Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 06. maí 1998, kl. 12:31:15 (6252)

1998-05-06 12:31:15# 122. lþ. 119.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 122. lþ.

[12:31]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það er umhugsunarefni hvort við sem hér erum búum við nægilega sterkt aðhald fjölmiðla eða annarra slíkra aðila í þjóðfélaginu eða kjósenda okkar. Þetta segi ég í tilefni af því að mér finnst vera langur vegur á milli þess að mótmæla frv. um breytingu á skipulags- og byggingarlögum eins og hv. þm. gerði og hins að afgreiða ekki tillöguna um þjóðgarða á miðhálendinu. Mér finnst að hv. þm. hefði verið sjálfum sér samkvæmastur ef hann hefði tekið það mál út úr nefndinni vegna þess að í mínum huga skiptir þessi þjóðgarðahugmynd --- hver sem á hana, ég veit ekkert um það, vafalaust margir, hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og vafalaust fleiri. Þannig er um allar góðar hugmyndir --- gríðarlega miklu máli í þróun miðhálendismálsins til frambúðar. Þess vegna finnst mér satt að segja ekki gilt svar að segja að svo stutt sé eftir að þinginu að ekki sé hægt að taka málið fyrir. Mér fyndist alveg hugsanlegt að taka málið a.m.k. hér til umræðu eftir að umhvn. hefði fjallað um það á jákvæðan hátt þannig að hægt væri að mynda sér skoðun á því vegna þess að það er partur af málinu alveg eins og frv. um breyting á skipulags- og byggingarlögum er partur af þessu máli þótt það hafi ekki fengist tekið á dagskrá, því miður. En það hefur náttúrlega verið rætt hérna. Eins er það með þjóðgarðamálið. Það er partur af þessu máli.

Ég þakka hins vegar hv. þm. fyrir svörin en vil ítreka spurningar mínar um átökin í Framsóknarfélagi Reykjavíkur, hvernig hann sér þau fyrir sér eftir að hann hefur gerst þar talsmaður meirihlutasjónarmiða andspænis minni hlutanum, hæstv. iðnrh.