Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 19:14:04 (6283)

1998-05-07 19:14:04# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[19:14]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér hefur staðið mikil og löng umræða um sveitarstjórnarmál eða frv. til sveitarstjórnarlaga eins og það heitir. Er fróðlegt að reyna að átta sig á því hvers vegna þessi umræða hefur staðið svona lengi og hvað hefur komið út úr þessari umræðu. Ég held að það geti ekki hafa farið fram hjá neinum þeim sem hefur fylgst með umræðunni að um mikið grundvallarágreiningsmál er að ræða. Það eru í raun tvær mjög andstæðar skoðanir sem takast á varðandi 1. gr. frv., það grundvallaratriði hvort skipta eigi öllu landinu í sveitarfélög upp á efstu jökultoppa eða hvort eitthvert annað skipulag kæmi til greina.

[19:15]

Það er orðið svo langt síðan ég tók til máls í þessari umræðu að mér finnst rétt að rifja það upp að ég ásamt hv. þm. Ögmundi Jónassyni átti hlut að ákveðnu samkomulagi sem við töldum okkur vera að gera og héldum að við værum að vinna að ákveðinni lausn á þessu máli vegna þess, hæstv. forseti, að ég held að það sé alveg ljóst að á Alþingi er meiri hluti fyrir þeirri tillögu sem liggur fyrir í 1. gr. og gengur út á það að landið skiptist í staðbundin sveitarfélög, þ.e. að skipta hálendinu öllu upp á milli sveitarfélaga. Ég held að raunveruleikinn sé að hér sé meiri hluti fyrir því. Þar af leiðandi vildum við ásamt nokkrum fleiri þingmönnum leggja okkar af mörkum og gera allt til þess að reyna að finna lausn sem gæti sætt þessi tvö mjög svo andstæðu sjónarmið.

Ég trúi því enn þá að sú tillaga sem hæstv. umhvrh. lagði fram, ég held það hafi verið í síðustu viku, dugi býsna langt til að brúa þetta mikla bil til að fá þann hluta landsmanna sem m.a. hefur látið til sín heyra á suðvesturhorninu til að sætta sig við skipan mála. Við getum deilt um skipan fyrirhugaðrar nefndar og við getum reynt að finna betri lausn á því máli en ég hefði óskað og ég hefði talið það mjög brýnt að við afgreiddum það frv. samhliða þessu frv. og ég harma það mjög að sú leið skuli ekki hafa verið farin. Ég held að þegar það frv. --- ég ítreka að ég treysti því að það verði lagt fram á haustþingi --- en ég hygg að þá muni endurtaka sig að einhverju leyti sú umræða sem hér hefur átt sér stað. Ég held því að það hefði verið skynsamlegra annaðhvort að klára málið nú með því að samþykkja þessi frv. samhliða eða að fresta þeim báðum þannig að þessi mál yrðu öll afgreidd í einu pakka. Ég get auðvitað ekki leynt þeirri skoðun minni, hæstv. forseti, að ég óttast að það sé líka mikil andstaða við þá leið sem lögð er til í tillögu hæstv. umhvrh. og að sú andstaða geti orðið til þess að breyta þessu máli eitthvað eða tefja það.

Í umræðunni hefur verið bent á ýmsar leiðir sem væru færar eins og að fresta gildistöku 1. gr. þar til niðurstaða er fengin varðandi skipulags- og byggingarlögin. Það eru ýmsar leiðir færar. En því miður finnst mér að hér innan veggja sé ekki vilji til þess að ná víðtæku samkomulagi um þetta mál og ekkert hefur verið rætt við stjórnarandstöðuna um það að leita lausna. Það hefur mjög alvarlegar afleiðingar ef mál eins og þessi eru knúin í gegn gegn vilja --- nú ætla ég ekki að leyfa mér að tala í nafni einhvers meiri hluta --- a.m.k. ýmissa sem hafa tjáð sig og búa á suðvesturhorninu og eru mjög andvígir þessari breytingu og óttast hana, og það ekkert að ástæðulausu, hæstv. forseti. Það má alls ekki gera lítið úr þeirri andstöðu sem fram hefur komið og m.a. birtist okkur þingmönnum þessa dagana í bréfasendingum gegnum tölvukerfið og í gegnum ályktanir sem streyma til okkar. Ótti fólks stafar af því að margir hafa upplifað að víða er þrengt að útivistarfólki. Skotveiðimenn kvarta yfir að því að verið sé að loka svæðum, það er verið að afmarka hvar má tína ber og hvar má tjalda o.s.frv., oft auðvitað af nauðsyn og í fullum rétti landeigenda. En þarna er um að ræða umræðu sem snertir mjög marga.

Þá er því heldur ekki að leyna, herra forseti, að þær hugmyndir sem fulltrúar Svínavatnshrepps lögðu fram um skipulag Hveravalla urðu til þess að mjög margir hrukku við og spurðu: ,,Hvað á eiginlega að gera á hálendi Íslands? Á að leyfa að þar séu reistar þjónustumiðstöðvar, bensínstöðvar o.s.frv. eða á þetta allt að vera friðland þar sem öll byggð og mannvirki eru mikið takmörkuð?`` Það er margt sem veldur því að þessi mikla andstaða er til staðar. Þetta er landsvæði sem hefur mikla sérstöðu. Þarna eru margar helstu náttúruperlur Íslands. Þetta er svæði sem við reynum að beina ferðamannastraumnum inn á og mjög miklu máli skiptir hvernig haldið verður á skipulags- og byggingarmálum á þessu svæði. Því er eðlilegt að sem flestir komi að því verki.

