1998-05-06 01:24:17# 122. lþ. 118.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KH
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 122. lþ.

[25:24]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Nú er runninn nýr dagur, hinn sjötti í 2. umr. um það mál sem hér er á dagskrá, 288. mál þessa þings, og enda þótt ég sé á engan hátt að skorast undan því að tala nú þegar svo er orðið áliðið, hefði ég vitaskuld kosið að fá annan tíma til að ræða við hv. þm., hressa og vel vakandi og fleiri en enst hafa á þessum fundi. En úrskurði forseta hlíta hv. þm. auðvitað og því tek ég nú hér til máls eins og til stóð.

Umræðan um þetta mál, frv. til sveitarstjórnarlaga, hefur nú staðið alllengi. Ekki hef ég klukkustundafjöldann á hreinu. Sessunautur minn í þinginu, hv. 16. þm. Reykv., hefur setið mest alla umræðuna og mælt tímann í klukkustundum og mínútum af stakri samviskusemi og áhuga en hann hefur nú þrotið örendið og mun vera genginn til náða þannig að við fáum líklega frekari fréttir af því á næsta þingfundi hversu lengi umræðan hefur staðið en ef ég man rétt var komið vel yfir 20 klst. þegar hann síðast sat við mælingar og síðan hafa nú liðið nokkrar stundir enn þannig að væntanlega eru þær eitthvað í kringum 30 eða jafnvel meira núna. Ég hef heldur ekki nákvæman lista yfir þátttakendur í umræðunni en þeir eru orðnir margir og mér telst raunar til að það sé a.m.k. helmingur þingmanna, helmingur þingheims sem hér hefur tekið til máls um þetta frv. og sumir oft og mörgum sinnum, bæði í ræðum og andsvörum. Það var upplýst af hv. síðasta ræðumanni að hv. 16. þm. Reykv. hefði farið 20 sinnum upp í þennan ræðustól, svo það má vera til marks um að mönnum liggur mikið á hjarta.

Fróðlegt væri að slá á það máli þótt síðar verði hversu stórum hluta allrar þessarar löngu umræðu hefur verið varið til umfjöllunar um aðeins eitt atriði frv. Það er það afdrifaríka atriði hvernig stjórnsýslu skuli háttað á miðhálendi Íslands. Að sjálfsögðu hafa ýmsir hv. þm., og þá sérstaklega þeir sem eru vel kunnugir sveitarstjórnarmálum svo og þeir sem sitja í hv. félmn. þingsins, farið orðum um ýmsar greinar frv. og jafnvel allar lið fyrir lið, en engu að síður er það þetta atriði um stjórnsýsluna á miðhálendi Íslands sem hefur tekið langmesta tímann. Hvers vegna hefur atburðarásin verið á þessa leið? Hvað veldur því að umræðan hefur þróast á þennan veg? Hvað rekur helming þingheims upp í þennan ræðustól til að ræða efni þessa frv. eða reyndar nánast eingöngu einn þátt þess? Ástæðan er auðvitað ljós. Svarið er einfaldlega að hér er um að ræða eitt mikilvægasta mál sem varðar svo miklu alla framtíð í landinu, mál sem hefði í rauninni átt að bera undir alla þjóðina í allsherjaratkvæðagreiðslu eins og ég lýsti fyrr í umræðunni. Það er nefnilega svo að fulltrúalýðræðið hefur sína annmarka. Það er að mörgu leyti hentugt og dugir okkur vel en ekki að öllu leyti. Fólk kýs hina ýmsu flokka sem eru í boði eftir stefnu þeirra og oft reyndar eftir persónum og það er mjög þekkt að stuðningur kjósenda byggist á viðhorfi og trausti í garð ákveðinna einstaklinga.

[25:30]

En svo gerist það alltaf öðru hverju að upp koma mál sem kjörinn fulltrúi lítur öðrum augum og hefur aðra afstöðu til en margir kjósenda hans eru sáttir við. Það eru þá mál sem miklar meiningar eru um, mál sem fólk hefur ríkar skoðanir á og er alls ekki sama um hvernig æxlast. Þá getur verið sárt að hafa ekki möguleika til beinnar íhlutunar, sárt að finna ekkert mark tekið á ályktunum og áskorunum og jafnvel harðri baráttu og geta ekki haft áhrif. Í kosningum fulltrúa í sveitarstjórnir og á Alþingi eru menn að lýsa stuðningi við persónu og meginlínur í stefnu en ekki hvert einasta mál sem upp getur komið og sem fulltrúar þeirra þurfa að taka afstöðu til. Ekkert annað en beint lýðræði dugir til að tryggja mönnum möguleika til beinna áhrifa og atkvæðisrétturinn er ákaflega mikilvæg mannréttindi. Mörgum kjósendum er sárt að geta ekki sagt hug sinn í atkvæðagreiðslu um ýmis þau mál sem varða þá miklu.

