Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 06. maí 1998, kl. 12:24:21 (6249)

1998-05-06 12:24:21# 122. lþ. 119.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 122. lþ.

[12:24]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst ítreka að ég hef í allri þessari umræðu lagt á það áherslu að ég hef ekki fallist á að neinn réttur sé tekinn af sveitarfélögunum sem stjórnsýsluvaldi. Hv. þm. spurði einhvers staðar í ræðu sinni áðan eitthvað í þá veru hvort skörun milli svæðisskipulags og aðalskipulags og síðan hugsanlega deiliskipulags gæti orðið alvarleg vegna þess að skörun væri milli nefndarinnar og síðan sveitarstjórnanna. Sveitarstjórnirnar hafa þetta vald alveg ótvírætt og þess vegna hef ég verið fylgjandi því að sú skipting ætti sér stað og færi fram nú, að við skiptum landinu formlega upp milli sveitarfélaga til þess að það væri ljóst hver færi með stjórnsýsluvaldið. Það hefur verið skýrt í mínum huga og ég hef ekki verið til viðtals um annað.

Ég hef hins vegar álitið að samvinnunefnd sem starfaði um ákveðin málefni sem væri samstarfsnefnd þeirra aðila sem að þessu koma, þó á þann lögskipaða hátt sem var og er í lögunum frá 1993 um svæðisnefndina sem nú starfar, geti þess vegna gengið með góðu samkomulagi og án alvarlegra teljandi árekstra, í það minnsta við sveitarfélögin. Ég held að áreksturinn hafi nefnilega alls ekki verið við þau. Hafi verið árekstrar, eins og hv. þm. gerði ítarlega grein fyrir í ræðu sinni áðan þegar hann fór yfir allar þær athugasemdir sem svæðisnefndinni höfðu borist, þá voru árekstrarnir við allt aðra en sveitarstjórnirnar sem menn hafa þó í þessari umræðu allri óttast mest, þ.e. að þar væri átakapunkturinn. Að einhver yfirvofandi ótrúleg barátta væri við og á milli sveitarfélaganna. Ég tel því ekki nauðsynlegt að lögskipa þetta öðruvísi en gert er í frv. vegna þess að reynsla hefur fengist af því í hinum margumræddu fyrrgreindu lögum.

Varðandi það að bíða með að skipta landinu upp í sveitarfélög þar til að svæðisskipulaginu verði lokið, þá tel ég að rétt hafi verið að vinna það samhliða og þess vegna beitti ég mér fyrir því að sú sérstaka nefnd sem vann að því að skýra stjórnsýslumörk milli sveitarfélaga ynni samhliða svæðisskipulagsnefndinni. Mín afstaða liggur því í raun fyrir varðandi það mál.

Og allra seinast af því að hv. þm. spurði líka um hagsmunaárekstra milli náttúruverndar og virkjunarframkvæmda þá er það eitthvað sem við höfum verið að takast á við og eigum eftir að takast á við lengi enn. Það er ekki bundið þessari svæðisskipulagsvinnu sérstaklega. Þó er mjög mikilvægt að fá áherslurnar þar fram sem ég vona að við fáum þegar líður að lokum þessa árs.