Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 06. maí 1998, kl. 12:27:09 (6250)

1998-05-06 12:27:09# 122. lþ. 119.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 122. lþ.

[12:27]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það er því miður ekki kostur á því í andsvaratíma að ræða sum af þessum málum sem hér eru uppi vegna þess að þau eru flókin. Ég ætla bara aðeins að ítreka að ég tel að það sé órætt --- ég hef kannski ekki heyrt það nægilega skýrt --- hver sé staða mála ef ágreiningur verður á milli svæðisskipulagsnefndarinnar annars vegar, samkvæmt frv. umhvrh., og aðalskipulags sveitarfélaga hins vegar vegna þess að ég hef talið að sveitarfélagið væri ,,sovereign`` í þessu máli, þ.e. fullvalda og að ekki væri hægt að skipa sveitarstjórninni með ákvörðun utanaðkomandi aðila að breyta sínu aðalskipulagi. Hæstv. ráðherra á líklega ekki eftir neinn andsvararétt eftir. En hann getur komið hér síðar í umræðunni og ég mundi gjarnan vilja að hann færi þá nokkrum orðum um þetta sérstaka vandamál.

Ef þetta er eins og ég tel að sumir stjórnarliðar skilji það, þ.e. að svæðisskipulagsnefndin hafi þarna býsna mikið vald eða a.m.k. jafnsett aðalskipulagi sveitarfélaganna að þessu leytinu til, þá er frv. sterkara að því er varðar þessa samvinnu en ýmsir hafa talið, þar á meðal hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson.