Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 13:31:45 (6271)

1998-05-07 13:31:45# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[13:31]

Svanfríður Jónasdóttir (frh.):

Herra forseti. Eftir að hafa í morgun farið yfir það frv. sem við ræðum hér, þ.e. þær greinar þess sem ekki fjalla um miðhálendið, er nú orðið tímabært að taka til umfjöllunar 1. gr. og bráðabirgðaákvæðið sem ég hef ekki rætt enn. Sem inngang að þeirri umfjöllun fór ég yfir nokkur atriði úr erindi sem Gunnar G. Schram hélt í fyrra, fyrir u.þ.b. ári, þar sem hann setti fram nokkur rök gegn því að 40 sveitarfélögum yrði falið skipulags- og stjórnsýsluvald á hálendinu. Í framhaldi af því vék ég mér að samantekt á formlegum athugasemdum sem gerðar hafa verið við tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins.

Eins og þeir tóku eftir sem fylgdust með umræðunni í gær hafði hv. þm. Svavar Gestsson með sér í ræðustól bók sem var bæði stór og þykk. Þar voru á ferðinni þær athugasemdir sem gerðar hafa verið við tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins. Svavar fór nú ekki yfir bókina eins og menn kannski reiknuðu með þegar hann gekk með þennan mikla doðrant í ræðustól. En hann fór yfir þau atriði sem honum þóttu skipta mestu og ég hef nú farið yfir þau atriði sem ég tel að vegi nægjanlega þungt til að menn ættu að geta skoðað mjög vandlega þetta svæðisskipulag sem yrði fyrsta svæðisskipulag miðhálendisins, því ljóst er að það skipulag sem fyrst verður samþykkt mun auðvitað gefa tóninn gagnvart framhaldinu.

Hins vegar tók ég líka fram, herra forseti, vegna þess hvernig allt þetta mál er vaxið ef það verður að lögum að miðhálendinu verði skipt milli þessara 42 sveitarfélaga, að við getum því miður ekki treyst því að svæðisskipulagið ráði því í rauninni hvernig farið verður með miðhálendið vegna þess, eins og ég fór yfir áðan, að sveitarfélögin fara með aðalskipulagsvaldið og aðalskipulagsvaldið er einfaldlega mun sterkara. Bæði er það vegna þess hvernig lagabókstafurinn er í skipulagslögunum en, svo ég ítreki það af því það skiptir verulegu máli, þá er aðalskipulagsvaldið sterkara vegna þess að það er stjórnsýsluvald á bak við það, stjórnsýsluaðili, sveitarfélag stendur á bak við aðalskipulagið. En á bak við svæðisskipulag er enginn stjórnsýsluhafi. Það veikir það og gerir að verkum að enda þótt menn nái samkomulagi um að gert verði eitt svæðisskipulag fyrir miðhálendið mun það ekki nægja til að koma í veg fyrir að árekstrar og togstreita verði milli þessara 42 sveitarfélaga sem eiga að eiga stjórnsýslurétt og skipulagsrétt alveg inn að miðju lands.

Það má fara ofan í fleiri atriði í þessari samantekt en ég ætla ekki að gera það núna, herra forseti. Ég ætla að vinda mér í það sem þjóðin hefur í rauninni verið sammála um að sé kannski stærsta umhverfisvandamálið og menn hafa haft áhyggjur af --- ég hef vitnað í nokkra sem hafa haft áhyggjur af því --- þ.e. beitarþol og beitarnýting hálendisins. Menn hafa haft áhyggjur af því að hagsmunaaðilar, þ.e. bændur í þeim hreppum sem liggja að hálendinu, hafi af því beina hagsmuni að nýta hálendið til beitar. Áhyggjur sumra snúast fyrst og fremst um að óeðlilegt sé að málum sé þannig háttað, það rekist á við ýmislegt annað sem þjóðinni þykir mikilvægara, m.a. það að uppblástur og gróðureyðing hefur fyrir mjög mörgum verið stærsta umhverfisvandamál þessarar þjóðar, enda kemur fram gagnrýni. Því miður eru þau drög að svæðisskipulagi sem fram hafa verið lögð þannig að þau hafa gefið tilefni til gagnrýni einmitt á þennan þátt, þ.e. að ekki sé nægjanlega gætt að verndun fyrir beit og að í rauninni sé gert ráð fyrir því að beitarálag verði of mikið. Sumir hafa jafnvel getið sér þess til að friðurinn við bændur hafi verið keyptur á þennan hátt. Ég sel það nú ekki dýrara en ég keypti. En skýringa hafa menn sannarlega verið að leita á því að þessi þáttur skyldi ekki vera tekinn fyrir öðruvísi í svæðisskipulaginu en raun ber vitni.

