1998-05-08 00:02:44# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[24:02]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þessi umræða, sem hefur nú staðið ansi lengi og hefur snúist efnislega um sveitarstjórnarlög, hefur eigi að síður verið borin uppi af umræðu um allt annað mál, þ.e. frv. sem hæstv. umhvrh. fleygði eins og sprengju inn í umræðurnar um sveitarstjórnarmálin og laut að breytingum á skipulagslögum. Ég ætla að gera það að umræðuefni síðar. Áður en það frv. kom, herra forseti, lá alveg ljóst fyrir að með 1. gr. frv. til sveitarstjórnarlaga og bráðabirgðaákvæðinu átti að afhenda sveitarfélögunum allt forræði yfir miðhálendinu. Hæstv. umhvrh. hefur að vísu reynt að breyta því með frv. sínu. En það liggur alveg ljóst fyrir að frv. til sveitarstjórnarlaga gekk út frá því að örfámennur hluti þjóðarinnar sem býr í 42 sveitarfélögum átti að fá allt miðhálendið, skipulag, byggingar og alla stjórnsýslu undir sig. Ég vil í upphafi ræðu minnar benda á eitt atriði, herra forseti, sem ekki hefur verið rætt nægilega mikið.

Með þeim gerningi er ljóst að þéttbýlisbúarnir, til að mynda Reykvíkingar, hefðu engan möguleika haft á því að hafa nokkur áhrif á skipulag miðhálendisins. Þess vegna, herra forseti, er merkilegt að komast að því þegar maður les greinargerðina hverjir sömdu frv. Það kemur í ljós --- ég nefni það sérstaklega vegna þess að fram undan eru borgarstjórnarkosningar í Reykjavík innan nokkurra vikna --- ef maður les greinargerðina, herra forseti, að einn af þeim sem sömdu þetta frv. og lögðu blessun sína yfir það er einn helsti valdamaður borgarstjórnarflokks Sjálfstfl. í Reykjavík. Það er nauðsynlegt, herra forseti, að á næstu dögum verði gengið eftir því hvort Árni Sigfússon, borgarstjóraefni D-listans, sé sammála Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarfulltrúa Sjálfstfl., sem er einn af þeim sem tóku þátt í að semja frv. til sveitarstjórnarlaga. Er það virkilega þannig að borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna hafi lagt blessun sína yfir það að Reykvíkingar verði með þessu frv. sviptir öllum möguleikum til að hafa áhrif á miðhálendið? Svar mitt er að ég held að ekki sé hægt að komast hjá annarri ályktun en þeirri að þarna hlýtur borgarfulltrúinn Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson að hafa verið að vinna í anda Sjálfstfl. sem hér í þessum sölum stendur að þessu frv. En það er með ólíkindum að einn af helstu þungavigtarmönnum Sjálfstfl. í borgarstjórnarflokknum í Reykjavík skuli ekki bara hafa lagt blessun sína yfir þetta frv. heldur tekið þátt í að semja það. Það er nauðsynlegt að það komi fram í umræðunni fyrir borgarstjórnarkosningar, herra forseti, hvort það sé raunverulega svo að í þessu birtist stefna Sjálfstfl. í Reykjavík, þ.e. að taka öll völd frá Reykvíkingum til þess að hafa áhrif á stjórnsýslu og skipulag miðhálendisins.

Menn hafa kvartað undan því, herra forseti, í þessari umræðu að hún hafi snúist um allt annað en hún átti raunverulega að gera. Umræðan hefur fyrst og fremst fjallað um það frv. sem hæstv. umhvrh. lagði fyrir. En það má velta því fyrir sér, herra forseti, hvernig á því stendur að umræðan hefur hnigið í þann farveg. Staðreyndin er sú að frv. var, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson nefndi í ræðu sinni áðan, eins konar sáttargjörð. Þetta frv. fól í sér að setja átti upp ákveðna samvinnunefnd sem átti að vera skipuð fulltrúum, þar á meðal einum fulltrúa Reykjaness og tveimur fulltrúum Reykvíkinga. Þar með áttu 3/16 af þessari samvinnunefnd að koma af svæði þar sem 67% íbúanna búa.

Frv. er meingallað. Enginn hefur lýst því jafn vel og hv. þm. Árni M. Mathiesen sem í vel útfærðri ræðu rökstuddi ítarlega hversu slæmt frv. hæstv. umhvrh. var. Og hv. þm. Guðni Ágústsson hefur bætt um betur. Hann kom upp áðan og lýsti því yfir efnislega að frv. væri ónýtt. Það er að vísu þannig, herra forseti, að það er eins og hæstv. umhvrh. hafi sérstakt ægivald yfir hv. 2. þm. Suðurl. því um leið og hann birtist hér í gættinni tók að draga máttinn úr hinum sagnafróða ræðumanni, hv. þm. Guðna Ágústssyni, og það kom fram í andsvörum hans áðan að hv. þm. eins og vildi ekki kannast við sín eigin orð. Nú er hann vaskastur meðal vígamanna Framsfl., yfirleitt hvergi hræddur hjörs í þrá og þess vegna veltir maður því fyrir sér hvernig á því standi að hann rennur undan sannfæringu sinni um leið og hæstv. ráðherrann birtist í gættinni. Öðruvísi mér áður brá, herra forseti, þegar sá hv. þm. var fúsastur manna til að fylgja því sem hann taldi réttast og réttlátast.

Það kom fram í ræðu hv. þm. hvað hann taldi réttlátt. Hann taldi til að mynda nauðsynlegt að breyta frv. þannig að í stað þess að fulltrúar sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu skipi 12 fulltrúa þyrftu að koma fulltrúar héraðsnefnda. Hvers vegna? M.a. til að hann og hans fæðingarhreppur verði ekki landleysingjar þegar kemur að miðhálendinu. (GÁ: Allir landsmenn.) Allir landsmenn, kallar hv. þm. fram í og ég er sammála honum um það að þetta frv. hæstv. umhvrh., þótt það sé tæknilega mjög gallað, er það skref í rétta átt. Ég er alveg sammála hv. þm. um það. En það er svo gallað og svo mikil hrákasmíð að þeir sem sömdu það og flokkarnir sem samþykktu það til framlagningar í þinginu sáu ekki að með orðalagi í frv. var verið að svipta fjölmarga smáhreppa, eins og þá tvo sem ég nefndi fyrr í kvöld --- annar er fæðingarstaður óðalsbóndasonarins frá Brúnastöðum. Hinn er Villingaholtshreppur --- en líka stór byggðarlög eins og Akureyri (GÁ: Selfoss.) og Selfoss öllum áhrifum frá því að koma nálægt skipulagi, hvað þá stjórnsýslu miðhálendisins. Þetta er megingalli sem sýnir hvers konar fljótfærnissmíð þetta frv. var. En eftir að hv. þm. hafði lýst því yfir áðan í ræðu sinni að frv. þyrfti, fyrst sagði hann að breyta, síðan gaf hann í og sagði breyta verulega og að lokum áður en hæstv. umhvrh. kom í gættina til að hasta á hann með augnaráði sínu einu saman, lýsti hann því yfir að leggja þyrfti fram nýtt, gjörbreytt frv. í haust. (GÁ: Nei, nei.) Kannski sagði hv. þm. ekki gjörbreytt en hann sagði nýtt frv. í haust. (Gripið fram í: Það er alltaf gert ...) Það er einfaldlega þannig, herra forseti, að þegar menn tala um nauðsyn þess að leggja fram nýtt frv. þá er það vegna þess að hið gamla er ekki nógu gott. Ef leggja þarf fram nýtt frv. þá er það vegna þess að ekki er hægt að nota gamla frv. og þá er hægt að segja og álykta, herra forseti, að gamla frv. sé ónýtanlegt og þar af leiðandi eru það ekki nein ofmæli af minni hálfu að kalla það ónýtt. Það var hin efnislega niðurstaða í máli hv. þm. En ég varð mjög undrandi þegar hæstv. umhvrh. birtist í gættinni því þá hljóp hv. þm. skyndilega aftur og aftur upp í ræðustól til að reyna að hvítþvo sín eigin ummæli af sjálfum sér. Það er ekki sá hv. þm. Guðni Ágústsson sem ég á að venjast í þessum sölum, herra forseti.

Hins vegar hnígur hv. þm., svo ég noti nú orðalag Stefáns Jónssonar alþingismanns úr þessum sölum um Pétur tólfta, þá hnígur hann í sama knérör og allir aðrir þingmenn stjórnarliðsins sem hafa tekið til máls í þessari umræðu. Hver og einn einasti þeirra fyrir utan hv. þm. Siv Friðleifsdóttur hefur gert því skóna að sú sáttargjörð sem svo var kölluð og sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hrósaði sér af að eiga frumkvæði að og hæstv. umhvrh. lagði fram í sínu frv., sé svo gölluð að það þurfi að breyta frv. Hvaða ályktun er hægt að draga af því, herra forseti? Í fyrsta lagi þá ályktun að frv. sé meingallað. Það er sök sér þótt stöku þingmaður úr stjórnarliðinu komi upp og vilji fá einhverjar smávægilegar breytingar. En þegar hver og einn einasti utan einn sem kallar reyndar til frumburðarréttar á þeirri hrákasmíð, kemur upp og segir að það þurfi að breyta frv. þá er ljóst að það er meingallað. Í öðru lagi sýnir þetta líka að mikil ólga er í stjórnarliðinu út af frv. enda vitum við að hluti ástæðu þess hversu seint frv. var fram lagt var að Sjálfstfl. neitaði að samþykkja það. Hvers vegna? Skýringanna er e.t.v. að leita í ræðu hv. þm. Árna M. Mathiesens sem hann flutti hér fyrir einum sjö dægrum síðan, þar sem hann færði rök að því að frv. væri óþarft. Nóg væri að styrkja tiltekna grein í skipulagslögum til að koma fram þeim áformum sem hæstv. umhvrh. hugðist ná með frv. sínu. En þar að auki vildi hv. þm. Árni M. Mathiesen miklar breytingar, til að mynda á tilnefningum og hann vildi ganga miklu lengra í lýðræðisátt en Framsfl. bersýnilega vildi.

