Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 23:50:07 (6290)

1998-05-07 23:50:07# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[23:50]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vil gera athugasemd við í ræðu hv. þm. Hann talaði um að við stjórnarandstæðingar hefðum verið að stunda blekkingar. Ég vildi spyrja hann í hverju það hefði verið fólgið. Ég vil sömuleiðis biðja hv. þm. að gæta fullrar sanngirni gagnvart andstæðingum sínum. Hann hefur nefnt Þjóðvaka á nafn og talað um lítið fylgi þess stjórnmálaflokks. Hann á að vita að Þjóðvaki hefur gefið þá yfirlýsingu að hann muni ekki bjóða fram í næstu kosningum og starfar nú að því að stuðla að sameiginlegu framboði á vinstri væng stjórnmálanna. Þetta veit hv. þm. og á að gæta sanngirni gagnvart andstæðingum sínum hvað svona hluti varðar. Ég vil biðja hann að gera það.

Ég vil sömuleiðis spyrja hann hvort honum finnist sanngjarnt að 73 þúsund Reyknesingar fái einn fulltrúa og 107 þúsund Reykvíkingar fái tvo fulltrúa í nefndina sem á að vera umsagnaraðili. Finnst honum réttlætinu vera fullnægt gagnvart tveimur þriðju hlutum þjóðarinnar?

Í þriðja lagi vil ég minna hv. þm. á að svæðisskipulag verður ekki samþykkt nema öll sveitarfélögin samþykki það. Ég vil biðja hv. þm. að lesa niðurlag 13. gr. skipulagslaga. Þar segir alveg skýrt að svæðisskipulag teljist ekki samþykkt nema allir samþykki það. Það er alveg ljóst. Þessi málamyndanefnd í frv. ráðherra skiptir engu máli.

Síðasta spurningin er alvarlegust, herra forseti. Hv. þm. lét að því liggja að einstakir þingmenn hefðu ekki verið þinglegir í umræðunni. Ég tek þessa ásökun mjög alvarlega, ekki bara vegna þess að ég met þingmanninn mikils, heldur vegna þess að hann er einn af forsetum þingsins. Ég óska upplýsinga um það hverjir það eru sem hafa ekki verið þinglegir í umræðunni og þá væntanlega ekki farið að þingsköpum. Ég held það sé rétt að hv. þm. geri grein fyrir því um hverja hann er að tala.