Þess vegna segi ég enn og aftur að það er slæmt að við skulum ekki enn hafa mannað okkur upp í það að setja lög og reglur um þjóðaratkvæði, svo og um rétt almennings til almennrar atkvæðagreiðslu í einstökum sveitarfélögum um einstök mál. Ég minni á að Kvennalistinn hefur flutt á ferli sínum oftar en einu sinni tillögur um þjóðaratkvæði og frv. --- ég held að það hafi verið flutt þrívegis --- um rétt kosningabærra manna í sveitarfélögum til að fara fram á almenna atkvæðagreiðslu um einstök mál. Þá væri það að sjálfsögðu eftir ákveðnum reglum, það þyrfti ákveðinn hluta kosningarbærra manna í hverju sveitarfélagi til að fara fram á slíkt en við því yrði þá að verða. Það mál sem er til umræðu, þ.e. um framtíðarskipan miðhálendis Íslands, er einmitt slíkt mál sem ætti að greiða atkvæði um í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er skoðun mín og ég árétta hana enn einu sinni.

Öll umræðan, herra forseti, og umfjöllunin um þetta mál, bæði á hv. Alþingi og utan þess, er heilmikil og merkileg reynsla. Það er nú svo að ýmsar og margvíslegar tilfinningar bærast með manni og togast á í tengslum við þetta mál. Fyrst og fremst eru það áhyggjur og feginleiki sem togast á í huga mér, gífurlegar áhyggjur vegna þess að svo virðist sem meiri hluti hv. þm. sé því hlynntur að framlengja hreppamörk upp á miðhálendið, skera það sundur þvers og kruss og deila því milli aðliggjandi sveitarfélaga. En á hinn bóginn feginleiki og einlæg gleði yfir þeirri vakningu sem hefur risið, vakningu og mótmælaöldu sem hefur risið utan veggja þessa húss. Ég fagna þeirri vakningu sem er til marks um vaxandi skilning á þeirri auðlind sem þjóðin á og vill eiga á miðhálendi landsins.

Þeir eru auðvitað margir sem hafa þegar gert sér grein fyrir hinum ýmsu nýtingarmöguleikum á miðhálendi landsins. Þar er að finna stóran hluta þeirra afrétta sem hafa verið og eru enn nýttar til beitar, bæði sauðfjár og hrossa, en þó fyrst og fremst sauðfjár. Og þar eru upprunnir langstærstu draumar orkunýtingarmanna og þar hafa þeir fengið að athafna sig án mikillar fyrirstöðu hingað til. Þar eru hin stórkostlegu víðerni þessa lands, sumir tala reyndar um allt þetta land sem ósnortin víðerni. Það er auðvitað of langt gengið vegna þess hvernig gengið hefur verið á þetta svæði, ekki síst á síðustu áratugum. En þarna er þó að finna flest þau svæði sem hægt er að fella undir þá skilgreiningu.

Ég get upplýst það hér að ég var formaður nefndar sem skipuð var á vegum umhvrn. og í framhaldi af samþykkt Alþingis á tillögu okkar kvennalistakvenna á síðasta vori, nánar tiltekið 12. maí 1997, þar sem samþykkt var að nefnd yrði falið að skilgreina hugtakið ,,ósnortið víðerni``. Sú nefnd hefur skilað af sér og ásamt hæstv. umhvrh. kynnti ég niðurstöður þeirrar nefndar fyrir fjölmiðlum í dag. Mér þótti það ánægjulegt innlegg í umræðuna því að vaxandi skilningur er meðal þjóðarinnar á því hvaða auðlindir við eigum í ósnortnum víðernum landsins.

Mörg umhverfisslys hafa átt sér stað á miðhálendinu og ástæðan er auðvitað öngþveiti og stjórnun í skipulagsmálum þar en ekki síður meðvitundarleysi allt of margra og skilningsleysi á því hvað þarna er um að ræða. En heimur batnandi fer að þessu leyti og sú mikla umræða sem hefur átt sér stað núna þessa dagana er til marks um það. Og ég sagði það áðan að ég fagnaði þeirri vakningu og þeirri miklu umræðu sem fer nú fram, ekki aðeins innan þessara veggja heldur í æ ríkari mæli utan veggja þessa húss.

