Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 20:24:37 (6284)

1998-05-07 20:24:37# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[20:24]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Áður en ég byrja ræðu mína, því ég reikna með að þetta taki nokkrar mínútur, þá vildi ég gjarnan spyrja hvort það var fyrirhugað hjá hæstv. forseta að hafa kvöldverðarhlé.

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að það verður ekkert kvöldverðarhlé í kvöld.)

(SvG: En kannski á morgun?)

Nú, það er orðið svo, herra forseti, að kvöldmaturinn er hafður af okkur þingmönnum í þessu mikilvæga máli og er svo sem ekkert við því að segja. Kannski höfum við bara gott af því sumir, en nokkuð er þetta orðið snúið ef ekki er hægt að ná samkomulagi um jafneinfaldan hlut og að menn fái að borða milli þess sem menn ræða ítarlega mjög svo mikilvægt mál.

Við því er ekkert að gera, eins og hæstv. forseti veit þá hlýðum við úrskurði hans í hvívetna. Ég tala nú ekki um gagnvart þeim ágæta forseta sem nú er á forsetastól.

Þetta mál er hins vegar þess eðlis að ekki er auðhlaupið að fara yfir það í stuttu máli. Mikilvægi málsins, tengsl við aðra þætti í löggjöf og í þjóðfélaginu krefjast þess að farið sé nokkuð ítarlega í frv. og umhverfi þess. Það er ekki einungis verið að fjalla um skipulagsmálin í þessu frv., þó að þau hafi nú verið gerð að mestu umtalsefni. Ekki má gleyma því að hér er um heildarlöggjöf um sveitarstjórnarmál að ræða.

Ég hefði kosið, herra forseti, að í stað þess að við höfum verið að fara yfir þetta mál í rúma viku, þá hefðu menn sest niður fyrr til að vitað hvort ekki væri skynsamlegt að finna þessu annan farveg. Þar hefði mátt skoða málið og leita þá málamiðlunar um útfærslu á tilteknum atriðum sem ágreiningur ríkir um.

Sú furðulega staða hefur komið upp að það næst ekki nein umræða, ekki einu sinni fundur milli forseta þingsins og formanna þingflokka, um framhald þessa máls. E.t.v. er alveg óþarfi að koma slíkum fundi á enda veit hæstv. forseti að völdin hafa verið tekin af forseta þingsins, hvað varðar starfsskipulagið hér næstu daga og vikur. Mér skilst að forsrh. hafi kveðið nokkuð nákvæmlega úr um hvernig þingstörfum verði háttað. Það verður vafalítið hægt að fara nokkuð nánar inn á þann þátt síðar. Þar er um að ræða atriði sem ætti að vekja okkur þingmenn hér mjög til umhugsunar, hvernig virðingu og stöðu þingsins er komið út af þessu máli.

Þess vegna hefði verið brýnt, herra forseti, að ná sátt um að geyma þetta mál. Ég minni á annað mál sem er sambærilegt en það er gagnagrunnsmálið. Það vakti strax heitar tilfinningar meðal þjóðarinnar en skynsamleg niðurstaða fengin í því. Menn settu málið í vinnslufarveg í tengslum við þingnefnd og munu leggja það fram og afgreiða á hausti komanda. Þetta var skynsamleg niðurstaða og það sem er merkilegt við hana er að hún er pólitískt í jafnvægi, bæði við stjórn og stjórnarandstöðu. Hún er í mjög mikilli sátt við fólk í þjóðfélaginu, sem hafði bæði áhyggjur af málinu og óskir um að koma að því í umræðu. Jafnvel er meira um það vert að það var í sátt við þá hagsmunaaðila sem studdu það frv.

Ég hefði kosið, herra forseti, að við hefðum borið gæfu til að finna þessu máli sams konar farveg. Það er ekki vilji okkar í stjórnarandstöðunni að hindra að vilji lýðræðislegs meiri hluta nái fram að ganga, það er síður en svo. Við höfum hins vegar þær skyldur gagnvart kjósendum okkar að fara vel yfir mál sem eru þess eðlis að þau krefjast mikillar umræðu, átakamál sem geta verið álitaefni. Þar eru ekki hvað síst mál sem krefjast sérstakrar nærfærni í allri umræðu.

[20:30]

Þrátt fyrir að deilurnar hafi að mestu snúist um skipulagsmálið nefndi ég að frv. fjallaði um fleiri þætti, m.a. um heildarlöggjöf um sveitarstjórnarmál.

Breytingar á núgildandi lögum eru í þremur þáttum í þessu frv. Það er í fyrsta lagi skipulagsþátturinn, framlenging sveitarfélaga inn til jökla og skipting alls landsis í sveitarfélög þar sem sveitarfélögin fari með alla stjórnsýslu og þar á meðal skipulagsmál. Þó er fyrirhuguð smávægileg breyting á því að hleypa inn nokkrum aðilum til umsagnar varðandi einn hluta skipulagsmála sem er svæðisskipulag.

Í öðru lagi er kveðið á um að fella kosningalögin úr sveitarstjórnarlögunum. Hér á hinu háa Alþingi hefur verið afgreidd löggjöf um kosningalög til sveitarstjórna. Eðlileg afleiðing þess er sú að úr sveitarstjórnarlögum sé felldur kaflinn um kosningar. Þriðja meginbreytingin í þessu frv., miðað við fyrri löggöf, er um skyldu sveitarfélaga varðandi upplýsingar um fjármál. Þar er kveðið á um hvernig félmrh. geti komið inn, sveitarfélögum til aðstoðar við fjárhagsvanda.

Hins vegar er ekki um neina kerfisbreytingu í uppbyggingu þessa frv. að ræða en varðandi skipulagsþáttinn er svo margt sem þar þarf að athuga. Hvernig viljum við hafa landið? Hvernig viljum við skipuleggja landið? Ég tel rétt, herra forseti, áður en lengra er haldið, að vitna í grein sem birtist í Morgunblaðinu 7. maí sl. Þar er einmitt er fjallað um þætti sem snerta skipulagsmál á þessu svæði. Þetta er grein, sem hæstv. forseta er reyndar kunnug, eftir hv. þm. Guðna Ágústsson, og heitir Vegur á Heklu. Með leyfi hæstv. forseta, vildi ég gjarnan vitna til þessar greinar. Þar segir svo:

,,Um allan heim fer fram mikil barátta milli þjóða um að ná athygli ferðamanna. Mestur vöxtur mun vera í ævintýraferðum, þar á hlut að máli efnaðri hluti ferðamanna. Hér á landi sjáum við duglega athafnamenn ná miklum tökum á slíkri markaðssetningu sem engum datt í hug fyrir nokkrum árum. Hvalaskoðun, raftsiglingar niður straumþungar ár, ævintýraferðir á hestum yfir hálendið, jeppa- og sleðaferðir upp á jökla og jökulskalla, Njáluslóðir, Njálu- og Vesturfarasöfn. Hugrakkir menn í Vestmannaeyjum hafa sett fram þá snjöllu hugmynd ...``

Ég sé að hæstv. forseti, sem ég er að vitna til, er að yfirgefa forsetastólinn. Ég veit að hann kannast mjög vel við efnið og hef af ráðnum hug að dregið þessa grein fram, herra forseti. Það er vegna þess að hugmyndir og sjónarmið sem taka þarf tillit til eru margvísleg. Og hér segir áfram í greininni, með leyfi forseta:

,,Hugrakkir menn í Vestmannaeyjum hafa sett fram þá snjöllu hugmynd að grafa upp heila götu með 8-­10 íbúðarhúsum sem fóru undir vikur. Síðan yrði gatan yfirbyggð og þar mundi ferðamaðurinn upplifa örlaganóttina miklu, sem yfir eyjarnar dundi, í máli og myndum. Fyrir Vestmannaeyjar þýddi þetta ævarandi straum ferðamanna og miðstöð vísinda í eldfjallafræðum. Þannig hafa athafnamenn í ferðaþjónustu verið að markaðssetja auðæfi þessa lands síðustu ár. Þessi þróun mun kalla margan ferðamanninn til Íslands á næstu árum og fremur þann hluta ferðamanna sem vill kaupa þjónustu og hefur efni á því.

Hekla er mikið fjall og heimsfrægt. Hekla hefur valdið landsmönnum miklum skráveifum og ber miðhálendið þess merki. Grösugir dalir hafa horfið undir ösku og vikur. Sú var tíð að Hekla, Gullfoss og Geysir voru þekkt víða um heim, hvert þeirra fyrir sína náttúru og tign. Sérvitringar hafa komist upp með að Geysir dregur ekki andann og er á gjörgæslu eins og kransæðasjúklingur. Hekla er enn heillandi en þó ekki aðgengileg nema litlu broti ferðamanna. Hekla er akfær í dag en slíkt er ekki æskilegt og má aldrei verða að jeppatröll sparki og spori fannafeldinn eða vikurbreiðurnar. Hitt eiga menn aftur á móti að ræða hvort rétt sé að leyfa lagningu slóða og gefa einstaklingi einkaleyfi til að aka með túrista í efstu hæðir Heklu.

Rauðalestin eða eldvagninn mundi aka ferðamönnum á fjallið með viðkomu í mesta eldgíg jarðar þar sem sagnir eru um að sé fordyri helvítis. Ferðafólkið fengi stimpil um að það hefði komið þar við og verið hafnað um inngöngu. Verði þetta gert færi ókeypis keðjubréf um heimsbyggðina sem kallaði marga hingað, ríka og fátæka, unga og aldna. Pósthús og stimpill um komu manna á hina fágætustu staði er ný markaðssetning. Að standa á Heklutindi á björtum sólskinsdegi yrði eitt af ævintýrum veraldar og þannig gæti Hekla skilað gjaldeyristekjum og bætt fyrir tjón sitt og auðgað ferðaþjónustuna á Íslandi. Fordyri helvítis gæti orðið okkur drjúg tekjulind. Jafnframt yrði Hekla og þetta ævintýri ný uppgötvun um sælu himnaríkis.``

Þar með, herra forseti, lýkur grein hv. þm. Guðna Ágústssonar, sem birtist í Morgunblaðinu 7. maí sl. og heitir Vegur á Heklu.

Ég geri þetta að umtalsefni vegna þess að mér finnst þetta athyglisverð grein. Mér virðast í þessu skemmtileg sjónarmið og nútímaleg viðhorf gagnvart miðhálendinu, gagnvart óbyggðum svæðum Íslands. Vitaskuld geta skoðanir verið skiptar um það hvort við eigum að markaðssetja hálendið líkt og hér er lagt til eða ekki. Mér finnst þær hugmyndir sem hér er varpað fram vel koma til greina. Mér finnst þær fyrst og fremst sýna tvennt. Þær eru nýstárlegar, þær eru nútímalegar og þær eru frumlegar. Þær sýna okkur að varðandi miðhálendið og í tengslum við sameignir þjóðarinnar er margt sem við þurfum að huga að og hugsa miklu betur en þegar hefur verið gert.

Herra forseti. Þegar við tölum um miðhálendið, þó okkur hafi greint á um fyrirkomulag skipulags miðhálendisins, þá hafa allir þingmenn lýst tilfinningu sinni gagnvart miðhálendinu og væntumþykju gagnvart landinu. Ég er þess fullviss að allir hv. þm., þó að þeir styðji þetta frv., bera mikla virðingu og ást fyrir landinu. Þó að við séum í ágreiningi hér við stjórnarmeirihlutann um fyrirkomulag skipulagsmála, þá er hafið yfir allan vafa í mínum huga að allir þingmenn vilja landinu sem allra best. Mér finnst það einmitt koma vel fram í þessari grein hv. þm. Guðna Ágústssonar að virðingin gagnvart landinu skín þar í gegn.

Hugmyndin er náttúrlega skemmtileg og hefur heyrst áður frá hv. þm., að hafa pósthús uppi á Heklu sem marki með stimplun komudag og menn fái sannindamerki um það. Þetta er gert mjög víða um heim þar sem ferðaþjónusta er á athyglisverðum stöðum. Menn fá vottorð um að þeir hafi komið á tiltekinn stað þannig að hér er ekkert verið að gera annað en að leggja fram hugmynd um að nýta þessa náttúruauðlind, á sambærilegan hátt og víða þekkist erlendis.

Ein af ástæðunum fyrir því að þetta þurfi að skoða betur er að við höfum ekki gert upp við okkur enn, hvaða stefnu við ætlum að fylgja á miðhálendinu. Ætlum við að láta miðhálendið vera uppsprettu gjaldeyrisöflunar í tengslum við vandaða og vel skipulagða ferðaþjónustu sem mun þá beina sjónum sínum fyrst og fremst að útlendingum? Hugsunin sem fram kemur í grein hv. þm. Guðna Ágústssonar er fyrsta flokks innlegg inn í slíka hugmyndafræði. Það er ekkert víst að við viljum endilega fara þá leiðina.

Ef til vill viljum við að miðhálendið verði uppspretta gjaldeyrisöflunar, fyrst og fremst vegna nýtingar orkulinda, vatnsorku og annarrar orku sem við höfum að hluta nýtt í þágu landsmanna allra. Við vitum það að þarna eru miklir virkjanamöguleikar sem gætu komið niður á umhverfisþáttum, möguleikum í ferðaþjónustu og ýmsu öðru. Við höfum ekki gert upp við okkur, herra forseti, hvort við viljum að miðhálendið sé nýtt á þennan hátt.

Við getum líka hugsað okkur að miðhálendið eigi að verða þjóðgarður í þeim skilningi að það sé afdrep og útivistarsvæði til ánægju, fyrst og fremst fyrir Íslendinga, þangað sem Íslendingar sækja sér styrk og endurnýjun, eins og fjölmargir, tugþúsundir hafa þegar gert á undanförnum árum. Það er ekki að efa að einmitt slík nýting mundi breiðast út á næstu árum ef heimilt verður að þoka skipulaginu í þann farveg.

Við getum líka bent á fjórða atriðið. Ég hef nefnt hér í fyrsta lagi hvort við ættum að nýta miðhálendið sem uppsprettu í ferðaþjónustu gagnvart erlendum ferðamönnum. Eigum við í öðru lagi að nýta það fyrst og fremst sem orkuöflunartæki til iðnvæðingar, í þriðja lagi sem stað, vin í eyðimörkinni gagnvart okkur sjálfum. Í fjórða lagi væri hægt að hugsa sér að miðhálendið yrði skipulagt samgöngulega til að stytta samgöngur, fyrst og fremst á milli landshluta. Miðhálendið hefur um aldir verið mjög mikill trafali, e.t.v. sá erfiðasti í okkar landi. Það er hægt að hugsa sér þetta, fyrst og fremst sem verkefni til að leggja greiðfæra vegi yfir svo að örar og góðar verði samgöngur milli Norður- og Suðurlands og Austur- og Vesturlands.

Nú mundu e.t.v. einhverjir segja: Getum við ekki gert þetta allt saman? Ég er ekki viss um það, herra forseti, vegna þess að álitaefnin sem koma upp úr við svona skipulagningu eru fjölmörg. Hve mikið á t.d. að taka tillit til umhverfisþátta? Sjónmengun mætti nefna í þessu sambandi sem deilt hefur verið um. Við leggjum leiðslur eða staura víðs vegar um landið sem flytja rafmagn. Með því erum við vitaskuld að færa björg í bú, en þetta getur verið lýti á fögru landslagi, að sjá aðeins raðir af miklum rafmagnsstaurum. Þetta er álitaefni og víst að ekki verður öllum gert til hæfis hvað þessa hluti varðar.

Ég held því, herra forseti, að þetta litla dæmi, hugmyndir hv. þm. Guðna Ágústssonar um hvernig Hekla, þetta mikla fjall, getur nýst í gjaldeyrisöflun og orðið okkur að tekjuauka, sýni einmitt mjög vel hversu flókið þetta mál er og hve nauðsynlegt er að það fái ítarlega og vandaða umræðu, ekki einungis á hinu háa Alþingi heldur einnig úti í samfélaginu.

[20:45]

Mig langar, herra forseti, til að drepa á nokkur önnur atriði sem tengjast frv. áður en ég kem betur inn á skipulagsþáttinn. Ég vil þó geta þess að mín meginniðurstaða í þessu máli er sú að best væri að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar og fresta afgreiðslu þess til haustsins þannig að við haldið áfram þeirri umræðu sem hefur verið í þingsölum nokkurt skeið, fært hana út í samfélagið þar sem hún er vaxandi og leitað ráða hjá þeim fræðimönnum og kunnáttumönnum sem þurfa að koma slíkri skipulagningu sem hér um ræðir.