Ég ætla ekki að fara að endurtaka þá umræðu sem hér átti sér stað við upphaf þessarar umræðu um hvað það þýði í raun og veru að einhver nefnd annist svæðiskipulagið og hver verði svo réttur sveitarfélaganna hvað varðar aðalskipulag og deiliskipulag og að hvaða leyti hægt sé að stöðva óæskilegar framkvæmdir eða eitthvað sem kann að valda miklum mótmælum. En það er alveg ljóst í mínum huga að ef þetta er ákveðið í svæðisskipulagi --- reyndar megum við ekki gleyma því að þjóðlendurnar munu hafa mikil áhrif á þessi mál öll líka --- þá verða sveitarfélögin auðvitað að miða við svæðisskipulagið. Þau hafa ekki leyfi til þess að byggja vegi, þjónustumiðstöðvar eða eitthvað slíkt á svæðum sem hafa verið friðuð. Löggjafinn hefur líka alltaf möguleika á því að friða svæðin og svo mörg önnur lög snerta þetta dæmi allt saman eins og náttúruverndarlög, skipulags- og byggingarlögin, lög um þjóðgarða og fleiri. En það skiptir miklu máli að hafa þarna heildarsýn. Ég vil því að við tölum af mikilli virðingu um báða aðila þessa máls, þ.e. þá sem leggja áherslu á að skipuleggja hálendið sem heild og vilja að íbúar suðvesturhornsins komi þar að og auðvitað líka um viðhorf sveitarfélaganna á þessu svæði og íbúanna þar. Ég sé í ályktunum sem hafa borist að ýmsum sveitarstjórnarmönnum finnst sem umræðan sé mjög niðrandi í þeirra garð og að umræðan lýsi vantrausti á sveitarstjórnarmenn. Því er ekki að leyna að auðvitað gætir vissrar spennu og gagnrýni og menn óttast að það kunni að verða gripið til einhverra framkvæmda eða samþykktar einhverjar framkvæmdir sem margir teldu vera hálendinu mjög skaðlegar.

Það má líka spyrja sig, eins og ég gerði reyndar við 1. umr., um það hvaða afl og hvaða peninga þessi litlu sveitarfélög hafi til þess að vinna mjög nákvæmt skipulag. Það væri miklu betra að þar kæmu fulltrúar allra sveitarfélaganna að og að það skipulag og þær ákvarðanir sem því fylgdu yrðu þá hugsanlega að einhverju leyti kostaðar úr sameiginlegum sjóðum ef um það er sameining. En þetta er auðvitað allt saman framtíðarpólitík.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég er heldur leið yfir því hvernig þessi umræða hefur þróast. Mér finnst, ef eitthvað er, að línur í báðar áttir eða gjáin sem hefur verið frá upphafi milli manna í þessu máli hafi frekar breikkað en hitt og við eigum býsna langt í land með að ná saman um þetta mál sem ég hefði talið það langæskilegasta og í raun alveg lífsnauðsynlegt fyrir þjóðfélag okkar því að ég óttast að miklar deilur eigi eftir að verða um þessi mál á næstu árum og verði frv. að lögum með þessum hætti þá verður örugglega fylgst býsna grannt með þeim sveitarfélögum sem þarna eiga hlut að máli.

Áður en ég lýk að fjalla um það sem þessi umræða hefur mestmegnis snúist um, þ.e. hálendismálin, vil ég minna á að þingmönnum hafa borist fjöldi bréfa fyrst, fremst til þess að mótmæla því að landinu verði skipt upp á milli sveitarfélaganna. Ég hef fengið allnokkur tölvubréf og önnur bréf og ályktanir sem ég ætla ekki að lesa hér upp. En mér finnst þetta sýna að fólk er býsna vakandi yfir þessu máli eins og reyndar fundir sem haldnir hafa verið í Reykjavík sýna. En til að auðvelda framtíðina og framgang þessara mála væri forvitnilegt ef við hefðum fengið að heyra eitthvað frá þeim sveitarfélögum sem munu fá þessi svæði til yfirráða, þ.e. hvaða hugmyndir þau hafa um skipulag, nýtingu og framtíðina. En slíkt hefur ekki komið fram og eina dæmið er auðvitað hið fræga dæmi um Hveravelli sem hefur hrætt marga.

Hæstv. forseti. Aðalástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs að nýju við þessa umræðu er aðrar greinar frv. og þær umræður sem hér hafa orðið um þær. Það er oft til góðs að umræður dragist á langinn vegna þess að það gefur ýmsum aðilum oft kost á því að skoða það um hvað málin snúast og skemmst er frá því að segja, hæstv. forseti, að ýmsir hafa verið að skoða þetta frv. og vakið athygli á ýmsum málum. Ekki má gleyma því að við erum að ræða væntanlegan lagabálk, heildarlög um sveitarstjórnarmál. Í frv. er heildaryfirlit yfir sveitarstjórnarmálin, stjórnarhætti o.fl. Þetta er frv. upp á hvorki meira né minna en 105 greinar. En menn gætu haldið af umræðunni að það væri bara ein grein.

Mig langar til að koma inn á nokkur atriði vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur og vegna ábendinga og bréfa sem okkur hafa borist. Vil ég upplýsa í því sambandi það sem reyndar hefur komið fram áður í umræðunni, að þegar hv. félmn. afgreiddi málið frá sér var samþykkt í nefndinni að taka málið aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. til að fara yfir umsagnir sem beðið var um frá hv. allshn. En síðan hefur komið í ljós að það eru nokkur atriði sem við vildum gjarnan skoða betur vegna ábendinga sem okkur hafa borist. Mig langar til þess að víkja aðeins að þeim hér og auk þess að nokkrum öðrum greinum sem ræddar hafa verið í umræðunni.

[19:30]

Þar er fyrst að nefna að hv. félmn. barst bréf frá Félagi löggiltra endurskoðenda. Bréfið barst býsna seint en þessar ábendingar eru þess eðlis að ég held að við í hv. félmn. getum ekki annað en tekið þær til skoðunar. Reyndar hafa nokkrir ræðumenn sagt frá þessu athyglisverða bréfi en hér er auðvitað um mjög sérstakt mál að ræða. Hér er einfaldlega verið að benda á að það fyrirkomulag sem Reykjvíkurborg og Hafnarfjarðarbær hafa haft við endurskoðun reikninga sinna hjá stofnunum sínum standist ekki. Í Reykjavíkurborg sér endurskoðun borgarinnar um verkið og endurskoðendurnir eru ráðnir af Reykjavíkurborg eða af borgarstjórn.

Stjórn Félags löggiltra endurskoðenda bendir á að þetta fyrirkomulag standist ekki nýlega samþykkt lög um endurskoðendur. Það er ekki langt síðan lögin voru endurskoðuð. Þau eru nr. 18/1997 og þar eru gerðar miklar kröfur til endurskoðenda þannig að þeir haldi sínum rétti. Þeir vilja meina að fyrirkomulagið sem nú er hjá Reykjavíkuborg og Hafnarfirði standist ekki þessi lög. Þetta er auðvitað mjög alvarleg athugasemd.