Ég tel við hæfi að koma inn í þingtíðindi einu sýnishorni af þeirri umræðu vegna þess að ég hef orðið þess vör að þau orð hafa snortið marga. Þessi orð flutti einn vinsælasti pistlahöfundur Ríkisútvarpsins, Illugi Jökulsson, í síðustu viku og mér finnst þau eiga erindi við hv. þingheim sem dæmi um það sem menn eru að hugsa og ræða utan þessara veggja.

Sá ágæti pistlahöfundur er dæmigerður fulltrúi þeirra sem byggja afstöðu sína á tilfinningum og engu öðru og sú afstaða á svo sannarlega fullan rétt á sér. Ég vitna til þessara orða með góðfúslegu leyfi pistlahöfundar sjálfs, Illuga Jökulssonar, en hann sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Maður þarf ekki að vera Kári Stefánsson til þess að vita að gen manneskjunnar breytast hægt. Enda þótt þróun mannsins hafi tekið ótrúlega skamman tíma á mælikvarða heimsins er samt um að ræða mörg hundruð þúsund ár, reyndar milljónir ára, sem maðurinn hefur verið að þróast frá hvurri annarri dýrategund og upp í það sem hann er nú. Og það er mikill misskilningur ef einhver skyldi nú halda að sú tæknibylting sem maðurinn hefur staðið fyrir nú allra síðustu aldir og helst á þessari öld hafi nú þegar breytt einhverju í eðli hans, þörfum og hvötum. Genin eru lífseig kvikindi og við erum enn nákvæmlega sama fólkið og byggði fyrstu borgina suður í Jeríkó fyrir átta þúsund árum eða hvenær sem það nú var. Í því felst m.a. að þótt við séum hópdýr sem kunnum flest best við okkur innan um okkar líka, þá viljum við samt ekki vera of innilokuð. Maðurinn var á sínum tíma helst til varnarlítil bráð fyrir alls konar vígtennt villidýr og það eimir enn í genum okkar eftir af þörfinni fyrir undankomuleið, fyrir víðáttu. Þrátt fyrir alla hjarðmennskuna sem býr í okkur þurfum við að geta séð í kringum okkur, út fyrir hópinn.

Þessi eðlislæga þörf mannsins fyrir víðáttu hefur að verulegu leyti verið sniðgengin í tæknibyltingunni. Við höfum hrúgað okkur allt of mikið saman, byggt of háa veggi í kringum okkur. Við höfum talið að sífellt hærri og þykkari múrar séu betri vörn gegn villidýrum sem eru okkur ekki lengur nein ógn heldur en undankomuleið víðáttunnar og opinnar náttúru. Það má halda því fram og jafnvel leiða að því einhver rök að ýmist séu óskemmtilegri vandamál sem maðurinn á við að stríða í eigin sál þessi missiri veraldarsögunnar, lítt skiljanleg og þrálát vanlíðan þrátt fyrir æ auðveldari lifnaðarhætti, enn óskiljanlegri grimmd, ofsi og græðgi þrátt fyrir að í rauninni sé varla lengur um neinar frumþarfir að berjast nema í vanþróuðum löndum --- það má sem sagt halda því fram að misbrestirnir í sál mannsins stafi af togstreitu, nánast geðklofa, djúpt í eðli hans, milli hinna eðlislægu þarfa mannsins fyrir víðáttu annars vegar og hins vegar þeirrar tilhneigingar hans, sem orðið hefur ofan á í reynd, að hrúga sér saman á litlu svæði, umbylta og breyta umhverfinu eftir eigin duttlungum og reisa um sig múra svo að brátt er hvergi ósnortinn sjóndeildarhringur.

Og það sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Ef við hugsum fram í tímann, og þá meina ég ekki 10 ár, ekki 20 og ekki 50, heldur 200 ár, 300 ár, 1000 ár, þá verður ekki betur séð en maðurinn verði orðinn enn þá innilokaðri en nú er, fastur í sinni eigin tækni, búinn að umbylta öllu í kringum sig og breyta stærstum hluta heimsins í sína eigin mauraþúfu. Þá mun hver einstaklingur hafa harla fátt við að stríða í hversdagslegum vandamálum en gen hans verða söm við sig. Hann verður enn þá í eðli sínu varnarlitla veiðidýrið sem þarf sífellt að halda vöku sinni og sjá í kringum sig. Og þá og þá fyrst, munum við sjá hve dýrmæt verða ósnortin eða a.m.k. lítt snortin svæði eins og hálendi Íslands þar sem sjóndeildarhringurinn er ekki gerður af manna höndum.