Ég vil máli mínu til stuðnings vitna í það sem í þessari samantekt haft eftir annars vegar Ingva Þorsteinssyni og hins vegar Landgræðslu ríkisins. Ingvi segir, með leyfi forseta:

,,Við skipulagsgerð eins og hér er um að ræða hlýtur að vera grundvallaratriði að leitað sé allra gagna sem máli skipta um náttúrufar landsins og að trúverðugleiki þeirra gagna, og þar með notagildi, sé síðan metið. Hafi þetta verið gert hvað varðar gróðurfar hálendisins er niðurstaðan vægast sagt furðuleg.

Þær ,,tillögur`` sem gerðar eru um beitarnýtingu hálendisins taka ekki`` --- ég endurtek --- ,,taka ekki tillit til þeirrar þekkingar sem fyrir hendi er um ástand gróðurs og jarðvegs á hálendinu.``

Þetta segir Ingvi Þorsteinsson líffræðingur um þessar tillögur.

Landgræðsla ríkisins segir, með leyfi forseta:

,,Skilgreint verði nánar hugtakið ,,ástand lands`` svo og þau helstu hugtök önnur, sem notuð eru í umræðunni um verndun lands. Enn fremur verði aflað frekari upplýsinga er varða undirstöður tillagna um landgræðslumál. Má þar nefna upplýsingar um raunveruleg gróðurskilyrði, æskilega útbreiðslu og samsetningu gróðurs, jarðvegsrof og margháttuð landkostasjónarmið.``

En til þess að styrkja það sem ég sagði áður, herra forseti, um þetta mál sem margir álíta stærsta umhverfisvandamál þjóðarinnar, vil ég máli mínu til frekari stuðnings hvað varðar áhyggjur af beitarmálum miðhálendisins og hálendisins vitna til greinar sem áðurnefndur Ingvi Þorsteinsson og Ólafur Arnalds skrifuðu í Morgunblaðið í janúar sl. af því tilefni að þeir höfðu kynnt sér svæðisskipulag miðhálendisins. Þeir segja þar, með leyfi forseta:

,,Á undanförnum árum hefur verið unnið að svæðisskipulagi miðhálendis Íslands. Það er full ástæða til að fagna þeirri ákvörðun að skipuleggja landnotkun á miðhálendinu sem spannar yfir nær helming af flatarmáli landsins alls. Hálendið er viðkvæmasti hluti Íslands, og þess vegna hefur aldalöng notkun skilað því í verra ástandi gróðurfarslega en öðrum svæðum landsins, þar sem á annað borð eru skilyrði fyrir gróður.

Náttúrufari miðhálendisins hefur verið raskað á ýmsan hátt, auk beitaráhrifa, og margháttaðar landnotkunarhugmyndir, t.d. um virkjanir og aukna ferðamennsku, munu enn auka álagið á viðkvæma náttúru þess. Vaxandi vitund um gildi náttúru hálendisins hefur aftur á móti leitt til þess að íbúar landsins krefjast þess að ekki sé rasað um ráð fram. Nú skal hagur þjóðarinnar, þegar til lengri tíma er litið, hafður að leiðarljósi við hvers konar nýtingu landsins, í stað skammtímasjónarmiða. Við skipulag landnýtingar verði litið til verndargildis frá mörgum hliðum, svo sem ósnortins víðernis o.s.frv.

Þessi viðhorf er ekki unnt að samræma nema með því að skipuleggja landnotkun. Ákvörðunin um skipulagningu miðhálendisins var því ekki eingöngu metnaðarfull, heldur einnig löngu orðin tímabær.

Tillögur um svæðisskipulag miðhálendis Íslands voru birtar í maí 1997, og leikur ekki vafi á því að þær eiga eftir að skila árangri því að þar eru margar góðar hugmyndir. Skipulagstillögurnar eru grundvöllur umræðu, gagnrýni og frekari hugmynda um nýtingu hálendisins, eins og glögglega hefur komið í ljós nú þegar.