Frv. sjálft fyrir utan skipulagsþáttinn felur ekki í sér miklar kerfisbreytingar. Ég hef nefnt það áður að frumvarpsuppbyggingin er mjög í anda fyrri löggjafar og hv. félmn. gerði tiltölulega litlar breytingar á frv. sjálfu. Brtt. meiri hlutans eru í fyrsta lagi þær að tengt er saman þetta frv. og þjóðlendufrv. sem bíður umræðu og þá fyrst og fremst ákvæði sem varðar það starf óbyggðanefndar að skera úr um ef ágreiningur kemur upp.

Byggðarmerki munu verða færð hjá Einkaleyfastofu. Hins vegar hefur 7. gr. frv. fengið nokkra umfjöllun í fjölmiðlum undanfarna daga og er ein af þeim sem styðja það að menn bíði með afgreiðslu þessa frv. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa 7. gr. frv. Yfirskriftin er: Almennar skyldur sveitarfélaga.

,,Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum.

Sveitarfélög skulu vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma.

Sveitarfélög geta tekið að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum.``

Og síðan kemur síðasta málsgreinin sem umdeild er, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.``

Þetta er 7. gr. frv. og ef skoðaðar eru athugasemdir með 7. gr. þá er sagt að þetta sé að mestu samhljóða núgildandi lögum. Það sem hins vegar hefur vakið nokkrar spurningar er um arðgreiðslur fyrirtækja í eigu sveitarfélaga. Reykjavíkurborg hefur t.d. fagnað þessu ákvæði og telur að það skjóti lagastoð undir þær ákvarðanir borgarstjórnar Reykjavíkur um mjög langa tíð --- það tengist ekkert frekar núverandi meiri hluta en fyrri valdhöfum --- að veitufyrirtæki eða borgarfyrirtæki hafa skilað til borgarsjóðs tilteknum hluta af hagnaði.

Það er að mínu mati, herra forseti, fullkomlega eðlilegt varðandi borgarfyrirtæki eða bæjarfyrirtæki í eigu sveitarfélaga, að sé um að ræða hagkvæman rekstur þá er eðlilegt að hagnaðurinn renni í bæjarsjóð viðkomandi sveitarfélags. Auðvitað er það síðan á forræði sveitarfélagsins hvaða gjaldskrá er notuð. Hvort góður rekstur á fyrirtæki í eigu sveitarfélags er nýttur til þess að lækka gjaldskrá, byggja upp eignir eða fjárfesta í nýjum möguleikum hlýtur vitaskuld að vera á valdi kjörinna fulltrúa hverju sinni. Ég tel því, herra forseti, að hér sé um að ræða eðlilegan hlut og ekkert við þessu að segja.

Þetta hefur hins vegar verið gagnrýnt. Ég minnist þess að bæjarstjórn Garðarbæjar, alla vega meiri hluti þar, hefur gert um það samþykkt sem hefur borist okkur þingmönnum og eitthvað verið fjallað um í fjölmiðlum þar sem hvatt er til frekari umhugsunar um þessa hluti. Þá ríkir þar fyrst og fremst sú hugsun að bæjarfélög gætu notfært fyrirtæki í eigu sveitarfélaganna sem nokkurs konar skattstofn á íbúana. Við getum tekið dæmi um að gjaldskrá hjá hitaveitu eða rafmagnsveitu viðkomandi sveitarfélags sé höfð óeðlilega há og skili þar með góðum hagnaði og að sá hagnaður sé látinn renna í viðkomandi bæjarsjóð og nýttur þannig í aðrar framkvæmdir á vegum bæjarfélagsins.

Hér eru því þau sjónarmið að menn gætu nýtt sér slík þjónustufyrirtæki sem nokkurs konar skattstofn eða nýtt þau til álagningar gjalda sem mætti líta á sem skatta. Mig minnir, herra forseti, að fjallað hafi verið um þetta í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu, gott ef það var ekki í leiðara, þar sem einmitt var vakin athygli á því að þetta ákvæði gæti leitt til aukinnar skattlagningar hjá viðkomandi bæjarstjórn eða meiri hluta.

Ég tel, herra forseti, þessar áhyggjur í sjálfu sér ástæðulausar. Aðalatriðið er að kjörnir fulltrúar hverju sinni taki ákvarðanir um allt sem snýr að því sveitarfélagi sem um ræðir, hvort sem það er fjárhagsáætlun hvers árs eða gjaldskrá einstakra fyrirtækja. Ég hef ekki séð að þetta hafi verið misnotað á nokkurn máta. Auðvitað er fullkomlega eðlilegt að sá hagkvæmi, góði og útsjónarsami rekstur sterkra og öflugra fyrirtækja í eigu sveitarfélaga, eins og t.d. Hitaveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur og annarra fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar, sé nýttur til þess að styrkja undirstöður borgarsjóðs þannig að hann skili góðum arði til sameiginlegra verkefna. Það er ekkert að því svo fremi sem allar ákvarðanir séu teknar á eðlilegan hátt og af lýðræðislega kjörnum fulltrúum eins og er í þessu tilviki. Ég sé því enga ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu ákvæði þótt það hafi verið gert nokkuð að umtalsefni í fjölmiðlum undanfarið.

Þessi grein hefur samt verið færð til bókar í blöðum og í nál. meiri hluta félmn. er lögð til breyting á 7. gr. frv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Fjölmörg sveitarfélög reka fyrirtæki á eigin ábyrgð og hafa fyrirtækin greitt sveitarsjóðum arð þegar rekstur þeirra hefur leyft. Þessi háttur hefur t.d. verið hafður hjá fyrirtækjum borgarsjóðs í a.m.k. 60 ár og hafa gjaldskrár fyrirtækjanna, sem staðfestar hafa verið af viðkomandi ráðuneyti, tekið mið af þessu. Ótvíræða heimild til þessa hefur hins vegar hingað til vantað í löggjöf.`` --- Þær eru lagðar til við breytingu á 7. gr. frv. --- ,,Í framhaldi af þessu mun þurfa að gera breytingar á orkulögum, nr. 58/1967, og lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, til þess að tryggja enn frekar heimildir sveitarfélaga til að ákveða arðgreiðslur frá fyrirtækjum sem alfarið eru í eigu sveitarfélaganna og rekin eru á þeirra ábyrgð.``

Þannig að 7. gr. eins og ég las hana upp áðan er treyst enn frekar með brtt. meiri hlutans til að ótvíræð lagastoð sé á bak við þessa venju, m.a. borgarsjóðs Reykjavíkur í yfir 60 ár, að arðgreiðsælur veitufyrirtækja eða borgarfyritækja renni í borgarsjóð. Þó þessi lagastoð sé sett þá hafa vitaskuld allar ákvarðanir fyrri áratuga verið innan ramma laga. En eins og borgarstjóri, held ég, sagði í fjölmiðlum, er til bóta að hafa um þetta skýr lagaákvæði eins og lagt er til. Ég deili ekki áhyggjum eða gagnrýni þeirra sem telja að hér sé hætta á ferðinni. Ég fæ ekki séð að svo sé einkum ef þess er gætt er þessi mál liggi ljóst fyrir og séu uppi á borðum hverju sinni þegar fjárhagsáætlanir eru afgreiddar eins og tilfellið er í þeim tilvikum sem ég þekki til í sveitarfélögum bæði hér og í næsta nágrenni. Reyndar er ekki algengt að sveitarfélög ráði yfir fyrirtækjum sem skila góðum hagnaði en það breytir því ekki að rétt er að hafa löggjöfina ótvíræða.

Aðrar tillögur sem tengjast frv. til sveitarstjórnarlaga lúta að þáttum eins og ákvæðum um nafngiftir sveitarfélaga og samræmd eru ákvæði um fundi, t.d. hvernig á að auglýsa fundi. Fjallað er um hæfi sveitarstjórnarmanna, tölvuskráningu fundargerða, varamenn í sveitarstjórnum. Menn sjá á þessu að það farið er yfir hin smærri atriði í útlínum sveitarfélaga í frv. og reynt að færa þá hluti til nútímalegs horfs.

Felld eru brott úrelt ákvæði, t.d. ákvæði um að sveitarfélögin séu skuldbundin til að hafa með sér samvinnu. Vitaskuld er hverju sveitarfélagi heimilt að hafa samvinnu við önnur sveitarfélög og aðra þá sem þau kjósa. Í 99. gr. gildandi sveitarstjórnarlaga er kveðið á um skyldu til samvinnu. Það er fellt brott og ég tel það í sjálfu sér vera til bóta að ekki sé skylt að hafa samvinnu.

Fellt er niður gamalt ákvæði um að sveitarfélögum geti verið heimilt að starfrækja fyrirtæki með takmarkaðri ábyrgð. Þetta þekktist hér á árum áður þegar sveitarfélög voru beint tengd við atvinnurekstur. Þekktustu dæmin um þetta eru þegar bæjarútgerðir voru settar á laggirnar víða um land og voru þá lyftistöng fyrir atvinnulíf og hluti af uppbyggingu eftirstríðsáranna á mjög mörgum stöðum á landinu. Þessar bæjarútgerðir voru reknar sem hluti af sveitarfélaginu. Sums staðar var þetta rekið í hlutafélagsformi og sums staðar voru einstakir þættir í þessum málum reknir í félagi með takmarkaðri ábyrgð. Og það er einmitt ákvæðið sem fellt er brott úr sveitarstjórnarlögunum, þ.e. starfræksla atvinnu- og þjónustufyrirtækja með takmarkaðri ábyrgð. Að ég best veit er ekki um slíkan rekstur að ræða lengur á vegum sveitarfélaga. Þetta var barn síns tíma þar sem menn vildu koma að atvinnurekstri og reyna að finna millistig milli hlutafélagsformsins og þess að reka fyrirtæki í beinni eigu viðkomandi sveitarfélags þó svo að um sjálfstæðan fjáhag væri að ræða.

[21:00]

Nú á tímum man ég ekki eftir slíkum rekstri atvinnufyrirtækja eins og þekktist hér áður, sérstaklega í sjávarútvegi. En við höfum samt séð að upphaf þess atvinnureksturs sem sveitafélög byggðu upp sér enn víða stað í atvinnulífi víðs vegar um landið. Einna þekktasta dæmið um það er starfsemi Úterðarfélags Akureyringa sem er bæjarútgerð í uppleggi sínu, fór fljótlega í hlutafélagsformið og var fram undir það síðasta í fullri eigu Akureyrarbæjar. En nú hefur eignaraðild þar dreifst nokkuð víða.

Annars staðar á landinu þekkist eignaraðild sveitarfélaga í atvinnurekstri einmitt í sjávarútvegi, byggð á þessari hugmyndafræði sem var algeng á árum áður. Annað þekkt dæmi er mjög öflugt og sterkt fyrirtæki á Neskaupstað, Síldarvinnslan hf. Það er hlutafélag en bærinn eða Neskaupstaður hefur alltaf verið með mjög sterka eignaraðild þó svo að núorðið hin seinni ár, eins og víða annars staðar í fyrirtækjaumhverfinu, hafi eignaraðild breyst.

Þetta voru sterk og öflug fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Bæjarútgerð Hafnarfjarðar var burðarás í atvinnulífi Hafnarfjarðar mjög lengi. Við þekkjum dæmi úr Reykjavík. Bæjarútgerð Reykjavíkur var sett á laggirnar á árum áður og rekin sem eitt af stærstu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum hér á landi um áratuga skeið. Þessi fyrirtæki eru öll til í dag, ekki í upprunalegu formi heldur hafa þau gengið inn í önnur fyrirtæki og annað rekstrarform, en eiga samt þessa sérstöku sögu sem má lesa svolítið út úr einmitt þessu ákvæði í frv., þ.e. þeirri tillögu að fella niður 100. gr. núverandi sveitarstjórnarlaga um stofnun og starfrækslu atvinnu- og þjónustufyrirtækja með takmarkaða ábyrgð.

Það vill oft verða svo, herra, forseti, þegar heildarlöggjöf er sett að þá er smávægileg lagahreinsun í og með. En oft og tíðum felur sú lagahreinsun í sér að dregið er strik undir mjög merkilega sögu og svo er í þessu tilviki að hægt er að finna og hafa í sjálfu sér langt mál um einmitt þessa þróun í starfsemi sveitarfélaga þó að ekki verði það gert hér að svo stöddu.

Önnur merkileg ákvæði í þessu frv. eru m.a. að kæruleiðir eru samræmdar og það er allt samkvæmt stjórnsýslulögunum, einni merkustu lagasetningu sem við höfum haft hin síðari ár. Hér er gert ráð fyrir að hægt verði að skjóta ákvörðunum til ráðherra eins og segir í þeim lögum. En segja má að upphaflega hafi verið ákveðið að endurskoða þessi lög m.a. út frá nýjum stjórnsýslulögum.

Aðrir þættir í frv. sem eru hvað merkilegastir tengjast fjármálum. Þar er fjallað nokkuð ítarlega um aðkomu félmrn. við þær aðstæður að fjárhagsleg staða sveitarfélaga geti orkað tvímælis. Við þekkjum það, herra forseti, á undanförnum árum að oft og tíðum hefur einmitt fjárhagsstaða sveitarfélaga orðið býsna erfið, m.a. vegna þess að þau hafa gengið í ábyrgðir. Þó er það ekki nema hluti af sögunni. Oftar en ekki hefur almennt atvinnuástand í viðkomandi sveitarfélögum leitt til fjárhagslegra örðugleika þeirra. Þekkt dæmi um það eru einmitt hin smærri sveitarfélög á landsbyggðinni sem mörg hver hafa átt í erfiðleikum hvað varðar fjárhagslega umgjörð sína.

Þar er gert ráð fyrir að breyta mjög mikilvægu ákvæði í þessu frv. og það er ákvæði sem hefur að nokkru verið gert að umtalsefni fyrr í þessari umræðu. Það varðar 73. gr. frv. Yfirskriftin er: Tryggingar og ábyrgðir. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að vitna nokkuð til þeirrar greinar. Þar segir:

,,Heildareignir sveitarfélags standa til tryggingar skuldbindingum þess.

Eigi má sveitarfélag veðsetja öðrum tekjur sínar né heldur fasteignir sem nauðsynlegar eru til þess að sveitarfélagið geti rækt lögskyld verkefni sín. Aðrar eignir getur sveitarfélag veðsett í þágu sveitarsjóðs, stofnana sveitarfélagsins og fyrirtækja þess.

Sveitarfélag getur veitt Lánasjóði sveitarfélaga tryggingar í tekjum sínum vegna lána sem það tekur hjá sjóðnum. Félagsmálaráðherra getur sett í reglugerð nánari ákvæði um tryggingar Lánasjóðs sveitarfélaga í tekjum sveitarfélaga.

Eigi má framkvæma aðför í þeim eignum sveitarfélaga sem nauðsynlegar eru til framkvæmda á lögskyldum verkefnum þeirra og sveitafélög verða eigi tekin til gjaldþrotaskipta.

Kröfur á hendur sveitarsjóði má eigi nota til skuldajafnaðar við kröfu sveitarfélags um lögboðin gjöld til sveitarsjóðs eða stofnana sveitarfélagsins.

Eigi má binda sveitarsjóð í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Prókúruhafa sveitarsjóðs er þó heimilt fyrir hönd sveitarfélags að ábyrgjast með framsalsáritun greiðslu viðskiptaskjala sem sveitarfélagið hefur eignast á eðlilegan hátt í tengslum við daglegan rekstur þess.``

Þetta, herra forseti, er mjög mikilvæg grein í starfsemi sveitarfélaga. Og m.a. í þessari grein sem ég las hér upp er felld niður heimild fyrir sveitarstjórnir að veita einfalda ábyrgð til annarra aðila gegn tryggingu sem hún metur gilda. Þessi grein er skýrð mjög ítarlega í frv. og ég vil, herra forseti, vitna nokkuð til athugasemda með þessari grein vegna þess að þetta er fyrir utan skipulagsþáttinn líklega mikilvægasta grein frv., þ.e. sú sem fjallar um tryggingar og ábyrgðir.

Í skýringum með greininni er m.a. sagt, með leyfi forseta:

,,Bætt er við í 6. mgr. heimild til prókúruhafa sveitarsjóðs að ábyrgjast fyrir hönd sveitarfélagsins með framsalsáritun greiðslu tiltekinna viðskiptaskjala. Með þessu ákvæði og niðurfellingu á 5. mgr. 89. gr. gildandi laga, ...`` --- þ.e. það ákvæði sem heimilar einfalda ábyrgð --- ,,er skýrt kveðið á um að sveitarstjórn er óheimilt að binda sveitarsjóð í ábyrgð vegna annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins.``

Hér eru tekin af öll tvímæli og þrengdur réttur sveitarfélaga til að gangast í ábyrgð vegna þess að ábyrgðir sveitarfélaga eru ekkert annað en ávísun á skatttekjur borgara eða borgara þess sveitarfélags í framtíðinni.

