Ákvörðun um þingfrestun

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 10:43:43 (6264)

1998-05-07 10:43:43# 122. lþ. 120.92 fundur 352#B ákvörðun um þingfrestun# (aths. um störf þingsins), Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[10:43]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Forseti vill taka fram, vegna þeirra orða sem hér hafa fallið, að hann lítur ekki svo á að forsrh. hafi tekið fram fyrir hendurnar á forseta Alþingis með því sem hann sagði í viðtali í sjónvarpi í gær. Forseti vill minna á að sl. mánudag, á fundi með þingflokksformönnum, skýrði forseti frá því að þingfrestunardagur yrði ekki 8. maí eins og fyrirhugað hafði verið og öllum á að vera ljóst hvers vegna þingi verður ekki frestað 8. maí eins og til stóð.

Enn eru átta á mælendaskrá í þessu dagskrármáli og forseti gerir ráð fyrir að þeir vilji fá að tjá sig um málið og þeir fá að sjálfsögðu að gera það. Það er löngu búið að útskýra hvers vegna fallið var frá því markmiði sem sett var í byrjun mars, að ljúka þingi 22. apríl, og þarf vonandi ekki að endurtaka ástæður þess að ekki var hægt að standa við það markmið.

Það ættu ekki að vera ný tíðindi fyrir hv. þingmenn að umræðu um þetta mál, og þau önnur sem verið hafa á dagskrá síðustu daga, verður auðvitað að ljúka. Frá því verður ekki fallið. Það á ekki að koma neinum á óvart. Það ætti heldur ekki að vera neitt álitamál hver stjórnar Alþingi. Hins vegar ljóst og ekkert nýtt að bæði ríkisstjórn og stjórnarandstaða á Alþingi hafa sínar skoðanir á því hvernig þingstörf eigi að ganga fram en forseti Alþingis sker þar úr. Á því hefur engin breyting orðið.