Ef tekst að varðveita hálendi Íslands mun það verða okkar stærsta og mesta auðlind í framtíðinni og þá er ég sem sagt að tala um næstu þúsund ár og þegar ég segi auðlind á ég ekki við gróðalind. Ég á ekki við að við getum lifað eins og blómi í eggi hér niðri á láglendinu, á höfuðborgarsvæðinu, og grætt á tá og fingri á að selja einhverjum útlenskum bjánum aðgang að óbrúuðum ám og hrikalegum fjöllum þótt nú þegar séu innibyrgðir Evrópubúar og Ameríkumenn og Japanar tilbúnir að borga stórfé fyrir að sleppa stundakorn úr stórborgum sínum og tilbúna umhverfi. Nei, ég er ekki að tala um gróðann sem við getum haft af hálendinu heldur er ég hreint og beint að tala um okkur sjálf, um geðheilbrigði íslensku þjóðarinnar sem mun velta á því eftir þúsund ár að við getum komist út undir bert loft, sloppið undan múrum okkar sjálfra og eygt undankomuleið þótt við höfum svo sem ekkert að flýja.

En skipulagsþrá mannsins er líka sterk. Sú hvöt að rotta sig saman og byggja eitthvað til að fela sig inni í, sú þrá sem varð til þess að hinir fyrstu múrar voru reistir í Jeríkó og hefur allar götur síðan togast á við þörfina fyrir víðáttuna. Nú hefur skipulagsþrá mannsins teygt sig inn á hálendi Íslands og þar er stórkostleg hætta á ferðum ef skipulagt verður um of, ef reistar verða virkjanir, vegir, hús og brýr, háspennulínur og hótel --- sem sé einir múrarnir enn. Eftir þúsund ár verða ósnortin eða lítt snortin svæði ansi fá eftir í veröldinni, og núna stendur okkur til boða að varðveita eitt slíkt svæði sem getur ekki einungis orðið börnunum okkar tekjulind í ferðamennsku heldur getur líka og miklu frekar orðið barnabarnabarnabarnabarnabörnum okkar undankomuleið í ofskipulögðum heimi.

Ef ég fengi að ráða yrði nákvæmlega ekkert byggt inni á hálendinu og ekkert skipulag, engar virkjanir reistar umfram það sem nú þegar er orðið og umfram allt yrði ekki stofnuð nefnd þröngsýnna hagsmunaaðila til að vinna að skipulagi hálendisins, eins og stendur til, og alveg sérstaklega yrði það skipulag ekki fengið í hendur nokkurra hreppsnefnda, sem alveg óhjákvæmilega munu freistast til að græða pínulítið á sínum skika hálendisins. Reisum eitt hótel hér, hvað gerir það til? Og ef við setjum niður litla virkjun þarna þá græðum við pening og er nokkur skaði skeður? Og þarna þyrfti nú að koma vegarspotti og það er nú synd að það sé ekki brú yfir þessa sprænu o.s.frv., o.s.frv.

[25:45]

Það gildir einu hversu snoturt er hjartalag þeirra hreppsnefndarmanna --- það kemur alltaf að því fyrr eða síðar að þeir sjá ekkert athugavert við að taka eins og einn hektara undir skipulagt svæði, svo kannski annan og enn einn, og eftir þessi þúsund ár verður sjóndeildarhringurinn á hálendinu orðinn jafnþrautskipulagður og allt annað umhverfi mannsins í heiminum. Þessa auðlind sem hálendið er, þessa undankomuleið fyrir sjálft geðheilbrigði okkar Íslendinga má aldrei og undir engum kringumstæðum setja undir vald manna sem geta freistast til að hafa af henni skammvinnan gróða.

Mikið væri nú gaman ef það kæmi í ljós að víðernið á Íslandi gerði mönnum kleift að hugsa stórt og langt fram í tímann, þúsund ár eða jafnvel tíu þúsund ár og að menn gætu þá hugsað hlýlega til allra Íslendinga sem sáu út fyrir múrana og áttuðu sig á þörf sálarinnar fyrir ósnortinn sjóndeildarhring og víðernið í sjálfu sér.``