,,Heimilt er þó`` --- og það er mikilvæg undantekning --- ,,að ábyrgjast með framsalsáritun viðskiptaskjöl, svo sem ávísanir og skuldabréf, sem sveitarfélagið hefur eignast á eðlilegan hátt í tengslum við daglegan rekstur þess.``

Það getur vitaskuld komið fyrir að menn fái greitt í víxlum og þurfi að selja þá víxla og geti með framsalsáritun ábyrgst viðskiptaskjöl svo sem ávísanir og skuldabréf. Það er ekkert að þessari heimild sem þarna er veitt. Hún er einungis um að heimildir séu til staðar að stunda eðlileg og einföld viðskipti.

Þetta er hins vegar gert vegna þess að komið hefur upp ágreiningur um núverandi orðalag gildandi laga, nánar tiltekið við 89. gr. gildandi laga. Þannig að hér, eins og sums staðar annars staðar í frv., er einfaldlega kveðið skýrar að orði.

Rökin fyrir því, herra forseti, að fella niður heimildina um að veita einfalda ábyrgð eru m.a. sú röskun á jafnræði og samkeppnisstöðu fyrirtækja þegar slíkar ábyrgðir eru veittar. Það hefur oft verið álitamál og umrætt hérlendis þegar sveitarstjórnir hafa veitt slíkar ábyrgðir, hvort að þær væru þá ekki með því að raska samkeppnisstöðu því að sumir fá ábyrgðir og aðrir ekki. Og hægt er að nefna fjölmörg dæmi um að slíkar ábyrgðir hafi raskað samkeppnisstöðu.

Það sem er merkilegt við þetta ákvæði er að í athugasemdum við greinina er þessi almenna röksemd ekki notuð, þ.e. að verið sé að raska samkeppnisstöðu og það sé óeðlilegt og að fella skuli niður allt sem gæti leitt til röskunar á samkeppnisstöðu. Nei, herra forseti. Hér er vitnað í EES-samninginn. Í 1. mgr. 61. gr. þess samnings er ákveðin regla lögfest því þetta er hluti af EES-samningnum og þar með hluti af okkar lagaumhverfi. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum er hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veitir eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, ósamrýmanleg framkvæmd samnings þessa að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila.``

Í fyrsta lagi hefði mátt orða þennan málslið betur því að þetta var einn málsliður eða ein setning eins og við sögðum í gamla daga. Það hefði mátt brjóta hana upp í nokkra þætti til að hún yrði einfaldlega skiljanlegri. En meginatriðið sem felst í þessu er að opinberir aðilar og reyndar aðrir megi ekki gera neitt sem ívilnar ákveðnum fyrirtækjum á kostnað annarra. Þetta er þessi grundvallarregla að gæta að samkeppnisskilyrðum. Þessi meginþráður í löggjöf Evrópusambandsins sem við höfum lögfest með EES-samningnum hefur líka verið álitaefni og deilumál hér á landi, þ.e. samkeppnislöggjöfin almennt. Öll okkar viðskiptalöggjöf meira og minna er ættuð frá þessum samningi og í öllum aðalatriðum hefur hún leitt til mikilla framfara í löggjöf og viðskiptaháttum hér.

Að mínu mati leikur ekki nokkur vafi á því að meginhugsun löggjafar Evrópusambandsins á viðskiptasviðinu, þ.e. að frjálsræði sé til hagsbóta fyrir neytendur, og sú stranga samkeppnislöggjöf sem þar er sett til að örva samkeppni og koma í veg fyrir fákeppni og markaðsyfirráð, er mjög rétt. Það þyrfti reyndar að beita henni enn frekar hér á landi þar sem við búum á fjölmörgum sviðum við tiltölulega litla samkeppni, frekar fákeppni og allt að því samráð á mjög mörgum sviðum.

[21:15]

Við þekkjum það hér á landi, t.d. í flutningum, í tryggingum, í olíusölu og á fjármálamarkaði, að allt þetta hefur yfirbragð fákeppni sem kemur niður á neytandanum á einn eða annan hátt. Það er hægt að hafa um það nokkur orð til viðbótar að einmitt þessi fákeppnisfyrirtæki sem ráða hér svo miklu í íslensku efnahagslífi, öll þessi sterku og stæltu fyrirtæki, eru nátengd tveimur stjórnmálaflokkum hérlendis, þ.e. Sjálfstfl. og Framfl., þeim tveimur stjórnarflokkum sem við stjórnarandstæðingar höfum verið að kljást við á þriðja ár.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að það er hægt að færa rök fyrir því að allar þær hugmyndir sem að hluta ganga í gegnum þetta frv. en meiri merki sjást um í öðrum frv., sem ágreiningur er um þessa dagana milli stjórnar og stjórnarandstöðu, endurspeglar hagsmunagæslu núv. ríkisstjórnarflokka fyrir þessi fákeppnisfyrirtæki.

Þess vegna er athyglisvert að skoða 73. gr. sveitarstjórnarlaganna, þ.e. bann við því að veita einfaldar ábyrgðir, í ljósi meginrökstuðnings Evrópusambandsins sem felldur er inn í EES-samninginn, að ekki megi raska samkeppnisskilyrðum. Það er athyglisvert að horfa á þá meginhugsun sem þar birtist og síðan hina harðsvíruðu hagsmunagæslu þessara sömu stjórnarflokka þegar kemur að því að tryggja fákeppnisumhverfið sem þeim er hugleikið.

Um þetta mætti hafa mörg orð, herra forseti, en ég kýs að gera það ekki. Vafalítið væri hægt að tengja það skipulagi sveitarstjórnarmála og sveitarfélögum. Ég kýs að fara ekki inn í þá umræðu hér en meginstefna Evrópusambandsins, þ.e. að raska ekki samkeppnisskilyrðum, er notuð sem rökstuðningur í sambandi við ábyrgðir íslenskra sveitarfélaga, þ.e. við að þrengja möguleika þeirra til ábyrgðaveitingar. Það er jafnframt skilgreint að þessi ákvæði nái til ríkisstyrkja, t.d. yfir bein fjárframlög, ábyrgðir, skattaívilnanir, tryggingu, niðurgreiðslu lánskjara frá markaðskjörum, styrki veitta af ríkisvaldi, sveitarfélögum, stofnunum og sjóðum í eigu opinberra aðila að hluta eða að öllu leyti.

Þetta er notað sem rökstuðningur. Það er athyglisvert að þetta er notað sem fyrsti rökstuðningurinn fyrir því að þrengja möguleika sveitarfélaga til að veita ábyrgð. Nú er vitaskuld hægt að spyrja: Af hverju á að þrengja möguleika réttkjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum til að veita ábyrgðir ef þeir kjósa svo? Það er á þeirra ábyrgð. Þeir eru kosnir til þess. Þá kemur það inn, sem ég nefndi áðan, að ábyrgðir sem falla á bæjarsjóð, sem eru oft á tíðum eru teknar í þeirri von að rétta við veikburða atvinnulíf á einstöku stöðum, eru greiddar af skatttekjum framtíðarinnar, þær hafa verið lagðar að veði. Í sjálfu sér má segja um allar fjárfestingar, sveitarfélaga og annarra, að þær endurgreiddar af skatttekjum framtíðarinnar.

Í mínum huga er það matsatriði hvort hafa eigi vit fyrir mönnum, vera með forsjárhyggju gagnvart ákvarðanatöku í einstökum sveitarfélögum varðandi fjármálastjórn.

Hins vegar er það einnig notað sem rökstuðningur við niðurfellingu þessara heimilda, að félmrn. og sveitarfélög telji að slæm reynsla hafi verið af þessu ákvæði og að hinar rúmu heimildir hafi leitt til áfalla í fjárhagsstöðu einstakra sveitarfélaga.

Ein meginástæða þess hefur einmitt verið sú að lánastofnanir hafa oft á tíðum sett atvinnufyrirtækjum stólinn fyrir dyrnar og sagt: Ja, þú verður að koma með ábyrgð sveitarfélagsins ef við eigum að veita þér lánafyrirgreiðslu. Fjölmörg atvinnufyrirtæki hafa lent í þessari stöðu gagnvart lánastofnunum. Það er nú svo hlálegt í þessu að til skamms tíma voru jú allar eða langflestar lánastofnanir hérlendis í fullri eigu ríkisvaldsins. Hér var almannavaldið að krefjast skuldbindingar þegnanna gegnum ríksbanka gagnvart einstökum atvinnufyrirtækjum og knýja þar á ábyrgð sveitarfélaga.

Þessi aðferð lánastofnana gagnvart einstökum sveitarfélögum og fyrirtækjum, að stilla mönnum upp við vegg, sérstaklega í erfiðri fjárhagsstöðu, hefur í mörgum tilfellum leitt til áfalla, ekki bara í fyrirtækjarekstri heldur gagnvart einstökum sveitarfélögum. Sumir kunna að segja að það sé þá betra að þessi kaleikur sé einfaldlega tekinn frá mönnum með því að banna að veita þessar einföldu ábyrgðir. Víst er að það má færa rök fyrir því að sé freistingin ekki fyrir hendi þá falli menn ekki fyrir henni.

Við skulum samt hafa í huga að hér er þess freistað að hafa vit fyrir mönnum, fyrir kjörnum fulltrúum. Ég veit ekki, herra forseti, hvort ástæða er til að hafa vit fyrir kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum frekar en kjörnum fulltrúum á hinu háa Alþingi. Vafalítið væri hægt að færa rök fyrir því að hvort tveggja ætti við við tilteknar aðstæður.

Þó er ekki hægt að segja annað en að sveitarfélögin sjálf hafi óskað eftir því að þessi freisting yrði tekin frá þeim. Þau ályktuðu í mars 1996, þ.e. fulltrúaráð heildarsamtaka íslenskra sveitarfélaga, að taka ætti fyrir einfaldar ábyrgðarveitingar sveitarfélaga til annarra en eigin fyrirtækja.

,,Nútímabankastarfsemi á að vera í stakk búin til að sinna þeirri lánastarfsemi sem reksturinn þarfnast`` sagði í þeirri ályktun.

Hér eru náttúrlega þau skilaboð send til bankakerfisins að láta af þeirri kúgun sem það hefur undanfarin ár beitt fyrirtæki og sveitarfélög með því að segja við fyrirtækin þegar illa áraði: Gott og vel, þú færð fyrirgreiðslu ef sveitarfélagið ábyrgist.

Við þekkjum reyndar dæmi um að stundum hefur verið gengið þannig frá ábyrgðum að úr hafa orðið dómsmál. Það hefur ekki legið ljóst fyrir hvort löglega væri að verki staðið. Ég minnist ágreinings um þetta efni sem nú er í einu af nágrannasveitarfélögunum hér. Vafalítið er æskilegra og betra að kveða skýrt á um þetta, eins og gert er í þessu frv. En þetta, herra forseti, er samt sem áður mikilvæg efnisbreyting frá núgildandi fjármálastjórn sveitarfélaga.

Í þessu sambandi er einnig vert að geta um þær reglur sem eru í nágrannalöndunum varðandi ábyrgðarveitingu sveitarfélaga. Í dönskum sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að viðkomandi ráðherra --- innanríkisráðherra fer þar með málefni sveitarfélaga --- geti sett reglur um heimild sveitarfélaga, m.a. til að skuldbinda sveitarfélag með ábyrgðum. Þar er sem sagt í lögum kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglur. Í þeim reglum eða reglugerð sem danskir búa við er sveitarfélögum óheimilt að taka á sig ábyrgð nema um sé að ræða lán til sveitarfélagsins eða stofnana þess. Vitaskuld er eðlilegt að sveitarfélög geti veitt ábyrgðir til stofnana síns sveitarfélags, en þarna er sami hugsunarhátturinn og hefur núna fengið hljómgrunn í frv. því sem liggur hér fyrir hinu háa Alþingi.

Norsku lögin eru nokkuð örðuvísi. Þar er kveðið á um að hægt sé að veita slíkar ábyrgðir þegar sérstakir hagsmunir sveitarfélagsins tengjast, ef það er ákveðið í lögum eða kveðið á um það af þingi. ,,Sérstakir hagsmunir sveitarfélags`` er vitaskuld orðalag sem hægt er að teygja nokkuð og það hefur verið gert í norskum sveitarstjórnarmálum að nokkru leyti. Þó er kveðið á um að ekki megi veita ábyrgð vegna fjárhagslegra skuldbindinga sem tengdar eru almennum atvinnufyrirtækjum. Þarna er því dregin lína til að fría sveitarfélög frá slíkri þátttöku í atvinnurekstri.

Hjá Norðmönnum er einnig kveðið á um að ráðuneytið sem fer með sveitarstjórnarmál þar, þeir hafa sérstakt sveitarstjórnarráðuneyti, þurfi að samþykkja ákvarðanir sveitarstjórnar við að veita ábyrgðir. Þeir hafa reglugerðarvald í þessum efnum.

Þannig má segja, herra forseti, að þessi breyting á 73. gr., um ábyrgðir, sé nokkuð í anda þess sem gert er á Norðurlöndunum. Hún skerpir aðeins útlínur í fjármálastjórn sveitarfélaga og tekur fyrir þann mikilvæga þátt sem varðar einfaldar ábyrgðir. Ég tel að fyrst og fremst verði komið í veg fyrir hina slæmu venju íslenskra lánastofnana að krefjast sífellt ábyrgðar af þriðja aðila. Það er ekki svo, herra forseti, að þetta vandamál snúi einungis að sveitarfélögum heldur hafa íslenskar lánastofnanir beitt þessum ákvæðum purkunarlaus gagnvart einstaklingum í tengslum við sjálfskuldarábyrgð. Ég man nú ekki hve margir Íslendingar eru í sjálfsábyrgðum en það er stór hluti þjóðarinnar. Brýnt hefði verið að taka á þessum málum og láta lánastofnanir starfa af ábyrgð en ekki sífellt reyna að fría sig faglegum vinnubrögðum með því að láta ábyrgðir þriðja aðila duga.

Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að þessi venja og stjórnleysi í íslenskum lánastofnunum, að krefjast ábyrgðar þriðja aðila, hefur gert þær værukærari við lánveitingar. Þetta snýr ekki einungis að sveitarfélögum, sem hér er verið að reyna að setja skorður við, heldur höfum við dæmi frá deginum í dag um hvernig þetta hefur leikið íslenska skattborgara grátt.

Herra forseti. Það var einmitt upplýst hér, reyndar í kjölfar fyrirspurnar á hinu háa Alþingi, að afskrifuð töp tveggja ríkisbanka, Landsbanka og Búnaðarbanka, hefðu numið um 14 milljörðum á sl. fimm árum. Þetta eru mjög háar fjárhæðir eða eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gat um í sjónvarpsviðtali fyrr í kvöld, næstum því sama upphæð og nettótekju ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga. Tekjuskattur einstaklinga er vitaskuld hærri fjárhæð en stór hluti af henni rennur til sveitarfélaga í formi útsvars og góður hluti annar hefur verið nýttur til greiðslu barnabóta og annars slíks. Sem bein tekjuöflun í ríkissjóð var þessi tekjuskattur til skamms tíma 14 milljarðar en er nú orðinn meira núna. Ef ég man rétt þá er hann um 17 milljarðar sem rennur nettó í ríkssjóð, 17 eða tæpir 20 milljarðar. Við sjáum á þessum samanburði hvílíkar ógnarfjárhæðir hafa í íslensku fjármálakerfi farið í útlánatöp.

[21:30]

Það er athyglisvert í samhengi við þessa grein, 73. gr. sveitarstjórnarfrv. þar sem settar eru skorður við ábyrgðarveitingu sveitarfélaga, að hluti af ástæðunni fyrir þessu tapi er sú venja íslenskra lánastofnana að telja að með því að fá ábyrgð þriðja aðila, hvort sem er hjá sveitarfélagi eða með sjálfskuldarábyrgð einstaklinga, séu menn lausir allra mála og þurfi ekki að gaumgæfa vandlega hverjum verið er að lána og hvort menn séu borgunarmenn, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða lögaðila. Fyrir utan greinilega slaka stjórnun á þessum lánastofnunum er það ein af ástæðunum fyrir þessari ógnvekjandi stöðu. Hér er því snert á þætti í viðskiptaumhverfi okkar sem er mjög mikilvægur og hefur valdið tjóni, ekki einungis hjá sveitarfélögum og atvinnufyrirtækjum tengdum þeim heldur einnig víða í banka- og sjóðakerfinu.