Umræða um tillögurnar manna á milli og í fjölmiðlum hefur verið mikil og fjörug --- og oft óvægin. Fjöldi skriflegra athugasemda mun hafa borist um þær til samvinnunefndarinnar um skipulag miðhálendisins.

Umræða í fjölmiðlum hefur snúist um flesta þætti tillagnanna og fræðilegan grundvöll þeirra, en það er umhugsunarvert að nánast enginn hefur minnst á þann þátt skipulagsvinnunnar sem fjallar um gróðurvernd og beit búfjár á miðhálendinu. Beitin er þó landnotkun sem hefur haft gífurleg áhrif á gróðurfar miðhálendisins og landsins alls í aldanna rás. Gróður- og jarðvegseyðing er skilgreind sem ,,stærsta umhverfisvandamál þjóðarinnar``, enda hefur hún valdið meiri röskun á náttúrufari landsins, bæði á hálendi og láglendi, en nokkuð annað.

Gróðurkortagerð og aðrar rannsóknir Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, sem unnið var að á miðhálendinu á árunum 1960--1985, veittu ítarlega vitneskju um gróðurfar þess, vistfræðileg skilyrði, framleiðslugetu og ástand gróðurs. Niðurstöður af rannsóknum á jarðvegsrofi, sem unnar voru á vegum sömu stofnunar og af Landgræðslu ríkisins voru birtar snemma árs 1997. Þær staðfestu svo ekki var um villst, hve slæmt ástand jarðvegs á miðhálendinu er og hve gífurleg gróður- og jarðvegseyðing þar hefur átt sér stað.

Í stuttu máli hafa þessar rannsóknir leitt í ljós að stærsti hluti miðhálendisins, sem áður var að miklu leyti gróinn, er gróðurlausar eða gróðurlitlar auðnir. Mikill hluti þess lands sem nú er gróið einkennist af rýrum og viðkvæmum mosagróðri. Á svæðum, þar sem enn er þykkur jarðvegur, er mjög víða mikil og hröð gróður- og jarðvegseyðing.

Á hluta miðhálendisins, fyrst og fremst þar sem er mikið votlendi, svo sem á Arnarvatnsheiði, Tvídægru, afréttum Vestur-Húnavatnssýslu, í Þjórsárverum og á Fljótsdalsheiði, er gróður í sæmilegu ástandi, og þar er ekki mikil jarðvegseyðing. Þessi svæði eru hins vegar tiltölulega lítill hluti alls miðhálendisins, og gróðurfar þeirra, nema blautustu flóa, ber einnig merki aldalangrar beitar.

Það eru fyrst og fremst auðnir miðhálendisins sem valda því að í dag er Íslandi lýst sem stærsta eyðimerkursvæði Evrópu.``

Þetta er kannski einkunn, herra forseti, sem við hefðum ekki látið okkur detta til hugar að landið okkar fengi. Vík ég þá aftur að því sem Ingvi segir og nú um þátt beitarmála í skipulagstillögunum:

[13:45]

,,Samkvæmt framangreindum niðurstöðum kortlagningar á rofi telst langstærsti hluti miðhálendisins ekki hæfur til beitar. Á grundvelli rofkortanna unnu Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðslan yfirlitskort með ráðleggingum um nauðsynlegar takmarkanir á beit á miðhálendinu byggðar á ástandi jarðvegsins. Á þessu korti, sem birt er í greinargerð að skipulagstillögunum, kemur fram að nauðsynlegar séu ,,miklar takmarkanir`` á beit vegna auðna og/eða mikils rofs á stærstum hluta miðhálendisins.

Skilaboð þessa korts og annarra gagna eru ótvíræð, en í tillögunum um svæðisskipulag miðhálendisins er nánast ekkert tillit tekið til þeirra. Þar er aðeins gert ráð fyrir beitarfriðun þriggja svæða: Þórsmerkur og Emstra, sem þegar eru friðuð fyrir beit (Almenningum er sleppt), og auðnanna norðan Vatnajökuls, allt norður undir byggð í Skútustaðahreppi, en nú þegar liggur fyrir samkomulag um friðun þess svæðis.