En hv. þm. Guðni Ágústsson sem talar um ljón Júdeu er ráðist á lítilmagnann, kom hér sjálfur eins og ljón í ræðustól fyrir nokkrum dægrum síðan og varpaði enn einni sprengjunni úr herbúðum Framsfl. inn í þetta mál. Hann ljóstraði því upp að innan Framsfl. hefðu verið í gangi hrossakaup. Hv. þm. upplýsti þingheim án þess að blikna um að hann hefði sjálfur átt í hrossakaupum ekki við einn heldur tvo hæstv. ráðherra. Ekki bara hæstv. umhvrh. sem honum stóð svo mikil ógn af í kvöld, heldur líka við þann sem er miklu þéttari á velli og jafnvel fastari fyrir í lundu líka, hæstv. félmrh. Pál Pétursson.

Nú má mér í réttu rúmi liggja og hæstv. forseta og raunar þingheimi öllum hvers konar hrossakaup hv. þm. Guðni Ágústsson gerir í skuggaafkimum Framsfl. um þessi mál eða önnur. En þetta mál var sérstakt. Þetta mál var sáttargjörð eins og hv. þm. sagði áðan sjálfur í ræðu sinni. Sáttargjörð hverra? Sáttargjörð stjórnarliðsins við stóran hluta af stjórnarandstöðu. Að vísu ekki Alþfl. því við erum alfarið á móti þessum málatilbúnaði öllum. En Alþb. og a.m.k. einn annar þingmaður, hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, höfðu illu heilli dregist á að styðja þetta frv. eins og það lá fyrir, þ.e. frv. til sveitarstjórnarlaga, enda yrði gerð ákveðin sáttargjörð og það var þetta frv. hæstv. umhvrh. sem hér var kastað inn.

Hvað felst í orðinu sáttargjörð, herra forseti? Í heimi stjórnmálanna þýðir það að menn hafa náð samkomulagi um einhvern gerning. Þá þýðir það væntanlega að sá gerningur sé ekki falur við hvers konar kaup sem kennd eru við hross í baksölum stjórnarflokkanna. Þá er um leið búið að rjúfa þá sáttargjörð. Og það var nákvæmlega það sem gerðist.

[24:15]

Eftir að hv. þm. Guðni Ágústsson ljóstraði því upp að í gangi væri einhvers konar kaupmang innan Framsfl. til þess að kaupa til hlýðni þá þingmenn sem vildu ekki sætta sig við þennan gerning þá var auðvitað ljóst að í einni svipan var búið að feykja burt stoðunum undan sáttargjörðinni. Að því leytinu til á stjórnarandstaðan og kannski ekki síst Alþfl. hv. þm. skuld að gjalda fyrir þessa hreinskilni. En hún kemur mér ekki á óvart og ég er meira að segja viss um að hv. þm. hann gerði þetta af ásetningi af því að hann er drengur góður að kynna stjórnarandstöðunni með þessum hætti að það var kominn illur brestur í stjórnarliðið.

En það er merkilegt hvernig Framsfl. hefur þannig verið notaður enn einu sinni til þess að tosa ækið áfram fyrir Sjálfstfl. og við sjáum það í skoðanakönnunum. Hv. þm. sagði hérna áðan: ,,Menn eiga ekki að fara eftir skoðanakönnunum`` og það er hárrétt. Það vill svo til ég tilheyri einmitt þeim stjórnmálaflokki sem hefur ekki notið þeirrar gæfu að vera mjög stór þó að hann hafi stórbrotnar skoðanir. Og af hverju það? Vegna þess að hann hefur ekkert verið að eltast við skoðanakannanir. Hann hefur verið trúr sannfæringu sinni og er ekki hræddur við kjósendur sína. Og hv. þm. Guðni Ágústsson og sá sem við hlið situr, hv. þm. Magnús Stefánsson, framsögumaður í þessu vonda máli, mundu sennilega hafa kiknað í hnjánum ef þeir hefðu einhvern tíma upplifað það eins og ég og hv. fyrrv. þingmaður Jón Baldvin Hannibalsson, sem bjuggum mánuðum saman við það að vera næstum því í núlli hérna, vorum komnir niður fyrir pilsnersfylgið, vorum í einu prósenti í tvo mánuði í röð og geiguðum hvergi.

Það sem Framsfl. þarf að læra, en er búinn að tapa sjónar á --- og er líka hægt að lesa í annarri Íslendingasögu --- er að menn eiga ekki að hafa geig af vopnum sínum. Ef vopnin bíta þá eiga menn að nota þau óhræddir. En Framsfl. þorði ekki að fylgja sannfæringu sinni í þessu máli vegna þess að hún er ekki til. Í þessu máli er Framsfl. klofinn. (Gripið fram í: En kratarnir fá geig af vopnum sínum.)

(Forseti (ÓE): Við skulum ekki grípa fram í.)

Framsfl. er klofinn í þessu máli og það er, herra forseti, lærdómsríkt að kanna í hverju klofningurinn liggur. Vegna þess að átakalínurnar, brotalínurnar í málinu innan Framsfl. eru þær sömu og meðal þjóðarinnar, þ.e. það eru mismunandi hagsmunir dreifbýlis og þéttbýlis.

Innan Framsfl. hefur hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson ekki haft geig af vopnum sínum og verið óhræddur við að nota þau enda er ég sannfærður um það að honum verður launað það einhvern tímann síðar --- ég ætla ekki að segja lambið gráa --- en ég er ansi hræddur um að hann muni uppskera innan Framsfl. eins og hann sáði. Vonandi mun það líka gilda utan Framsfl. En hann var óhræddur við að koma fram með sömu skoðanir og ýmsir aðrir þingmenn innan Framsfl. höfðu haft áður. Ég nefni fjóra þingmenn: Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og hv. þm. Hjálmar Árnason, bæði úr kjördæmi sem telst til þéttbýlisins, Reykjaneskjördæmi. Þau komu hér og fóru mikinn fyrr í haust. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom hér eins og frelsandi riddari á hvítum hesti og sagði nei, hún ætlaði aldrei að samþykkja þetta. Sá ágæti þingmaður gerði það nú síðar og hrósaði sér af því að eiga frumburðarréttinn að þeim óskapnaði sem hæstv. umhvrh. vildi ekki einu sinni leggja undir dóm þingsins. Þorði ekki að leggja hér til umræðu, greiddi atkvæði gegn því að hans eigið frv. kæmi á dagskrá. En hvert var drifaflið á bak við þessa tvo hv. þm.? Við skulum segja og vona að það hafi verið sannfæring þeirra. En það var líka annað: Fulltrúaráð Framsfl. á Reykjanesi kom saman og gerði samþykkt sem fól í sér skýra og afdráttalausa stefnumörkun í þessu máli, sem er algjörlega á móti þeim anda sem er að finna í því frv. sem hér er formlega til umræðu. Herra forseti. Hvar eru þessir þingmenn í dag? Hvar er ræða hv. þm. Hjálmars Árnasonar? Hefur einhver maður orðið var við hana í þessum sölum? Nei. Hv. þm. Guðni Ágústsson má þó eiga það að hann ríður á vaðið --- þó að hann hafi misst þess á reiðinni.

Annar hv. þm., Gunnlaugur M. Sigmundsson, reifaði andstöðu sína líka en honum til vorkunnar --- eða eigum við að segja til hróss --- þá verður að segjast eins og er að hann skýrði fyrirvara sinn við stefnuna afskaplega vel. Hann greindi frá því, herra forseti, að hann gæti ekki stutt mál sem fæli það í sér að Vestfirðingar, sem eins og þjóð veit eiga enga legu að miðhálendinu, fengju ekki að koma að skipan þess. Af hverju? Rök hans voru þau, herra forseti, að þeir eins og allir aðrir Íslendingar ættu að eiga rétt á því að koma að miðhálendinu. Ég vil ekki orða það svo, herra forseti, að hann hafi verið keyptur til fylgis. En í því frv. sem hæstv. umhvrh. lagði fyrir eru Vestfirðingar skyndilega komnir með jafnmarga fulltrúa og Reyknesingar, þ.e. einn fulltrúa. Eftir sem áður lifir röksemdin sem hann flutti, þ.e. að fulltrúar alls landsins ættu að koma að þessu. En samkvæmt þeim tveimur frumvörpum sem fyrir liggja, öðru sem liggur formlega fyrir og hinu sem ekki hefur formlega fengist á dagskrá er ljóst að með engu móti er hægt að færa rök að því að fulltrúar alls landsins komi að skipulagi miðhálendisins, hvað þá stjórnsýslunni.

Hins vegar stóð hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson fastur fyrir en hann stóð ekki einn í þeirri orrahríð vegna þess að hann hafði að baki sér samþykkt alls Framsfl. í Reykjavík. Framsfl. í Reykjavík gerði um það samþykkt að þær skoðanir sem hv. þm. Ólafur Örn hefur flutt hér væru réttar. Af þeirri samþykkt má gagnálykta að Framsfl. í Reykjavík hafi snúist í þessu máli, a.m.k. gegn 1. þm. flokksins í Reykjavík, hæstv. iðn.- og viðskrh., sem styður þetta frv. vegna þess að hann er í þeirri ríkisstjórn sem hefur lagt það fram til kynningar.