Þessi grein sem ég hef gert að nokkru umtalsefni er hluti af stærri kafla í frv. sem snýr að fjármálum sveitarfélaga. Þar er m.a. kveðið á um sviptingu fjárforræðis sveitarfélaga. Kveðið er á um sérstaka eftirlitsnefnd sem skipuð er af hálfu félmrh. til að fylgjast með fjárreiðum sveitarfélaga. Í þessu frv. er sett upp eins konar aðstoðar- og björgunarleið fyrir sveitarfélög ef illa gengur. Við þekkjum dæmi þess á undanförnum árum að sveitarfélög hafa lent í verulegum fjárhagslegum örðugleikum. Þess er að vænta að með sameiningu sveitarfélaga og styrkingu þeirra með öflugri tekjustofnum sem gerst hefur við það að taka við auknum verkefnum af ríkisvaldinu, þá megi vænta þess að fjárhagsleg umsvif sveitarfélaga verði styrkari á næstu árum og áratugum.

Ég tel samt rétt í þessu sambandi, herra forseti, að geta um nokkra þætti sem tengjast einmitt fjármálum sveitarfélaga. Ég hef kosið í aðdraganda eða inngangi að þessum skipulagsmálum sem fjölmargir aðrir þingmenn hafa gert að umtalsefni, að fjalla nokkuð ítarlega um aðra þætti sem ég held að aðrir ágætir hv. þingmenn hafi kannski ekki farið svo nákvæmlega yfir. Þess vegna hef ég staldrað nokkuð við fjárhagsstöðu eða fjármál sveitarfélaga, þ.e. VI. kafla frv. Þetta eru greinar 58--80. Þetta er einn af meginþáttunum í þessu frv. og segja má að í meginatriðum sé fjárhagsrammi og fjárhagsvinna sveitarfélaga styrkt nokkuð. Hins vegar eru ekki gerðar hér neinar afdrifaríkar kerfisbreytingar og ekki gerðar meiri kröfur til fjárhagsáætlana af hálfu sveitarfélaga eins og brýnt væri.

M.a. væri mikilvægt að kveðið væri skýrt á um það í sveitarstjórnarlögum að menn skyldu láta reikna út og fylgja ársreikningum allar áfallnar skuldbindingar. Misbrestur er á þessu. Oft og tíðum hafa t.d. ekki fylgt eftirlaunaskuldbindingar. Ég veit nú ekki hversu margir þingmenn hafa verið skoðunarmenn hjá sveitarfélögum. Ég var í nokkur ár skoðunarmaður bæjarreikninga á Seltjarnarnesi þar sem ég bjó og þar var ýmislegt í fjármálalegri skipulagningu hvað snertir ársreikningagerð og annað slíkt sem betur mátti fara út frá lagalegu sjónarmiði. Ekki svo að skilja að nokkru hafi verið ábótavant við reikninga. Svo var alls ekki. En það er mjög mikilvægt að fjárhagslegar skuldbindingar framtíðarinnar liggi mjög ljóst fyrir, sérstaklega hjá sveitarfélögum.

Á þeim árum þegar ég var skoðunarmaður bæjarreikninga sögðu lög ekki til um nákvæma framsetningu á skuldbindingum framtíðarinnar hvað þetta varðar. Sum sveitarfélög reiknuðu þetta út og birtu. Sveitarfélög hafa verið að endurbæta framsetningu á sínum reikningum undanfarin ár en ég tel að skýrari og betri ramma hefði mátt gera um fjármál sveitarfélaga en gert er í þessu frv. Því miður var sú leið farin að vinna í meginatriðum út frá núverandi löggjöf. Ég hefði talið réttara, herra forseti, ef menn hefðu haft betri hliðsjón af hinni merku löggjöf um fjárreiður ríkisins sem við afgreiddum fyrir ári síðan og sem á vitaskuld að vera leiðandi í allri umræðu um opinber fjármál og er það góðu heilli þó svo að við á hinu háa Alþingi höfum ekki borið gæfu til þess enn að endurskipuleggja störf þingsins eftir þeirri ágætu löggjöf. Það verður að bíða endurskoðunar þingskapa, en verður ekki gert að um talsefni í þessari ræðu. Hins vegar er gott að vekja athygli á því að við eigum góða löggjöf um opinber fjármál sem hefði mátt nota meira til hliðsjónar við gerð þessa frv. Ég sakna þess að hv. félmn. skuli ekki hafa gefið sér tóm til að fara betur ofan í fjárhagslega skipulagningu sveitarfélaga, gera þar betri og sterkari kröfur hvað varða fjárhagslegar skuldbindingar, sérstaklega hvað varðar framtíðarrekstur.

Þó er sett inn í þetta frv., og er það nýmæli, að sé um meiri háttar fjárfestingar að ræða skuli fylgja álit sérfróðra aðila. Þetta hefði náttúrlega mátt koma miklu fyrr og er vitaskuld til bóta. Þetta á að vera almenn regla alveg eins og það er almenn regla að öllum lagafrv. á hinu háa Alþingi skuli fylgja greinargerð frá fjmrn. um áætluð útgjöld vegna samþykktar viðkomandi frv. Það er góð regla, herra forseti, og hefði mátt finna skýrari hljómgrunn í þessu frv. til sveitarstjórnarlaga.

Eftirlitsnefndin sem sett er á laggirnar er í 74. gr. frv. --- það er tilviljun að þessar tvær greinar standa hlið við hlið. Ég tel þær merkastar í þessum kafla og fyrir utan 1. gr. og ákvæði til bráðabirgða e.t.v. þær greinar sem menn ættu að staðnæmast hvað mest við í umræðunni, án þess að ég vilji gera neitt lítið úr öðrum greinum frv. En í þessari grein, 74. gr., með yfirskriftinni Eftirlitsnefnd, er kveðið á um að ráðherra skipi þriggja manna eftirlitsnefnd. Hér er átt við félmrh. Hér má strax spyrja hvort að þetta eigi að vera félmrh. sem er sveitarstjórnarráðherrann eða hvort hér hefði kannski farið betur á að hafa fjmrh. eða að sameiginleg skipun fjmrh. og félmrh. hefði átt að eiga sér stað hvað þessa eftirlitsnefnd varðar. Ég hefði talið það vel koma til álita. En ákvæðið stendur samt og ekki er gerð nein breyting á því í brtt. nefndarinnar. Ráðherra skipar þessa þriggja manna eftirlitsnefnd. Hlutverk hennar er að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga.

Varðandi skipun í nefndina þá er einn fulltrúi skipaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera löggiltur endurskoðandi. Ráðherra skipar formann nefndarinnar. Þetta er hefðbundin ráðherranefnd. Verksvið hennar er að athuga árlega reikningsskil sveitarfélaga og bera þau saman við ákveðin viðmið sem eru sett af hálfu ráðherra í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Kveðið er á um þar að setja skuli eftirlitsnefndinni reglur í reglugerð, það er sérstök reglugerðarheimild hvað varðar þessa grein.

Ef athugunin leiðir til athugasemda og í ljós að fjármál sveitarfélags stefni í óefni skal nefndin aðvara viðkomandi sveitarfélag og samhliða upplýsa ráðuneytið um störf sín. Það er augljóst hvað hér er á ferðinni. Verið er að setja upp eftirlitsaðila með fjármálum sveitarfélaga. Við höfum svona eftirlitskerfi annars staðar í okkar samfélagi. Bankaeftirlitið hefur t.d. eftirlit með fjármálastofnunum og reyndar lífeyrissjóðum núna. Þetta varðar náttúrlega hinar almennu útlínur eftirlits en hið daglega eftirlit og árlega eftirlit er vitaskuld reyndar á forræði löggiltra endurskoðenda, endurskoðenda viðkomandi sveitarfélaga. Menn rugla þessu oft saman í umræðu og vanmeta hlutverk endurskoðenda við eftirlitsstörf.

Svo ég haldi aðeins áfram með hlutverk þessarar eftirlitsnefndar vegna þess að þetta er nýmæli, þá er ekki aðeins kveðið á um að það beri að aðvara sveitarfélagið og upplýsa ráðherra um stöðu mála heldur er sveitarstjórninni skylt að gera nefndinni grein fyrir því innan tiltekins frests, þ.e. tveggja mánaða, hvernig hún hyggist bregðast við þessari aðvörun. Hér er því búinn til eftirlitsaðili og ef hann finnur eitthvað athugavert kemur hann ábendingum á framfæri og þá er skylt að bregðast við og segja a.m.k. hvernig menn ætli að greiða úr þeim vandkvæðum sem upp eru komin.

Reglugerð skal sett um þetta. Ekki er í löggjöfinni kveðið nákvæmlega á um þessar viðmiðanir varðandi fjárhagsleg málefni sveitarfélaga. Einungis er sagt að ráðherra eigi að setja slíka umgjörð í samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga og að þessar fjárhagsviðmiðanir skuli taka til þeirra atriða sem skipta meginmáli við mat á rekstri og efnahag sveitarfélaga.

Eitt mikilvægt atriði hér er að ákvarðanir nefndarinnar eru endanlegar og verða ekki kærðar til ráðherra. Hér eru því teknir út kærumöguleikar, hin hefðbundnu ákvæði stjórnsýslulaga, og það markast af eðli þessarar nefndar. Þetta er eftirlitsnefnd og hlutverk hennar er fyrst og fremst til að beina sjónum manna að því sem betur má fara og knýja á um úrbætur. En hún hefur ekki vald til annarra ákvarðana. Þó er heimilt eins og kemur fram í næstu grein að sé um alvarleg atvik að ræða getur ráðuneytið að fengnum tillögum eftirlitsnefndarinnar veitt sveitarfélaginu lán eða styrk úr jöfnunarsjóði til að koma fjárhag sveitarfélagsins á réttan kjöl.

Ástæðan fyrir því að þetta ákvæði er sett er að ákvæði um eftirlit með fjármálum sveitarfélaga hafa verið mjög veik í íslenskri löggjöf. Ég nefndi áðan að menn í fjármálaumhverfinu hafa verið að víkka út starfsemi bankaeftirlitsins yfir á starfsemi lífeyrissjóðanna sem lutu ekki almennu eftirliti nema því sem kveðið var á um í lögum um ársreikninga og endurskoðun og bókhald, sem er vitaskuld aðaleftirlitið. Nú hafa menn ákveðið að stíga skrefi lengra og sameina bankaeftirlitið og Vátryggingareftirlitið í eitt fjármálaeftirlit. Þá erum við komin með eina stofnun hér sem hefur eftirlit á fjármagnsmarkaði, hvort heldur er með lánastofnunum, lífeyrissjóðum, verðbréfafyrirtækum og eiginlega öllu því sem hreyfist á þessum mjög svo kvika fjármagnsmarkaði.

[21:45]

Það frv. var til umfjöllunar í hv. efh.- og viðskn. og bíður nú --- er eitt af þessum 70 málum sem bíða víst hér afgreiðslu, mjög svo gott mál sem hv. efh.- og viðskn. stóð samhljóða að. Ég geri þetta að umtalsefni vegna þess að hér eru menn svolítið að fikra sig inn á þessa leið, sem ég held að sé rétt, þ.e. að komið sé fyrir eftirlitsaðilum með opinberum fjármálum. Við höfum séð nauðsyn þess að gott eftirlit sé haft með lánastofnunum og á fjármagnsmarkaði og þessi nýja löggjöf sem ég nefndi mun styrkja það enn frekar. Ég held að þessi eftirlitsnefnd, sem er nýmæli, sé til bóta. Það hefði e.t.v. mátt útfæra þetta á annan hátt, að sterkara eftirlit og stofnun kæmi þar að, svipað og Ríkisendurskoðun kemur að ýmsum þáttum sem tengjast ríkisrekstrinum, þó svo að meginstarfið sé unnið enn og aftur af endurskoðendum viðkomandi sveitarfélags eða stofnana. Menn eiga ekki að ofmeta hlutverk ytri eftirlitsaðila þótt nauðsynlegt sé. Það má eiginlega lýsa því nokkuð með því að hlutverk þeirra sé að hafa eftirlit með eftirlitinu, að eftirlitið sé innt rétt af hendi. Við þekkjum, herra forseti, að umræðan um það í tengslum við Landsbankamálið er í fullum gangi einmitt í tengslum við verkaskiptingu milli endurskoðenda Landsbankans og Ríkisendurskoðunar og svo innri endurskoðunar þess banka. Umræðan er því um þessa þrjá eftirlitsaðila sem komu þar að og samræmingu þar á milli, en eins og alþjóð veit var verulegur misbrestur þar á í tengslum við Landsbankamálið svo vægt sé að orði kveðið.

Nefndin sjálf og verksvið hennar er síðan nánar markað í 75. gr. sem er reyndar samhljóða eða að meginstofni til byggð á ákvæðum 90. gr. núv. sveitarstjórnarlaga, en þó með þeirri mikilvægu undantekningu að núna eru þessi eftirlitsákvæði eða úrræði ráðuneytisins við slaka fjárhagsstöðu sveitarfélaga löguð að tilurð þeirrar eftirlitsnefndar. Ef í ljós kemur að sveitarstjórn finnur út að ekki sé hægt að standa í skilum, menn lendi í fjárþröng, þá er kveðið á um að tilkynna skuli það til eftirlitsnefndar og skuli taka það til umræðu í viðkomandi sveitarstjórn og kveðið á um að það skuli vera eftir tvær umræður í sveitarstjórn.

Hér erum við vitaskuld að tala um mjög alvarlegan hlut, þ.e. ef sveitarstjórn kemst í fjárþröng þá skuli það ekki einungis tilkynnt til eftirlitsnefndar á markvissan hátt heldur skal það tekið til umræðu í sveitarstjórn og þannig að öllum sveitarstjórnarmönnum og íbúum viðkomandi sveitarfélags sé kunnugt um þessa stöðu.

Þá eru skuldbindingar eftirlitsnefndarinnar þær að láta fara fram rannsókn á fjárreiðum og rekstri sveitarfélagsins og leggja fyrir sveitarstjórn hvernig bæta á það sem áfátt kann að reynast innan hæfilegs frests. Hérna erum við að tala um úrræði, komi til alvarlegra fjárhagserfiðleika. Kemur þá eftirlitsaðilinn inn í með ábendingar og skyldur eru settar á herðar sveitarstjórnar að bæta þar úr.

Það er mikilvægt í sambandi við einmitt 3. mgr. 75. gr., að sveitarstjórn hefur ekki vald til að hunsa ábendingar eftirlitsnefndar. Henni er skylt að fara eftir þeim og ef hún gerir það ekki er hægt að grípa til aðgerða, og ef í ljós kemur að sveitarfélagið getur ekki staðið að eðlilegum rekstri þá getur ráðherra gripið inn í með fjárframlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Við þekkjum þetta ákvæði einnig í tengslum við til dæmis tryggingasjóðahugtakið í fjármálaheiminum, tryggingasjóðirnir hjá innlánsstofnunum og sparisjóðum. Hér er sama hugmyndafræðin á ferðinni. Komi til mikillar röskunar á fjárhag sveitarfélaga þá er gripið inn í af heildarsamtökum. Það er ekki í þágu neins að eitt sveitarfélag lendi í slíkum hremmingum að í reynd verði þrengt óbærilega að íbúunum.

Eitt af ákvæðunum í frv. er að sveitarfélag verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta. Ekki er gert ráð fyrir því að sveitarfélög, samfélag íbúa, sé fyrirtæki eins og við þekkjum heldur er hér um að ræða allt öðruvísi lögformlega uppbyggingu og það getur ekki verið gert gjaldþrota. Hins vegar getur sveitarfélag lent í því að missa fjárforræði sitt. Ráðherra er heimilt samkvæmt þessu frv. og samkvæmt núgildandi sveitarstjórnarlögum að svipta sveitarstjórn fjárforráðum og skipa því fjárhaldsstjórn. Það er sem sagt hægt að taka fjárhagsstjórnina úr höndum sveitarfélags ef í óefni er komið. Þetta eru svipuð ákvæði og eru í eftirlitskafla í lögum um viðskiptabanka, þ.e. heimildir bankaeftirlitsins, ef menn fara algjörlega út úr korti hvað varðar fjármálalega stjórn og ekki hægt að rétta þar við og stjórnendur ekki færir um að grípa til þeirra úrræða sem nauðsynleg eru, þá er heimilt að setja eftirlitsmann inn í viðkomandi stofnanir sem hefur tiltekna lagalega stöðu. Hér gengur því enn og aftur sama hugmyndafræði inn í fjármál sveitarfélaga. Sett er á laggirnar að vísu ekki mjög sterk eftirlitsnefnd, en hugsunin er hin sama. Það er einhver sem hefur eftirlit með eftirlitinu og komi til alvarlegra vandræða er gripið inn í af hálfu ráðherra með tilteknum hætti og settur um það lagarammi þannig að ekkert fari milli mála komi slík staða upp.

