Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 11:58:29 (6211)

1998-05-05 11:58:29# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, Frsm. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[11:58]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi froseti. Mér finnst það nú fremur dapurt þegar við erum í alvarlegri umræðu um svona mál að þingmenn þurfi að bregða fyrir sig orðum eins og ,,lygar`` og ,,fáviska``, þó þeir séu ósammála þeim málflutningi annarra. Mér finnst það dapurt.

Af því að þingmaðurinn nefndi mörk, þá höfum við talað skýrt um að við göngum út frá sömu mörkum og samvinnunefnd um svæðisskipulag hefur dregið. Hitt er svo annað mál, af því að í þessari umræðu er svo oft talað um að það eigi eiginlega bara eftir að skipta jöklunum, mörkin séu komin upp undir jökla, þá leitaði ég ítrekað eftir því í félmn. að fá uppdrátt sem mundi sýna hvernig mörkin væru ef sveitarfélagamörkin væru dregin út og upp fyrir afréttirnar. Væri hægt að sjá hvernig það væri í dag? Það var engin leið að fá slíkan uppdrátt.

Þingmaðurinn gagnrýndi að talað væri um Þingvallafólkvanginn. Af því að ég drap á aðra þætti í lok máls míns þá hvarflar ekki að mér að halda því fram að það sé sambærilegt með Þingvallafólkvanginn og miðhálendi Íslands. Það sem ég sagði fyrr í ræðu minni, þegar ég talaði um Þingvallafólksvanginn, var að hugsunin um að ákveðið svæði væri þeirrar gerðar og svo dýrmætt í hugum fólks að ástæða væri til að taka það út fyrir mörk sveitarfélaganna og að sérstök stjórn réði öllu þar, meira að segja beitarþoli og öðru. (HG: Það er hluti sveitarfélaganna.)

Virðulegi forseti. Ég hef orðið hér. Það eru aðrir, það eru stjórnarliðar sem komið hafa og dregið stjórn á Bláfjallafólkvangi og Reykjanesfólkvangi inn í samanburði við hugmyndir okkar um miðhálendið. (HG: Í hvaða hreppi eru Þingvellir?) Það eru stjórnarliðar sem hafa dregið þessa þætti inn og viðbrögð við því.

Virðulegi forseti. Náist það sem óskað er eftir að þetta mál verði geymt í sumar, þá mun ekki standa á okkur jafnaðarmönnum með útfærslu á öllum þeim þáttum sem kallað er eftir.