Frumvarp til laga um náttúruvernd

Miðvikudaginn 06. maí 1998, kl. 10:38:39 (6243)

1998-05-06 10:38:39# 122. lþ. 119.94 fundur 350#B frumvarp til laga um náttúruvernd# (aths. um störf þingsins), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 122. lþ.

[10:38]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sem fjallar um þessi mál sérstaklega, höfum áður tekið umræðu um þessi mál, þ.e. hvernig standa beri að endurskoðun á ákveðnum þáttum á lögum um náttúruvernd í hv. þingi. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni í þessum ræðustól og endurtek það einu sinni enn út af þessum athugasemdum hv. þm. að það er verið að endurskoða lögin um náttúruvernd og það er heildarendurskoðun. Það er vissulega rétt sem hv. þm. bendir á að þetta kom til umræðu 1996 þegar við vorum að endurskoða lögin þá. En sú endurskoðun beindist fyrst og fremst að stjórnskipunarþættinum eða breytingu á starfsemi Náttúruverndarráðs og stofnun sérstakrar stjórnsýslustofnunar um málaflokkinn, Náttúruvernd ríkisins, og voru litlar aðrar breytingar gerðar á lögunum, m.a. vegna tilvísunar og umsagnar minnar um það að heildarendurskoðun væri að fara í gang.

Sú vinna er í gangi og ég hef lýst því yfir áður og geri það enn að ég vonast til þess að nýtt frv. geti komið inn á næsta þingi, vonandi á haustþinginu þó að ég eigi ekki von á því að það verði afgreitt á haustþingi. Ég er algjörlega sammála hv. þm. um að það þarf að taka á þessum efnistökumálum sem hann nefndi sérstaklega í þeirri endurskoðun og varðandi málefni náttúruverndar almennt.

Sama er um almannaréttinn. Það er einmitt eitt af þeim stóru málum sem eru í vinnslu hjá nefndinni sem endurskoðar lög um náttúruvernd. Þar hefur sérstaklega verið rætt um að það þurfi að taka á þeim þætti og það er sjálfsagt fróðlegt að nefna það í tengslum við þá miklu umræðu sem hér hefur staðið dögum saman um sveitarstjórnarmál og tengsl þess málaflokks við skipulagsmál, almannarétt og umgengni almennings við hálendið sérstaklega. En ég minni aftur, hæstv. forseti, á það viðhorf mitt að rétt sé að þessi mál fylgist að í heildarendurskoðuninni.