Herra forseti. Hér ætla ég að láta staðar numið. Pistillinn er lengri en meginhugsunin er komin til skila. Í þessum orðum endurspeglast afar greinilega sú hugsun sem rekur marga til andófs gegn þeim áformum að skipta miðhálendi landsins í ótal renninga og ætla öllum þessum aðliggjandi sveitarfélögum með mismunandi hagsmuni og væntanlega margs konar stefnu í vernd og nýtingu að skipuleggja hvert sitt svæði og ráða yfir því. Sú skipan stríðir gegn þeirri hugsun að hér sé um að ræða eina heild sem á að vera sameign allrar þjóðarinnar. Í orðum Illuga Jökulssonar sem ég las hér áðan er áherslan fyrst og fremst á þá frumþörf mannsins að eiga sér andrúm í víðáttum náttúrunnar. En auðlindin sem við eigum þarna, auðlindin sem liggur þarna og bíður örlaga sinna sem við ráðum svo miklu um er okkur gullnáma í svo mörgu tilliti. Hún er fyrst og fremst lykillinn að þeirri ímynd sem við viljum að land okkar hafi. Hún er fyrst og fremst lykillinn að þeirri ímynd sem er undirstaða hagsældar, nú og umfram allt í framtíð lands og þjóðar í bráð og lengd. Það er í þeirri ímynd sem veigamestu möguleikar okkar liggja í atvinnulegu tilliti. Út á þessa ímynd gerum við, seljum vöru okkar og þjónustu og það er út á þessa ímynd sem erlendir ferðamenn koma hingað, fyrst og fremst. Ekki endilega til að ferðast um þetta svæði, um miðhálendið, heldur til að ferðast um þetta land sem á slíkar víðáttur, sem á öll þessi lítt snortnu víðerni, þetta land sem er svo allt öðruvísi en öll önnur lönd. Þess vegna, herra forseti, er svo mikilvægt að varðveita þá heildarmynd sem þjóðin hefur af þessu svæði. Sú heildarmynd eyðileggst gjörsamlega ef því verður skipt niður í reiti og ræmur og deilt milli aðliggjandi sveitarfélaga.

Ég gef lítið fyrir þann rökstuðning sem heyrst hefur frá þeim hv. þm. sem áður börðust gegn slíkri skiptingu en hafa nú snúið við blaðinu að hér sé aðeins verið að staðfesta gildandi fyrirkomulag, þ.e. að forsjá afrétta hafi verið falin aðliggjandi sveitarfélögum þegar fyrir meira en tveimur áratugum. Það er út af fyrir sig rétt að tekið er á vissan hátt á því máli í 3. gr. og má nú undarlegt heita ef hv. stjórnarþingmenn í félmn. sem áður lögðust hart gegn reitaskiptingu skuli fyrst núna eins og lítur út fyrir, hafa áttað sig á þessari skipan mála, að upprekstrarréttur hafi verið talinn veita sveitarfélögum ákveðið forræði. Mér er satt að segja óskiljanlegt hvers vegna það hefur ekki legið skýrt fyrir öllum í hv. félmn. eins og virðist af athugasemdum í nefndaráliti meiri hlutans.

Þó er það kannski ekki að undra því sannleikurinn er auðvitað sá að frágangur þeirra mála hefur alls ekki verið með skýrum hætti og boðið upp á eilíft skæklatog og ágreining og auðvitað nauðsynlegt að taka á því. Það er líka spurning hversu meðvitundarlausir hv. þm. hafa verið. Því miður munu þeir nú sofa værum blundi heima hjá sér þegar svo er orðið áliðið, þannig að ég get ekki talað við þá beint en þegar litið er til þess sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, 4. þm. Reykn. sagði við 1. umr. virðist sem hún hafi fyllilega gert sér grein fyrir stöðu málsins og þó var ekki lítil áhersla í hennar máli þar sem hún andmælti því einarðlega að þessu svæði yrði skipt á milli aðliggjandi sveitarfélaga. Hún hafði um það mörg orð, margendurtók það bæði í sinni aðalræðu og í mjög mörgum andsvörum sem hún varð að fara í því margir vildu spyrja hana út í afstöðu hennar og þarf ekki að undra það þegar stjórnarþingmaður tekur svo ákveðna afstöðu gegn stjfrv. og það frv. frá ráðherra í sínum eigin flokki. Hún sagði m.a. sem er mjög athyglisvert, með leyfi forseta:

,,Hins vegar finnst mér að umræðan gangi of mikið út á tæknileg atriði eins og mörk, heimalandamörk, hvar liggja afréttir, hvar liggur þetta, hvar liggur hitt? Ég held að við ættum að reyna að hugsa þetta svolítið á öðrum grundvelli. Við eigum að láta skynsemina ráða. Við eigum að taka meginhluta miðhálendisins undir eina heild en binda okkur ekki svona fast í fortíðina. Við þurfum að horfa fram á veginn í þessu en ekki til baka.