Herra forseti. Það er því ekki að undra þó að menn hafi brugðist hart við og títt og brugðist reitt við þegar í ljós kom að í fyrsta lagi vildi hæstv. umhvrh. með engu móti að hans eigið frv. kæmi til rökræðu í þinginu. Þegar greitt var um það atkvæði samkvæmt tillögu stjórnarandstöðunnar eftir þref við meiri hlutann um hvort slík tillaga fengist tekin til afgreiðslu gerðust þau undur og stórmerki að hæstv. ráðherra greiddi atkvæði gegn því að hans eigið frv. kæmist á dagskrá. Segir það ekki sína sögu, herra forseti?

Af þeim þingmönnum Sjálfstfl. sem hafa talað hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal lýst því yfir að hann hafi fallið frá þeim fyrri fyrirvara sem hann hafði við frv. til sveitarstjórnarlaga. Hann greindi samviskusamlega frá því í ræðum sínum að margir kjósendur hefðu komið að máli við hann í kjördæmi hans og lýst eindreginni andstöðu við það að Reykvíkingar fengju ekki að koma að miðhálendinu. Það kemur fram í því áliti sem hann er aðili að frá meiri hluta nefndarinnar hvers vegna hann féll frá fyrirvara sínum. Hann sagði skýrt og skorinort að hann gæti ekki fallist á frv. nema allir landsmenn hefðu tryggan rétt til þess að koma sjónarmiðum sínum í gegnum fulltrúa sína að því hvernig eigi að haga stjórn miðhálendisins vegna þess að hann taldi að það væri eign allra landsmanna.

Nú liggur það fyrir, eins og ég rökstuddi áðan að hægt er að nefna nokkur sveitarfélög, stór og smá, sem samkvæmt fyrirliggjandi frv. hafa ekki þennan rétt þannig að ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Pétri H. Blöndal, sem er samviskusamur þingmaður sem fer ekki í launkofa með skoðanir sínar þó að ég sé sem betur fer á móti flestum þeirra, hafi verið sagt það innan stjórnarliðsins að það kæmi fram frv. sem tryggði öllum landsmönnum þennan rétt. Þess vegna féll hann frá fyrirvaranum og skýrði það hér í nál. sínu. Hvað gerist svo? Þegar frv. kemur er alveg ljóst að þessu skilyrði hans er ekki fullnægt. Hvaða ályktun getur sæmilega skyni borinn maður, jafnvel þingmaður, dregið af því? Enga aðra, herra forseti, en þá að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi verið blekktur. Hann hafi verið dreginn á asnaeyrunum alveg eins og fleiri þingmenn stjórnarliðsins.

Hv. þm. Kristján Pálsson talaði hér líka og hefur lent í nokkrum stórsjóum vegna afstöðu sinnar í málinu. Hvers vegna, herra forseti? Vegna þess að hann er fulltrúi fyrir annað fjölmennasta kjördæmi landsins, Reykjanes, sem er boðið upp á það að fá einn fulltrúa --- að fá einn fulltrúa í þeirri nefnd sem á að koma að skipulagi miðhálendisins. Hann taldi það nóg vegna þess að það tryggði að sjónarmið Reyknesinga kæmu að. Reyknesingar töldu það ekki nóg og þeir urðu auðvitað æfir. Hv. þm. kom þó og varði frv., hann varði það, hann má eiga það. Hann hvikaði þó ekki frá sinni upphaflegu yfirlýsingu. En ég minnist þess að þegar ég þrýsti fast á hv. þm. í andsvörum kom það upp úr honum, ekki einu sinni heldur tveimur sinnum, að hann teldi nauðsynlegt að breyta frv. til þess að tryggja það að ýmis önnur sjónarmið kæmust örugglega að þessu mikilvæga máli. Hann nefndi útivistarhópa, hann nefndi ferðafélög og hann nefndi náttúruverndarsamtök. Með öðrum orðum lýsti hv. þm. því skorinort yfir í síðustu ræðu sinni þegar ég atti örlitlu kappi við hann á föstudaginn var að það yrði að breyta frv. Einnig hann taldi það nauðsynlegt.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, sem er utan flokka og tilheyrir ekki stjórnarliðinu og ég veit ekki hvort hún tilheyrir stjórnarandstöðunni, enda er mér alveg sama um það, kom hingað og lýsti því yfir að hún styddi þetta frv. upphaflega. En hún sagði jafnframt að hún teldi skorta á að raddir fulltrúa þeirra sem sinna náttúruvernd, fulltrúa þeirra sem hafa byggt upp atvinnugreinar á miðhálendinu, þ.e. ferðaþjónustunnar, ættu að koma að þessu máli. Hún lýsti því líka yfir í ræðu sinni að hún mundi ekki leggjast gegn því ef slík tillaga kæmi fram. Herra forseti. Við svona málflutning hef ég afar mikið að athuga. En ég ætla ekki að eyða tíma þessa vel starfandi þings til þess að fara yfir það. Nægir að nefna það, herra forseti, að út af vinnubrögðum meiri hlutans virðist hún einnig hafa fallið frá stuðningi við þetta mál vegna þess að sáttargjörðin, sem stjórnarliðunum hefur orðið svo tíðrætt um í kvöld og í gærkvöld og fyrrakvöld og mörg kvöld þar áður líka, var brotin af þeim sjálfum. Þetta eru vinnubrögð sem ég hef aldrei séð hér áður. Ég hef aldrei vitað til þess áður að menn gerðu einhvers konar sáttargjörð og ginntu jafnvel heilar stjórnmálahreyfingar til fylgis á þeim grunni --- og brjóta hana svo. Það er nýmæli fyrir mér, herra forseti.

Ég minnist þess líka að hv. þm. Árni Ragnar Árnason kom upp og taldi rétt að allir landsmenn hefðu aðgang með einhverjum hætti að þeirri nefnd sem á að véla um skipulag miðhálendisins. Hann virtist ekki heldur gera sér grein fyrir því að frv. sem hæstv. ríkisstjórn lagði fram fyrir atbeina hæstv. umhvrh. braut algjörlega gegn því. Einnig hv. þm. Árni Ragnar Árnason, fulltrúi næstfjölmennasta kjördæmis landsins, Reykjaness, tók það fram, þegar hann var spurður í þaula um það í andsvörum, að það væri nauðsynlegt að breyta frv. Með öðrum orðum: Eftirtaldir þingmenn, sem hér hafa talað af hálfu stjórnarliðsins, hafa allir talað um að nauðsynlegt væri að breyta frv. sem varð grundvöllur sáttargjörðarinnar, þ.e. hv. þm. Árni M. Mathiesen, Árni R. Árnason, Pétur H. Blöndal og Guðni Ágústsson. Ég minnist þess líka, herra forseti, sem ég átti þó ógetið, að enginn annar en hæstv. félmrh., Páll Pétursson, kom upp í andsvörum fyrir nokkrum dögum og sagði að nauðsynlegt væri að breyta frv. hæstv. umhvrh.

Þetta eru í hæsta máta undarleg vinnubrögð, herra forseti. Þau eru undarleg og ekki síst í ljósi þess að frv. hafði verið samþykkt í Framsfl. en eins og menn vita er félmrh. enn fulltrúi í honum. Í öðru lagi er það merkilegt vegna þess að hæstv. félmrh. er enn þá starfandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem hafði samþykkt að leggja frumvarpið fram til kynningar. Þá veltir maður því fyrir sér: Hvers konar vinnubrögð hefur stjórnarliðið uppi í þessum efnum?

[24:30]

Ég er búinn að sitja hér kjörinn þingmaður í nokkur ár en ég minnist þess ekki áður að hér hafi verið dreift frv. og að sama kvöld og frv. var dreift komi upp annar ráðherra en sá sem hefur forræði á málinu sem dreift er og lýsi því yfir að það þurfi að breyta frv., ekki í einni grein heldur í tveimur. Ljóst er að hér er á ferðinni einhvers konar baktjaldamakk innan Framsfl. vegna þess að það er að bresta flótti í liðið. Og auðvitað skilja menn að það bresti flótti í liðið. Menn fundu það á sínu eigin skinni að það var ekki bara flóttabrestur hér í þingliðinu heldur á fylginu úti um landið. Þetta, herra forseti, var síðan staðfest í skoðanakönnun sem birt var í kvöld þar sem kom fram að Framsfl. hefur tapað þriðjungi af fylgi sínu. Hann hefur ekki frá því að ég man eftir á þessu kjörtímabili mælst jafnlágt í skoðanakönnun. Og halda menn að það sé einhver tilviljun? Að sjálfsögðu ekki. Það er vegna þess að hann ber hina formlegu ábyrgð á þessu slæma máli.

Nú ætla ég ekki að núa Sjálfstfl. því um nasir að hafa platað flokkinn til þess. En auðvitað hefur Sjálfstfl. ekki auðveldað Framsókn málið. Hver og einn einasti sjálfstæðismaður sem hér hefur komið upp og talað hefur gagnrýnt málið.

