Ákvörðun um þingfrestun

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 10:36:42 (6260)

1998-05-07 10:36:42# 122. lþ. 120.92 fundur 352#B ákvörðun um þingfrestun# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[10:36]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það að mér finnst slæmur svipur á vinnubrögðum sem tengjast þinghaldinu og framhaldi þess. Ég tel að það sé full ástæða til þess þó fyrr hefði verið, virðulegur forseti, að forusta þingflokka beri sig saman við hæstv. forseta, og forsn. að sjálfsögðu, sem stjórn þingsins með hæstv. forseta, ræði í sínum hóp hvernig þinghaldinu verði fram haldið.

Ég held að enginn hafi athugasemdir við það að brugðið verði á það ráð að lengja starfstíma Alþingis eins og nú á greinilega að gera. Hitt er samt mjög óheppilegt að það skuli gerast eins og nú er boðað og óljóst. Það er óheppilegt fyrir alla.

Ég held að það sé þörf á því að hafa í huga að ekki eru nema líklega sex vikur eða röskur mánuður síðan við þingmenn höfðum fyrir framan okkur það markmið stjórnar þingsins að ljúka störfum um sumarmál, 22. apríl, virðulegur forseti. Síðan er ákveðið að hverfa að upphaflegri starfsáætlun þingsins, miða við 8. maí, en nú er ástandið eins og við blasir. Það sem fyrst og fremst fer úr böndunum er sá málagrúi sem hæstv. ríkisstjórn og ráðherrar hella yfir þingheim á síðustu eindögum varðandi frv. og heimta að þetta verði afgreitt. Hæstv. forsrh. gengur fram fyrir skjöldu með þá stefnu að allur þessi málagrúi skuli afgreiddur. Þetta verða menn verða auðvitað að horfa á og ræða. Svona vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnar ganga ekki að mínu mati.