Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 14:10:48 (6272)

1998-05-07 14:10:48# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[14:10]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Um allt land er fólk núna að störfum, á barnaheimilum, í skólum, verksmiðjum, í höfnum, á heimilum og skrifstofum. Já, og bændur við sauðburð.

Áður en ég kom inn á hið háa Alþingi stundaði ég ýmis störf í atvinnulífinu, við kennslu auk heimilisstarfa. Alls staðar var tíminn verðmæti. Sá tími sem við njótum við tómstundir, í samvistum við ættingja okkar og vini eða við nytsöm störf er mikils virði. Ævi okkar er takmörkuð og það ber að fara vel með tímann.

Hér á hinu háa Alþingi sýnist mér fólk telja sig hafa höndlað eilífðina. Reglulega tvisvar á ári er tíminn einskis virði. Það má sóa honum einmitt þegar mest liggur við að stunda markviss og skipuleg vinnubrögð og skiptast raunverulega á skoðunum og hlýða á rök hvers annars. Þá fara hv. þingmenn í einhvers konar hanaslag þar sem minni hlutinn reynir með málþófi að kúga meiri hlutann til að afgreiða ekki mál. Þetta eru hvorki lýðræðisleg vinnubrögð, þingræðisleg né skynsamleg. Allir þingflokkar hafa í fortíðinni tekið þátt í þessum leik.

Langar ræður fara fyrir ofan garð og neðan hjá áheyrendum. Athyglin dofnar og allt of fáir hv. þingmenn fylgjast að jafnaði af athygli með þessum löngu ræðum. Umræðan missir marks og skilar litlu. Þetta eru ekki góð vinnubrögð, herra forseti.

Herra forseti. Ég met hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur mjög mikils og hlýði gjarnan á skilmerkilegar ræður hennar með athygli. Því vil ég spyrja hana hvað henni finnist um þessi vinnubrögð og hvort hún sé ekki til í að vinna með mér og öðrum hv. þm. að breytingum á þingsköpum svo umræða geti orðið markvissari, skipulagðari og skili betri lögum frá hinu háa Alþingi. Hv. þm. geta allir vænst þess að lenda í stjórnarandstöðu að loknum næstu kosningum nema þeir sem ekki hyggjast bjóða sig fram aftur. Þess vegna ættu hv. þm. að geta tekið saman höndum um að gera þingstörfin skipulegri.