Hv. þm. Árni M. Mathiesen, sem var eins konar talsmaður Sjálfstfl. í þessum umræðum enda oddviti flokksins í umhvn. og sá þingmanna Sjálfstfl. sem hefur hvað mest sinnt þeim málaflokki og talaði hér því eins og eins konar talsmaður þeirra, taldi frv. óþarft. Hann gerði fjölmargar athugasemdir við það. Í kjölfarið komu tveir þingmenn úr hans kjördæmi, báða hef ég nefnt hér, þ.e. hv. þm. Árni R. Árnason og Kristján Pálsson, og hnigu mjög í sama farveg. Með öðrum orðum hefur Sjálstfl. komið hér hvað eftir annað upp í umræðunni og beinlínis lagt sitt lóð á vogarskál stjórnarandstöðunnar í gagnrýni sinni á þau frv. sem Framsfl. hefur lagt fram í þessu máli. Þetta, herra forseti, hljóta að teljast mjög undarleg vinnubrögð svo vægt sé til orða tekið. Það er kannski þess vegna sem Framsfl. á svo erfitt með að halda sjó í þessu máli. Reyndar má segja að meginstoðir séu þegar teknar að fúna og jafnvel að molna, eins og kom fram í þeirri skoðanakönnun sem ég ræddi hér lítillega fyrr í kvöld.

Ég ætla, herra forseti, áður en ég held mikið lengra, að ræða hér aðeins það frv. til sveitarstjórnarlaga sem er undir í umræðunni vegna þess að þar er að finna margvísleg efni sem ekki tengjast miðhálendinu beinlínis en mjög þarft er að ræða. Herra forseti. Því hefur verið haldið fram í umræðunni að fyrir utan þau tvö vondu ákvæði sem er að finna í 1. gr. frv. og bráðabirgðaákvæðinu sé afskaplega lítið í þetta frv. varið. Ég minnist þess að jafnvel hinir bestu menn hafa vitnað í bréf þar sem borgarlögmaður skrifaði borgarráði eftir að hann var beðinn um umsögn af hálfu borgarráðs um þetta frv. Borgarlögmaður lét þess getið að ýmislegt vantaði í frv. og fór nokkrum orðum það. Hann lagði m.a. til að sett yrði í frv. sérstök grein um arðgreiðslur. En að öðru leyti taldi hann breytingarnar á frv. svo lítilvægar að í rauninni væri ónauðsynlegt að reifa þær sérstaklega fyrir borgarráði.

En þetta frv. sem hér liggur fyrir er að mörgu leyti merkilegt og í því er að finna sérlega merkan kafla sem lýtur að fjármálum sveitarfélaga. Frv. er hátt á annað hundrað greinar fyrir utan bráðabirgðaákvæðið að sjálfsögðu og þar er farið mjög víða yfir sögu. Það sem mér finnst merkilegast í þessu frv. er kannski líka það sem vantar í það. Á síðustu árum hefur verksvið sveitarfélaganna mjög verið að breytast. Það er verið að færa yfir til sveitarfélaganna mjög stórbrotin verkefni og segja má að í sjálfu sér felist í því mikill hvati fyrir sveitarfélögin til að stækka, þ.e. til þess að sameinast og byggja sig þannig sameiginlega upp til þess að takast á herðar aukin verkefni. Ég held sjálfur að mjög nauðsynlegt sé að setja sem mestan hvata til þess að sveitarfélög stækki. Ég held líka að fyllilega sé réttlætanlegt að setja í frv. af þessu tagi einhvers konar ákvæði sem knýja mjög fast á um það. Ég er t.d. þeirrar skoðunar að í þessu frv. hefðu menn átt að nota ferðina og breyta því ákvæði sem fjallar um lágmarksstærð sveitarfélaga. Hún hefur verið 50 íbúar. Ef sveitarfélag hefur verið undir 50 íbúum þá hafa verið í gildi sérstök ákvæði sem í rauninni eru nánast eins konar lögþvingun til sameiningar. En það hefði verið nauðsynlegt í ljósi breyttrar verkaskiptingar að stækka þessa lágmarkseiningu sveitarfélaganna. Það er nefnilega svo að þau eru í vaxandi mæli að fá hvers konar aukin verkefni sem þau hafa ekki bolmagn til þess að sinna meðan stærðarmörkin eru ekki nema 50 íbúar. Mig langar í örstuttu máli að hlaupa aðeins á þessum verkefnum.

Þessi örsmáu sveitarfélög sem jafnvel hafa bara 50 íbúa, einhvers staðar rétt þar fyrir ofan, eiga að sjá um framfærslumál. Þau eiga að sjá um aðstoð við aldraða og aðstoð við fatlaða. Þau eiga að sjá um barnaverndarmál. Þau eiga líka að sjá um varnir gegn notkun vímugjafa. Þau eiga að sjá um rekstur dagvistar fyrir börn. Þau eiga líka að sjá um að reka dvalarheimili aldraða. Þau eiga að sjá um að heimilishjálp sé til staðar. Þau eiga meira að segja líka að sjá um slysavarnir. Með þeim lögum sem eru í gildi núna þá er þeim líka falin atvinnumál. Ég nefni sérstaklega umdeild lög sem fluttu til þeirra atvinnuleysisskráningu og vinnumiðlun sem reyndar var breytt aftur með lögum. Þeim eru falin menntamál, þar á meðal bygging og rekstur skóla. Þeim er falin tónlistarfræðsla og fullorðinsfræðsla. Í þeirra umsjá eru einnig húsnæðismál eins og m.a. bygging verkamannabústaða. Þau eiga að sjá um eldvarnir og almannavarnir. Þau eiga að sjá um skipulags- og byggingarmál, gerð aðalskipulaga og gerð deiliskipulaga. Þau eiga að sjá um sorphreinsun og sorpeyðingu, holræsalagnir ef þeirra er þörf og um skolpeyðingu. Þau eiga að sjá um að eyða meindýrum. Þau eiga að sjá um að hafa eftirlit með hreinlætismálum. Að einhverjum hluta eiga þau að sjá um heilsugæslu. Þau eiga að sjá um rekstur bókasafna, önnur menningarmál, rekstur annarra safna, félagsheimili, stuðning við áhugamannafélög og sennilega mætti halda áfram að telja upp fleira sem ég í fljótu bragði kann ekki að nefna.

Við sjáum, herra forseti, að það er tómt mál að tala um að örlítil sveitarfélög geti sinnt þessu öllu. Því hefði ég talið að menn hefðu átt að nota ferðina til þess að stækka verulega þá lágmarkseiningu sem hægt er að telja sveitarfélag. Ég held að það sé tímaskekkja að miða það við 50 manns. En ég veit að hv. þm. Magnús Stefánsson sem situr hér og hlustar agndofa á þessa ræðu muni hafa í farteskinu einhvers konar rök sem skýra það hvers vegna ekki var farið lengra í þessu máli.

Ég nefndi áðan, herra forseti, að það sem ég tel að sé mest til bóta í þessu frv. sé sá málaflokkur sem tengist fjárhagsmálum sveitarfélaga. Við vitum að þau hafa sums staðar verið í lamasessi síðustu árin. Efnahagskreppa sem gekk yfir þjóðfélagið upp úr 1990 í kjölfar alvarlegs þorskbrests leiddi til þess að þau lentu mörg í fjárhagslegum hremmingum. Þau lentu í því að tapa störfum þegar fyrirtæki höfðu ekki lengur bolmagn til að standa á eigin fótum og fóru halloka fyrir markaðnum, urðu gjaldþrota eða sameinuðust öðrum sem voru í öðrum sveitarfélögum. Þetta leiddi til þess, herra forseti, að í sumum strandbyggðum landsins, þar sem atvinnan helgast fyrst og fremst af sjónum, tapaðist það sem allt stendur og fellur með í strandbyggðunum, þ.e. kvótinn. Mjög víða leiddi þetta til þess að sveitarfélögin ákváðu að neyta þess ákvæðis sem þá var í gildi og fól í sér forkaupsrétt á kvóta sem var að tapast úr byggðarlaginu. Víða leiddi þetta til þess að þau ábyrgðust á einhvern hátt fjárhagslegar skuldbindingar fyrirtækja sem ákváðu að festa kaup á kvóta til að halda störfum í byggðinni. Þetta leiddi sums staðar til þess að markmiðið tókst. Annars staðar leiddi þetta til þess að sveitarfélögin komust á fjárhagslega heljarþröm.

Með því frv. sem hér liggur fyrir held ég að búið sé að setja fjárhagsmál sveitarfélaganna í miklu betri skorður en áður var. Herra forseti. Í fyrri ræðu minni drap ég einungis á þrjú atriði sem ég taldi að væru mjög til bóta í þessum efnum. En nú þegar ég er búinn að lesa þetta betur sé ég að þau eru miklu fleiri. Og fyrir það ber að þakka, herra forseti. Ég tel að þess vegna sé nauðsynlegt að samþykkja sem fyrst þessi ákvæði frv. Tel raunar að einmitt af þeim sökum væri æskilegt að fara að tillögu hv. þm. Svavars Getssonar sem á síðustu dögum, eins og við höfum lesið í fjölmiðlum, hefur sett fram þá hugmynd að ákvörðun þingsins um megindeiluefni frv., þ.e. 1. gr. og bráðabirgðaákvæði, verði frestað en frv. samþykkt að öðru leyti með þeim brtt. sem félmn. leggur til.