Ég vil upplýsa að þetta var töluvert mikið rætt í nefndinni en okkur láðist að gera samanburð við þessi nýju lög. Reyndar var lögð mikil áhersla á það af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga að ekki yrði hróflað við þessu fyrirkomulagi. Það gengur hins vegar ekki, hæstv. forseti, að hér sé um stofnanir eða fyrirkomulag að ræða sem ekki stenst lög. Það hefur komið fram í ábendingum að þeir sem hingað til hafa endurskoðað fyrir Reykjavíkurborg gætu einfaldlega misst réttindi sín ef þessu fyrirkomulagi verður ekki breytt. Þetta mál verðum við að fara betur ofan í. Það er mjög brýnt.

Þarna er einfaldlega um það að ræða að jafnvel við sem erum að setja lögin áttum okkur ekki alltaf á samhenginu og því hve margt hefur breyst í stjórnarháttum okkar. Hér er auðvitað um það að ræða, að skilja endurskoðunina frá fyrirtækinu og að hlutlaus aðili eigi að koma að endurskoðun þannig að henni sé hægt að treysta.

Ég hef heyrt því haldið fram að menn telji að fyrirkomulagið hjá borginni sé svipað og hjá Ríkisendurskoðun sem heyrir undir Alþingi en það er auðvitað engan veginn sambærilegt. Alþingi hefur það hlutverk að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og til þess er m.a. Ríkisendurskoðun sem endurskoðar allar ríkisstofnanir. Reyndar kann þar að vera einhver brotalöm enn þá, en Ríkisendurskoðun er auðvitað ekki og á ekki að vera háð framkvæmdarvaldinu. Það er því alls ekki sambærilegt við stöðu Ríkisendurskoðunar eða það að Reykjavíkurborg ræður sína endurskoðendur.

Ég sé ekkert sem mælir á móti því að Reykjavíkurborg og Hafnarfjörður bjóði þetta verk einfaldlega út og endurskoðendur geti þá keppt um hið mikla verk sem það hlýtur að vera að endurskoða reikninga Reykjavíkurborgar. Það er a.m.k. betra en að þeir endurskoðendur sem þar eru, og ég veit ekki annað en séu hinir mætustu menn sem mikið mark hefur verið tekið á í gegnum árin missi réttindi sín. Þetta er því mjög athyglisvert mál sem þarf að skoða.

Annað erindi sem borist hefur er bréf frá Gísla Jónssyni prófessor emeritus sem vill vekja athygli á einni þeirra greina, sem hér hefur töluvert verið rædd, en það er 7. gr. sveitarstjórnarfrv. Sú tillaga var sett fram að beiðni Sambands íslenskra sveitarfélaga og með samþykki félmrn. um að sveitarstjórnirnar settu sér ákveðna stefnu varðandi arð af fyrirtækjum sínum. Hér er mjög margt að skoða, hæstv. forseti, og ég vil að það komi mjög skýrt fram að minn skilningur á þessari tillögu er sá að hér sé séð til þess að lagastoð sé fyrir því að að t.d. fyrirtæki borgarinnar, eins og hitaveitan og fleiri, fái arð af rekstri sínum, eðlilegan arð, hvernig sem menn svo skilgreina hann.

Við hljótum auðvitað að taka mið af ábendingum umboðsmanns Alþingis sem hefur bent á að þetta sé gjaldtaka en ekki skattlagning. Alþingi fer með skattlagningarvaldið og þar af leiðandi hafa sveitarfélögin ekki heimild til að selja þjónustu á öðru verði en fyrst og fremst til að greiða fyrir þá þjónustu sem veitt er, auk þess að standa undir eðlilegum kostnaði, endurnýjun og slíku. Ég lít svo á að hér sé um að ræða takmörkun gagnvart sveitarfélögunum. Það verður auðvitað að segjast eins og er að greinin er býsna opin. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hér er um ákaflega viðkvæmt mál að ræða vegna þess að t.d. Reykjavíkurborg hefur mjög miklar tekjur af hitaveitunni. Ég held að Reykjavíkurborg hafi haft 900 millj. í tekjur af henni á síðasta ári og þetta er auðvitað mjög stór tekjustofn hjá borginni.

Borgina mundi muna mjög mikið um það ef þessi tekjustofn væri af henni tekinn. Það eru greinilega áhöld um það hvort þetta stenst og hvað þarna er á ferðinni. Er þetta gjald eða skattur og er eðlilegt að sveitarfélög hafi svona miklar tekjur af þjónustu við neytendur sína? Eins og hv. þm. hafa orðið varir við hafa sveitarstjórnarmenn skipst á skoðunum um þetta mál. Borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur að sjálfsögðu varið þennan rétt og telur að þessi tillaga sé borginni mjög mikilvæg, eins og hún lítur út, meðan bæjarstjórinn í Garðabæ hefur bent á það sem ég var að tala um, að það sé ekki eðlilegt að hafa svo miklar tekjur af þjónustustofnun.

Hér er auðvitað um mjög viðkvæmt mál að ræða sem við hljótum að skoða mjög vel. Við eigum eftir að skoða það betur á næstunni, næstu mánuðum og hugsanlega á næsta þingi en gert hefur verið. Það verður að segjast að þessi tillaga kom býsna seint fram í umfjöllun nefndarinnar. Ég hefði viljað hafa meiri tíma til að átta mig betur á því hvað hér er um að ræða. Ég vil benda á að í ræðu sinni í þessari umræðu fór hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson mjög rækilega yfir þetta mál og varpaði fram spurningunni: Hvað er eðlilegur afrakstur? Hvað er eðlilegur arður? Er það 10% eða 7% eða 27%? Við hvað á að miða? Ég held því að hér sé á ferðinni mál sem löggjafinn þarf að skoða mjög rækilega í framhaldi af tillögunni en ítreka enn og aftur að þetta er afar viðkvæmt gagnvart sveitarfélögunum í landinu.