Í skipulagstillögunum eru beitarmál á miðhálendinu fram til ársins 2015 að öðru leyti afgreidd með þeim hætti sem eftirfarandi tilvitnanir úr greinargerðinni bera vott um: ,,Á viðkvæmum svæðum miðhálendisins er stefnt að því að taka upp beitarstjórn og/eða friðun í samræmi við landgæði.`` ,,Umræða meðal bænda víða í landinu bendir til þess að á næstu árum verði frekari breytingar varðandi beitarnot á afréttum``, og ,,Beitarfriðun víðáttumikilla svæða er í undirbúningi á nokkrum afmörkuðum svæðum á miðhálendinu.```` --- Þetta var vitnun í greinargerðina. --- Og svo halda þeir Ingvi og Ólafur áfram:

,,Þetta er vægast sagt veik afstaða til svo mikilvægs máls. Reynslan af beitarmálum hér á landi hefur ævinlega verið sú að hafi þau verið ,,afgreidd`` með þessum hætti hefur ekkert gerst.``

Hér tala aðilar sem hafa áralanga reynslu af því að berjast fyrir friðun fyrir beit á hálendinu og víðar og þeir bæta við:

,,Það er algerlega óviðunandi að skilja við beitarmál miðhálendisins til ársins 2015 með þessum hætti.

Á undanförnum tveimur áratugum eða svo hefur sauðfé í landinu fækkað um helming og beitarálag minnkað að sama skapi. Þar sem fækkunin hefur verið mest gætir þegar ótrúlega mikilla framfara í gróðurfari og ástandi landsins, einkum á láglendi þar sem ástandið var ekki orðið of slæmt. Við hin erfiðu gróðurskilyrði á miðhálendinu, þar sem ástand gróðurs og jarðvegs er jafnslæmt og hér hefur verið lýst, dugar hins vegar ekkert annað en alger friðun fyrir beit til þess að stöðva eyðinguna og auka gróður að nýju.

Víðast á láglendi er nægur beitargróður fyrir það sauðfé sem nú er í landinu, og nú er því lag til að hlífa miðhálendinu fyrir beit. Þeir tímar munu eflaust koma að fé fjölgi á ný og að þörf verði fyrir beitargróður hálendisins. Þá er nauðsynlegt að ástand þess verði komið í margfalt betra horf en nú er.

Við beinum því þeirri tillögu til samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendis Íslands að hún stuðli að algerri beitarfriðun hálendisins til loka skipulagstímans, eða til ársins 2015. Jafnframt skorum við á þá bændur og þau sveitarfélög sem hlut eiga að máli að sýna þann stórhug að styðja þá tillögu að gefa miðhálendinu hvíld fyrir beit í hálfan annan áratug, eftir nær 1100 ára óslitna beitarnotkun. Þá fær gróðurinn langþráðan frið til að breiðast út að nýju, og tóm gefst til nauðsynlegra landgræðsluaðgerða. Að þessum tíma loknum yrði ástand landsins endurmetið og nýjar ákvarðanir teknar í samræmi við niðurstöðurnar.

Með samstöðu, og að frumkvæði þeirra sem sjávarútveg stunda, tókst að stöðva hrun fiskstofnanna við landið með hóflegri nýtingarstefnu, sem jafnvel felur í sér tímabundna lokun fiskimiða. Með sama hætti ættu bændur og allir aðrir sem hlut eiga að máli að taka höndum saman um hliðstæða stefnu í nýtingu gróðurs á miðhálendinu. Það yrði eitt stærsta skref sem tekið hefur verið til stöðvunar jarðvegseyðingar, og til endurheimtar gróðurs og landgæða á Íslandi. Það framtak yrði lengi í minnum haft.``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti, þeirra sem gerst mega þekkja og áhyggjur af þeim áherslum sem lagðar eru í þeim drögum að svæðisskipulagi sem nú hafa verið kynnt. Þessar áhyggjur þeirra, eins og ég sagði áðan, ríma að sumu leyti við áhyggjur annarra sem fram hafa komið, þar sem menn hafa áhyggjur af því að þeir sem hafa hagsmuni af því að nýta landið með því að beita það verði þeir sem hafa um stjórnsýslu og skipulag að segja á þessu svæði. Þess vegna hefur m.a. verið á það bent að þarna gæti orðið um óeðlilega hagsmunaárekstra að ræða. Ein ástæða þess að menn hafa bent á að eðlilegt væri, og það liggur hér fyrir tillaga um það, að miðhálendið væri sjálfstæð stjórnsýslueining. Ég var áðan að fjalla um mun á svæðisskipulagi og aðalskipulagi. Ef miðhálendið væri ein stjórnsýslueining þá væri kominn þar stjórnsýsluhafi á bak við það skipulag sem yrði á svæðinu og væri þá auðvitað ólíku saman að jafna en því að 42 sveitarfélög fari með aðalskipulag á þessu svæði.

