Frumvarp til laga um náttúruvernd

Miðvikudaginn 06. maí 1998, kl. 10:35:44 (6242)

1998-05-06 10:35:44# 122. lþ. 119.94 fundur 350#B frumvarp til laga um náttúruvernd# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 122. lþ.

[10:35]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Fyrir þessu þingi liggur frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 93/1996 og hefur það reyndar verið flutt á nokkrum undanförnum þingum. Þetta mun vera í þriðja sinn a.m.k. að mál þetta hefur verið lagt fram og varðar landslagsvernd og ákvæði náttúruverndarlaga um efnistöku.

Mál hefur fengið góðar undirtektir frá mjög mörgum og verið talið brýnt að breyta löggjöf um náttúruvernd á þessum sviðum. Það er ljóst að mörg atriði sem varða náttúruverndarlöggjöfina voru skilin eftir þegar lög um náttúruvernd voru síðast endurskoðuð í lok þings 1996 og minnast þess kannski sumir að hér fór fram lokafundur eða einn síðasti fundur þingsins á þeim tíma --- ég veit að aðalforseti þingsins man eflaust eftir því --- sem varðaði einmitt lögfestingu á lögum um náttúruvernd.

Eitt af þeim atriðum sem þar bíða endurskoðunar, allt frá 1971, er almannarétturinn sem tengist því máli sem hér er mest rætt þessa dagana.

Ég tek þetta mál upp, virðulegur forseti, vegna þess að það er mjög illt að svona mál fái ekki framgang með vísan til þess að verið sé að endurskoða lögin í heild á vegum hæstv. umhvrh. En það bólar ekkert á þeirri endurskoðun sem hæstv. ráðherra sagði í umræðu vorið 1996 að hann mundi beita sér fast og ákveðið fyrir að fengi framgang eftir þá takmörkuðu endurskoðun sem þá var verið að ljúka við á lögum um náttúruvernd, á mörgum tvísýnum ákvæðum.

Sama gegnir um annað mál sem er breyting á lögum um landgræðslu, virðulegur forseti, og liggur fyrir þinginu, nákvæmlega sömu yfirlýsingar koma frá hæstv. landbrh. um það mál. Ekkert bólar á afurðum inn í þingið og málin sem varða þennan málaflokk fá ekki afgreiðslu í þingnefndum.