Afgreiðsla frumvarps um síldarsamning o.fl.

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 10:50:52 (6269)

1998-05-07 10:50:52# 122. lþ. 120.94 fundur 354#B afgreiðsla frumvarps um síldarsamning o.fl.# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[10:50]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hef fylgst með þeim athyglisverðu skoðanaskiptum sem hafa farið fram um störf þingsins. Á því kjörtímabili sem nú er senn á enda höfum við reynt að skapa samstöðu um ný vinnubrögð. Við lögðum mikla vinnu í að reyna að ná samstöðu um breytingu á þingsköpum fyrir Alþingi og héldum marga fundi um þau efni, formenn þingflokka og forsn.

Í vetur þegar stjórnarandstaðan neitaði því fyrir sitt leyti að veita afbrigði fyrir ákveðnu þingmáli sló hæstv. forsrh. á puttana á okkur á Alþingi Íslendinga með því að segja: Það verður engin breyting gerð á þingsköpum. Hann sagði það. Síðan hefur það mál legið og því hefur ekki verið hreyft.

Síðan gerðist það fyrir nokkrum dögum að meiri hluti Alþingis neitaði að taka á dagskrá eigið stjfrv. og þar með var auðvitað haldið þannig á málum andspænis okkur að það hlaut að hafa sínar afleiðingar til viðbótar því að hér er verið að hrúga inn málum í áður óþekktum mæli á tiltölulega stuttum tíma. Ég segi alveg eins og er, herra forseti, að mér finnst að öll sú vinna sem unnin hefur verið á þessu kjörtímabili til þess að laga þetta þing að eðlilegum starfsháttum þjóðþinga hafi verið unnin fyrir gýg, það sé verið að henda henni út í hafsauga þessa daga. Ég segi það, herra forseti, ég harma það.