti.

Hvort þessi mismunur milli sláturhúsa er réttlætanlegur má deila um en ég vil benda á að meðan meira er framleitt en innanlandsmarkaðurinn tekur við þá verðum við að flytja umframframleiðsluna út og finna leiðir til þess. Svo fá megi sem mest fyrir útflutninginn er best að selja hann annaðhvort á markaði Evrópusambandsins eða Bandaríkjanna. Það hefur kostað viðkomandi sláturhús mikla fjármuni í stofnkostnaði og breytingu á framleiðsluháttum. Því má á vissan hátt segja að útflutningshúsin séu að leggja á sig markaðsstarf sem ætti að nýtast öllum.

Svo ég fjalli aðeins um það hvort breytinga gæti orðið að vænta varðandi reglugerð nr. 422/1996, um jöfnun vegna útflutnings, þá svara ég því játandi. Eins og hv. þm. kom inn á í framsöguræðu sinni þá hefur verið lögð til breyting með frv. til breytinga á búvörulögunum, mál nr. 559. Þar er í 7. gr. frv. lagt til að felld verði niður innheimta gjaldsins sem staðið hefur undir flutningsstyrkjum samkvæmt þessari reglugerð. Verðjöfnun samkvæmt þessu ákvæði, í reglugerð nr. 422/1996, á flutningskostnaði sláturfjár vegna útflutnings mun því falla niður verði það frv. að lögum. Því er sjálfgefið að ætli menn að halda einhverjum slíkum flutningsjöfnuði við vegna útflutningshúsanna, þá þarf að taka málin til nýrrar endurskoðunar.