Framhald þingstarfa og þingfrestun

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 16:12:04 (6185)

1998-05-04 16:12:04# 122. lþ. 117.92 fundur 340#B framhald þingstarfa og þingfrestun# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 122. lþ.

[16:12]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í umræðunni en annað er óhjákvæmilegt þar sem fund forsn. í morgun bar á góma. Það er að sönnu rétt hjá sitjandi forseta að forsn. gat ekkert annað í ljósi þess verkefnalista og þess vilja sem stjórnarmeirihlutinn á þinginu hefur sett fram með ótvíræðum hætti annað en skapa þeim málefnum sem eru á málaskrá ríkisstjórnar og málaskránni almennt það rými sem nauðsynlegt er. Hitt er auðvitað deginum ljósara og er löng hefð fyrir því að stjórnarmeirihluti hverju sinni og ráðherrar sitjandi ríkisstjórnar reyni að haga verkum sínum þannig að þingið geti komið að verki með viðunandi hætti og hætt á skaplegum tíma í ljósi samþykktrar starfsáætlunar þingsins þannig að ábyrgðin liggur fyrst og síðast hjá stjórnarmeirihlutanum hér í þinginu. Eins og fram hefur komið eru 40 stór mál á dagskrá ríkisstjórnarinnar og hún ætlar augljóslega að þjösnast áfram með þau mál hvað sem tautar eða raular. Ég vek á því athygli hafi menn ekki gaumgæft það að í síðustu viku fór öll sú vika í umræðu um eitt og sama málið, þ.e. 2. umr. um sveitarstjórnarlög. Sú umræða er rétt um það bil hálfnuð þannig að með sama áframhaldi má ætla að mestur hluti þessarar viku fari síðan í að ljúka 2. umr. um málið. Það gefur auga leið að vindi þessu fram á þann veg sem gert hefur fram að þessu verðum við langt fram á sumar. Ég segi fyrir mína parta og tala vafalaust fyrir hönd margra stjórnarandstæðinga annarra að mér er ekkert að vanbúnaði að vinna fram eftir öllu sumri. Á hinn bóginn voru menn sammála um að sveitarstjórnarkosningar fengju það eðlilega andrými sem þeim ber. Þá er auðvitað spurningin þessi, ef ríkisstjórnin vill brjóta odd af oflæti sínu, að fresta einfaldlega þingi nú þegar og við hittumst aftur í júní. Ég hugsa að allir væru tilbúnir til þess en meginatriðið er auðvitað að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hér inni lýsi því yfir hvernig hann ætlar að forgangsraða málum, hverju hann vill ljúka og hverju ekki.