Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 06. maí 1998, kl. 12:35:30 (6254)

1998-05-06 12:35:30# 122. lþ. 119.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 122. lþ.

[12:35]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svörin en ég bendi á að umhvn. hefur ekki fjallað um hálendismálið í þeim búningi sem það er núna. Út af fyrir sig geta verið rök fyrir því vegna þess að málinu hefur ekki verið vísað þangað.

Í öðru lagi hefur umhvn. ekki fjallað um frv. um breytingu á skipulags- og byggingarlögum af því að það mátti ekki koma til umræðu.

Í þriðja lagi hefur umhvn. ekki lokið umfjöllun um þjóðgarðamálið. Mér finnst þetta ekki gott. Ef ég væri formaður umhvn. mundi ég harma það að hafa ekki fengið tækifæri til að fjalla um þessi mál. Mér finnst það satt að segja ekki gott hjá okkur að hafa þingstörfin þannig að við getum ekki tekið mál af þessum toga eðlilega fyrir.

Ég vil líka segja vegna þess sem hv. þm. segir um frv., sem ég í gamni kalla frv. sem Alþb. tók í fóstur, að það er út af fyrir sig veikt í því ákvæðið um að taka niðurstöðu svæðisskipulagsnefndarinnar inn í aðalskipulagið. Samt sem áður er það svo að ráðherrann a.m.k., að ég held --- hann svaraði því ekki áðan --- skilur sitt eigið frv. þannig að skylt sé að taka niðurstöðu svæðisskipulagsnefndar inn í aðalskipulagið. Ef ágreiningur verður hins vegar um það, þá eigi að skipa sérstaka nefnd sem eigi að leita sátta og leysa málið. Hættan í málinu er þó allt önnur, þ.e. sú að einstök sveitarfélög fari að beita neitunarvaldi samkvæmt skipulagslögum líka og það er mál sem hæstv. umhvrh. hefur ekki rætt við okkur enn þá, en ég mun knýja á um að hann ræði.

Ég tók eftir því að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson fjallaði ekki um það mikilvæga umhverfismál sem er ástandið í Framsóknarfélagi Reykjavíkur. Það munum við ræða við betra tækifæri.