Ég vil jafnframt, herra forseti, af því ég er hér auðvitað að tala fyrir hönd ýmissa þeirra sem hafa áhyggjur af því hvernig þessi mál kunna að þróast, vitna í það sem Páll Sigurðsson, prófessor í lögum við Háskóla Íslands, hefur sagt um þessi mál, þ.e. um það frv. til nýrra sveitarstjórnarlaga sem við erum hér að fjalla um. Hann segir m.a. í grein þar um:

,,Nú liggur jafnframt fyrir þinginu frumvarp til nýrra sveitarstjórnarlaga, sem hefur m.a. að geyma mjög umdeilt ákvæði, þar sem kveðið er á um að þeim hlutum landsins, þar með talið jöklum, sem ekki hefur þegar verið skipað innan staðarmarka sveitarfélaga, skuli nú skipað innan hlutaðeigandi sveitarfélaga eftir nánar tilteknum reglum og viðmiðunum. Með öðrum orðum: Hálendi Íslands, með jöklum, söndum og hraunum, skal nú öllu skipt kirfilega í eins konar ,,tertusneiðar``, fjölmargar og sumar æði þunnar ... Munu þær gjarna teygjast inn að miðju landsins og mætast þar á ólíklegustu stöðum, t.d. uppi á hájöklum eða á sandauðnum, allt eftir hugdettum þeirra kerfismanna, sem ákvarða skulu landamerkin. Nái þessi tillaga fram að ganga er líklegra en ekki að hún muni leiða til ófriðar og ófarnaðar. Mun heppilegra er, að þjóðlendurnar --- sameign allra landsmanna --- sem munu væntanlega ná yfir meginhluta hálendisins, verði til frambúðar undir samræmdri stjórn og í umsjá ríkisstjórnvalda. Má þá engu að síður búa svo um hnúta, að fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga eigi, ásamt öðrum, sæti í ráðgefandi stjórnarnefnd, er fjalli um hálendismálin, þannig að tryggt sé að hagsmunir sveitarfélaga verði ekki fyrir borð bornir.

Kröfur sveitarfélaga þeirra, sem liggja að hálendinu, til almennra stjórnsýsluforráða yfir óbyggðunum, þ.e. yfir þeim ræmum og skikum, sem einstökum sveitarfélögum yrði úthlutað samkvæmt fyrrnefndu ,,tertusneiðafrumvarpi``, eru byggðar á misskilningi forráðamanna þeirra. Að því marki sem kröfur þessar kynnu að verða réttlættar á annað borð hlytu þær að grundvallast á eftirfarandi atriðum:

1. eignarrétti yfir hálendissvæðunum,

2. nálægð óbyggðasvæðanna við hlutaðeigandi mannabyggðir og

3. langvarandi nýtingu umræddra landsvæða.

Oftast yrði örðugt að sýna fram á, að þessar röksemdir geti átt við um þessar óbyggðalendur. Eignarrétti þessara sveitarfélaga eða einstaklinga, sem þar eru búsettir, er vafalaust sjaldnast fyrir að fara, svo sem sýnt var fram á í fyrri grein minni.`` --- Þarna vísar Páll í fleiri greinar sem hann hefur ritað, m.a. um þjóðlendufrv. --- ,,Mörg svæðin liggja bersýnilega afar langt frá allri byggð og vandfundin eru skynsamleg rök fyrir því að einhæf notkun óbyggðarlands til sauðfjárbeitar (þótt lengi hafi staðið) geti með nokkru móti réttlætt kröfu um stjórnsýsluyfirráð í þeim skilningi, sem hér um ræðir, auk þess sem fjölmörg óbyggðasvæðin, svo sem sanda, hraun og jökla, hafa sveitarfélög vitaskuld aldrei nýtt til eins né neins. Stjórnsýsla yfir hálendinu, sem fullnægja skal nútímalegum kröfum, verður að sjálfsögðu að byggjast á mikilli yfirsýn og víðtækri gæslu almannahagsmuna, sem sveitarfélögunum, mörgum fámennum og lítils megandi, yrði ofraun að rísa undir. Fámennið leiðir m.a. til hættu á hagsmunaárekstrum og vanhæfi, sem torveldar alla raunhæfa stjórnun. Sérstaklega á þetta við um skipulags- og byggingarmál hálendisins, þar sem skipuleggjendurnir verða að vera hátt hafnir yfir hrepparíg og úrelt og gamaldags viðhorf til stjórnsýslumarka.