Þó svo að sveitarfélög geti ekki orðið gjaldþrota, þá getur ráðuneyti óskað eftir því ef það hefur verið svipt fjárforræði að sveitarfélagi verði veitt heimild til greiðslustöðvunar eða að leita nauðasamninga eftir almennum reglum. Sveitarfélög við tilteknar mjög slæmar fjárhagslegar aðstæður hafa því sömu möguleika og aðrir aðilar í samfélaginu, þ.e. að fara í greiðslustöðvun sem þýðir að ekki er hægt að ganga að mönnum á tilteknum tíma meðan menn eru að reyna að greiða úr fjárhagsvandræðum sínum. Þennan rétt hafa bæði einstaklingar og lögaðilar. Síðan er hægt að leita nauðasamninga sem felast í því að lánardrottnar gefa eftir hluta af skuldum sínum gegn því að fá þá annað greitt eftir tilteknum reglum. Þetta eru hinar almennu reglur sem gilda í samfélaginu bæði gagnvart lögaðilum, fyrirtækjum og einstaklingum og sjálfsagt að hafa líka alveg sambærilegan rétt gagnvart sveitarfélögum.

Það er einnig kveðið á um það í lögum að fjárhaldsstjórn sveitarfélags skuli skipuð þremur mönnum. Þetta er óbreytt ákvæði frá núgildandi lögum. Það eru ýmis ákvæði í þessum kafla laganna sem hefðu mátt fá betri vinnslu, bæði í nefndinni sem undirbjó frv. og í þingnefndinni að mínu mati. Ég hefði talið að um kaflann sem varðar endurskoðun og annað þess háttar hefði mátt á almennari hátt setja tilvísun til laga um endurskoðun. En það eru ítarleg ákvæði hér og þau eru öll af hinu góða. Ég hef áður látið í ljós þá skoðun að þar sem við komumst af með almenna löggjöf eigum við að reyna að vísa til hennar frekar en að kveða á um ákvæði í sérlögum sem gilda í almennum lögum. Það er að vísu hlutur sem við gerum oft og tíðum og er að nokkru leyti í þessari löggjöf, sérstaklega hvað varðar endurskoðunar- og ársreikningsþáttinn. Þetta er hins vegar ekki neitt stórmál og vafalítið verða lögin líka skoðuð betur en sveitarstjórnarlög eru þess eðlis að þau eru sífellt undir í umræðu milli manna. Þótt svo ýmislegt minni háttar megi betur fara þá finnst örugglega farvegur fyrir það á næstu missirum.

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað sjá róttækari uppstokkun á þessari löggjöf en það er ekki gert í þetta sinn. Það má e.t.v. segja að róttæknin sé alveg nóg þegar kemur að 1. gr. frv., það er uppleggið um skipulagsþáttinn. Það er e.t.v. alveg nóg sem við höfum þar af að taka eins og fjölmargir aðrir þingmenn hafa gert hér að umtalsefni.

Ég vil reyndar geta þess, af því ég sagði áðan varðandi 74. gr. að ekki sé gert ráð fyrir að hægt sé að kæra ákvarðanir eftirlitsnefndar til ráðherra, og ég gat um að þar væru tekin úr sambandi stjórnsýsluákvæðin. Það var gert í frv. eins og það var lagt fram, en sú breyting var gerð í félmn. eða tillaga til breytingar sem væntanlega verður einhvern tíma í næsta mánuði gengið til atkvæða um, að breyta síðustu málsgrein 74. gr. þannig að ákvarðanir eftirlitsnefndar verði hægt að kæra til ráðherra. Ákvarðanir eftirlitsnefndar eru með brtt. nefndarinnar felldar undir stjórnsýsluákvæði eða kæruleiðir stjórnsýslulaganna, og er það vitaskuld réttarbót að slík ákvörðun fái þá málsmeðferð.

Herra forseti. Ég tel núna rétt að fjalla nokkuð um þann þátt sem snýr að skipulagsmálum sem reyndar hefur verið farið mjög ítarlega í af hálfu annarra þingmanna. Ég tel vel við hæfi að vitna til fjölmenns fundar sem var haldinn á Hótel Borg á mánudaginn og boðað var til af mjög fjölmennum samtökum útivistarmanna. Tilefni fundarins var þetta frv. Fundarmenn sendu bréf til hæstv. forsrh. sem er undirskrifað af fjölmörgum forsvarsmönnum úr þessu umhverfi.

[22:00]

Það var af hálfu Hins íslenska náttúrufræðifélags, af hálfu Ferðafélags Íslands, af hálfu Íslenska alpaklúbbsins, af hálfu Útivistar, af hálfu Jöklarannsóknafélags Íslands, Skotveiðifélags Íslands, Landssambands ísl. vélsleðamanna, Ferðaklúbbsins 4x4 og stangaveiðifélagsins Ármanna. Þetta voru þeir aðilar sem sendu hæstv. forsrh. bréf um þetta mál. En á fundinum voru flutt nokkur erindi, mjög góð og merk erindi, sum þeirra held ég að hafi varla verið gerð að umtalsefni hér á þessum fundi, en mig langar til, herra forseti, að vitna til eins af þessum erindum sem voru flutt á fundinum. Það var erindi sem Guðmundur Sigvaldason prófessor, forstöðumaður Norrænu eldfjallastöðvarinnar, flutti og er í meginatriðum birt í dagblaðinu Degi í morgun, fimmtudaginn 7. maí. Ég er, herra forseti, hér með mjög nýlegar greinar því að ég hóf ræðu mína á því að vitna í grein hv. þm. Guðna Ágússonar frá deginum í dag, og nú er ég með aðra grein, einnig frá deginum í dag, sem ég tel ástæðu til að gerð sé hér að sérstöku umtalsefni vegna þess að hún fjallar um skipulagsþáttinn, þ.e. 1. gr. í því frv. sem við erum að fjalla hér um.

En þessi grein, með leyfi forseta, hún ber yfirskriftina Hálendið, og þar segir svo:

,,Þeir eru fáir, sem enn muna Herðubreiðarlindir eins og þær voru áður en Þorsteinsskáli var byggður. Þeir eru jafnvel fáir, sem enn muna Herðubreiðarlindir áður en þar risu mannvirki til að hýsa landverði og taka á móti þúsundum ferðamanna. Þeir, sem enn muna eru haldnir undarlegri fortíðarþrá, sem gerir heimsókn til Herðubreiðarlinda nútímans að dapurri upplifun og staðfestir þann grun sem flestar kynslóðir bera í brjósti, að heimur versnandi fer.

Í útvarpsþættinum Víðsjá var í síðustu viku endurflutt frægt erindi Halldórs Kiljans Laxness um ,,Hernaðinn gegn landinu``. Aldrei hefur neitt verið samið og flutt sem lýsir umgengni Íslendinga við landið betur en þetta erindi Halldórs, enda fór þar saman ritsnilld hans og djúpstæð þekking Sigurðar Þórarinssonar prófessors á sambúð lands og þjóðar, en Sigurður átti margar ferðir að Glúfrasteini meðan erindið var samið. Það kann að hafa þótt voguð fullyrðing hjá Halldóri, og þykir e.t.v. enn, að engin þjóð hafi níðst á landi sínu í sama mæli og Íslendingar. Þó er hægt að styðja þá fullyrðingu gildum rökum, byggðum á ítarlegum rannsóknum. Víst er margt til afsökunar í harðbýlu landi og tæpast hefði þjóðin lifað af nema með hjálp sauðkindarinnar, enda hefur sú dýrategund sérréttindi í þessu landi, sem eiga hvergi sinn líka á byggðu bóli. Þjóðin er ekki lengur háð þessu dýri til fæðis og klæða og það er mun brýnna að afnema sérréttindi sauðkindarinnar en að setja lög um stjórnsýslu skipulag hálendisins. Ég held raunar að afnám þessara sérréttinda og útilokun þess hugarfars sem þeim fylgir geti verið veigamikil forsenda þess að gera skynsamlega áætlun um hvernig nútímafólk eigi að umgangast svokallaða afrétti og hálendi Íslands.

Skipulag hálendisins er kjarni þeirrar umræðu, sem hér fer fram og við erum áhyggjufull og óttumst að málið sé ekki nægjanlega vel hugsað og undirbúið. Upphaflegt frumvarp til laga var gagnrýnt og síðan var reynt að gera á því flaumósa breytingar til að ná sáttum meðal alþingismanna. Viðtöl við þann ráðherra og sauðfjárbónda, sem ýtir málinu úr vör, benda til þess að honum sé þjóðarsátt lítils virði. Skipulag greinist í tvo þætti, hvað og til hvers á að skipuleggja og hvernig á að skipuleggja. Fyrra atriðið vísar til þess að fyrir liggi einhver knýjandi þörf á skipulagi til að forðast óreiðu. Seinna atriðið höfðar til aðferðar, sem aftur vísar til smekks en smekk er erfitt að skilgreina nema í tengslum við tilfinningar og menningarlegt uppeldi.

Krafan um skipulag hálendis Íslands byggir á tvenns konar þörf. Í fyrsta lagi þörfinni að hafa hemil á umhverfisspjöllum vegna þess að nú þegar skapa ýmsir aðilar sér atvinnu, eða leita sér skemmtunar með óvarlegri umferð og varanlegri mannvirkjagerð eftir happa- og glappaaðferðinni. Þessir sömu aðilar hafa þörf fyrir að halda áfram sömu iðju eftir skipulagi, sem gerir þeim kleift að auka umsvif sjálfum sér til tekna en landinu til lítillar þurftar. Í öðru lagi skapast svokölluð þörf vegna þess að á hálendinu eru seljanlegar auðlindir í orku fallvatna. Hugsunin og rökfærslan að baki þeirrar þarfar er sú siðfræði að selja allt sem hægt er að selja burtséð frá huglægum og siðrænum verðmætum. Þannig seldi junkærinn frá Bræðratungu Hið ljósa man fyrir brennivín, munurinn í sjálfu sér enginn annar en sá að nú eru menn drukknir af glýju stóriðjudraumanna, mestu martraðar nútímans á Íslandi. Þannig byggist hin knýjandi þörf á skipulagi hálendisins ekki á áhuganum á verndum eða varðveislu verðmæta, þörfin er einungis vegna óska um skipulega nýtingu og fjárhagslegan ávinning, sem mun fela í sér óafturkræf spjöll.

En er það sem nú var sagt ekki rökleysa? Er það ekki einmitt krafa tímans að nýta þau verðmæti náttúrunnar sem eru nærtæk og auðfengin til að bæta og tryggja efnahag þjóðarinnar? Og aftur má spyrja: Krafa hvaða tíma? Það var krafa tímans að eyða skógum landsins og fletta áttatíu hundraðshlutum jarðvegs af yfirborði þess. Það var krafa tímans að láta lagðsíða grasbíta herja á svokallaða afrétti öldum saman. Það var krafa tímans að sækja fisk úr sjó með sífellt fullkomnari tækjum uns ekki varð hjá því komist að fá umráð yfir stærri hafsvæðum. Þegar ekki var hægt að ausa meiri fiski úr öllu þessu hafi var það krafa tímans að leita á önnur mið þó að það kostaði illvígar deilur við grannana. Þegar allt um þrýtur er það krafa tímans að hefja stórorustu í hernaðinum gegn landinu á skipulagðan hátt.

Hver er sá rauði þráður, sem tengir allar þessar tímabæru kröfur saman í eina skiljanlega heild? Einfaldlega sú staðreynd að allt frá landnámi að Íslendingar sóttu viðurværi sitt til auðlinda lands og sjávar með grófum aðferðum rányrkjunnar. Þess vegna gat Halldór Laxness fullyrt með sterkum rökum að engin þjóð hefði níðst á landi sínu eins og Íslendingar.

Þessi orð vísa til fortíðar, þau þurfa ekki og mega ekki vísa til framtíðar. Margt bendir til að breyting sé í aðsigi. Sífellt stærri hluti þjóðarinnar er þeirrar skoðunar að nútíminn hrópi á breyttar áherslur sem fela í sér nýtingu orkunnar sem býr í manninum sjálfum og hægt er að virkja með aukinni menntun og hvatningu til hugmyndasköpunar. Þess eru greinileg merki að unga fólkið hlýði því kalli og beini kröftum að arðbærum en vistvænum verkefnum. Þessi breyting á afstöðu og áherslum í huga fólksins í landinu er enn ekki nægjanlega langt gengin til að ná inn í sali Alþingis þar sem meiri hlutinn ætlar að samþykkja lög byggð á hugsun og siðferði fortíðar. Umræða um umhverfismál og skoðanamyndun þjóðarinnar á umhverfismálum er því miður óralangt á eftir tímanum eins og undrunarvert umburðarlyndi gagnvart réttindum sauðkindarinnar ber ljóst vitni.

En þetta er að breytast og það breytist nokkuð hratt. Þess vegna yrði það stórslys ef stjórnsýslu og skipulagsmálum dýrmætra hálendissvæða Íslands yrði ráðið til lykta með hroðvirknislegri flýtimeðferð manna sem fæstir hafa tilfinningu fyrir þeim verðmætum sem þeir eru að ráðstafa. Íslendingar eru alls ekki tilbúnir að ákveða með hvaða hætti á að umgangast hálendið. Hálendið er fjársjóður, sem ekki verður metinn til peninga, og þangað á að sækja tekjur sem mölur og ryð fá ekki grandað og eru af sumum mældar í hamingjustundum.``

Þetta, herra forseti, var grein sem birtist í Degi í morgun, eftir Guðmund Sigvaldason, prófessor og forstöðumann Norrænu eldfjallastöðvarinnar, og er í meginatriðum það erindi sem hann flutti á fjölmennum fundi útivistarfólks og annarra áhugamanna á Hótel Borg á mánudaginn. Ég tel brýnt, og þess vegna las ég þessa grein hér, herra forseti, að þessi grein fái sitt rúm í Alþingistíðindum. Þetta eru skynsamleg orð, þetta eru vel mælt orð, þetta eru vel íhuguð orð og þau eru ekki einungis töluð af mikilli þekkingu heldur af mikilli virðingu gagnvart landinu. Þetta eru orð sem eru töluð af manni sem þekkir íslenskt miðhálendi einna best núlifandi Íslendinga.

Herra forseti. Við eigum að taka mark á slíkum mönnum. Við eigum ekki að setja löggjöf sem gengur þvert á skoðanir þessara manna, við eigum að gefa þessum mönnum ráðrúm að tala um málið, koma að því, gefa ráð og hafa skoðun. Þessir aðilar allir, þessir sérfræðingar, þetta fólk sem þekkir landið, þykir vænt um það og vill því vel, það vill fá að koma undirbúningi málsins. Mér finnst, herra forseti, að það sé skylda okkar að verða við þeim óskum.

Þeir aðilar sem ég nefndi áðan og voru uppsprettan að þessum fundi þar sem Guðmundur Sigvaldason flutti þetta ágæta erindi og önnur góð sem þar voru flutt, þó svo að ég geti ekki gert þau hér að meira umtalsefni, sendu forsrh. bréf þar sem forsvarsmenn þeirra fara þess á leit að það frv. sem við erum hér að ræða verði ekki afgreitt sem lög frá þessu þingi. Þetta er hógvær krafa, ekki er verið að setja fram kröfu um breytingar á frv., það er ekki verið að skammast, það er ekki verið að hafa nein orð um. Það er verið að biðja um að afgreiða ekki þessi lög.

Þeir segja einnig í þessu bréfi að þeir telji að ekki verði bundið með illafturkræfanlegum hætti hvernig skipulags- og stjórnsýslumálum verði háttað á miðhálendi Íslands. Þessir aðilar hafa áhyggjur af því að stigið verði skref sem ekki verði hægt að stíga til baka.

Þeir segja einnig í þessu bréfi að það þurfi meiri tíma til opinnar umræðu þannig að þjóðin öll, eigandi hálendisins, fái að láta í ljós skoðun sína. Þetta eru hógvær orð, herra forseti, hér eru engin stóryrði höfð uppi. Hér er fólk að tala sem þykir vænt um landið. Þeir segja að verði þetta frv. afgreitt næstu daga, eins og yfirforseti þingsins, hæstv. forsrh., er búinn að segja að verði, þá er það skoðun þessara aðila að það kalli á endalausar deilur og óeiningu meðal þjóðarinnar.

Þeir segja jafnframt að með þessu frv. sé verið að útiloka meiri hluta þjóðarinnar frá því að hafa nokkur áhrif á nýtingu hálendisins og þeir telja hættu á því að almannaréttur verði fyrir borð borinn.

