Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 11:47:35 (6206)

1998-05-05 11:47:35# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[11:47]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir er nú enginn venjulegur þingmaður. Hún stýrir þingflokki jafnaðarmanna og er þar formaður. Ég leyfi mér því að tala við hv. þm. sem foringja í þeirri hersveit sem hér hefur haft ýmis orð um sveitastjórnir á landsbyggðinni. Ég get farið í þær ræður sem fluttar hafa verið og rifjað upp þau ummæli sem höfð hafa verið um sveitarstjórnarmenn á landsbyggðinni. Þau eru því miður ekki fögur.

Hv. þm. sagði í ræðu sinni að hún vildi beita sér fyrir því að afstýra að landinu verði skipt á milli sveitarfélaga. Þetta er nú sveitarstjórnarhugsjón hv. þm.

Ég var að vekja athygli á því að þetta hefði átt sér stað árið 1972 með samstöðu við Alþfl. hvað þá aðra. Ég vil einnig vekja athygli á nokkru sem hér hefur komið fram í þessum umræðum varðandi virkjanir. Menn fara ekki í virkjanir á miðhálendinu nema með sérstökum lögum í gegnum Alþingi. Þó að eitthvert sveitarfélag vilji þar fara í rask og rót þá hefur það ekki frelsi til þess.

Ég vil leggja áherslu á að menn reyni að komast út úr þessu moldroki og ræði hér kjarna málsins. Ég treysti hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, sem ég veit að er ágætur fyrrv. sveitarstjórnarmaður og hlynnt sveitarstjórnum, að reyna ekki að gera þetta mál að pólitísku róti í þjóðfélaginu með því að egna saman landsbyggð og höfuðborgarbúum. Við eigum þetta land saman.

Ég vil spyrja hv. þm.: Hverjir eiga að koma að því að stjórna og skipuleggja Reykjanessfólksvang? Hverjir eiga að koma að því að skipuleggja Bláfjöllin? Ekki erum við að gera kröfu um það landsbyggðarmenn. Ekki gerum við kröfu um að koma hér að Reykjavík, þar sem mörg sameiginleg verkefni eru.

Ég vek athygli á því að sáttin er slík í þessu máli að um leið og við segjum: Þjóðin á miðhálendið saman og sveitarfélögin fara með málefnin, þá getum við náð sátt í málinu og einstaklingar úr öllum kjördæmum þessa lands gætu komið að því máli. Það er vilji þingsins en ekki það moldrok sem hér hefur verið.