1998-05-06 01:22:02# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[25:22]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ekkert óeðlilegt við að halda kvöldfundi en venjan er sú að gera þingmönnum viðvart ef um næturfund verður að ræða. Það hefur ekki verið gert og venjan er nú sú að kvöldfundur standi ekki miklu lengur en til miðnættis. Eins og ég sagði áðan vil ég mælast til að menn séu sérstaklega látnir vita af því ef næturfundur er áformaður því að vaninn í þinginu er sá að ef um næturfund er að ræða hefjist ekki þingstörf fyrir hádegi daginn eftir. Ég vil líka biðja hæstv. sitjandi forseta að kanna þetta mál dálítið betur þar sem skilaboðin eru nokkuð misvísandi sem við þingmenn höfum fengið því aðalforseti þingsins hefur látið í ljós að svo kunni að vera að ekki verði haldið áfram eftir að næsti hv. þm. hefur lokið ræðu sinni og raunar látið það í ljós við hv. þm. sjálfan sem á að stíga næstur í ræðustól. Mér finnst þetta því vera orðin nokkuð misvísandi skilaboð sem við þingmenn fáum og óska eftir því við þann ágæta og vandaða þingmann sem situr nú í stóli forseta, þingmann með gullhjarta eins og margoft hefur komið fram, að hann sýni þingmönnum þá hjartagæsku að gefa þeim hreinan og afdráttarlausan úrskurð um þessi misvísandi skilaboð.