Menn hafa líka notað það talsvert í umræðunni að afréttirnar séu undir sveitarfélögum og það stendur eitthvað á þá leið í frv. Þar er verið að vísa í 3. mgr. 3. gr. laga um sveitarfélögin, að áður fyrr hafi hvort eð er nánast öllu miðhálendinu verið skipt á milli sveitarfélaganna, þ.e. staðarmörkum. Maður spyr sjálfan sig: Hvaða réttlæti er í því þó að einhver búfénaður hafi verið settur á beit á ákveðnum svæðum? Er þar með sagt að það sé eðlilegt að skipulags- og byggingarmál á viðkomandi svæði tilheyri sveitarfélaginu þaðan sem búfénaðurinn kom? Ég sé ekki skynsemi í því.``

Og seinna í þessari ræðu, með leyfi hæstv. forseta, minnir hv. 4. þm. Reykn. á ályktun kjördæmisþings framsóknarmanna í Reykjanesi sem henni fannst að sjálfsögðu mjög eðlilegt og kjörið að vekja athygli á en sú ályktun hljóðaði svo: ,,Kjördæmisþing framsóknarmanna á Reykjanesi hafnar því að skipta stjórnsýslu, þar á meðal skipulags- og byggingarmálum miðhálendisins milli 40 sveitarfélaga. Miðhálendið er ein heild þar sem m.a. jöklar, hraun og sandar mynda landslagsheildir. Skynsamlegast er að miðhálendið verði eitt stjórnsýslusvæði.``

Það var að sjálfsögðu verðugt að vekja athygli á þessu sem hv. þm. gerði með heiðri og sóma og virtist vera fullkomlega sammála þessari ályktun og hefur væntanlega átt þátt í þeirri ályktun sjálf. Auk þess virðist hún af þessari ræðu í 1. umr. um málið hafa gert sér fyllilega grein fyrir því sem stendur í núgildandi lögum um forræði sveitarfélaga yfir afréttunum en svo talar hún síðar, hv. þm. eins og það hafi runnið upp fyrir henni eftir m.a.s. að hún hafði látið koma fram fyrirvara í nefndaráliti frá meiri hluta hv. félmn. Ég botna ekkert í þessum hringlanda. Ég botna ekkert í svona málflutningi því þetta er margendurtekið í ræðu hv. 4. þm. Reykn. við 1. umr. um málið og í ótal andsvörum sem hún veitti og í niðurlagi ræðu hennar kemur fram að í heild lítist henni ágætlega á frv. en svo segir hún, með leyfi forseta:

,,... ég get ekki stutt hugmyndina sem felst í 1. gr., þ.e. að skipta öllu landinu alveg inn í innsta punkt á milli sveitarfélaga. Það er ekki rétt framtíðarsýn í því. Ef við horfum 100 ár fram í tímann og setjum okkur í spor framtíðarmannsins er ég alveg sannfærð um það að augu manna opnast frekar fyrir því að það væri rétt að hafa þetta sem eina heild. Ég hef stutt mína menn í gegnum súrt og sætt hér í þinginu og við höfum gert afar marga og góða og jákvæða hluti. Hins vegar tel ég að 1. gr. sé ekki rétt skref og ég get því miður ekki fellt mig við þá sýn og þá hugmyndafræði sem í henni felst.``

Þannig lauk hv. 4. þm. Reykn. ræðu sinni en skyndilega hefur hún fengið einhverja hugljómun sem ég botna ekkert í og hefur skipt gjörsamlega um skoðun á því að það sé allt í lagi að skipta þessu mikilvæga, verðmæta svæði upp í --- ég treysti mér varla til að nefna töluna. Menn tala ýmist um 40, 42 eða ég veit ekki hversu marga renninga. Hún segir 40 í ræðu sinni en í nefndarálitinu hafa hv. stjórnarþingmenn, 4. þm. Reykn. og 16. þm. Reykv., fyrirvara um þetta atriði og lýsa þeim fyrirvara sem þau virðast síðan vera fallin frá. Svo er það nú.

En eins og ég sagði er ekki að undra þótt menn hafi litið svo á að þrátt fyrir þetta ákvæði í 3. gr. sveitarstjórnarlaganna um forræði afréttanna væri reyndin önnur og öll þau mál meira og minna í uppnámi og reiðileysi enda er það auðvitað svo að fæstir afréttir eru þannig settir að þeir viti aðeins að einu sveitarfélagi. Þetta ákvæði hefur boðið upp á ágreining, átök og dómsmál en markmiðið með þessu ákvæði hefur væntanlega verið að bregðast við þörf fyrir nauðsynlegt eftirlit, sjálfsagt fyrst og fremst með tilliti til stóraukinnar umferðar um þessi svæði. Ég hygg reyndar að það hafi verið nauðsynlegt og hafi komið að notum í einstöku tilvikum án þess að ég hafi um það ítarlegar upplýsingar en reyndar einnig valdið miklum deilum. Enda er ekki mögulegt að fá kortlagningu á því hvernig afréttir landsins skiptust á milli sveitarfélaga skv. þessari 3. gr. sveitarstjórnarlaganna. Ég hef spurt eftir því og hef upplýsingar um það frá hv. félmn. að þar hafi ekki fengist nein kort eða lýsingar á því hvernig þessum mörkum hafi verið háttað. Slík kortlagning er einfaldlega ekki til svo það er von að menn hafi ekki tekið það mjög alvarlega að hluta af hálendinu hafi þegar verið skipað undir aðliggjandi sveitarfélög.