Aukin friðun hálendisins er mjög aðkallandi og verður að ætla að mikill meiri hluti þjóðarinnar hljóti nú að gera þær kröfur til ráðamanna, að þeir móti og beri fram skýrari stefnumið um verndunaraðgerðir en verið hefur og að þeim verði síðan fylgt fram af festu. Hugmyndir um einn þjóðgarð með ríkri friðun, sem nái yfir allt hálendið eða mestan hluta þess eru því miður vart raunhæfar m.a. sökum þess að vissum hlutum hálendisins hefur nú þegar verið spillt í þeim mæli að svo víðáttumikill þjóðgarður gæti ekki náð alþjóðlegri viðurkenningu. Á alþjóðavettvangi eru gerðar mjög strangar kröfur til ,,hreinleika`` þess lands --- ósnortinna víðerna --- sem staðið geti undir þjóðgarðsnafni. Heppilegra er því að miða við afmarkaðri og minni svæði undir þá þjóðgarða, sem að sjálfsögðu verður að stofna á hálendinu innan tíðar, og jafnframt að ákvarða annars konar friðlönd á afmörkuðum svæðum utan þjóðgarðanna, þar sem ríki mismunandi stig friðunar. Er almannaforsjá yfir hálendinu --- þessari ríkulegu auðlind --- tvímælalaust nauðsynleg forsenda samræmdra verndunaraðgerða, er að gagni koma, sem og nýtingar sem miðist við þjóðarheill.``

Lýkur þar tilvitnun í grein Páls Sigurðssonar, prófessors í lögum við Háskóla Íslands. Hann víkur hér að þeim kröfum sem gerðar eru til hreinleika á alþjóðavettvangi, þeirra ósnortnu víðerna sem staðið gætu undir þjóðgarðsnafni. Í því sambandi vakti það athygli mína og ugglaust fleiri að í Morgunblaðinu í morgun var verið að fjalla um kynningu á nýrri skilgreiningu á náttúrusvæðum. Þar er sagt frá því að sá starfshópur, sem hæstv. umvrh. skipaði í september 1997 til að skilgreina hugtakið ósnortin víðerni, hafi skilað áliti sínu. Miðað við það sem fram kemur og blaðið greinir frá eru ósnortin víðerni skilgreind með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

,,Ósnortið víðerni er landsvæði

þar sem ekki gætir beinna ummerkja mannsins og náttúran fær að þróast án álags vegna mannlegra umsvifa,

sem er í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og þjóðvegum (sbr. vegalög),

sem er a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vegna vélknúinna farartækja á jörðu.`` (Gripið fram í: Má fólk fara inn á þetta?) Já, ég sé ekki að fólki sé neins staðar bannað, herra forseti, að fara hér inn því mér sýnist að leikurinn sé nákvæmlega til þess gerður að fólk fái notið óspilltrar náttúru í þeim mæli sem hana er að finna með þeim skilgreiningum sem hér eru settar fram. (Gripið fram í.) Jú, það er einungis fjallað um að ekki megi gæta beinna ummerkja mannsins og að náttúran fái að þróast án álags vegna mannlegra umsvifa. E.t.v. gætu menn ályktað sem svo að þarna yrði að vera ströng stýring ferðamanna inn á svæðið en það getum við rætt síðar. Ég gat hins vegar ekki látið hjá líða að nefna þetta af því hér er verið að fjalla um hálendið og ósnortin víðerni. Þarna lá fyrir þessi skilgreining sem hæstv. umhvrh. hefur efnt til.

[14:00]

Eins og ég hef getið um í ræðu minni og fór yfir í morgun þegar ég hóf mál mitt, herra forseti, þá er það svo að fjöldi manns lætur sig það orðið nokkru varða og sumir býsna miklu hver afdrif þessa frv. verða á Alþingi. Það má segja að sú umræða sem nú hefur staðið á Alþingi í nokkra daga hafi gert fólkinu í landinu viðvart um hvað hér er að gerast þannig að þó að fjölmiðlar hafi greint frá því á sínum tíma að ákvæði þess efnis hafi verið kynnt að til stæði að skipta miðhálendinu upp á milli aðliggjandi sveitarfélaga, þá virðist sem fólk hafi almennt ekki tekið við sér fyrr en þessi mál voru komin í allmikla umræðu og það er eðlilegt miðað við hvernig fjölmiðlun og áreitum er háttað á fólk í dag með upplýsingar og annað þess háttar.