Fleiri þingmenn hafa komið inn á þetta í umræðunni, svo sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir og hv. þm. Sturla Böðvarsson. Þau fögnuðu því að það yrði þó sett regla um þetta en eins og ég hef rakið þá eru skiptar skoðanir um þetta mál.

Varðandi nokkrar aðrar greinar sem mikið hafa verið til umræðu og gagnvart þeim þingmönnum sem hér hafa talað virðist mér nauðsynlegt að það komi skýrt fram hvað var rætt í hv. félmn. Ég verð að rifja upp, hæstv. forseti, að við 1. umr. um þetta mál auglýsti ég eftir athugasemdum þingmanna við þetta frv. Hér á hinu háa Alþingi eru mjög margir reyndir sveitarstjórnarmenn. Hér eru margir sem setið hafa um lengri eða skemmri tíma í sveitarstjórnum. Hér eru allmargir sem hafa verið sveitarstjórar eða bæjarstjórar og fólk með mikla reynslu í þessum málum. Því miður gerðist það sama við 1. umr. og gerst hefur nú við 2. umr. að öll athyglin hefur beinst að 1. gr. þessa frv. og þess vegna, hæstv. forseti, fengum við í nefndarstarfinu, mjög litla leiðsögn frá þingmönnum. Því miður gildir það sama um sveitarstjórnir landsins.

Sveitarstjórnunum fannst greinilega frv. vera til bóta og að hér væri tekið á ýmsum góðum málum. Þar voru ekki gerðar miklar athugasemdir við sjálft frv. en við 2. umr. hefur síðan komið í ljós að ýmsir af þessum reyndu sveitarstjórnarmönnum hafa kannski fyrst við undirbúning 2. umr. lesið þetta frv. almennilega. Þeir hafa komið með ýmsar spurningar og ábendingar. Þeir hafa talað um að þetta væri metnaðarlaust frv. og hér væri ekki horft til framtíðar o.s.frv. Ég hefði nú óskað eftir því, hæstv. forseti, að þessi sjónarmið hefðu komið fram við 1. umr. og þessum ábendingum hefði verið komið á framfæri. Með því móti hefði verið hægt að skoða þær betur í vinnunni við frv.

Ég hef sjálf ekki setið í sveitarstjórn. Maður býst við því að það séu fyrst og fremst sveitarstjórnarmenn sem hafi ýmsar góðar ábendingar. Vissulega hafa vaknað margar spurningar við umræðuna, t.d. varðandi 12. gr. þar sem fjallað er um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Nokkrir þingmenn hafa nefnt þessa grein og ég held ég muni það rétt og get flett því upp í mínum gögnum að í umsögnum voru nánast engar athugasemdir gerðar við þessa grein. Einn einasti aðili, Akureyrarbær, spurði hvort ekki væri rétt að hafa rýmri mörk á fjölda sveitarstjórnarmanna.

Ég verð að segja, hæstv. forseti að ég hefði gjarnan viljað skoða þetta mál nánar.

[19:45]

Hér í a-lið 12. gr. er miðað við að þar sem íbúar eru innan við 200 skuli vera þrír til fimm aðalmenn. Maður getur spurt sig: Er þriggja manna sveitarstjórn ekki allt of fámenn? Hefði ekki verið rétt að miða regluna við fimm?

Við getum skoðað þetta mál nánar á milli 2. og 3. umr. Þegar við fjölluðum um kosningalögin gerðum við töluverðar breytingar á þeim viðmiðunum sem þurfti hvað varðar undirskriftir áður en framboðslisti er lagður fram og reyndum að búa til einhverja lógíska reglu og kannski hefðum við þurft að skoða þetta dæmi líka. Þar er skemmst frá að segja, hæstv. forseti, að vinna nefndarinnar beindist að mjög miklu leyti að umræðunni um hálendismálin og það komu sem sagt ekki fram ábendingar eða vilji til þess að breyta greininni fyrr en núna í umræðunni, við 2. umr., að nokkrir þingmenn hafið sérstaklega máls á þessu. Þá rifjast upp fyrir mér að það hafa líka komið fram töluverðar athugasemdir varðandi 6. gr. um lágmarksíbúatölu í sveitarfélögum og ég ítreka þá skoðun mína að í raun og veru finnst mér talan 50 manns alveg út í bláinn. Ég virði hins vegar þá skoðun að menn óttast að sú þróun sem hefur átt sér stað að undanförnu og það mikla skrið sem er á sameiningu sveitarfélaga gæti hrokkið í bakgír ef farið væri að breyta þessu, af því að þetta er víða viðkvæmt mál og ég ætla að virða þau sjónarmið.

Ég held að það hljóti að verða nauðsynlegt mjög bráðlega að breyta þessari tölu því að þessi tala nær náttúrlega ekki nokkurri átt, miðað við öll þau verkefni og þá þjónustu sem sveitarfélögunum er ætlað að inna af hendi. Ég tek því undir þá gagnrýni sem hefur komið fram á 6. gr. og ég held að það hljóti að koma fljótlega að því að þessu verði breytt.

Einnig hefur orðið nokkur umræða um 19. gr. frv. Ég ætla ekki að vitna í einstaka þingmenn heldur reyna aðeins að fara í gegnum þær greinar sem hafa helst verið gagnrýndar út frá sjónarmiði nefndarinnar. Ég tek skýrt fram að ég er ekki að setja mig í spor ráðherrans eða svara neitt fyrir hann, hann verður að sjálfsögðu að svara fyrir sig. Ég er eingöngu að reyna að skýra þetta út frá umræðunni í nefndinni og ekki síst að reyna aðeins að meta þessar athugasemdir út frá því hvort einhver ástæða sé til þess að skoða þær nánar í umræðunni.

Það var sem sagt 19. gr., um hæfi sveitarstjórnarmanna og vanhæfi. Allnokkrir þingmenn hafa komið inn á þetta í umræðunni og það kann vel að vera að skilgreina þurfi betur ákvæði í lögum hvenær sveitarstjórnarmanni beri að víkja, þ.e. eins og segir hér í 1. mgr. 19. gr., með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að afstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.``

Síðan eru fleiri skilgreiningar.

