Ákvörðun um þingfrestun

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 10:32:17 (6257)

1998-05-07 10:32:17# 122. lþ. 120.92 fundur 352#B ákvörðun um þingfrestun# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[10:32]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Að venju fylgdist ég með fréttum í gærkvöld og í fréttatímum í sjónvarpi og á Stöð 2 vöktu tvö viðtöl, við forsrh. og forseta Alþingis, athygli mína. Forseti Alþingis hefur ekki átt fundi með þingflokksformönnum um framvindu þingsins, nema um þau mál sem eru forgangsmál. Fram kom að þinglokum sem áttu að vera 8. maí, þ.e. á morgun, hefði verið frestað.

Í viðtali við forsrh. kom fram að ef þau mál sem ríkisstjórnin hefði sett í forgang, og ætlaði sér að fá afgreidd, tækju langan tíma, þá yrði gert hlé á störfum þingsins þremur dögum fyrir sveitarstjórnarkosningar og þingi síðan fram haldið að því loknu.

Það er fremur undarlegt, virðulegi forseti, ef litið er til þess góða samstarfs sem verið hefur á milli þingflokksformanna og forseta, að hlusta á það í fréttum hvernig þinghaldið eigi að vera og að þegar virðist áformað hvernig standa eigi að málum í kringum sveitarstjórnarkosningarnar. Þess vegna spyr ég forseta: Eru upplýsingarnar sem fram komu hjá hæstv. forsrh. í gær réttar? Hefur þetta verið rætt? Hefur forseti ákveðið að tilhögun þingsins skuli vera á þennan veg og er þá ekki rétt að ræða það við þingflokksformenn?