Segja má að í 3. málsl. 2. mgr. 61. gr. komi fram fyrsta meginbreytingin frv. á fjárhagsmálum sveitarfélaga, að teknu tilliti til breytingartillögunnar, sem er b-liður 7. brtt. á þskj. 1193, en sá málsliður hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn skal árlega gæta þess svo sem kostur er að heildarútgjöld sveitarfélags, þar með talin rekstrarútgjöld, fari ekki fram úr heildartekjum þess.``

Ég tek eftir því þegar ég les yfir breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar við frv. að til þess að leggja áherslu á efni þessarar greinar og mikilvægi hennar er málsliðurinn gerður að sérstakri málsgrein. Ég ímynda mér, herra forseti, að rökin að baki þessu séu þau að í þessu felist svo mikilvæg stefnumótun varðandi fjárhag sveitarfélaga og fjárhagsáætlanir að félmn. hafi talið nauðsynlegt að undirstrika þetta sérstaklega með því að gera þetta að sértakri málsgrein. Hvað felst hins vegar í þessari málsgrein? Ef maður les hana bókstaflega þá er í rauninni verið að samþykkja hér með lögum að sveitarstjórnum sé bannað að safna skuldum. Segja má að þarna sé verið að sníða stakkinn æðiþröngt. Segja má að með þessu sé e.t.v. verið að koma í veg fyrir að þau geti ráðist í meiri háttar framkvæmdir. En þá má nú raunar lesa þessa ágætu grein saman við aðra grein þar sem fram kemur að sveitarfélagið skuli gera áætlun til þriggja ára. Samkvæmt því er ljóst að ekki er verið að skerða svigrúm þeirra það mikið að þau geti ekki tekist á herðar sérlega umsvifamikil og fjárfrek verkefni. Eigi að síður, herra forseti, tel ég að hérna sé verið að strekkja mjög á taumi fjárhagslegra umsvifa sveitarstjórnanna og ég tel að það sé mjög af hinu góða. Samkvæmt þessu, ef menn fara nú vel eftir þessu, þá á þetta að koma í veg fyrir að það gerist sem við höfum illu heilli séð gerast nokkrum sinnum, að sveitarfélög hafa komist í slíkt þrot að það hefur þurft að taka þau í eins konar gjörgæslu á vegum félmrn.

[24:45]

Í 63. gr., herra forseti, er einnig mikilvægt ákvæði. Þar er einmitt fjallað um hina þriggja ára áætlun. Þar segir að til vibótar þeirri fjáhagsáætlun sem reifuð er í 61. gr. eigi sveitarstjórn árlega að semja og fjalla um þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélagsins. Auðvitað segir þar skýrum stöfum að þessi áætlun þurfi að vera innan þess ramma sem sveitarfélagið áætlar um tekjur sínar og rekstur. Þarna held ég að menn séu að leggja út á rétta braut.

Síðan er í 73. gr. um að ræða merkilega breytingu, held ég, sem hefur kannski ekki fengið nægilega umfjöllun í þessari umræðu. Þannig er, ef ég man rétt, herra forseti, að í 89. eða 90. gr. núgildandi laga er í gadda slegið að sveitarfélag getur ekki tekist á herðar sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. En það getur hins vegar veitt einfalda ábyrgð til annarra aðila gegn tryggingum sem sveitarstjórnin metur gildar. En 1. málsl. lokamálsgreinar 73. gr., hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Eigi má binda sveitarsjóð í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins.``

Mér virðist að hér sé verið að breyta verulega möguleikum sveitarstjórnar til að takast á hendur slíkar ábyrgðir til annarra aðila en tengjast beinlínis stofnunum sveitarfélagsins. Með þessu, herra forseti, og með þeirri grein sem ég las áðan, 61. gr., tel ég verið sé að tryggja það að sveitarstjórnir geti ekki lagt út í framkvæmdir eða lánveitingar til fyrirtækja sem kynnu að steypa fjárhag sveitarfélagsins í voða. Ég tel að þetta sé afar merkilegt. Ég er hins vegar sannfærður um að margar sveitarstjórnir munu ekki taka þessu fagnandi. Ég ímynda mér t.d. að ýmis stærri sveitarfélög og jafnvel það sveitarfélag sem við erum stödd í núna kunni að hafa ýmislegt við þetta að athuga. Ég held hins vegar að hérna sé um að ræða nýmæli sem er hið besta mál.

Samkvæmt 74. gr. er ákveðið að ráðherra skipi þriggja manna eftirlitsnefnd og þessi nefnd á árlega að athuga reikningsskil sveitarfélaga og bera þau saman við viðmiðanir sem koma fram annars staðar í þessari sömu grein.

Í greininni á eftir, 75. gr. þar sem fjallað er um sveitarfélög í fjárþröng, kemur fram að ef sveitarstjórn telur að sveitarfélagið sé komið í það mikla fjárþröng að því sé ókleift að standa í skilum þá beri að tilkynna það til eftirlitsnefndarinnar og hún á þá samkvæmt 2. mgr. sömu greinar að láta tafarlaust fara fram rannsókn á fjármálum sveitarfélagsins og rekstri þess og síðan á hún að leggja fyrir sveitarstjórnina fyrirmæli um að bæta úr því sem miður hefur farið og reyna að leysa málið innan hæfilegs frests, eins og þar segir.

Ég held að hérna séu menn komnir inn á farsæla braut. Eins og menn taka eftir er ég afar hrifinn af þeim ákvæðum í frv. sem fjalla um fjárhag sveitarfélaganna. Ég velti því hins vegar fyrir mér: Hvernig er búið að þessari eftirlitsnefnd? Mér finnst það alls ekki í gadda slegið, alls ekki í frumvarpstextanum, og ekki heldur í þeim lögskýringum sem er að finna í greinargerðinni. Og ég velti því fyrir mér hvernig umsvifum þessarar þriggja manna eftirlitsnefndar sé háttað. Hún á auðvitað að geta ráðið sér mannskap og reist sér einhvers konar batterí til þess að gera þetta. En ég sé ekki í fljótu bragði alveg hvernig sú góða áætlun sem hér liggur fyrir í einum fimm greinum, þ.e. frá 74. gr. til og með 78. gr., muni reynast í framkvæmd. Það væri fróðlegt að fá útskýringar á því frá þeim hv. þm. sem hér mælir fyrir nál.

Það er alveg prýðilegt að setja upp þriggja manna eftirlitsnefnd og óskaplega fínt að setja í lög að ef sveitarfélagið telur að það sé að fara á hausinn þá eigi það að hafa samband við nefndina. En ég tek eftir því að það er eins og því séu beinlínis gerðir skórnir að hin árlega athugun eftirlitsnefndarinnar á fjárreiðum sveitarfélagsins muni ekki endilega duga til þess að nefndin komist sjálf að því ef í óefni stefnir. Þess vegna er þetta ákvæði sem er að finna í 1. mgr. 75. gr. Það er eins og frumvarpshöfundarnir hafi sjálfir ekki fulla trú á því ákvæði sem hér er verið að setja í lög og ég held að nauðsynlegt sé að menn skýri þetta frekar.

Við vitum, herra forseti, að það er ekki bara frv. og nál. eða brtt. sem skipta máli heldur skiptir mjög miklu máli hvaða skýringar á tilteknum óljósum greinum koma fram í máli þeirra sem mæla fyrir frv. Þess vegna held ég að í þágu lögskýringarmanna framtíðarinnar væri mjög æskilegt ef hv. þm. Magnús Stefánsson færi í gegnum þetta ferli í þeirri ræðu sem hann án efa á eftir að flytja á Alþingi Íslendinga einhvern tíma síðar í nótt, skýrði það nákvæmlega hvaða umsvif eftirlitsnefndinni er heimilt að hafa, hvers konar starfsmenn henni er heimilt að ráða, hvernig hún á að sinna þessu hlutverki sínu sem greint er frá í 2. mgr. 74. gr. og hvernig eigi að bregðast við ef sveitarstjórn skirrist við innan hæfilegs frests. Það er að vísu svolítið tekið á því í 77. gr. En mér finnst að það vanti svolitlar útskýringar á þessu. Ráðherra getur svipt sveitarstjórnina fjárforráðum. En það er auðvitað það sem menn eru að reyna að koma í veg fyrir og spurningin er hvort ekki sé á einhvern hátt hægt að slá styrkari stoðum undir möguleika eftirlitsnefndarinnar til að grípa fyrr inn í, áður en að sveitarfélagið er beinlínis sett á gjörgæslu. Ég held að það sé nauðsynlegt vegna þess að í því felst ákveðin minnkun út á við og það er á vissan hátt niðurlæging fyrir sveitarstjórn og það sveitarfélag sem hún stýrir ef henni mistekst svo hrapallega. Auðvitað er æskilegast að það sé ljóst að tekið verði í taumana áður en það gerist.

Ég tel, herra forseti, að hérna sé um að ræða sex merkileg ákvæði sem öll lúta að miklu sterkari og agaðri fjárhagslegum rekstri sveitarfélaganna en við höfum í dag. Það er í fyrsta lagi í 3. málsl. 2. mgr. 61. gr. frv. þar sem talað er um það að sveitarstjórn megi ekki safna skuldum eða að hún skuli reyna að komast hjá því eftir mætti að safna skuldum. En þessi setning, sem eftir brtt. meiri hluta félmn. er orðin sérstök málsgrein, hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn skal árlega gæta þess svo sem kostur er að heildarútgjöld sveitarfélags, þar með talin rekstrarútgjöld, fari ekki fram úr heildartekjum þess.``

Þarna liggur fyrir mjög fín stefna.

Í öðru lagi, herra forseti, segir í 63. gr., þar sem er verið að ræða um þriggja ára áætlun, að til viðbótar þeirri fjárhagsáætlun sem rætt er um tveimur greinum fyrr, eigi sveitarstjórnin árlega að semja þriggja ára áætlun um framkvæmdir, rekstur og fjármál sveitarfélagsins. Þetta er allt af hinu góða.

