Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 23:55:01 (6292)

1998-05-07 23:55:01# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[23:55]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svör hv. þm. Mér finnst í fyrsta lagi virðingarvert að hann biðjist afsökunar á orðunum ,,þingleg`` í þessum skilningi í sambandi við þingsköpin. Auðvitað má hann skamma okkur stjórnarandstæðinga út af því sem hann kallar málþóf. Það er hans góði réttur. Ég er honum ósammála í því en þetta orðalag var hins vegar ekki vel valið og gott að hann skildi það sjálfur. Annað sem hann nefndi varðandi sanngirnina gagnvart Reyknesingunum 73 þúsund. Hann átti erfitt með að viðurkenna sanngirnina í því, talaði um að það væri ekkert fullljóst hvernig það væri. Það er rangt því að hv. þm. hefur sagt: Þetta frv. verður lagt fram í haust með þeirri litlu breytingu sem er mikil í hans huga að breytt verði í héraðsnefndir, þ.e. fyrir fulltrúana 12. Það er ljóst að í frv. á bara að koma einn fulltrúi frá Reykjanesi og tveir frá Reykjavík. Nú var þingmaðurinn að stunda blekkingar þegar hann sagði: Þetta breytist kannski. Það hefur hins vegar enginn talað um að það atriði breytist. Það er ósanngjarnt, herra forseti, að það skuli vera gert svona. Hv. þm. svaraði engu um þá ábendingu mína að svæðisskipulag verður að samþykkja með öllum greiddum atkvæðum sveitarfélaga. Þessi nýja svæðisskipulagsnefnd hæstv. umhvrh. er markleysa og þingmaðurinn veit það.