Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 06. maí 1998, kl. 12:28:45 (6251)

1998-05-06 12:28:45# 122. lþ. 119.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 122. lþ.

[12:28]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur beint til mín nokkrum spurningum og skal ég leitast við að svara þeim.

Hv. þm. spurði fyrst hvort umhvn. hefði fjallað um þáltill. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um þjóðgarða á hálendinu og hvaða skoðun ég hefði á því og hvort hægt væri að afgreiða það. Því er til að svara að umhvn. fjallaði um þáltill. og fram komu mjög jákvæðar raddir í umhvn. við þessari þáltill. og menn töldu að þar væri gott framlag til þeirrar umræðu sem nú fer fram um hálendið.

Málið var ekki afgreitt frá nefndinni öðruvísi en með þessum jákvæðu röddum. Menn töldu að málið væri ekki það vel og fyllilega rætt að ástæða væri til að afgreiða það að þessu sinni. Það sem eftir lifir þings veit hv. þm. jafn vel og ég að ekki er möguleiki að vinna frekar í málinu. Ég vænti þess hins vegar að þetta mál komi aftur fyrir umhvn. og verði þá rætt frekar.

Ég vil að það komi fram að hugmyndin um þjóðgarða á hálendinu er gömul. Hún hefur komið alloft fram. Sá sem hér stendur setti þá hugmynd fram í sjónvarpsviðtali eftir ráðstefnu sem haldin var í Háskólabíói um hálendið og gekk ég þá einmitt út frá sömu forsendum, þ.e. að ákveðin svæði sem byggð væru á því svæðisskipulagi sem nú liggur fyrir yrðu gerð að þjóðgarði. Þar væri einmitt verið að leita eftir þessu sama, þ.e. að fjalla um skipulagsmál og náttúruverndarmál á annan hátt en gert er ef hálendið verður fellt undir sveitarstjórnirnar með því skipulagsfyrirkomulagi sem nú liggur fyrir.

Ég vil síðan, hæstv. forseti, fá tækifæri til þess að svara öðrum spurningum í næsta svari.