Í þriðja lagi er það afar mikilvægt sem segir í 1. málsl. 6. mgr. 73. gr. um tryggingar og ábyrgðir, að ekki megi binda sveitarsjóð í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Þarna er um mikilvæga framför að ræða, eins og ég veit að hæstv. forseti, sem er vel verseraður í sveitarstjórnarmálum og fjármálum þeirra, er mér fyllilega sammála um. Því miður hef ég óljósan grun um að svo sé ekki í öllu öðru sem í þessu frv. lýtur að þeim deiluefnum sem við höfum verið að ræða í kvöld.

Í fjórða lagi er eftirlitsnefndin mjög til bóta. Hún á að athuga reikningsskil sveitarfélaganna og bera þau saman við viðmiðanirnar sem eru settar í 74. gr. Jafnframt er þar lögð sú skylda á sveitarstjórnina að gera eftirlitsnefndinni grein fyrir því hvernig hún ætlar að bregðast við þeim aðvörunum sem nefndin setur henni.

Í fimmta lagi held ég að 75. gr. sé mjög af hinu góða og sömuleiðis ákveðin atriði í 76. gr. Þarna tel ég að mjög sé vel um vélað og þetta horfi mjög til bóta frá því sem nú er.

Herra forseti. Það sem ég vildi síðan ræða aðeins um --- þó að ég hafi drepið á það í fyrri ræðu minni þá gerði ég það ekki nægilega ítarlega --- er einmitt sú breyting sem meiri hlutinn leggur til við 7. gr. þar sem er fjallað um almennar skyldur sveitarfélaga. Um áratugi hafa sveitarfélög sem hafa rekið fyrirtæki á sína eigin ábyrgð látið fyrirtækin greiða sveitarsjóðnum arð. Ekki hefur verið nokkur lagastoð fyrir þessu, herra forseti, og svo undarlegt sem það virðist þá held ég að höfuðborg Íslendinga hafi haft uppi þennan sið í meira en hálfa öld án þess að fyrir því sé lagastoð. Það má auðvitað segja að kominn sé hefðarréttur á þetta. En það er óþægilegt að ekki skuli vera á einhvern hátt skýrar á þessu tekið í lögum og það er gert hérna. Hér er lögð til ótvíræð heimild sem hefur vantað í löggjöfina. En þegar maður hugsar þetta mál lengra þá er ég ekki viss um að þetta sé jafngott og það lítur út í fljótu bragði. Ég skil að sjálfsögðu að nauðsynlegt sé að þjónustugjöld vegna þjónustustofnana sveitarfélaga eigi að nægja til þess að standa undir rekstri stofnananna. Það er hið besta mál. En er réttlætanlegt að gjaldskráin sem ráðherrann á síðan að staðfesta megi vera svo há að sveitarfélögin geti í rauninni skattlagt íbúana í gegnum þjónustugjöld, þ.e. að þau ákveði í fyrsta lagi að þjónustugjöldin eigi að standa undir rekstri og í öðru lagi að þau eigi að ná tilteknum arðsmarkmiðum? Ég felli mig ekki alveg við þennan hugsunarhátt. Ég leyfi mér þann munað að hugsa upphátt og spyr sjálfan mig: Hvenær hættir gjald að vera gjald og verður að skatti?

Mér finnst að fyrir þessu sé alls ekki gerð nægileg grein í því áliti meiri hlutans sem fyrir liggur. Og þegar ég les umsagnir sveitarfélaganna þá sé ég ekki betur en að sú brtt. sem þarna liggur fyrir sé orðrétt komin úr umsögn Reykjavíkurborgar. Í umsögn Reykjvíkurborgar segir, með leyfi forseta:

[25:00]

,,Sveitarfélög skulu setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og er heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra.``

Hvað þýðir þetta, herra forseti? Þýðir þetta að það fjármagn sem upphaflega var lagt til stofnunar viðkomandi fyrirtækis megi skila tilteknum arði? En hver er fóturinn undir arðinum? Hver er viðmiðunin? Ég held að hér sé verið að opna allt of víða gátt fyrir sveitarfélögin. Ég skil vel að Reykjavíkurborg langi til þess að fá þetta. Ég er ekki viss um að sú ágæta borgarstjórn sem nú er við lýði --- hún verður örugglega við lýði að loknum sveitarstjórnarkosningum og sennilega eftir fjögur ár þaðan í frá --- verði til eilífðar. Ég óttast að ef til þess kemur, einhvern tímann í framtíðinni, að sjálfstæðismenn taki aftur völdin hér í Reykjavíkurborg, --- guð forði okkur frá því! --- þá sé auðvitað mögulegt að þeir ani aftur út í sams konar fjárfestingarvitleysu og þeir gerðu hér á árum fyrri þegar þeir keyrðu fjárhag Reykjavíkurborgar nánast í rúst. Í þá daga þurfti Reykjavíkurborg að greiða, ég veit ekki hversu háar greiðslur vegna dráttarvaxta í frægum banka handan við Austurvöll og Austurstræti.

Ég held því, herra forseti, að þetta sé hættulega rúmt. Ég spyr: Hvað með sveitarfélög sem reka fyrirtæki sem selur þjónustu til annarra sveitarfélaga? Er þá ekki sá kostur í stöðunni að eitt tiltekið sveitarfélaga geti, í gegnum þetta lagaákvæði og eignarhald á fyrirtæki sem selur þjónustu í annað sveitarfélag, skattlagt íbúa þess sveitarfélags? Ég tel að hv. þm. Magnús Stefánsson þurfi að vanda sig mjög vel þegar hann skýrir þetta. Menn munu væntanlega, sökum þess hversu orðalagið í áliti meiri hlutans er óljóst, lesa ræðu hans út í hörgul til lögskýringa á þessu. Ég er sannfærður um að einhvern tíma kunni svo að fara að einhverjum greiðanda ofbjóði og höfði mál. Þá verður auðvitað horft til þess sem hinn vísi framsögumaður meiri hluta félmn., hv. þm. Magnús Stefánsson, sagði í ræðu sinni til skýringar á þessu atriði.

Herra forseti. Ég hef nú rætt tiltekin atriði í frv. til sveitarstjórnarlaga nokkuð ítarlega, þ.e. þann kafla sem mér þótti mestu varða. Það er sá kafli sem hafði að geyma þau ákvæði sem varða fjárhagsáætlun sveitarfélaga og fjárhagsramma þeirra. Ég hef einnig í ítarlegu máli rætt þann versta ágalla sem ég sá á frv. fyrir utan 1. gr. og bráðabirgðaákvæði. Það voru einmitt breytingarnar sem vantaði. Það var lágmarkseiningin sem telst sveitarfélag. Ég tel að það sé mikill galli á þessu frv. að ekki skuli vera ákvæði um að einingin sem heitir sveitarfélag sé stærri en 50 íbúar. Ég er viss um að þegar að 3. umr. kemur þá muni margir vísir menn ræða þetta enn frekar og væntanlega þær brtt. sem kynnu í kjölfar þessarar ræðu minnar, og annarra ræðna sem hér hafa verið haldnar og eiga eftir að vera haldnar, að vera lagðar fram.

Hitt frumvarpið sem hér er til umræðu, þó það sé ekki á formlegri dagskrá, gerði ég að örlitlu umræðuefni í upphafi ræðu minnar. Það er frv. hæstv. umhvrh. Það frv. er með þeim eindæmum að það er lagt fram hér á þingi til kynningar. Það er samþykkt af ríkisstjórninni og það er samþykkt af ríkisstjórnarflokkunum. Sjálfstfl. streittist að vísu alllengi á móti í málinu og hafnaði því að frv. yrði lagt fram fyrr en svo langt var liðið þings að erfitt var um vik fyrir hæstv. umhvrh. að koma málinu á dagskrá. Það var lagt fram sem sagt eftir þann frest sem gefinn er, þ.e. eftir 1. apríl. Þar af leiðandi hafði ég fullan skilning á því að það kynni að vera nokkuð umhendis fyrir hæstv. ráðherrann að koma málinu á dagskrá.

En það vill svo til að hæstv. ráðherra á víða hauk í horni. Það er ekki bara hv. þm. Guðni Ágústsson sem bliknar fyrir bliki augna hæstv. ráðherra. Það er ekki aðeins hv. þm. Magnús Stefánsson sem flytur mál þeirra beggja, hæstv. félmrh. og umhvrh., mjög sköruglega. Það voru fleiri sem runnu í þessu máli, herra forseti. Hæstv. ráðherra rann sjálfur en haukarnir sem hann átti í horninu, voru stjórnarandstaðan.

Stjórnarandstaðan setti fram tillögu sem tekin var á dagskrá og greidd voru atkvæði um. Hún fól það í sér að frv. hæstv. umhvrh. yrði tekið til umræðu. Það var m.a. rökstutt með því að frv. fól í sér málamiðlun milli hluta stjórnarandstöðunnar og stjórnarliðsins. Ég hef rakið það fyrr og ætla ekki að reifa það frekar hér hvernig sú málamiðlun var brotin í mola með því að þingmenn Framsfl. ljóstruðu því upp að ýmsir hæstv. ráðherrar Framsfl. ættu í hrossakaupum við tiltekna þingmenn Framsfl.