En jafnvel þótt menn kynnu að fallast á þann skilning að þessi makalausa reitaskipting væri þegar orðin staðreynd að hluta að undanskildum einhverjum ræmum og snjósköflum ef marka má málflutning hv. 4. þm. Reykn. og ég átta mig ekki á hvaða ræmu hv. þm. er að tala um. Er verið að tala um Sprengisand og Ódáðahraun eða hvaða svæði eru þetta sem eru undanskilin? Ódáðahraun er stærsta hraun landsins og þótt miklu víðar væri leitað svo það er nú ekki lítill skiki af þessu svæði. Ekki bítur þingeyskt sauðfé mikið á Sprengisandi, sem er algjör eyðimörk á stórum kafla.

[26:00]

En jafnvel þótt það væri arfur úr fortíðinni þá gildir um þetta eins og svo margt sem varðar umhverfismál að viðhorfin eru að breytast og þróast hér sem annars staðar í heiminum svo mjög að við hljótum að taka tillit til þess og haga okkur í samræmi við það. Við eigum ekki að vera svo rígbundin af fyrri afstöðu, gömlum reglum og lagasetningu síns tíma að við séu ekki tilbúin til að breyta þeim og bæta ef á þarf að halda. Við þurfum að horfa fram á veginn í þessu en ekki til baka, eins og hv. 4. þm. Reykn., Siv Friðleifsdóttir sagði í ræðu sinni við 1. umr. um þetta mál.

Ég sé því ekki að það geti verið rök fyrir kúvendingu í grundvallarafstöðu þó það renni upp fyrir mönnum að áður hafi verið reynt að taka á þessum málum og þá fyrst og fremst með beitarnýtingu í huga og þjónustu við þetta svæði vegna aukinnar umferðar.

Ég vil ítreka það sem ég hef sagt oft áður að ef önnur yrði skipan mála þar sem miðhálendið væri ein stjórnunarleg og skipulagsleg heild, þá þarf það ekki að breyta neinu um hefðbundnar nytjar. Það þarf ekki að hafa áhrif á nytjar sem eiga sögu langt aftur í aldir, að því tilskildu vitanlega að slíkt sé í anda sjálfbærrar þróunar. Það er auðvitað sjálfsagt mál.

Talsmenn reitaskiptingar hafa lagt töluverða áherslu á það sem þeir telja vantraust á þá sem byggja þau sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu og að það sé meginástæðan fyrir andstöðunni gegn því fyrirkomulagi. Það er ómaklegt að halda slíku fram. Það er ekki meginástæðan í mínum huga og hefur aldrei verið og því hef ég margsinnis lýst í umræðum hér og annars staðar.

Ég gat nú ekki annað en brosað þegar hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Örn Haraldsson, vakti sérstaka athygli á þeim mikla órétti sem íbúar í Hraungerðishreppi, og þar með hv. 2. þm. Suðurl., Guðni Ágústsson, yrðu beittir ef frv. hæstv. umhvrh. um breytingu á skipulags- og byggingarlögum yrði að lögum vegna þess hvernig þar er lagt til að ný samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins verði skipuð. Og þá var eins og blessuð skepnan skildi, eins og segir í frægu ljóði. Þá brá ýmsum í brún, bæði hv. 2. þm. Suðurl. og fleirum. Og ég held ég muni það rétt að á þessum sama þingfundi sem var einhvern tíma í síðustu viku, hafi hæstv. félmrh. óðara brugðið við og tekið undir það að auðvitað þyrfti að breyta þessu frv. með tilliti til þessa. Af einhverjum ástæðum finnst þessum ágætu hv. þm. og hæstv. ráðherra óviðunandi réttleysi að íbúar Hraungerðishrepps eigi ekki beinan hlut að samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands þótt þeir hafi ekki haft minnstu áhyggjur af réttleysi meginþorra þjóðarinnar sem fyrst og fremst býr á suðvesturhorni landsins, þ.e. í Reykjavík og Reykjanesi. Það er óneitanlega merkilegt. Það er sem sagt ekki fyrr en komið er við eigin kaun sem menn skilja alvöru málsins.

