Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 11:49:55 (6207)

1998-05-05 11:49:55# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, Frsm. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[11:49]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem formaður þingflokks jafnaðarmanna fullyrði ég hér að það er rangmæli að segja að ummæli félaga minna séu ófögur. Þeir hafa verið rökfastir í málflutningi fyrir sjónarmiðum sem við höfum borið fram.

Þingmaðurinn sagði að hér hefði verið afgreitt mál 1976 eða 1977 í samkomulagi. Ég vek athygli á því að ég var að enda við að fjalla um þær tillögur sem bornar voru fram alveg til 1978 af Alþfl., tillögur og frumvörp. Það er dálítið undarlegt ef þeir þingmenn sem sátu hér voru svo andvaralausir að þeir vissu ekki að þeir hefðu verið að skipa málum líkt og þingmaðurinn segir á sama tíma og þeir fluttu tillögur um land í þjóðareign og miðhálendið.

Virðulegi forseti. Ég vísa því til föðurhúsanna að við séum að skapa úlfúð á milli landsbyggðar og þéttbýlis. Við erum ekki að átelja landsbyggðina, síður en svo. Við erum að ræða það hvernig við viljum hafa stjórnsýsluna.

Og, virðulegi forseti, af því að ég þekki nokkuð vel til í huggulegum fólkvangi, sem auðvitað hefur allt aðra stöðu og er líkara því sem ég var að rekja hér áðan, þá hefur fyrir löngu verið horfið frá því að t.d. Kópavogur sé með einhverja aðstöðu á sérstöku svæði í Drottningargili eða einhver annar í einhverju öðru gili. Þeir hafa afgreitt það frá sér, stjórnina á þessu svæði. Á þeim árum sem ég var í bæjarstjórn Kópavogs komst sérstök stjórn yfir þetta svæði. Hún ræður algjörlega allri staðsetningu, hvað þar er gert, og hefur unnið að því sem einni heild, öfugt við það sem áður var. Og það er í fullkomnu samræmi við þá skoðun sem ég er að setja fram hér.