Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 05. maí 1998, kl. 15:18:24 (6216)

1998-05-05 15:18:24# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[15:18]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Okkur greinir ekki mikið á um þessi mál að öðru leyti en því að ég tel vanta skýrar reglur um fundarsköp. Erfitt er að bera saman ýmislegt í fundargerðum sveitarfélaga af því að þær eru framkvæmdar á mjög mismunandi máta. Þess vegna hafði ég nokkur orð um að sennilega væri eðlilegt að fundargerðir eða fundir væru hljóðritaðir. Ég kem þessari hugmynd hér með á framfæri.

Ég hefði viljað heyra meira hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni varðandi kaflann um fjármál sveitarfélaga. Þar tel ég að sé of mikið rými fyrir sveitarfélög að geta gert ársreikninga sína upp á mismunandi vegu. Sveitarfélögin hafa heimildir til þess að færa hluta úr sveitarsjóðsskilunum yfir mismunandi fyrirtæki sem þau geta stofnað innan sveitarfélaganna, svo sem hitaveitur eða orkustofnanir. Þarna eru atriði sem varða mjög óljós skil á milli sveitarfélaganna ætli maður að skoða þetta í heild sinni og bera saman stöðu sveitarfélaganna á landinu. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hver umfjöllunin var í nefndinni. Ég hefði gjarnan viljað heyra örlítið um viðhorf þingmannsins varðandi þetta.