Framhald þingstarfa og þingfrestun

Mánudaginn 04. maí 1998, kl. 16:20:21 (6191)

1998-05-04 16:20:21# 122. lþ. 117.92 fundur 340#B framhald þingstarfa og þingfrestun# (aths. um störf þingsins), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur, 122. lþ.

[16:20]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Nú eru að hefjast hinar árlegu skylmingar milli stjórnar og stjórnarandstöðu um það hvernig ljúka eigi þinghaldi. Fyrir nýliða er mjög athyglisvert að fylgjast með því hvernig þetta gerist á hverju einasta vori. Mér finnst þetta ekki síst athyglisvert núna eftir að við höfum nýlega farið í gegnum umræðu um bankana. Þar höfum við hvatt til bættra vinnubragða og betri stjórnsýslu. Um leið sitjum við í því farinu hér á Alþingi að það er aldrei hægt að skipuleggja það hvenær þinghaldinu lýkur eins og mér skilst að gerist í flestum þingum hér í kringum okkur. Ég held að það sé tími til kominn að þingið reyni að koma sér niður á bætt vinnubrögð. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hefur komið fram hjá þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar, að á þingið er kominn sá blær að framkvæmdarvaldið stýri því hvenær þinghaldinu lýkur.

Auðvitað er í þessu samspil við þingsköpin og það vald sem stjórnarandstaðan óhjákvæmilega hefur með því að tefja mál, sem er hennar eina tæki. Ég tel að það sé virkilega orðið tímabært að bæta hér vinnubrögðin og að þessar árlegu skylmingar verði ekki alltaf með sama hætti. Það er ekki gott yfirbragð á þessu og mál til komið að þessu linni.