Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 14:23:22 (6278)

1998-05-07 14:23:22# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[14:23]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta finnst mér ekki skýrt hjá hv. þm. Svæðisskipulagstillagan liggur fyrir. Athugasemdir hafa komið fram. Hv. þm. mun ekki hafa nýtt sér rétt til athugasemda. Það hefur sá sem hér talar gert og unnið er að því af nefndinni að leggja fyrir lokatillögu þannig að óvíst er hvort hún komi til frekari umsagnar. Spurningin er: Ætla menn að breyta farveginum þannig lagalega séð að ekki verði hægt að staðfesta þetta svæðisskipulag? Það er mjög veigamikið atriði. Ég á ekki von á því að það verði léttara undir fæti að standa gegn þeim kröfum sem hafa komið fram, sérstaklega frá orkuiðnaðinum í landinu, þó að aðrir kæmu að því verki að móta það skipulag en þar hafa verið að verki. Það er ótti minn í sambandi við þá stöðu mála. Ég bið menn því um að huga að þessu, a.m.k. þá sem hafa verndarhagsmuni í huga í sambandi við miðhálendið.

Ég spyr hv. þm. vegna þess að þingmaðurinn var að tala um stjórnsýsluna: Hvernig stendur á því að hv. þm. greiddi atkvæði með lögum um skipulags- og byggingarmál sl. vor, það mun vera rétt um það bil ár síðan það var gert, þar sem afnumin var sú vinnulína sem notuð var í sambandi við svæðisskipulagsgerð og skipulagsvald á miðhálendinu fært samkvæmt því frv. sem þingmaðurinn greiddi atkvæði með og þingmenn jafnaðarmanna gerðu enga athugasemd við í fyrra að þannig var staðið að máli en nú er eitthvað allt annað upp á teningnum?