Þar með var það ljóst að hin svokallaða sáttargjörð var ekki lengur fyrir hendi vegna þess að þeir sem gerðu sáttina, a.m.k. úr liði stjórnarandstöðunnar, höfðu ekki lengur hugmynd um hvernig sáttargjörðin leit út. Þess vegna var nauðsynlegt, fyrir þá stjórnarandstöðuþingmenn sem höfðu bundið sitt fylgi við sveitarstjórnarfrv. sem hér liggur fyrir samþykkt þess frv., að það kæmist á dagskrá. Hvers vegna? Vegna þess að með því að frv. kæmist á dagskrá og yrði rætt og jafnvel samþykkt, þá væri ljóst á hvaða grunni sáttin, sem viðkomandi þingmenn gerðu, væri byggð. Þess vegna var það mjög undarlegt að hæstv. umhvrh. skyldi ganga hér fram fyrir skjöldu og lýsa því yfir að hann hefði engan vilja til þess að frv. kæmi hér til umræðu. Hið merkilegasta í sambandi við það, herra forseti, var þó hvernig Sjálfstfl. hagaði sér í málinu.

Það vildi nefnilega þannig til að þegar krafa stjórnarandstöðunnar kom fram um þetta, hið fyrsta sinni, að þá var hæstv. umhvrh. ekki viðstaddur. Þá gerðist það hins vegar að hv. þm. Árni M. Mathiesen kvaddi sér hljóðs og lýsti því yfir að frv. yrði ekki á dagskrá og kæmi ekki til umræðu. Með öðrum orðum var alveg ljóst að Sjálfstfl. réð þeirri för. Hann vildi ekki að frv. samstarfsflokksins í ríkisstjórninni kæmist á dagskrá.

Það er nauðsynlegt, herra forseti, að velta því fyrir sér af hverju þetta stafaði. Það fyrsta sem manni dettur í hug er það að frv. hafi verið slík hrákasmíð að þingmenn Sjálfstfl. hafi ekki treyst sér til að taka það til umræðu þar sem stjórnarandstaðan, með aðstoð margra stjórnarliða, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, hefði flett ofan af þeim tæknilegu misbrestum sem er að finna á frv. Stjórnarandstaðan hefði bent á hvernig frv. er úr garði gert og að það uppfyllti hvergi nærri þau skilyrði sem a.m.k. tveir tilteknir þingmenn stjórnarliðsins settu fyrir því að falla frá fyrirvara sem þeir höfðu við frv. Þetta hefði í sjálfu sér verið næg ástæða fyrir Sjálfstfl. til að leggjast gegn því að frv. kæmi á dagskrá.

Önnur skýring er þó öllu nærtækari og hana má í raun lesa út ræðu hv. þm. Árna M. Mathiesens sem hann flutti fyrir um einni viku síðan. Hv. þm. lýsti því þá einfaldlega yfir að hann væri þeirrar skoðunar að ekki ætti að samþykkja frv. hæstv. umhvrh. Hann lýsti því einfaldlega yfir að það væri óþarft. Hann flutti hér nokkra ræðu um að skynsamlegra væri að fara aðra leið. Sú leið fólst í því að breyta gildandi skipulags- og byggingarlögum, það er sameiginlegur lagabálkur, og nota 12. gr. þess bálks til að ná fram þeim markmiðum sem hæstv. umhvrh. taldi sig vera að reyna að ná fram.

Ég verð raunar að segja það hv. þm. Árna M. Mathiesen til hróss, að þó að ég teldi að hans hugmynd gengi hvergi nærri nógu lagt til þess að fullnægja þeim skilyrðum sem ég hefði sett fyrir samþykki mínu við þetta frv., þá er hún snöggt um skárri en það frv. sem hæstv. umhvrh. hefur lagt fram.

Hæstv. umhvrh. telur nægilegt, skv. 2. mgr. 1. gr. frv. sem hann hefur lagt fram til kynningar, að skipa samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins til fjögurra ára í senn. Þetta á að gera að afloknum sérhverjum sveitarstjórnarkosningum. Sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu eiga að tilnefna tólf fulltrúa og síðan á að tilnefna fjóra fulltrúa í gegnum Samband ísl. sveitarfélaga. Tveir eiga að vera búsettir í Reykjavík, einn á Reykjanesi og einn á Vestfjörðum. Síðan eiga félmrh. og umhvrh. að skipa sinn fulltrúann hvor án tilnefningar.

Þetta, herra forseti, taldi hv. þm. Árni M. Mathiesen fráleitt vera nóg til þess að ná þeim markmiðum sem hann taldi eiga að vera. Og hver voru þau? Hann taldi nauðsynlegt að ýmsir hópar, sem á einhvern hátt tengjast miðhálendinu, gætu komið að stjórn og skipulagi þess. Hann nefndi sérstaklega aðila sem tengjast náttúruvernd, útivistarfólk og ferðafélög og ekki síst ferðaþjónustuna. Hann kom fram með þá skynsamlegu hugmynd að ef menn á annað borð ætluðu að feta þann stíg sem hæstv. umhvrh. hefur lagt á, þá væri miklu skynsamlegra að sleppa öllum tilnefningum. Ég veit að hv. þm. Guðni Ágústsson er sennilega sammála mér ef marka má þær ræður sem hann hefur flutt í dag og fyrir viku síðan. Þess í stað væri hægt að fara þá leið að láta umhvrh. skipa án tilnefningar. Honum væri gerlegt að fara þá leið að tilnefna fulltrúa þeirra sjónarmiða sem hægt er að segja með nokkurri sannfæringu að þurfi að koma skoðunum sínum um skipulag miðhálendisins á framfæri.

En þetta frv. sem hæstv. umhvrh. hefur lagt fram er svo fjarri öllum lýðræðislegum reglum að það er með ólíkindum að menn geti fallist á það sem einhvers konar grunn samkomulags, hvað þá lagasetningar. Við hljótum, herra forseti, að gera ráð fyrir því að í svo mikilvægu máli sem skipulagi miðhálendisins eigi fulltrúar allra sjónarmiða að koma að, allra landshluta og allrar þjóðarinnar. Hvernig förum við að því?

Mér heyrðist hv. þm. Guðni Ágústsson gera að því skóna, í ræðu sinni fyrr í kvöld, að þetta yrðu þjóðkjörnir fulltrúar. Mér virtist hv. þm. í raun vera að leggja drög að því að Framsfl. mundi e.t.v. treysta sér til að leggja það fram í haust. Eins og fram hefur komið telur hv. þm. Guðni Ágústsson að frv. í núgildandi formi sé það gallað að ekki sé verjandi að leggja það fram að óbreyttu. Ef frv. gerði ráð fyrir til að mynda þjóðkjörnum fulltrúum væri það strax miklu betra. Hann á væntanlega við að Alþingi mundi kjósa þessa menn. Það er strax betra en það kerfi sem hér er lagt til.

[25:15]

En ef menn ætla að nota þetta sem grunn þá gæti ég vel fallist á þá leið sem hv. þm. Árni M. Mathiesen reifaði í máli sínu. En þegar maður skoðar frv. hæstv. umhvrh. er alveg ljóst að með engu móti er hægt að samþykkja það. Þeir sem unna lýðræðinu með einhverjum hætti og vilja að lýðræðið njóti sín í efnum sem þessum gætu aldrei samþykkt það. Það er ekki hægt fyrir okkur sem erum fulltrúar 67% þjóðarinnar, þ.e. þingmenn Reykjaness og Reykjavíkur, að fallast á að af 18 fulltrúum hafi þeir þrjá. Það auðvitað er svo víðs fjarri allri sanngirni og öllu réttlæti að það er algjörlega ómögulegt að hægt sé að fallast á að það gangi nálægt þeim markmiðum sem við hljótum að telja að eigi að nást. Hv. þm. sem hafa mælt þessu bót segja að með þessu sé þó tryggt að sjónarmið þessara kjördæma komi að málinu. Herra forseti. Það er alls ekki nóg, það er ekki nóg að sjónarmiðin komi að. Miðhálendið er auðlind. Það verður deilt um miðhálendið í framtíðinni í miklu ríkari mæli en við höfum séð gerast í dag.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal gat þess í ræðu sinni fyrir nokkrum dögum að fyrir 35 árum hefðu í mesta lagi nokkrar rútur farið með ferðamenn inn á miðhálendið á hverju sumri. Hann spurði: ,,Miðað við umferðina sem þar er í dag, hvernig halda menn að hún verði eftir 35 ár?`` Það er nákvæmlega þetta sem við þurfum að hafa að leiðarljósi. Við þurfum að horfa til framtíðarinnar.

Ljóst er að deilt verður um nýtingu og stjórnsýslu miðhálendisins í framtíðinni. Hvað gera menn þegar deilur eru uppi? Þeir reyna að ná málamiðlunum. En aftur og aftur gerist það að það er ekki hægt. Hvað gera menn þá? Lýðræðið segir: Þá greiða menn atkvæði. Það er nákvæmlega vegna þess að miklir og óskyldir hagsmunir munu leiða til þess að í svona nefnd munu menn einhvern tímann lenda í ágreiningi hérna, herra forseti, og þeir munu lenda í því að greiða atkvæði og þá er einfaldlega ekki hægt að bjóða 67% þjóðarinnar upp á það að hafa sjöttung fulltrúa í slíkri atkvæðagreiðslu, það er ekki hægt. Þess vegna er miklu skynsamlegra að fara þá leið sem við jafnaðarmenn höfum lagt til, að það séu ekki einungis skipulagsmálin sem eru tekin þarna og sett í sérstaka nefnd heldur stjórnsýslan öll. Þá er að sjálfsögðu langbesta aðferðin að skipa þarna níu fulltrúa eins og við leggjum til. Ég veit að hv. þm. Guðni Ágústsson hefur fett fingur út í þá aðferð sem við höfum lagt af stað með. Það er alveg sjálfsagt að taka það til einhvers konar endurskoðunar og umfjöllunar ef það mætti verða til þess að stilla afstöðu hv. þm. Guðna Ágústssonar.