[22:15]

Í framsöguræðu fyrir minnihlutaáliti heilbr.- og trn. kom fram hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að þetta væri mesta atlaga sem gerð hefði verið að almannarétti á Íslandi. Þeir kveða ekki svo fast að orði sem hér biðja hógværlega um meiri tíma. Þeir leggja hins vegar til, svo ég vitni orðrétt í bréf til hæstv. forsrh., með leyfi forseta:

,,Sem forsvarsmenn helstu útivistar- og náttúrufræðifélaga landsins og fulltrúar þúsunda Íslendinga teljum við skilning meiri hluta þjóðarinnar vera þann að miðhálendið sé ein heild sem ekki beri að rjúfa, hvorki skipulagslega né stjórnsýslulega.``

Þessi samtök eru í reynd ekki að segja annað en það sem við jafnaðarmenn höfum lagt til. Við höfum lagt til mjög einfalda lausn á þessum vanda. Hún er sú að miðhálendið verði ein stjórnsýsluleg eining með sérstakri stjórn. Það þýðir að öll skipulagsmál verði undir sérstakri stjórn. Öll skipulagsmálin verði samræmd á miðhálendinu en ekki eins og frv. leggur til, að það verði bara nálæg sveitarfélög sem fari með allt skipulagsvald fyrir utan að svæðisskipulag fari í umsögn tiltekinnar nefndar.

Hinn mikli ágreiningur í þessu máli snýst um spurninguna: Viljum við að sveitarfélögin fari með stjórnsýsluvaldið á miðhálendinu eða viljum við að miðhálendið sé sérstök stjórnsýslueining? Við jafnaðarmenn höfum lagt til að þetta eigi að vera ein stjórnsýslueining og þar með eru skipulagsmál og aðrir stjórnsýslulegir þættir undir einni stjórn. Það er merkilegt að allir þeir aðilar sem skrifa undir þetta bréf taka undir sjónarmið okkar jafnaðarmanna. Það var gaman, herra forseti, að vera á þessum fundi og ekki einungis heyra þetta bréf lesið upp og heyra hinar ágætu ræður Guðmundar Sigvaldasonar, sem ég las áðan, Steinunnar Sigurðardóttur rithöfundar og annarra góðra frummælenda en í umræðu á eftir kom fram, hjá öllum sem töluðu um málið, að þeir vildu meiri tíma. Flestir lögðu til lausn og hjá öllum þeim sem tóku til máls var lausnin sú sem við jafnaðarmenn höfum lagt til, þ.e. að miðhálendið skuli vera ein skipulagsleg og stjórnsýsluleg heild. Í þessu bréfi segja fulltrúar þúsundanna, útivistarmannanna, þessara manna sem þykir hvað vænst um miðhálendið og þekkja það best af öllum landsmönnum, að þögn þjóðarinnar þar til á síðustu vikum megi ekki skilja svo að meiri hluti þjóðarinnar sé fylgjandi því sem lagt er til í stjórnarfrv. Þeir segja jafnframt að það sé augljóst að hvorki ráðamenn þjóðarinnar né almenningur hafi gert sér grein fyrir þýðingu málsins.

Herra forseti. Við erum hér með góðan þingmeirihluta. Sjálfstfl. og Framsfl. fengu gott fylgi í síðustu kosningum, þeir hafa 40 þingmenn. Þeir hafa því meiri hluta á hinu háa Alþingi en nota hann ekki til að fylgja eftir sjónarmiðum meiri hluta landsmanna. Þvert á móti nota þeir meiri hluta sinn á hinu háa Alþingi til að gæta hagsmuna hinna fáu á kostnað fjöldans. Um það snýst þessi ágreiningur. Hann snýst um almannahagsmuni gegn sérhagsmunum. Í þessu miðhálendisfrv. endurspeglast almannahagsmunir gegn sérhagsmunum. Þess vegna, herra forseti, er hugmyndafræðilegur ágreiningur er milli stjórnar og stjórnarandstöðu.

Við sjáum það í umræðunni um gjafakvótakerfið. Þar takast á almannahagsmunir gegn sérhagsmunum. Verndarar sérhagsmunanna eru enn og aftur sömu flokkarnir og vernda sérhagsmunina í miðhálendismálinu, Sjálfstfl. og Framsfl. Við sjáum í umræðunni um siðblinduna sem ríkir í þjóðfélaginu hverjir þátttakendurnir eru, hverjir eru aðalleikendur í Landsbankamálinu og í þeim málum sem eiga eftir að koma í kjölfarið. Jú, ráðamenn í Sjálfstfl. og Framsfl. Það er engin tilviljun að þessi skörpu skil séu að verða í íslensku samfélagi, skilin milli almannahagsmuna og sérhagsmuna. Öll þessi mál tengjast: Miðhálendismálið, gjafakvótamálið, siðblindan í opinberum rekstri. Öll þessi mál tengjast í baráttunni milli almannahagsmuna og sérhagsmuna. Í öllum þessum málum standa stjórnarflokkarnir, hinn stóri sjálfstæði Framsfl., Sjálfstfl. og Framsfl., sameinaðir sem ein heild gegn okkur í stjórnarandstöðunni, fyrst og fremst gegn okkur jafnaðarmönnum.

Þessi skýru skil eru að verða í íslenskum stjórnmálum og það er vel. Það er vel að fólkið í landinu geti haft skýra kosti til að velja á milli. Það er sú þróun sem við sjáum nú í sameinuðum framboðum til sveitarstjórna í kringum landið, þar sem við munum væntanlega vinna góða sigra eftir tvær vikur eða svo. Allt stefnir í það. Þótt lokahrinan sé eftir í kosningabaráttunni þá stendur skrifað á vegginn að þessi aðferðafræði sameiningar, samfylkingar sameiginlegra framboða gegn framsóknarhyggju Sjálfstfl. og Framsfl., framsóknarhyggju sjálfstæðismanna, sé skref á réttri leið.

Sannfæring mín, herra forseti, er að það verður ekki staðnæmst við sveitarstjórnarkosningarnar heldur fylgjum við þessu eftir við kosningar til Alþingis á næsta ári. Alltaf er þetta meginþemað, almannahagsmunir gegn sérhagsmunum. Fólkið í landinu skilur það og tekur undir með okkur sem verjum almannahagsmuni.

Í bréfi því sem ég hef verið að vitna til segir að mikilvægt sé að hlusta á raddir hagsmunaaðila og sérfræðinga sem virðist á einu máli um hvernig eigi að fara með eina verðmestu auðlind þessarar þjóðar. Nú eru þetta alvörumenn, útivistarmennirnir sem stóðu að þessum fundi og töluðu á honum. Þetta eru menn sem búa yfir þekkingu á miðhálendinu, fremstu sérfræðingar okkar á þessu sviði.

Ég nefndi áðan hverjir hefðu skrifað undir þetta bréf en þeir eru: formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags, Freysteinn Sigurðsson, Haukur Jóhannesson, forseti Ferðafélags Íslands, Karl Ingólfsson, formaður Íslenska alpaklúbbsins, Lovísa Christiansen, formaður Útivistar, Magnús Tumi Guðmundsson, formaður Jöklarannsóknafélags Íslands, Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélags Íslands, Jón Birgir Jónsson fyrir Landssamband íslenskra vélsleðamanna, Oddur Einarsson, formaður Ferðaklúbbsins 4x4 og Ragnar Hólm, formaður stangaveiðifélagsins Ármanna. Þessir menn undirrituðu bréf til forsrh.

Hvert var svar forsrh. þegar fulltrúar þessara tugþúsunda karla og kvenna lögðu fram þetta hógværa bréf? Jú, það var að gefa yfirlýsingu yfir höfuðið á forsetum þingsins og segja: Öll þessi mál skulu afgreidd núna og þau skulu afgreidd eins fljótt og hægt er. Talið og talið eins og þið viljið og getið en við ætlum að ráða niðurstöðu þessa máls. Við ætlum ekkert að hlusta á ykkur, voru skilaboð hæstv. forsrh. Við ætlum ekkert að hlusta á ykkur, fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Við ætlum ekki að virða ykkur viðlits eða hlusta á ræður ykkar í þingsölum og við ætlum ekki að virða þetta fólk í þjóðfélaginu svars sem biður um frestun til að ræða málin.

Fyrirlitningin gagnvart fólkinu er alger. Látum nú vera þótt hæstv. forsrh. og stjórnarliðar sýni stjórnarandstæðingum fyrirlitningu. Við erum vanir því og höfum þykkan skráp hvað það varðar, en fyrirlitningin gagnvart samfélaginu sem biður um meiri tíma til að ræða þessi mál, hefur áhyggjur af stefnumörkuninni í þessu frv., lítilsvirðingin sem fólkinu er sýnd, ég á þá ósk eina að fólkið muni eftir þessari fyrirlitningu sjálfstæðisflokksforingjans þegar að kosningum kemur. Ef nokkur refsing er til sem stjórnmálamenn skilja, þá er það hvernig kjósandinn beitir atkvæði sínu.

Það er ekki hægt að koma skilaboðum á framfæri öðruvísi en að beita atkvæði sínu gegn þessum mönnum. Til allrar hamingju hafa landsmenn tækifæri til að sýna vilja sinn innan tveggja vikna. Þetta er ekki eina áskorunin eða eina bréfið sem borist hefur. 90 einstaklingar birtu auglýsingu í blöðunum nú fyrir skömmu og óskuðu eftir því að meiri tími yrði gefinn til opinnar umræðu þannig að öll þjóðin fengi að taka þátt í meðferð þessara mála í framtíðinni. Undir þetta bréf skrifar fólk úr öllum flokkum. Þetta er fólk alls staðar að af landinu en hefur þó eitt sameiginlegt og það er væntumþykja gagnvart landinu og sérkunnátta á miðhálendinu. Hvað er gert við áskorun þessa fólks? Við hana er ekkert gert. Henni er hent í ruslakörfuna af hálfu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Ekkert skal hlustað á þessar áskoranir. Það eru skilaboðin sem þetta fólk fær.

Eina leiðin sem við höfum núna í augnablikinu er að reyna að draga upp, eins skýrt og okkur er unnt, málefnalega stöðu þessa máls og efnisatriði. Við verðum freista þess að það mikil umræða skapist í samfélaginu að stjórnarliðarnir verði hræddir og þori ekki annað en láta að vilja meiri hlutans. Hvort almannahagsmunir nái fram að ganga gegn sérhagsmununum, sem þessir ríkisstjórnarflokkar verja fram í rauðan dauðann, er mikið vafamál. Það er óvíst hvort okkur tekst að hindra að þetta mál nái fram að ganga og vitaskuld getum við ekki komið í veg fyrir að meiri hluti Alþingis ráði. Eina sem við getum gert er að leggja fram rökin eins skýrt og hægt er þannig að vel sjáist hvers vegna við teljum þetta mál það brýnt að við teljum ekki eftir okkur að tala í heila viku. Þetta er vitaskuld mikilvægasta mál þessa kjörtímabils. Þetta er eitt mikilvægasta mál sem rætt hefur verið á hinu háa Alþingi allan þennan áratug. Þess vegna, herra forseti, viljum við reyna eins og við getum að sýna stjórnarflokkunum fram á að það er ekki hægt að afgreiða málið eins og þeir leggja upp með.

Í þessu frv. er meginatriðið hvað skipulagsþáttinn varðar að mörk sveitarfélaga eru framlengd allt til jökla, allt inn til miðju landsins, að landið allt skuli skiptast í sveitarfélög og að sveitarfélögin fari með alla stjórnsýslu, þar á meðal skipulagsmál. Þó er þannig kveðið á um í frumvarpsdrögum, sem ekki fást rædd á Alþingi, að sérstök nefnd verði skipuð af hálfu umhvrh. til að koma sem umsagnaraðili að einum þætti skipulagsmálanna, þ.e. svæðisskipulags.

[22:30]

Það er merkilegt, í frv. um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, hvernig sú nefnd er sett upp. Þessi 18 manna nefnd er með einum fulltrúa frá 73 þús. Reyknesinga, með tveimur fulltrúum frá 107 þús. Reykvíkingum og einum fulltrúa frá 9 þús. Vestfirðingum. Síðan eru það sveitarfélögin sem liggja að miðhálendinu, þessi 42 sveitarfélög sem geta haft 12 fulltrúa. Þá kemur einn fulltrúi frá félmrh. og annar frá umhvrh.

Tveir þriðju hlutar þjóðarinnar standa að einum sjötta hluta nefndarinnar. Bara það er út í hött. Það er líka út í hött hvað þessi nefnd á að gera. Við gætum sagt að þetta væri allt saman samkomulagsflötur ef nefndin væri með einhver virkileg völd til skipulagningar á miðhálendinu, ef þetta væri ,,nefndin sem færi með skipulagsmál á miðhálendinu``. En það er ekki svo.

Í því frv. sem ekki má ræða er kveðið á um að nefndin sem nú er að störfum, eldri svæðisskipulagsnefndin, skuli skila af sér og tillögur hennar sendar til staðfestingar hjá ráðherra, að fenginni umsögn hinnar nýju nefndar. Það er beinlínis kveðið á um það í frv. því sem ekki fæst rætt. Þar segir svo með leyfi forseta:

,,Nefndinni er ekki ætlað að taka þá vinnu til endurskoðunar sem þegar hefur verið unnin, aðeins gefa umsögn um hana.``

Þetta segir allt sem segja þarf. Þessi nefnd, hin nýja nefnd, nefndin sem átti að sætta ágreininginn hjá stjórnarliðunum, er einskis virði. Hún er umsagnaraðili um þá vinnu sem þegar hefur verið unnin og það svæðisskipulag sem þegar hefur fengið á sig hundruð athugasemda. Ég er einhvers staðar með allar athugasemdirnar eða meginþorra athugasemdanna við þetta skipulag og það væri vel þess virði, herra forseti, að fara nokkuð yfir þær síðar. Þær sýna vitaskuld galla þessa máls sem eru fólgnir í því að hér fá ekki allir að koma að verkinu, hér er ekki unnið heiðarlega gagnvart íbúum landsins.

Aðalatriðið er að menn viðurkenni að miðhálendið er sameign þjóðarinnar og perla framtíðarinnar. Sameignir þjóðarinnar eiga að nýtast öllum landsmönnum. Allir landsmenn eiga að koma að ákvarðanatöku hvað þetta varðar af sanngirni. Það er eðlileg krafa lýðræðislegs þjóðfélags að sanngirni sé gætt gagnvart íbúum landsins. Við erum ekki að tala um að veita þéttbýlisbúum eða öðrum einhver sérréttindi í þessum málum. Við erum síst af öllu að ganga á sjónarmið og skoðanir þeirra sem búa í hinum dreifðu byggðum, í sveitarfélögunum sem liggja að miðhálendinu. Það er síður en svo. Þvert á móti erum við að rétta út sáttarhönd. Við segjum: Leggjum upp með þá hugsun að miðhálendið sé sameign sem ber að skipuleggja í samræmi undir einni stjórn sem allir koma að, eins og við höfum lagt til, með fulltrúum frá mismunandi ráðherrum eða ráðuneytum og frá sveitarfélögunum. Þá væri hægt að opna fyrir tilnefningar í þessa stjórn og fá inn fleiri aðila eins og fjöldasamtök útivistarmanna sem hafa látið málið sig miklu varða.

Aðalatriðið er: Fallast menn á þá skoðun að miðhálendið eigi að vera ein stjórnsýsluleg eining? Um það er ágreiningur. Ef menn fallast á það, þá geta menn rætt um með hvaða hætti við komum að. Þá væri hægt ræða hvort það væri þessi níu manna stjórn, eins og við leggjum til, eða hvort hún yrði stærri eða minni og hvort fleiri aðilar komi að þessu eins og útivistarsamtök. Við jafnaðarmenn við erum opnir fyrir öllu slíku. En það er óafturkræf krafa af okkar hálfu að þessi almenna regla verði viðurkennd. Það ber að hafa miðhálendið sem eina stjórnsýslulega einingu, eina stjórnsýslulega heild.

Við erum að tala um sameignir þjóðarinnar nákvæmlega eins og þegar við tölum um fiskinn í sjónum. Við tölum um almannahagsmuni gegn sérhagsmunum. Þetta er alveg sambærilegt við það þegar við gengum frá fyrirkomulagi fiskveiðistjórnunar hér á landi. Það hefur reynst vera kerfi sérhagsmuna gegn almannahagsmunum. Þá ákvað meiri hluti Alþingis að koma á gjafakvótakerfi og úthluta veiðiheimildum ókeypis til aðila sem síðan geta verslað með þær eins og þeir vilja. Milljarðar eru greiddir í veiðileyfagjald á Íslandi. Það eru milljarðar. Á síðasta fiskveiðiári höfum við tölur yfir rúmlega 10 milljarða sem greiddir voru í veiðileyfagjald. Þessir tíu milljarðar voru greiddir frá einum útgerðarmanni til annars. Þetta var upphæðin sem útgerðarmenn versluðu með leigukvóta fyrir á síðasta fiskveiðiári.