Það má segja að þjóðmálaumræðan hafi verið býsna lífleg á undanförnum dögum og vikum um þessi mál. Það er kannski dapurlegt að tilefni þess að fjölmiðlar fóru að veita því athygli að þessi mál voru hér til umfjöllunar var kannski fyrst og fremst það að nokkrir stjórnarsinnar höfðu ákveðna fyrirvara við málið. Það nægði sem sé ekki að stjórnarandstaðan á Alþingi hefði fyrirvara við málið heldur þurfti það til að stjórnarliðar hefðu fyrirvara að fjölmiðlar kveiktu á málinu, ef svo má að orði komast, og tóku til við að fjalla um þau ákvæði sem viðkomandi hv. alþingismenn höfðu gert fyrirvara við. En það voru kannski einmitt þessi ákvæði sem ég hef síðast gert að umræðuefni, þ.e. 1. gr. og svo bráðabirgðaákvæðið sem er útfærsla á 1. gr. eins og menn hafa áttað sig á. En það hafa skapast miklar umræður, ekki bara í þeim sérstaka áhugahópi sem gerði athugasemdir við miðhálendisskipulagið eða hefur hingað til tekið þátt í þessari umræðu heldur eru mun fleiri, bæði hópar og einstaklingar, sem virðast hafa vaknað til vitundar um að hér væri verið að leggja drög að einhverju sem betur færi að yrði skoðað ítarlegar, að málinu yrði frestað, að það yrði ekki afgreitt núna eins og hæstv. ríkisstjórn stefnir að.

Það hafa verið haldnir fundir um miðhálendið. Menn hafa skrifað blaðagreinar þar sem þessi mál hafa verið reifuð. Þá hafa verið birtar áskoranir sem fjöldi manna hefur skrifað upp á og forsrh. --- og við þingmenn höfum fengið afrit af slíkum bréfum --- hafa verið sendar áskoranir þar sem farið er fram á það við hann að hlýtt verði á raddir hagsmunaaðila og helstu sérfræðinga sem virðast vera á einu máli um hvernig fara eigi með þessa sem menn telja eina verðmætustu auðlind þjóðarinnar.

Enn þá höfum við bara fengið þau skilaboð að skella eigi skollaeyrum við þessum beiðnum um annars konar málsmeðferð. Enn þá hefur því miður ekkert komið fram sem bendir til þess að taka eigi tillit til þeirrar hógværu beiðni að málin verði skoðuð betur. En mig langar að lokum, herra forseti, að vitna í það sem er nýjast, þ.e. í þeim greinum og bréfum sem skrifuð eru um málið og vitna í grein Guðmundar Sigvaldasonar sem hann birtir í Degi í morgun. Þar talar hann fyrir stóran hóp manna og ég vil gjarnan grípa ofan í hans grein þó að ég lesi hana ekki alla í heild sinni. Ég vitna hér í þar sem í millifyrirsögn segir: ,,Hernaðurinn gegn landinu.``

,,Í útvarpsþættinum Víðsjá var í síðustu viku endurflutt frægt erindi Halldórs Kiljans Laxness um ,,Hernaðinn gegn landinu``. Aldrei hefur neitt verið samið og flutt sem lýsir umgengni Íslendinga við landið betur en þetta erindi Halldórs, enda fór saman ritsnilld hans og djúpstæð þekking Sigurðar Þórarinssonar prófessors á sambúð lands og þjóðar, en Sigurður átti margar ferðir að Gljúfrasteini meðan erindið var samið. Það kann að hafa þótt voguð fullyrðing hjá Halldóri og þykir e.t.v. enn að engin þjóð hafi níðst á landi sínu í sama mæli og Íslendingar. Þó er hægt að styðja þá fullyrðingu gildum rökum byggðum á ítarlegum rannsóknum. Víst er margt til afsökunar í harðbýlu landi og tæpast hefði þjóðin lifað af nema með hjálp sauðkindarinnar, enda hefur sú dýrategund sérréttindi í þessu landi sem eiga hvergi sinn líka á byggðu bóli. Þjóðin er ekki lengur háð þessu dýri til fæðis og klæða og það er mun brýnna að afnema sérréttindi sauðkindarinnar en að setja lög um stjórnsýslu og skipulag hálendisins. Ég held raunar að afnám þessara sérréttinda og útilokun þess hugarfars sem þeim fylgir geti verið veigamikil forsenda þess að gera skynsamlega áætlun um hvernig nútímafólk eigi að umgangast svokallaða afrétti og hálendi Íslands.

