Ákvörðun um þingfrestun

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 10:39:11 (6261)

1998-05-07 10:39:11# 122. lþ. 120.92 fundur 352#B ákvörðun um þingfrestun# (aths. um störf þingsins), Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[10:39]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það hefur ekki verið meining mín að kalla eftir fundi forseta og þingflokksformanna. Að mínu mati hafa þessi mál verið í höndum forseta. Hans er að meta hvenær hann vilji eiga samráð við okkur. En það er alvarleg staða uppi þegar þingmenn spyrja hver annan hver stjórni Alþingi Íslendinga.

Í fréttatíma í gær var sagt að það mundi ekki gerast í öðrum þjóðþingum að svo löng umræða færi fram um eitt mál. Ef ég man rétt var notast við orðið gamaldags. Ég held að ég geti tekið undir það að eins og málin rekast hjá okkur og af hálfu ríkisstjórnar, þá er það gamalt form og úrelt.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að það mundi ekki gerast hjá öðrum þjóðþingum að skömmu fyrir þann frest, að hægt sé að leggja mál inn í þingið, væru 40 umfangsmikil mál lögð fram og ætlast til þess að þau, ásamt öllum öðrum stórum málum, sem hér hafa verið til umfjöllunar yrðu afgreitt. Ég efast um að slíkt mundi gerast, virðulegi forseti, nema í fullri sátt stjórnar og stjórnarandstöðu. Þar þyrfti til að koma full sátt um hvaða mál fari í gegn, hversu langan tíma hvert mál megi taka, hversu mikinn tíma hver flokkur tekur og hver þingmaður. Það væru fagleg vinnubrögð og samþykkt, virðulegi forseti, af hálfu beggja. Við erum hins vegar í þeim gamla farvegi að ríkisstjórn ræður störfum Alþingis og það er að verða afleitt mál fyrir okkur öll.