Það kann að vera að í litlum eða tiltölulega litlum og fámennum sveitarfélögum geti menn lent í miklum vanda með þetta ákvæði. En það verður þá að koma í ljós. Ég held að það sé mjög af hinu góða að reyna að setja reglur því að það verður að segjast eins og er að það er alveg ótrúlegt hve margir átta sig illa á því þegar um hagsmunaárekstra er að ræða og á þessu úrræði að víkja sæti og víkja af fundi og kalla inn varamann þegar einhver slík mál eru til umfjöllunar sem snerta persónulega hagsmuni. En hér hafa komið fram áhyggjur um að þetta gæti reynst litlum sveitarfélögum erfitt og ég held það verði bara að láta á það reyna, ég held að það sé nauðsynlegt að fá ákvæði af þessu tagi inn í lögin.

Það er svo annað mál sem kemur fyrir síðar í lögunum sem snertir það hvenær menn eru kjörgengir og hverjir megi sitja í stjórnum og ráðum á vegum sveitarfélaganna. Þar er einmitt verið að reyna að setja reglur til þess að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði þetta að umtalsefni og ég held líka hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, þetta kann auðvitað að geta orkað tvímælis. Það kom líka fram í ræðu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur að menntmrn. hefði túlkað þessa reglu með nokkuð sérstæðum hætti og í raun sagt að skólastjórar mættu ekki sitja í sveitarstjórnum vegna þess að þar væri fjallað um þeirra mál.

Þetta er orðið býsna erfitt viðfangs. Ef skólastjóri er kjörinn í sveitarstjórn þarf hann þá alltaf að víkja þegar skólamál eru til umræðu? Hvað verður þá um sérþekkinguna á málefnunum sem um er að ræða? Að vísu er hægt að kalla menn til og menn geta vikið þegar kemur að atkvæðagreiðslu og eitthvað slíkt, en þetta kann að verða vandmeðfarið. Þarna er um sama tilganginn að ræða, að reyna að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og að menn víki sæti og kalli þá inn varamenn. Ég hygg að þetta sé ekki vandamál í stærri sveitarfélögum landsins en það kann að gilda hið sama hvað þetta atriði varðar eins og hér 19. gr. um hæfi, að þetta kunni að verða litlum sveitarfélögum erfitt.

Hins vegar er það þannig, hæstv. forseti, að með þeim mikla verkefnatilflutningi sem hefur átt sér stað til sveitarfélaganna hefur hin mikla sameiningaralda fylgt í kjölfarið. Sveitarfélögin eru að stækka og þar með mun draga úr þessum vandamálum. Reynslan verður að skera úr því hvort hér er um of ströng ákvæði að ræða.

Í báðum ræðum sínum vék hv. þm. Gísli S. Einarsson að athyglisverðri hugmynd sem hann hefði betur komið með við 1. umr. málsins. Það varðar það atriði hvort ekki eigi að skylda sveitarstjórnir til þess að taka upp fundi, sem sagt að fundir séu teknir upp á segulband þannig að það liggi algjörlega skýrt fyrir hvað hafi verið rætt á viðkomandi fundum. Mér finnst þetta mjög athyglisverð hugmynd því að þess eru dæmi og hafa orðið átök og dómsmál vegna þess að menn hafa tekist á um túlkanir á ummælum og jafnvel ákvörðunum og menn skilið umræður á mismunandi vegu. Þá væri auðvitað mjög til bóta að allt slíkt væri til á böndum líkt og tíðkast á hinu háa Alþingi. Það er auðvitað ekki mikill kostnaður sem þessu fylgir fyrir sveitarfélögin, það þarf ekki að setja upp heilu stúdíóin út af þessu. Mér finnst þetta mjög athyglisverð hugmynd en hún hefði þurft umræðu og að komast til umsagnar til sveitarfélaganna þannig að ég hygg að hún verði að bíða betri tíma. En auðvitað er ekkert sem bannar sveitarfélögunum að gera þetta. Ég held að hv. þm. Gísli Einarsson ætti að taka sig til og skrifa eins og eina blaðagrein um þetta og koma þessari hugmynd á framfæri. En hugmynd hans var sú að það bæri að skylda sveitarfélögin til þess að gera þetta.

Það leiðir hugann að því, sem hefur komið töluvert við sögu í umræðunni, það hvort ríkisvaldið sé að skipta sér um of af sveitarfélögunum, hvort verið sé að sníða þeim of þröngan stakk hvað varðar starf þeirra og stefnu og auðvitað er það alltaf til umræðu og í rauninni ætti ekki að þurfa að skylda sveitarfélögin til jafnsjálfsagðra og eðlilegra hluta og að taka upp fundi. Sums staðar er bæjarstjórnarfundum útvarpað í bæjarfélögum og það kann vel að vera að þeir séu teknir upp í leiðinni. En það eru fjöldamargir fundir aðrir sem haldnir eru á vegum sveitarfélaganna og spurning hvað menn eiga að ganga langt í því að taka þá alla upp á band en stundum getur það skipt miklu máli.

Það hefur verið vikið að ýmsum öðrum greinum eins og varðandi ráðningu framkvæmdastjóra og hvort þar sé verið að sníða sveitarfélögunum of þröngan stakk. Þetta var töluvert rætt í nefndinni og komu fram óskir frá, ef ég man rétt, Sambandi ísl. sveitarfélaga og það var orðið við beiðni þeirra um breytingu. Það verður því meiri sveigjanleiki og sveitarfélögin ráða því hvernig þau semja við sveitarstjóra sína en meginreglan er sú að þar ræður þriggja mánaða uppsagnarfrestur eins og eðlilegt má teljast.

