Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 14:21:17 (6277)

1998-05-07 14:21:17# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[14:21]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Stuðningur við þau drög að svæðisskipulagi sem nú liggja fyrir hlýtur auðvitað að helgast af því hvernig það skipulag liggur fyrir þegar farið hefur verið yfir athugasemdir og ráðast nokkuð af því til hverra af þeim athugasemdum hefur verið tekið tillit.

Ég gat áðan um það að gerðar eru alvarlegar athugasemdir við það hvernig litið er til beitarafnota á miðhálendinu, hvernig svæðisskipulagsnefndin hefur skoðað þær upplýsingar eða kannski ekki skoðað þær upplýsingar sem liggja fyrir um gróðurfar. Það eru mjög alvarlegar athugasemdir.

Ég benti líka á það að ýmsir aðilar, fleiri en orkugeirinn, eru með veigamikla gagnrýni. Ég fór ekki yfir allt það sem fyrir liggur í þeirri gagnrýni vegna þess að til þess vinnst auðvitað ekki tími en mér finnst mörg þau gagnrýnisatriði sem tínd eru til vera þess eðlis að það ætti að flýta sér hægt og það skipti verulegu máli að þegar sett verður skipulag fyrir miðhálendið sé um það nokkuð víðtæk sátt. Til þess að sú sátt verði þarf að taka tillit til margra þátta sem bent er á. Ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig þeir verða samræmdir en svo ég endurtaki það hlýtur stuðningur við svæðisskipulag m.a. að ráðast af því hver niðurstaðan verður.

Síðan vil ég gjarnan endurtaka aftur það sem áður hefur komið fram hjá mér. Ef við gerum svæðisskipulag sem næst sæmileg sátt um varðandi miðhálendið er líka mikilvægt að við höfum stjórnsýslu sem getur þá gengið eftir því að það svæðisskipulag haldi.