Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 23:57:58 (6294)

1998-05-07 23:57:58# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[23:57]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst satt að segja ekki margt nýtt koma fram í ræðu hv. þm. Um hvað snýst það mál sem er til umræðu? Það snýst um nýtingu miðhálendisins, orku, ferðamennsku, námur, beit, það snýst um friðun. Það snýst um það hver á þetta svæði og hver nýtir þetta svæði. Það snýst um það hver ber ábyrgð á svæðinu. Eru það sveitarfélög, eru það sýslur eða eru það svæðisnefndir með einhverjum hætti? Það snýst um það hvort skipta á landinu í ræmur eða í sveitarfélög eða hvort á að skipuleggja það sem eina heild. Þetta er það sem málið snýst um og það er ekki rétt sem hv. þm. sagði áðan að svæðið verði skipulagt sem ein heild. Það er ekki þannig vegna þess að sveitarfélögin ráða. Samkvæmt skipulagslögum er það þannig að hvert sveitarfélag fyrir sig hefur neitunarvald. Komi upp ágreiningur milli sveitarfélagsins annars vegar og svæðisskipulagsnefndarinnar hins vegar eiga auðvitað Skipulagsstofnun og umhvrh. að ganga í það mál og reyna að sætta. Það er alveg ljóst en valdið er í höndum viðkomandi sveitarfélags, eða er það ekki svo, hv. þm.? Skilur hann sitt eigið frv. og ríkisstjórnarinnar öðruvísi? Ef svo er bið ég hann að greina frá því hér.