Skipulag hálendisins er kjarni þeirrar umræðu sem hér fer fram og við erum áhyggjufull og óttumst að málið sé ekki nægilega vel hugsað og undirbúið. Upphaflegt frv. til laga var gagnrýnt og síðan reynt að gera á því flaumósa breytingar til að ná sáttum meðal alþingismanna. Viðtöl við þann ráðherra og sauðfjárbónda sem ýtir málinu úr vör benda til þess að honum sé þjóðarsátt lítils virði. Skipulag greinist í tvo þætti, hvað og til hvers á að skipuleggja og hvernig á að skipuleggja. Fyrra atriðið vísar til þess að fyrir liggi einhver knýjandi þörf á skipulagi til að forðast óreiðu. Seinna atriðið höfðar til aðferðar sem aftur vísar til smekks en smekk er erfitt að skilgreina nema í tengslum við tilfinningar og menningarlegt uppeldi.``

Síðan ætla ég að víkja að lokaorðum þessarar greinar undir yfirskriftinni ,,Breyttar áherslur.``

,,Þessi orð vísa til fortíðar,`` --- þá er vísað til þess sem á undan er komið --- ,,þau þurfa ekki og mega ekki vísa til framtíðar. Margt bendir til að breyting sé í aðsigi. Sífellt stærri hluti þjóðarinnar er þeirrar skoðunar að nútíminn hrópi á breyttar áherslur sem fela í sér nýtingu orkunnar sem býr í manninum sjálfum og hægt er að virkja með aukinni menntun og hvatningu til hugmyndasköpunar. Þess eru greinileg merki að unga fólkið hlýði því kalli og beini kröftum að arðbærum en vistvænum verkefnum. Þessi breyting á afstöðu og á áherslum í huga fólksins í landinu er enn ekki nægilega langt gengin til að ná inn í sali Alþingis þar sem meiri hlutinn ætlar að samþykkja lög byggð á hugsun og siðferði fortíðar. Umræða um umhverfismál og skoðanamyndun þjóðarinnar á umhverfismálum er því miður óralangt á eftir tímanum eins og undrunarvert umburðarlyndi gagnvart réttindum sauðkindarinnar ber ljóst vitni.

En þetta er að breytast og það breytist nokkuð hratt. Þess vegna yrði það stórslys ef stjórnsýslu- og skipulagsmálum dýrmætra hálendissvæða Íslands yrði ráðið til lykta með hroðvirknislegri flýtimeðferð manna sem fæstir hafa tilfinningu fyrir þeim verðmætum sem þeir eru að ráðstafa. Íslendingar eru alls ekki tilbúnir að ákveða með hvaða hætti á að umgangast hálendið. Hálendið er fjársjóður sem ekki verður metinn til peninga og þangað á að sækja tekjur sem mölur og ryð fá ekki grandað og eru af sumum mældar í hamingjustundum.``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti, og þykist ég þá hafa a.m.k. gert tilraun til að koma hér á framfæri ýmsum hugmyndum þeirra sem óttast það sem á eftir muni fylgja ef það frv. til sveitarstjórnarlaga sem hér liggur fyrir nær fram að ganga óbreytt. Þess vegna vil ég gera það að mínum lokaorðum í 2. umr., herra forseti, að ríkisstjórnin íhugi það vandlega að verða við þeim þjóðarvilja sem birtist í þeim fundum, þeim skrifum og þeim áköllum sem koma frá þeim sem biðja um að hægar sé farið í sakirnar, að hlutir séu skoðaðir betur áður en þeir eru samþykktir hér. Það liggur ekki svo á að ekki megi gefa einhverja mánuði til frekari skoðunar til þess að sú niðurstaða sem meiri hlutinn hér á Alþingi síðan sameinast um geti verið meira í samræmi við meirihlutavilja þjóðarinnar.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.