Ég ætla þá aðeins að víkja að 90. og 91. gr. sem hafa nokkuð komið við sögu í umræðunni en varða sameiningu sveitarfélaga. Í umræðunni hafa komið fram algjörlega andstæð sjónarmið, annars vegar hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni, sem fagnaði því hvernig málin eru fram sett, en hins vegar var hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson með ákveðnar spurningar í þessu sambandi. Hann spurði hvort heimilt væri að eitt sveitarfélag gæti verið samsett úr átta einingum og ein eining í hverju kjördæmi á landinu. Í sjálfu sér er ekkert sem bannar það. Hins vegar hlýtur að gefa auga leið að slík samvinna og sameining væri heldur óhagkvæm og lítið gagn í henni þannig að ég held að við verðum að treysta á skynsemi fólks hvað þetta varðar. Sameining sveitarfélaga, þó hún verði yfir kjördæmamörk, verður fyrst og fremst í þeim tilgangi að hægt sé að nýta þjónustu sameiginlega og til þess að efla sveitarfélögin. Ég held að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af þessu og eðlilegt ákvæði en samt sem áður vildi meiri hluti félmn. láta það koma fram að hér væri átt við nágrannasveitarfélög. Þarna hlýtur skynsemin að ráða.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vék að nokkru sem ég er honum í raun og veru algjörlega sammála um, og mér finnst að við ættum a.m.k. að skoða aðeins betur á milli 2. og 3. umr. Það er það atriði að með 91. gr. sé verið að taka réttinn af fólki til þess að greiða atkvæði aftur um sameiningu. Við skulum segja að fjórir hreppar ætli að sameinast og sameining er samþykkt í þremur þá gengur sameiningin í gildi. En sannleikurinn er sá að það var alls ekki hugmyndin sem lagt var upp með og það kynni að koma upp sú staða að meiri hluti íbúa á svæðinu væri ekki samþykkur því að það verði þriggja hreppa sameining. Mér finnst að þetta sé nokkuð sem þyrfti að skoða betur því að það getur ekki verið meiningin að gera sameiningu sveitarfélaga eitthvað ólýðræðislegri en verið hefur.

[20:00]

Maður getur ekki gefið sér það að fólk sé alltaf sammála niðurstöðunni sem verður og margvísleg sjónarmið geta komið upp eins og dæmin sanna, þó að í nánast öllum, og ég held í öllum tilvikum þar sem atkvæði hafa verið greidd að nýju um sameiningu færri sveitarfélaga en lagt var upp með, þá hefur sameiningin verið samþykkt vegna þess að fólk hefur séð sér hag í því. Það er auðvitað spurning hvort ekki væri rétt að ávallt færi fram atkvæðagreiðsla um það sem kemur út úr fyrri kosningu, og að greidd verði um það atkvæði að nýju. Mér finnst að þetta þurfi að skoðast betur.

Ég ætla aðeins að bakka, hæstv. forseti, af því að ég hljóp yfir athugasemd hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um 11. gr. frv. Það var eina greinin sem hann gerði athugasemd við í máli sínu og það tel ég harla gott ef hann hefur ekki fleiri athugasemdir við þetta mikla frv. Ég tek mikið mark á þeirri athugasemd því að hann hefur bent á að í frv. --- og það er ein af grundvallarbreytingunum --- er verið að þurrka út allan mun á milli sveitarfélaga. Það er bara skilgreiningin sveitarfélag, og þau hafa öll sömu skyldur gagnvart íbúum sínum. Hins vegar segir í 11. gr., með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórnir nefnast bæjarstjórn, hreppsnefnd eða sveitarstjórn.`` Spurningin er sú hvort ekki eigi að vera bara eitt samheiti yfir sveitarstjórnir, einingin heiti sveitarstjórn, en ef menn vilja kalla sig eitthvað annað, bæjarstjórn, hreppsnefnd, borgarstjórn eða hvað sem er, þá geti menn auðvitað notað það heiti. Það sé einfaldlega frelsi til þess en ekki þurfi að kveða á um það í lögum og greina í rauninni á milli sveitarfélaga eins og gert er í þessari grein.

Þetta atriði ræddum við ef ég man rétt sáralítið en mér finnst sjálfsagt að skoða þetta betur, hvort þarna sé ekki um ákveðna mótsögn að ræða og hreinn og klár óþarfi að tíunda þetta svona.

Í umræðunni hefur töluvert verið spurt eftir stefnu í sveitarstjórnarmálum. Það er nú forvitnilegt að spyrja sig að því, hæstv. forseti, hver stefna íslenskra stjórnvalda er hvað varðar sveitarstjórnarstigið. Ef ég ætti að draga hana saman miðað við undanfarin ár, þá er það kannski fyrst og fremst tvennt. Það er annars vegar sameining sveitarfélaga, að stuðla að sameiningu sveitarfélaga, og í öðru lagi að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna. Reyndar er ein undantekning þar á sem gerðist á síðasta ári þegar ákveðið var að taka atvinnuleysismálin af sveitarfélögunum og færa þau til ríkisins, sem sú sem hér stendur var afar ósátt við og er enn. Ég tel að slík mál eigi að vera hjá sveitarfélögunum sem næst fólkinu og þar sem þekkingin er, en það er búið og gert. Það má segja að með því að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga hafi ríkisvaldið verið að ýta undir sameiningu sveitarfélaganna. Ég held að þessi verkefnatilflutningur hafi og eigi eftir að hafa mikil áhrif á frekari sameiningu sveitarfélaganna.

Ég hef verið að fylgjast með þáttum sem ríkissjónvarpið hefur sýnt um kosningabaráttuna sem nú stendur yfir, en er kannski ekki mjög sýnileg nema að litlu leyti. Það hefur komið mjög skýrt fram í þessum þáttum að í öllum þeim sveitarfélögum sem hafa verið heimsótt hingað til, eru skólamálin efst á blaði, eðlilega. Skólamálin eru náttúrlega langstærsta verkefnið sem hefur verið fært yfir til sveitarfélaganna og eðlilegt að það vefjist svolítið fyrir þeim hvernig þar beri að halda á málum, hvernig menn geti styrkt sinn skóla og hver skólastefnan skuli vera, hvar á að sameina skóla o.s.frv. Það er mjög greinilegt hve skólamálin eru stór þáttur í þeirri umræðu sem nú á sér stað í sveitarfélögunum. Og verði málefni fatlaðra einnig færð yfir til sveitarfélaganna, sem reyndar hefur verið frestað, er þar líka um stóran og býsna þungan málaflokk að ræða sem getur reynst litlum sveitarfélögum afar erfiður.

Þetta hefur verið stefnan og ég vil líta svo á að í rauninni hafi verið mikil samstaða um þessa stefnu þó að t.d. á hinu háa Alþingi hafi einstaka þingmaður verið nokkuð gagnrýninn á þennan verkefnatilflutning. Þar nefni ég m.a. hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, sem er reyndar ekki staddur í þingsalnum. Hann hafði miklar efasemdir varðandi flutning grunnskólans til sveitarfélaganna.