Þetta er það sama og við stöndum frammi fyrir með miðhálendið. Hver er að verja þetta kerfi og hvers konar kerfi er þetta? Þetta er kerfi sérhagsmuna. Vitaskuld er það kerfi sérhagsmuna og vitaskuld eru útgerðarmenn á móti því að borga veiðileyfagjald. Eðlilega eru þeir á móti því að borga veiðileyfagjald. Þeir vilja vitaskuld ekki minnka sinn hagnað. Hver vill það? Hver vill sjálfviljugur gefa hluta af sínum hagnaði? Ekki nokkur maður. Það er enginn maður sem gengur fram fyrir skjöldu og segir: Ég vil borga hærri skatta. Ekki nokkur maður. Ekki einu sinni hv. alþingismenn.

Meginspurningin er: Hver stendur vörð um þetta kerfi? Hver viðheldur réttinum til að haga þeim sérhagsmunum eins og raun ber vitni? Jú, það eru stjórnmálaflokkar. Það er stjórnmálalegt vald sem viðheldur þessum sérhagsmunum. Hvar liggur þetta stjórnmálalega vald? Það liggur hjá þeim tveimur flokkum sem mynda núverandi ríkisstjórn. Hjá Sjálfstfl. og hjá Framsfl. Hjá þessum flokkum sem eru að renna saman í eina hugmyndafræðilega heild. Það var engin tilviljun að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. ákváðu að trúlofast í að vera staðgenglar fyrir hvorn annan. Það var engin tilviljun. Það var staðfesting á því að hugmyndafræðilega eru þessir flokkar að færast saman. (Gripið fram í: Eins og Hannes Hólmsteinn sagði.)

Hannes Hólmsteinn, einn af guðfeðrum þessarar hugmyndafræði, lagði á síðasta ári til að þessir flokkar sameinuðust. Það var svarið gegn sameiningarhugmyndum okkar jafnaðarmanna, að við ætluðum að sameinast gegn þessum Sjálfstfl., gegn þessum stóra sjálfstæða Framsfl., gegn þessu afli sem myndar núverandi ríkisstjórn. Það hefur gerst. Þessi skil eru sýnileg í þjóðfélaginu núna. Þau má sjá í gjafakvótakerfinu og þau eru uppi í miðhálendisumræðunni. Þau er hægt að sjá í siðblinduumræðunni sem er í gangi. Þetta eru allt sömu aðilarnir sem eru að verja sérhagsmunina.

Hverjir eru að verja kerfið í Landsbankanum? Hverjir slá skjaldborg um það og koma með sátt þagnarinnar yfir það mál? Jú, sjálfstæðismenn og framsóknarmenn. Af hverju? Vegna þess að þeir eru hræddir og vegna þess að þar gæti gengið á hagsmuni þeirra, þar er gengið á sérhagsmuni þeirra. Þá snúast þeir til varnar. Eina skiptið sem þeir snúast til varnar er þegar ráðist er á sérhagsmunina. Þegar ráðist er á spillta fjármálakerfið þeirra, þá er snúist til varnar. Þegar ráðist er á spillta kerfið í gjafakvótamálinu þá snúast þeir til varnar. Þegar ráðist er á sérhagsmunina í miðhálendismálinu þá er snúist til varnar.

Forsrh. kemur og segir: Okkur varðar ekkert um hvað þið segið og hafið til málanna að leggja. Talið þið bara, talið þið dögum saman. Við höfum nógan tíma. Við ætlum ekki að hlusta á ykkur. Og við ætlum ekki einungis að hunsa ykkur, við ætlum ekki að hlusta á neinn þeirra sem hefur aðra skoðun en við. Við ætlum að gæta sérhagsmunanna. Það ætlum við að gera. Þeir standa dyggilegan vörð um þingmenn Framsfl. og Sjálfstfl., þar á meðal hinn ágæti þingmaður Guðni Ágústsson en ég hóf ræðu mína hér fyrr í kvöld með því að vitna í grein hans í Morgunblaðinu í dag.

Svo er komið að meira að segja hv. þm. Guðni Ágústsson er fastur í þessu feni og vill ekki einu sinni brjótast út úr því. (ÖS: Hann vill það, hann vill það.) Þá verður hann að hafa hugrekki til þess að gera það. Ef ég man mælendaskrána rétt var hann á eftir mér á mælendaskrá og e.t.v. fáum við einhvern tíma síðar í kvöld yfirlýsingar hv. þm. um þennan þátt. Ég hef reyndar ekki trú á því.

Við höfum séð hvernig stjórnarþingmennirnir eru handjárnaðir hver á fætur öðrum í þessu máli. Við höfum hér eina óvanalegustu stöðu í þingsögunni varðandi þetta mál. Í meirihlutaáliti félmn. settu fjórir nefndarmenn fyrirvara um afstöðu sína. Það voru þeir hv. þm. Ögmundur Jónasson og Kristín Ástgeirsdóttir sem byggðu fyrirvara sína að verulegu leyti á þeim þáttum sem sáust í frv. sem ekki má ræða, um breytingu á skipulags- og byggingarlögum. Eftir að neitað var að fjalla um það mál hér --- reyndar kom í ljós að það tók breytingum í samningum milli ráðherra og einstakra stjórnarþingmanna --- ítrekuðu þessir þingmenn andstöðu við frv. í heild. Þessir þm. hv. eru menn að meiri.

Hins vegar er mun óvanalegri afstaða þingmannanna Péturs H. Blöndals og Sivjar Friðleifsdóttur, sem er ef ég man rétt varaformaður félmn. Í þeim fyrirvara kom fram skoðun. Sú skoðun að miðhálendið ætti að vera stjórnsýsluleg heild. Það var fyrirvari þessara hv. þm. Þessir hv. þm. hafa hins vegar báðir sagst styðja málið, byggja það á frumvarpsdrögum umhvrh. um umsagnarnefndina um svæðisskipulag. Það samsvarar ekki því að miðhálendið sé ein stjórnsýsluleg heild.

Það væri ekkert að því, herra forseti, að þingmaður skrifaði undir mál með fyrirvara og segði: Ég hef breytt um skoðun, ég styð málið núna. Það er komin fram brtt. sem gengur í mína átt og hún gerir það að verkum að ég hef ekki eins sterkar meiningar um það sem ég setti á blað þegar málið var tekið út úr nefndinni.

Þessir þingmenn hafa ekki gert það. Þeir hafa sagt: Hér er komið til móts við okkar fyrirvara. Það er ósatt. Það er ósatt, eins og við höfum rakið hér í umræðunni. Miðhálendið er ekki gert að einni stjórnsýslulegri heild. Í þessu frv., sem er ekki orðið að lögum, er sagt: Það á að ljúka lögfestingu þeirrar skipulagsvinnu sem þegar er búið að vinna. Það er meginatriðið.

[22:45]

Síðan skal hin nýja nefnd, sem skipuð er þessum fulltrúum, einum Reyknesingi og tveimur Reykvíkingum og einum Vestfirðingi, hafa umsagnarrétt. Ef hún leggst gegn þessu, við skulum segja að hún leggist gegn þessu, þá getur ráðherra samt sem áður staðfest það, þannig að þessi nefnd hefur engan tilgang annan en þann að blekkja. Það er kannski það alvarlegasta í málinu. Það hefði verið skynsamlegra hjá stjórnarliðunum fyrst þeir vildu hafa þessa pólitísku skoðun að miðhálendinu skyldi skipt upp í ræmur og stjórnsýslan væri öll á forræði sveitarfélaganna, að gera það með þessum hætti. Vegna þess að það segir nú þegar í 13. gr. í skipulagslögum að heimilt sé að skipuleggja nefnd fjölmargra aðila sem koma að gerð svæðisskipulags. Það er ekkert nýtt í því. Það er í núverandi lögum og það er á grundvelli þess ákvæðis sem hin eldri nefnd hefur starfað. Það er því blekking, herra forseti, þegar sumir stjórnarliðar eru að koma hér upp og segja að verið sé að breyta einhverju. Það er í reynd ekki verið að breyta neinu og þá er miklu heiðarlegra að segja: Við ætlum að halda okkur við meginatriði frv. Við gerum málamyndabreytingar af því við þurftum að friða einn eða tvo þingmenn innan okkar vébanda sem skildu málið kannski ekki alveg nógu vel upphaflega. Þá skulum menn bara vera það heiðarlegir að segja það strax og síðan að lögfesta þessa tertusneiðahugmyndafræði sem menn geta þá haft og staðið fyrir og er eins og ég hef verið að segja ekkert annað en endurspeglun grunnhugsunarinnar --- sérhagsmunir gegn almannahagsmunum. Hagsmunir hinna fáu gegn hagsmunum hinna mörgu og það er ekkert óeðlilegt við það. Það er í samræmi við stjórnarstefnuna. En þá eiga menn ekki, herra forseti, að koma upp og reyna að blekkja um málið. Við höfum ekki verið að gera það. Við höfum sagt mjög einfaldlega: Við erum á móti grundvallaratriðinu í þessu uppleggi. Við viljum að miðhálendið sé ein stjórnsýsluleg heild, ein stjórnsýsluleg eining. Stjórnarflokkarnir segja: Við viljum ekki að miðhálendið sé ein stjórnsýsluleg eining, við viljum þvert á móti að sveitarfélögin sem liggja að miðhálendinu fari með stjórnsýsluvaldið þar. Þetta er alveg hrein og tær skoðun. Ég er að vísu á móti þessari skoðun meiri hlutans, en ekkert út á það að setja. Þeir hafa fullkominn rétt á að hafa þá skoðun og geta fært fyrir henni rök sem ég er kannski ekki sammála og flyt rök fyrir minni skoðun. Það er ekkert að því að takast á um þessar tvær meginlínur í ágreiningnum og málið snýst ekki um neitt annað en þetta. Það snýst um það hvort menn vilja að sveitarfélögin fari með stjórnsýsluvaldið upp til fjalla, upp til jökla, skipta landinu í sveitarfélög eða vilja menn taka miðhálendið og segja: Það gildir ákveðin sérstaða um miðhálendið, og að gera úr því eina stjórnsýslulega einingu, sérstaka stjórnsýslulega einingu sem lýtur sérstakri stjórn. Þetta er ágreiningurinn. Hann er ekkert mjög flókinn ef hann er settur fram á þennan hátt. Auðvitað er hægt að flækja málið og tala um þetta dálítið vítt og breitt. Stjórnarliðar hafa gert það, og ég dreg ekkert úr því að vitaskuld höfum við kannski líka farið einhverja fjallabaksleið í þessari umræðu. Það vill nú verða svo.

En aðalatriðið í þessu er samt það að ekki er um að ræða tiltölulega mjög flókinn ágreining í grundvallaratriðum. Þetta er spurning um stefnu og menn eiga þá að fá að velja þar á milli. Við viljum hins vegar, og það er okkar góði réttur, draga fram öll þau rök sem við getum fyrir okkar sjónarmiðum og við ætlum að eyða til þess löngum tíma. Við höfum þó náð einu með þessari umræðu okkar, að fólkið úti í samfélaginu er farið að átta sig betur á þessu máli. Það er farið að skynja alvöru þess og allir sem taka núna til máls um þetta mál styðja okkar sjónarmið. (Gripið fram í: Nei.) Langflestir sem leggja á annað borð til einhverjar lausnir í þessum ágreiningi leggja til okkar lausn, að þetta verði sérstakt stjórnsýslusvæði. Flestir hins vegar eða allir aðrir sem tala í þessu máli segja: Gefum þessu meiri tíma, lögfestið þetta ekki núna, gerið eins og í gagnagrunnsmálinu, bíðið með þetta fram á haustið. Ég hef ekki heyrt neinn, það getur verið bara af því ég hef ekki lesið allt, taka til máls úti í samfélaginu eða a.m.k. mjög fáa sem segja: Fylgjum stefnu stjórnarinnar í einu og öllu hvað þetta mál varðar. Það eru mjög fáar greinar, held ég, í blöðum sem hafa birst undanfarna daga sem taka undir sjónarmið stjórnarliða og meiri hluta félmn. hvað þetta varðar. En það eru fjölmargar greinar sem segja: Bíðið með þetta mál, lögfestið það ekki með þessu móti núna í skyndingu. Og mér finnst það ekki óeðlileg krafa. Við komumst að þeirri sameiginlegu niðurstöðu í gagnagrunnsmálinu að allra hluta vegna, líka þeir sem voru með málinu sögðu: Við skulum bíða aðeins með þetta. Látum meiri hlutann fá sína atkvæðagreiðslu um málið í október. Það hefði ég kosið líka í þessu máli, að menn hefðu gert sams konar samkomulag um þetta mál. Frestum þessu máli, vinnum það betur, athugum hvort meiri sátt skapist um það, en tökum það til atkvæða í október, nóvember í haust. Við eigum ekki að koma í veg fyrir að meiri hluti Alþingis nái fram að ganga. Það eina sem ég tek undir hjá hæstv. félmrh. í þessari umræðu er setningin sem hann sagði: Meiri hlutinn hefur rétt til að hafa rangt fyrir sér. Meiri hlutinn hefur þann rétt að fá niðurstöðu í sitt mál. Til þess er hann kosinn en við höfum þann rétt að reyna að sannfæra meiri hlutann um réttmæti okkar sjónarmiða og við ætlum að notfæra okkur þann rétt án þess þó á nokkurn hátt að misbeita því valdi eða þeim lögum að ekki sé takmarkaður ræðutími í 2. umr. Við ætlum ekki að misbeita þeim rétti. Við höfum ekki gert það. Við höfum rætt ítarlega um málið, en það hefur ekki fengið á sig orð hefðbundins málþófs þótt sumir haldi því fram. Vitaskuld er þó hægt að halda því fram að flest rök séu nú bráðlega komin fram í þessu máli.

En aðalumræðan er samt sem áður að fara í gang úti í samfélaginu og það er skylda okkar alþm. að leyfa þeirri umræðu að eiga sér stað, því við erum þegar allt kemur til alls ekkert annað en fulltrúar fólksins. Við eigum að hlusta á fólkið, sérstaklega það sem þekkingu hefur á málinu og sýnir væntumþykju gagnvart landinu, biður um meiri tíma til að ræða þessi mál.

Sú tæknilega umræða sem þetta hefur stundum þróast í, þ.e. svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag, eru þættir sem tengjast sveitarstjórnarlögunum. Þá er ekki úr vegi að skoða aðeins skipulags- og byggingarlögin og skilgreiningarnar. Aðalskipulag, skipulagsáætlun fyrir tiltekið sveitarfélag, skilgreiningin er í 2. gr. skipulagslaganna. Lögin eru nr. 73/1997.

,,Skipulagsáætlun fyrir tiltekið sveitarfélag þar sem fram kemur stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar í sveitarfélaginu á minnst 12 ára tímabili.``

Þetta er aðalskipulag og það er alveg ljóst hvar aðalskipulagið á að liggja samkvæmt frv. Það á að liggja hjá sveitarfélögunum sem fá ræmurnar upp á miðhálendið. Svæðisskipulag er ,,skipulagsáætlun sem tekur yfir fleiri en eitt sveitarfélag. Hlutverk svæðisskipulags er að samræma stefnu um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar á svæðinu á minnst 12 ára tímabili.`` Þetta er heildaráætlun sem nær yfir fleiri en eitt sveitarfélag og er kveðið á um í skipulagsmálum að farið sé með á tiltekinn hátt. Þar er ákvæði m.a. sem gerir ráðherra kleift að skipa hina fyrri svæðisskipulagsnefnd. Síðan kemur deiliskipulagið sem er á forræði sveitafélaganna.

