Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 23:56:28 (6293)

1998-05-07 23:56:28# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[23:56]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú svo með mörg atriði í skipulagsmálum. Við getum nefnt marga þá fögru staði eins og í Reykjanesi. Ekki komum við Sunnlendingar að því að skipuleggja Reykjanesfólkvang og ekki gerum við kröfu um það. Ekki munum við verða kallaðir að Bláfjallasvæðinu. Mér þykir það því mikil sanngirni þegar fólk hefur flutt á þetta svæði og hefur nóg með skipulagsmál sín að það skuli þó taka við þar sem sveitarstjórnir höfðu áður vald og fara með skipulagsmál á miðhálendinu. Það liggur fyrir að miðhálendið, gegnt öllu því sem hér hefur verið sagt, verður samkvæmt frv. sem kemur í haust skipulagt sem ein heild. Ég hygg að sú nefnd sem þá verður skipuð í þetta verkefni muni vinna þannig að hún muni ná samstöðu og verði þar uppi ágreiningur er það ágreiningur sem ... (Gripið fram í.) Já, ég veit allt um það, hv. þm. en það verður mjög grannt tillit tekið til tillagna þessa umsagnaraðila.