Mér finnst eins og ég hafi einhvern tíma heyrt talað um yfirlæti og lítilsvirðingu þéttbýlisbúa í garð dreifbýlismanna. En hvað sýna þá þessi viðbrögð okkur? Og svari nú hver fyrir sig. Sjálf vil ég af fremsta megni forðast að setja þetta upp sem togstreitu milli dreifbýlis og þéttbýlis og þykist sæmilega fær um að skilja sjónarmið hvorra tveggja. Ég er fædd og uppalin í norðlensku dreifbýli og búsett í sunnlensku þéttbýli.

Það sem hér er um að ræða er utan og ofan við þess konar reiptog og hvernig sem þessu máli er velt fram og til baka verður niðurstaðan alltaf sú sama: Miðhálendið er algjörlega sérstakt landsvæði sem á að vera ein heild og lúta einni stjórn. Þess vegna getum við ekki samþykkt það fyrirkomulag sem felst í frv., þ.e. að þessu svæði verði skipt milli aðliggjandi sveitarfélaga.

Málamiðlunarfrv. hæstv. umhvrh. sem meiri hluti Alþingis hafnaði raunar að taka til meðferðar á þessu þingi og er að sjálfsögðu ekki á dagskrá, bætir ekkert úr skák heldur staðfestir í raun fáránlegt og skaðvænlegt skæklatog einstakra sveitarfélaga eða landsvæða um þessa auðlind sem er og á að vera sameign okkar allra.

Herra forseti. Þar sem orðið er mjög áliðið og ég þykist skynja að hv. þm. séu orðnir þreyttir og sennilega fáir í þinghúsinu þá mun ég senn ljúka máli mínu. En umfjöllun um þetta mál er ekki lokið og afgreiðsla þess er ekki tímabær. Okkur ber að hlusta á þær fjölmörgu raddir sem knýja á um aukið ráðrúm til umfjöllunar um þetta stóra og mikilvæga hagsmunamál. Ákall þeirra er eitt og hið sama: Frestið afgreiðslu þessa frv. og gefið þjóðinni meira tóm til að fjalla um það.

Ég þarf ekkert að tefja tímann með því að minna á þá sem hér hafa ályktað á þessa leið. Ég hygg að búið sé að vitna til flestra þessara ályktana og áskorana á þingheim. Ég hef þó ekki orðið vör við að nefnd hafi verið ályktun aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Íslands sem var haldinn 29. apríl. Þetta er stutt ályktun sem ég ætla að leyfa mér að lesa. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ályktun aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Íslands um verndun og skipulag miðhálendisins.

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands, haldinn þann 29. apríl, varar eindregið við skammsýnni og flausturslegri meðferð Alþingis á málefnum miðhálendisins, dýrmætustu náttúrugersemi þjóðarinnar.

Frumvörpin þrjú, sveitarstjórnarfrumvarpið, þjóðlendufrumvarpið og frumvarp um eignarhald og nýtingu auðlinda í jörðu munu hafa víðtækari áhrif á aðgengi og afnot almennings af miðhálendinu en áður hafa þekkst.

Náttúruverndarsamtök Íslands skora á Alþingi að fresta afgreiðslu þessara frumvarpa og gefa þjóðinni tóm til að kynna sér þau betur.

Náttúruverndarsamtök Íslands árétta þá stefnu samtakanna að gera miðhálendi Íslands allt að einum þjóðgarði og að það verði ein skipulagsheild, sem lúti einni stjórn, kjörin af Alþingi, sveitarfélögum og hagsmunasamtökum almennings.``

Þetta er svipað og heyrst hefur frá mörgum öðrum sem ályktað hafa um þetta mál og ég vil mótmæla því sem hefur heyrst í hornum og hliðarherbergjum, að þeir hópar sem hafi haft hæst og talað mest um þessi mál og mótmælt harðast, séu aðallega skipaðir jeppamönnum og þeim sem gera út á hálendið í gróðaskyni, þ.e. menn sem vilji fá að fara sínu fram á miðhálendinu og taki jafnvel ekki rétt tillit til náttúruverndar. Það er rangt. Það er alveg nóg að vitna til auglýsingar sem birtist þriðjudaginn 21. apríl í Morgunblaðinu og áður hefur verið vitnað til. Þar er fjöldi manna og engan veginn hægt að álykta sem svo að þeir geri út á hálendið í gróðaskyni. Þar eru listamenn, rithöfundar, tónskáld, leikarar og myndlistarmenn. Þar eru kennarar og prófessorar. Þar eru blaðamenn, sjómenn. Þar er útvarpsstjóri og fjöldi annarra sem á engan hátt tengjast neinum atvinnurekstri á miðhálendinu. Ekki getur maður heldur séð þá fyrir sér í spólandi jeppum á viðkvæmum gróðri.

Herra forseti. Ég vil aðeins segja að við eigum að hlusta á þessar raddir og fara eftir þeim.