Í framhaldi af vangaveltum um stefnu ríkisvaldsins hvað varðar sveitarstjórnarstigið getur maður spurt sig hvað sé verið að gera með þessum lögum. Er verið að stíga einhver skref í þá átt að styrkja sveitarstjórnarstigið og efla sjálfstæði þess? Er ástæða til þess? Þarf að ganga eitthvað lengra í því?

Ég held að við getum sagt að það sé bæði og. Annars vegar er verið að auka eftirlitið með sveitarstjórnarstiginu, og þá vil ég vekja athygli á því, hæstv. forseti, hve lítil umræða hefur orðið um eftirlitsnefndina eða eftirlitið með fjárhag sveitarfélaganna, sem kom fram í umsögnum að ýmsum fannst ganga býsna langt. Minnist ég þar m.a. umsagna frá Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem töldu þetta óþarft og það kom reyndar fram hjá fleiri sveitarfélögum. En þetta atriði hefur mjög lítið komið hér inn í umræðuna, en á þessu sviði er verið að auka eftirlit ríkisins með sveitarfélögunum en í ýmsum öðrum atriðum, kannski smávægilegri, er verið að færa meira sjálfstæði til sveitarfélaganna en kannski væri ástæða til að ganga lengra í því efni.

Hér er farin sú leið að verkefni sveitarfélaganna eru ekki talin upp, hvorki verkefni né skyldur sveitarfélaganna í smáatriðum. Slík ákvæði er að finna í fjölda laga og við höfum einmitt í hv. félmn. verið að fjalla um önnur lög þar sem sveitarfélögin koma mjög mikið við sögu, sem eru frv. til laga um húsnæðismál. Þar er dæmi um að sveitarfélögunum eru settar nokkrar skyldur og kveðið á um hvernig beri að standa þar að málum. Við höfum lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga og fleira og fleira þar sem sveitarfélögin koma við sögu. Og það má alltaf velta því fyrir sér hvort það sé rétt stefna að dreifa málunum svona eða á að skilgreina betur í lögunum um sveitarstjórnarmál hverjar skyldur þeirra eru? Á það betur heima hér?

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir fór mjög rækilega yfir skyldur sveitarfélaganna og hvar þær koma við sögu í lögum, en það má velta þessu fyrir sér fram og aftur, hvernig með þessi mál skuli farið og hvernig styrkur og sjálfstæði sveitarfélaganna verður best tryggt. Við höfum náttúrlega fjöldamörg dæmi um það á undanförnum árum að ríkisvaldið hefur gripið inn í mál sveitarfélaganna og tekjur þeirra hafa verið skertar og lagðir hafa verið á skattar. Ég minnist þess á síðasta kjörtímabili þegar Alþfl. var í stjórn, að þá voru háðar miklar rimmur milli ríkis og sveitarfélaga vegna þess hve ríkisvaldið gekk langt í því að skerða kjör sveitarfélaganna. Slík samskipti munu eflaust halda áfram. En það verður auðvitað að sjá til þess þegar verkefni eru flutt yfir til sveitarfélaganna að þeim séu tryggðar tekjur. Það hefur oft komið fram í þessum málum öllum að sveitarfélögin hafa áhyggjur af því að ekki fylgi nægjanlegar tekjur.

Ég vil nefna eitt atriði enn, hæstv. forseti, sem snertir þetta mál og nú sakna ég enn mjög hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Hann flutti hér nokkuð ítarlega ræðu og boðaði reyndar að hann ætlaði að fjalla í síðari ræðu sinni um fjármál sveitarfélaganna, og ég sakna þess ef hún verður ekki flutt, því að hann er einn af þeim þingmönnum sem hafa mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum. En hann kom í ræðu sinni inn á eitt atriði sem varðar rétt útlendinga til að kjósa. Ég hefði viljað rifja það upp að í umræðunum um kosningalögin, kosningar til sveitarstjórna, kom ég nokkuð inn á það atriði og það var nokkuð rætt í félmn., en niðurstaða okkar varð sú að aukinn réttur útlendinga til að kjósa í sveitarstjórnarkosningum væri mál sem þyrfti einfaldlega umræðu. Þetta hefur ekkert verið rætt, það hefur ekkert verið rætt af neinni alvöru hvort rétt væri að auka kosningarrétt útlendinga og miða t.d. við þriggja ára búsetu eða eitthvað slíkt. Ætti að auka réttinn þannig að hann næði til íbúa hins Evrópska efnhagssvæðis eða hvað? Eða bara til allra útlendinga sem búa hér einhvern ákveðinn tíma?

Þetta er sem sagt algjörlega órætt mál en ég vil að það komi skýrt fram að það kom töluvert til umræðu í sambandi við kosningalögin en sennilega hefur þetta atriði farið fram hjá hv. þingmanni. Ég tel að ef vilji væri til slíkrar breytingar ætti hún heima í kosningalögunum en ekki í sveitarstjórnarlögunum. Menn gleyma því kannski stundum hér í umræðunni að búið er að taka kosningalagaþáttinn algjörlega út úr þessu frv. og gera að sérlögum. Og það er auðvitað ein ástæðan fyrir því hve félmrh. leggur mikla áherslu á að fá þetta frv. samþykkt. Ég segi enn og aftur að ég vildi helst óska þess að menn frestuðu þessu máli og afgreiddu allan pakkann í haust, þ.e. sveitarstjórnarlögin og frv. um breytingu á lögum um skipulags- og byggingarmál. En það virðist því miður ekki vera vilji til þess.

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi tekið fyrir flest þau efnisatriði sem hafa komið hér til umræðu, í þeirri ítarlegu umræðu sem hér hefur átt sér stað. Mér fannst rétt að greina þingheimi frá því hvaða umræða hefði átt sér stað innan félmn. og jafnframt eru nokkur atriði, örfá atriði, sem við ætlum að skoða á milli 2. og 3. umr. Það fyrsta er að fara yfir þær umsagnir sem okkur hafa borist frá hv. allshn. Það er komin umsögn frá meiri hluta nefndarinnar og frá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur, en hinir fulltrúar minni hlutans, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir, hafa ekki skilað neinu áliti svo mér sé kunnugt, en það verður þá að hafa það ef það berst ekki.