,,Skipulagsáætlun fyrir afmarkaða reiti innan sveitarfélags sem byggð er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess. Ákvæði um deiliskipulag eiga jafnt við um þéttbýli og dreifbýli.``

Við sjáum því þessa lagskiptingu í skipulaginu, og eins og bent hefur verið á, m.a. af Trausta Valssyni skipulagsfræðingi, vantar e.t.v. aðalskipulag sem kallað er landsskipulag og hefur hann rakið það í bókum sínum og greinum og gerði reyndar á fundinum á Hótel Borg sem ég vísaði til fyrr í ræðu minni. Að velta fyrir sér: Hvernig viljum við hafa landið? Ég nefndi þetta í upphafi ræðu minnar þegar ég vitnaði í grein hv. þm. Guðna Ágústssonar, þ.e. viljum við að landið sé skipulagt út frá orkunýtingu, viljum við að það sé skipulagt út frá ferðaþjónustunýtingu, viljum við að það sé skipulagt út frá umhverfissjónarmiðum, viljum við að fyrst og fremst verði litið á miðhálendið sem ákveðinn þröskuld í sambandi við samgöngumál? Bara þetta eru fjórir þættir sem geta verið meginþemað í skipulagningu miðhálendisins. Það hefur engin umræða, herra forseti, farið fram um þennan þátt skipulagsins þannig að öll umræðan er í reynd á byrjunarreit. Þess vegna er þetta óskynsamlegt og ef menn ganga frá skipulagslögum er ekki svo gott að taka þau upp aftur. Það er bara ekki hægt. Ef þetta verður lögfest á þann hátt sem stjórnarliðarnir vilja gera, jafnvel þótt við komumst til valda eftir næstu kosningar á einhvern handa máta er ekki svo auðvelt að taka upp svona löggjöf. Það er þess vegna, herra forseti, sem er svo mikilvægt að vanda sig við þessa útfærslu vegna þess að ekki verður aftur snúið.

Við erum að tala um einstaka sérstöðu. Við erum að tala um sameignir þjóðarinnar, við erum að tala um þessa möguleika til lífsfyllingar í öræfum landsins og vitaskuld eiga sveitarfélög eða íbúar þeirra sveitarfélaga að koma mjög sterklega að mótun og skipulagningu. Það er enginn að útiloka það. Við erum bara að biðja um sanngjarna aðkomu annarra að þeirri vinnu og við erum að biðja um meiri tíma þannig að átt geti sér stað meiri umræða í samfélaginu og við förum ekki með þetta mál eins og við höfum stundum gert áður, að taka ákvarðanir sem erfitt verður að vinda ofan af.

Það er alveg ljóst eins og uppleggið er að svæðisskipulagið, heildarskipulagið er eiginlega þegar fastmótað. Búið er að gera þetta skipulag, verið er að leita umsagna um það og þær eru flestar komnar. Skipulagsnefndin sem nú er að störfum mun skila áliti til skipulagsstjóra og ráðherra mun staðfesta það að fenginni umsögn þessarar nefndar sem kveðið er á um í frv. sem má ekki ræða. Og eins og við vitum er ekki gott að segja hvernig það frv. verður útfært í einstökum atriðum þegar og ef það kemur til afgreiðslu.

Það er þess vegna, herra forseti, sem ég t.d. stend hér og vil ræða ítarlega um þetta mál. Það er vegna þess að mér finnst ekki þinglega rétt að farið. Hér er verið að afgreiða og knýja á um afgreiðslu sveitarstjórnarlaga. Skilinn er eftir mjög mikilvægur þáttur sem er skipulags- og byggingarlögin, fyrirhugaðar breytingar á skipulags- og byggingarlögum í tengslum við þetta frv. Vitaskuld hefði verið rétt og það var réttur meiri hlutans að koma fram með það frv. eins og umhvrh. gerði, en þá hefði verið þinglega rétt að taka það mál á dagskrá, og ræða saman þessi tvö frv. eins og við höfum nú stundum gert við sambærilegar aðstæður og afgreiða málin samhliða. Því oft og tíðum við erum að setja lög sem snúa að breytingu eða setja lagabálka sem snúa að breytingu á fleiri en einum lögum. Við þekkjum öll bandorma sem við afgreiðum nokkuð oft, sérstaklega í tengslum við fjárlagaafgreiðslu fyrir jól. Það hefði verið hin rétta þinglega meðferð, og ef stjórnarflokkarnir hefðu farið þá leið, komið með breytingar á sveitarstjórnarlögunum, komið með frv. um breytingar á skipulags- og byggingarlögunum, komið með sína heilsteypta stefnu og jafnvel þótt ég hefði verið ósammála henni hefði ég sagt: Gott og vel, við skulum halda uppi hvassri málefnalegri gagnrýni á þeirra stefnu en hún verður þá að ná fram til atkvæða á þeim tíma sem eðlilegt er í þingræðisríki. En af því að stjórnarliðarnir viðurkenna ekki hina réttu, þinglegu meðferð þessara mála, þeir halda öðrum þætti málsins frá okkur í umræðu og frá nefndarumfjöllun og meðan við vitum ekki með hvaða hætti þetta verður útfært erum við í fullum rétti, herra forseti, að ræða þetta mál e.t.v. ítarlegar en við hefðum gert að öðrum kosti. Málið er samt sem áður það umfangsmikið að það hefði sennilega kallað á alla þessa umræðu hvort sem er. Það hefði verið mun betra og heiðarlegra gagnvart öllum í þessari umræðu, og ég tala nú ekki þeim aðilum sem eiga að vinna eftir þessu, ef ríkisstjórnin hefði mannað sig upp í að afgreiða allan pakkann eins og hún vildi hafa hann útfærðan en skilja ekki eftir breytingar á skipulags- og byggingarlögunum eins og hún gerir.

[23:00]

Við erum að tala um nýtingu á miðhálendinu. Við höfum ekki enn tekið ákvörðun, t.d. um stefnumörkun í orkumálum, um hámarksnýtingu vatns- og varmaorku eða stefnu í ferðamálum. Við höfum ekkert unnið þessa stefnu. Að vísu höfum við komið með eitt frv. sem bíður hér. Ég veit ekki hvenær það kemst á dagskrá, einhvern tímann í næstu viku, þ.e. frv. hæstv. iðnrh. um auðlindir í jörðu sem við eigum eftir að ræða, varla minna en þetta frv. herra forseti. Þar er einnig bullandi ágreiningur um stefnu og harður málefnalegur ágreiningur. Hér erum við því ekki að tefja neitt fyrir störfum þingsins, þvert á móti. Við erum að reyna að draga fram hinn pólitíska ágreining milli stjórnar og stjórnarandstöðu, eins skýrt og við getum. Ég vil lýsa þessum pólitíska ágreiningi með eftirfarandi orðum: Almannahagsmunir gegn sérhagsmunum.

Við skulum hafa það í huga að miðhálendið, þessi perla framtíðarinnar sem sífellt fleiri eru að nýta, er möguleiki sem fyrst og fremst útivistarmenn hafa opnað. Ingvi Þorsteinsson náttúrufræðingur, sem hvað ötullegast hefur barist fyrir uppgræðslu landsins, sagði reyndar á fundinum á Hótel Borg um miðhálendi Íslands: Þetta er stærsta eyðimörk í Evrópu. Það dálítið til í þessu þegar maður fer að hugsa um það. Miðhálendið er eyðimörk í skilningi náttúrufræðinnar og uppblásturinn á landi okkar er slíkur að, eins og sumir hafa sagt, það er að fjúka út í sjó. Þess vegna m.a., herra forseti, eigum við að skipuleggja miðhálendið sem eina heild. Við höfum skyldur gagnvart landinu og getum ekki uppfyllt þær skyldur nema gæta þar samræmis. Við getum þó verið sammála um það, stjórn og stjórnarandstæðingar, að við berum hag landsins fyrir brjósti.

Þessi opnun á víðernum landsins er fyrst og fremst komin til síðustu áratugina. Hún var ekki áður. Þetta var svæði sem enginn kom á öldum saman. Ef menn fóru þangað þá urðu menn oft og tíðum úti. Einn og einn útilegumaður hélt þar til við erfiðar aðstæður. (GÁ: Aðalsamgönguleið landsins í gegnum hálendið.) Erfið samgönguleið, ekki aðalsamgönguleið landsins, eins og hér er sagt, en mjög erfið og margir hafa borið beinin á þessari eyðimörk sem við ræðum um.

Nýting svæðisins verður ekki almenn fyrr en síðustu áratugina. Það vitum við. Vitaskuld hafa menn farið upp á hálendið og farið í gegnum hálendið um aldir en til nýtingar hafa þessi svæði ekki verið nýtt nema að hluta. Vitaskuld hefur það verið til beitar eins og við þekkjum og þar verður ekki nein breyting á þeim þáttum. Það væri ekki gengið á hag t.d. bænda þótt miðhálendið yrði sett undir eina skipulagslega stjórn. Þvert á móti værum við að gera það þannig að samræmis yrði gætt. Það er kannski ekki verið að gera öllum smærri sveitarfélögum greiða með því að fela þeim stjórnsýslulegt vald á mjög víðáttumiklu svæði sem meira verður nýtt á næstu áratugum. Það er ekki víst við séum að gera þeim greiða, það er alveg hægt að ræða hvort ekki sé hægt að finna betri aðkomu þeirra að þessum málum.

Þá umræðu vantar töluvert í tengslum við þetta mál, hvernig við viljum hafa nýtingarstefnuna varðandi ferðamenn og orkunýtingu. Hvaða heildarsýn höfum við með þessa sameiginlegu nýju auðlind? Þetta er sambærileg umræða og við höfum stundum gengið í gegnum, t.d. innan sjávarútvegsins. Hvernig viljum við hafa nýtingu auðlinda í sjónum? Við viljum hámarka afraksturinn. Í því er vitaskuld fólgið stýrikerfi og annað slíkt. Þetta er umræða sem lifað hefur í þjóðfélaginu nú um 25 ára skeið. Það eru svona 25 ár síðan, þó ekki lengra, að við fórum að setja veiðitakmarkanir á Íslandsmiðum. Það er ekki lengra síðan en umræðan hefur lifað meðal fólksins í landinu og í stjórnmálalegu umhverfi.

Það sem við höfum m.a. sagt, sem rök í þessu máli, er að við teljum visst óréttlæti fólgið í því að fámennur hópur þjóðarinnar fari með skipulag og stjórnsýslu og ákveði reglur um nýtingu á svæði sem þjóðin telur vera sameign. Það á að gæta eðlilegs samræmis og ekki ganga á rétt annarra.

Einnig hefur verið spurt, sem sterkur gagnrýnispunktur í þessu uppleggi, hvort umhverfissjónarmiða, beitarsjónarmiða og allra þeirra sjónarmiða sem við vitum að eiga vaxandi fylgi að fagna, sé nógu mikið gætt í þessum efnum. Er nauðsynlegrar sáttar milli beitar í landbúnaði og umhverfissjónarmiða --- við vitum að þar er ekki sátt á milli --- leitað nægjanlega vel í þessu uppleggi og tillögum? Ég tel vafasamt að svo hafi verið.

Það sem við leggjum til, að þetta verði eitt stjórnsýslusvæði, er í sjálfu sér ekkert ný hugmynd. Þetta hafa menn heyrt áður og ég held að meginrökin séu einfaldlega fólgin í því að hér er um að ræða sameign, hér er um að ræða sérstöðu, hér þarf að vera samræmd skipulagning á víðari grundvelli en að til komi sérstök nefnd sem umsagnaraðili við einn hluta skipulagsmála. Það er einfaldlega, herra forseti, skynsamlegt að búa þannig um hnútana að fleiri komi að þessu máli.

Í fjölmörgum greinum og viðtölum varðandi þennan þátt hefur komið fram að menn telja fyrst og fremst að réttlætis sé ekki gætt gagnvart íbúum þéttbýlissvæðisins. Ég tel að það sé ekki gert, of þröngir hagsmunir séu látnir ráða í málatilbúningi ríkisstjórnarflokkanna. Eins og ég nefndi áður er það í samræmi við meginstefnuna, að sérhagsmunir séu látnir hafa forgang fram yfir almannahagsmuni.

Ýmsir aðilar, sérfræðingar, hafa dregið fram þætti sem við þurfum að íhuga í þessu sambandi. M.a. hefur Trausti Valsson skipulagsfræðingur skrifað mjög mikið um þetta og meginniðurstaða er að það þurfi að ákveða áherslur í atvinnumálum og landnýtingu áður en ákvörðun um skipulag verði fest í sessi. Mér finnst þetta vera alveg réttmætt. Ég hef gert þetta nokkuð að umtalsefni. Skoðum heildarsýnina, til hvers við ætlumst með miðhálendið, áður en við göngum endanlega frá skipulagsfyrirkomulaginu.

Lögfræðilega hafa ýmsir tjáð sig um þetta mál, þar á meðal Páll Sigurðsson prófessor og fyrrum forseti Ferðafélags Íslands. Hann er einn þeirra sem hafa verulegar áhyggjur af þessu skipulagsuppleggi eins og ríkisstjórnarflokkarnir ganga frá því. Við ættum að hlusta á hann. Hann kemur með tvenns konar sjónarmið. Annars vegar lögfræðileg álitamál í mjög flóknu máli og einnig ferðaþjónustusjónarmiðið sem við eigum vitaskuld að taka mið af.

Við eigum ekki í blindni að samþykkja mál allra ferðamálafrömuða í þessum efnum. Ég tel það ekki vera sanngjarnt. Ég vil ekki gera orð allra ferðamálamanna varðandi þessa umræðu að mínum. Þeir eru mannlegir eins og aðrir, mistækir í sínum málflutningi. Það má ekki halda því fram að við séum hér að predika bara eina skoðun og enduróma skoðun tiltekinna hagsmunaaðila. Við erum ekki að gera það. Við erum að reyna að draga fram galla þessa skipulagsuppleggs ríkisstjórnarflokkanna. Við erum að benda á hina eðlilegu kröfu fólksins í landinu, að fá að koma að þessari umræðu með sanngjörnum og skipulögðum hætti eins og þeir hafa óskað eftir.

Hér hefur verið lögð fram tillaga um að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar. Við jafnaðarmenn styðjum þá tillögu og þá hugsun. Ef það verður hins vegar fellt, höfum við lagt fram breytingartillögu í ætt við þá stefnumótun sem ég hef lýst, þ.e. að miðhálendið verði sjálfstæð stjórnsýslueining sem lúti sérstakri stjórn. Við munum láta ganga til atkvæða um þessa tillögu ef ekki næst að finna þessu máli þann skynsamlega farveg að bíða með það fram á haustið. Það væri langbest og sanngjarnast gagnvart öllum aðilum sem talað hafa í þessu máli, þó að stjórnarliðarnir vilji kannski ekki gera það okkar vegna. Ég á ekki von á því að þeir fari í þessu máli að okkar ráðum frekar en í öðrum. Mér fyndist þó ekki ósanngjarnt að þeir hugleiddu dálítið raddir fólksins úti í þjóðfélaginu sem eru að biðja um frest, biðja um tíma til að ræða þessi mál í sumar.

Stjórnarliðarnir hafa full tök á að lögfesta þetta í október eða nóvember. Það skiptir engu máli í sambandi við framkvæmd þessara laga ef niðurstaðan í umræðunni í sumar leiðir til þess að ekki verði gerðar neinar breytingar sem ég vona þó að verði. Það breytir engu fyrir framgang málsins þótt beðið yrði fram á haustdaga með lögfestingu þessa máls. Mér finnst það sanngjörn krafa.

Þótt við tökum undir þessa kröfu skil ég stjórnarliðana afskaplega vel að vilja ekki láta að kröfum okkar eða óskum. Eðli stjórnar og stjórnarandstöðu er nú þannig að það þróast sjaldnast í þann farveg að menn taki rökum hver frá öðrum. Mér finnst mjög mikið íhugunarefni fyrir stjórnarliðana hvort þeir vilji virkilega knýja þetta mál fram í miklum ágreiningi við mjög marga í samfélaginu. Þeir geta knúið þetta mál í gegn í ágreiningi við okkur.

Það er eðli stjórnar og stjórnarandstöðu að harkalega sé tekist á um ákveðin mál og svo skilji leiðir í atkvæðagreiðslu. Út á það er ekkert að setja og stjórnin hefur rétt á að láta þau mál ganga þannig fram en ég bið stjórnarliðana samt að íhuga hvort ekki væri nú skynsamlegra að samþykkja beiðnir hinna fjölmörgu í samfélaginu sem eru einungis óska eftir meiri tíma til að geta rætt þessi mál ítarlega. Enga brýna nauðsyn rekur til, herra forseti, að lögfesta þetta mál núna. Það er ekkert sem kallar á það. Ekkert mundi breytast í vinnubrögðunum hvort sem þetta verður lögfest eða í október eða nóvember.

Mér finnast það veigamikil rök í þessu sambandi að menn reyni að gæta sanngirni gagnvart umbjóðendum sínum eins og ég veit reyndar að ýmsir stjórnarliðar vilja gera. E.t.v. ræður hér vilji hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. í þessum efnum og aðrir láta binda sig við þeirra sjónarmið. Við því er ekkert að segja en ég hvet stjórnarliðana til að hugleiða þau mótmæli og þær umræður sem eiga sér nú stað í þjóðfélaginu.