[20:15]

Þá teldi ég rétt að skoða 11. gr. og það efni sem snýr að endurskoðendum. Borist hefur ítrekun frá Sambandi ísl. sveitarfélaga varðandi tillögu sem snýr að kjarasamningum við æðstu --- ja, á ég að nota orðið æðstu? --- toppana hjá sveitarfélögunum, og það er sjálfsagt að skoða þá tillögu betur.

Hæstv. forseti. Ég gæti í sjálfu sér haft lengra mál um þá umræðu sem hér hefur átt sér stað um hálendismálin og allt sem að þeim snýr. Ég hef orðið áþreifanlega vör við það, einfaldlega á götum úti þegar ég er að ganga á milli þinghússins og skrifstofu minnar, að margir hafa miklar áhyggjur af þessum málum, fylgjast með og spyrja hvort þingið ætli virkilega að samþykkja frv. svona. Það er ekki að ástæðulausu að stjórnarandstaðan hefur varið töluverðum tíma í að ræða þessi mál. Mikill þungi og alvara er á bak við þessa umræðu. Mönnum liggur mikið á hjarta og ýmsir óttast afleiðingar þess, ef landinu verður skipt niður á milli sveitarfélaganna án þess að tryggt sé að miðhálendið verði skipulagt sem ein heild. Þetta er kjarni málsins og hann er auðvitað sá að finna lausn sem flestir gætu sætt sig við.

Ég þykist vita að þingmenn jafnaðarmanna muni ekki sætta sig við slíkar lausnir. Í þeirra huga er mikið grundvallaratriði að landinu verði ekki skipt upp milli sveitarfélaganna heldur gert að einni stjórnsýslulegri heild. Eins og ég rakti í fyrri ræðu minni á ég ákaflega erfitt með að sjá hvernig hægt væri að gera það án þess að það mundi einnig valda miklum deilum, hugsanlega málaferlum, og endalausum árekstrum við þau sveitarfélög sem landið væri þar með tekið af.

Mér finnst líka, hæstv. forseti, að þjóðlendurnar gleymist í þessari umræðu og þeim miklu áhyggjum sem menn hafa af þessum málum. Menn gleyma því að það á að skilgreina þau svæði sem enginn hefur getað sannað eign sína á, sem þjóðlendur, og að þau svæði verða undir sérstakri stjórn og háð sérstökum skilyrðum. Þar af leiðandi gilda þau lög um þau svæði. Við eigum alltaf þann möguleika að stofna nýja þjóðgarða og friða svæði þannig að möguleikarnir eru auðvitað margir í framtíðinni. Ég held líka að mjög brýnt sé að skilgreina hvaða svæði við viljum að verði ósnortin, hin ósnortnu víðerni Íslands. Þau eru ekki aðeins á miðhálendinu, þau geta líka verið á Reykjanesskaganum og Vestfjörðum, jafnvel í Vestmannaeyjum þar sem er afar sterkur og rótgróinn nýtingarréttur sem einu sinni tilheyrði gömlu bændaættunum þar. Þar hafa nú veiðifélög tekið við. (SvG: Vill ekki þingmaðurinn fara aðeins nánar yfir þetta?) Þingmanninum finnst nú kannski ekki að þetta komi umræðunni við en ég var að vekja athygli á því að ýmis svæði gætu verið flokkuð undir víðerni, jafnvel þó þau séu ekki mjög viðamikil eða stór að flatarmáli. Það getur verið ástæða til þess að friða slík svæði og allt þetta þarf að hafa í huga.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum minna á það að félmn. kallaði á sinn fund Ómar Ragnarsson fréttamann og vakti það nokkra athygli, m.a. þingmanna, er þeir sáu nafn hans á listanum yfir þá sem höfðu verið kallaðir til fundar við nefndina. Ómar var einmitt kallaður á okkar fund vegna þess að hann hefur mjög víða farið og hefur mikla þekkingu á hálendi Íslands. Hann hefur rætt bæði við bændur og búalið og náttúruunnendur sem verið hafa á hálendinu. Hann lagði mikla áherslu á það í máli sínu hve brýnt það væri að reyna að ná sátt um framtíðarskipan hálendismála. Það sjónarmið lögðum við hv. þm. Ögmundur Jónasson mikla áherslu á, að reyna að finna leið sem hægt væri að ná sátt um, eða flestir gætu sæst á. Sú leið fæli það í sér að miðhálendið yrði skipulagt sem heild og sem flestir kæmu að því verki. Þetta voru markmiðin sem við settum okkur.

Ég vil endurtaka það að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þróun mála hér og að menn skuli ekki sýna meiri vilja til samkomulags eða leita lausna, því að það getur ekki hafa farið fram hjá þingmönnum stjórnarliðsins frekar en okkur hinum hve skoðanir eru gríðarlega skiptar um þetta mál og hve margir óttast að rangt verði að farið. Þess vegna er gríðarlega brýnt að reyna að þróa þetta mál í þá átt að um það náist sæmileg sátt.

Ég þykist vita, eins og ég nefndi, að þeir sem hafa þá grundvallarskoðun að miðhálendið sé þjóðareign og því beri að skipa undir sérstaka stjórn, muni eiga mjög erfitt með að sætta sig við lausn sem felur það í sér að landinu veðri skipt milli sveitarfélaganna, þó að yfir svæðið verði sett ákveðin nefnd.

Því miður er þetta mál í sjálfheldu. Hér hefur ekki verið sýndur nokkur einast vilji til samkomulags og stjórnarandstæðingar hafa því ekki átt annarra kosta völ en að undirstrika vel og rækilega andstöðu sína við málið og þróun þess. Ég ítreka að ég vona svo sannarlega að staðið verði við gefin loforð. Ég vona að verði frv. þetta að lögum á þessu vori þá verði frv. til breytinga á skipulags- og byggingarlögum lagt fram á fyrsta degi þings í haust og samþykkt þar sem allra fyrst. Auðvitað er ég reiðubúin til þess að ræða skipan nefndarinnar og breytingar á tillögunum til þess að tryggja aðkomu sem flestra að málinu. Ég ítreka það.