Það sem mér svíður þó aðallega varðandi frv. er að mér finnst að í því sé gerð tilraun til blekkingar. Verið er að gera því skóna að þessi samvinnunefnd eigi að hafa einhver veruleg völd. En þegar maður les 2. gr., hvað kemur þá í ljós? Þá kemur í ljós að verið er að gera því skóna að þegar Skipulagsstofnun hefur fengið í hendurnar tillögur núverandi samvinnunefndar um skipulag miðhálendisins eigi hún að leita álits hinnar nýju samvinnunefndar. Með öðrum orðum á sú nefnd, sem hér á að vera grundvöllur einhvers konar sáttargerðar í málinu, ekki að hafa meira vald en svo að hún fær allra náðarsamlegast að segja álit sitt á málinu. Þegar á þetta var bent í umræðum kom fram hjá hæstv. umhvrh. að líkast til mundi hann ekki staðfesta neitt skipulag nema að fengnu áliti hinnar nýju samvinnunefndar.

Ef það er meining stjórnarliðsins, ef það er raunverulega það sem þeir vildu segja, af hverju skrifuðu þeir það ekki í lagatextann? Þetta, herra forseti, er eitt af því sem mér finnst vera loðið og óskýrt, og mig grunar að hér sé verið að beita blekkingum. Mér sýnist að ákvæðið sem er að finna í 2. gr. fletti raunar í einu vetfangi í burt þeim pótemkintjöldum sem þetta frv. er í heild og sýni betur en flest annað í ákvæðum þess að það er ekkert annað en sýndarmennska.

Annað sem ég tel líka benda til þess að einungis sé um sýndarmennsku að ræða er að finna í þeim hluta 1. gr. sem fjallar um hvernig eigi að koma þeirri stefnu sem er að finna í svæðisskipulaginu inn í aðalskipulagið. Eins og menn vita er undir svæðisskipulaginu aðalskipulag og undir því er deiliskipulag. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Um málsmeðferð svæðisskipulags miðhálendisins fer samkvæmt ákvæðum laga þessara. Auk þess skal sú stefna, sem fram kemur í svæðisskipulagi miðhálendisins, færð inn í aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélaga og staðfest sem slík.``

Herra forseti. Hvað þýðir þetta? Gera menn sér ekki grein fyrir því að sveitarfélögin fara með það vald sem felst í aðalskipulagi? Þegar menn segja að stefna svæðisskipulagsins skuli færð inn í aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélaga þá eru menn í fyrsta lagi að tala um hluti sem þeir þekkja ekki. Hvað felst í ,,stefnu``? Stefna er oft og tíðum óljóst hugtak og þetta er allt of loðið til þess að hægt sé að ná taki á þessu. Það sem hérna kemur fram er í rauninni ekki neitt.

Í öðru lagi, herra forseti, er alveg ljóst að hvað sem líður þessu ákvæði eru önnur lög, sértæk lög um skipulags- og byggingarmál, sem segja einfaldlega svart á hvítu, mig minnir að það sé 2. gr. þeirra laga, að sveitarfélagið skuli fara með aðalskipulag, láta gera það, og fer þar af leiðandi með það stefnumótandi vald sem í því felst. Þarna er með öðrum orðum kominn árekstur á milli þessa frv. og þeirra laga sem eru í gildi.

Herra forseti. Ég tel að þarna hafi ég fært rök að því að sú stefna, sem kemur fram í þessu frv. varðandi flutninginn á pólitískri stefnumótun svæðisskipulags um landnýtingu miðhálendisins inn í aðalskipulag þeirra sveitarfélaga sem koma þá til álita að þessu sveitarstjórnarfrv. samþykktu koma þá til álita, sé í besta falli loðin en í versta falli er hún algjörlega haldlaus. Ég tel þar með að alls ekki sé hægt að nota þetta eins og hefur jafnvel komið fram í ræðum ýmissa þingmanna stjórnarandstöðunnar sem virðast sumir fylgja þessu að einhverju leyti, það sé alls ekki verið að tryggja það að landnýtingarstefna svæðisskipulagsins fari óbreytt inn í aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélaga. Ef þeim býður svo við að horfa geta þau sagt nei. Það er afskaplega mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því.

Í þriðja lagi, herra forseti, finnst mér óhjákvæmilegt annað en að ræða örlítið hvernig tekið er á deiliskipulaginu í frv. Deiliskipulagið er hin staðbundna og nákvæma útfærsla á skipulagi. Auðvitað má segja sem svo að það sé kannski undarlegt að fólk sem býr í fjarlægum sveitarfélögum eigi að hafa einhvern rétt til þess að skipta sér af deiliskipulagi í öðrum sveitarfélögum. Ég minnist þess að hafa heyrt í umræðunni þá röksemd, m.a. frá hæstv. félmrh., að íbúar dreifbýlisins hafi ekki möguleika á því að koma að deiliskipulagi í Reykjavík.

Þetta er á engan hátt sambærilegt, herra forseti. Það er ekki hægt að bera saman deiliskipulag í stórborginni saman við deiliskipulag á svæðum sem hægt er að flokka undir viðkvæmustu perlur íslenskrar náttúru. Ég held því fram að nauðsynlegt sé að við sem búum fjarri miðhálendinu höfum eigi að síður einhverja möguleika á því að koma að útfærslu deiliskipulaga á þessum viðkvæmu, stundum örsmáu svæðum á miðhálendinu sem við flokkum undir náttúruperlur. En hvernig er það gert samkvæmt frv.? Með engu móti. Það er meira að segja bókstaflega hægt að lesa það út úr 1. gr. að það eigi ekki einu sinni að gera okkur, íbúum þéttbýlisins, kleift að vita af því þegar menn eru að gera deiliskipulög og auglýsa þau. Það segir, með leyfi forseta, á einum stað í 1. gr.: ,,Tillaga að deiliskipulagi eða breytingar á því skal auglýst á áberandi hátt.``

Hvað þýðir þetta, herra forseti? Ef maður les greinargerðina er ekkert um þetta fjallað. Ég finn ekkert um það hvernig eigi að standa að auglýsingum að deiliskipulagi. Á að auglýsa það á áberandi hátt innan viðkomandi sveitarfélags? Það þýðir með öðrum orðum, herra forseti, af því að þannig hefur þetta verið túlkað hér, og sú túlkun hefur ekki verið borin til baka af hæstv. félmrh., en mig minnir að hann hafi verið að því spurður einhvern tíma, þetta þýðir einfaldlega að við íbúar Reykjavíkur fáum tæpast að vita það þegar t.d. á að auglýsa og ljúka gerð deiliskipulags til að mynda í Svínavatnshreppi, svo ég taki nú frægt dæmi. Þetta er auðvitað ófært, herra forseti. Ég tel í fyrsta lagi að við íbúar þéttbýlisins eigum að hafa fullan rétt til þess að koma með einhverjum hætti að skoðunum okkar á deiliskipulagi á miðhálendinu. Ég tel að þar sé um að ræða sameign okkar allra. Þarna eru, eins og ég hef sagt tvívegis áður í ræðu minni, viðkvæmustu perlur í náttúru Íslands, og nauðsynlegt er að sjónarmið okkar fái að komast að með einhverjum hætti. Því væri bjargað ef við hefðum sæmilega fulltrúa í hlutfalli við fjölda Íslendinga í samvinnunefndinni. En því er ekki til að dreifa, herra forseti. Ég held því að þetta sé enn einn gallinn á því skelfilega frv. sem hefur að vísu verið gagnrýnt af hverjum einasta manni sem hefur tekið til máls nema að ég hygg hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og hæstv. umhvrh.

Hvers vegna er það þá, herra forseti, sem gagnrýnendur þessa frv. halda því fram að það sé ólýðræðislegt? Hvers vegna halda sumir þingmenn Reykvíkinga og Reyknesinga því fram að það sé nauðsynlegt að íbúar þessara þéttbýlu kjördæma eigi greiðari aðgang að því að stýra og skipuleggja þessa gersemi íslenskrar náttúru? Það er vegna þess að íslenska miðhálendið hefur verið einskis manns eign til þessa. Það hefur enginn átt það. Í gegnum aldir var það tæpast nýtt til nokkurs. Vitaskuld notuðu menn það að einhverju leyti til beitar sauðfjár en ef við skoðum til að mynda hin fyrstu landakort sem gerð voru af Íslendingum, ef við veltum til að mynda fyrir okkur landakortinu sem Guðbrandur Þorláksson, biskup á Hólum, stjarnfræðingur með meiru, gerði, fyrsta Íslandskortinu, þá kemur í ljós að ekkert örnefni er að finna á því korti sem hægt er að heimfæra á miðhálendið.

Hvaða ályktun getum við dregið af því, herra forseti? Ályktunin sem við hljótum að draga er sú að menn hafi ekki þekkt miðhálendið. Af hverju þekktu þeir ekki miðhálendið? Væntanlega vegna þess að þeir fóru ekki um það. Og af hverju fóru þeir ekki um það? Líkast til vegna þess að þeir notuðu það ekki. Að vísu voru þjóðleiðir þingmanna landsfjórðunga á milli en þar fyrir utan nýttu menn miðhálendið nánast ekki neitt. Það voru afréttir að einhverjum hluta og upprekstrarlönd en miðhálendið sjálft var hvorki farið af mönnum né nýtt að nokkru leyti.

Þegar kemur síðan fram um lok 17. aldarinnar, þegar næsta merka Íslandskortið var upp dregið, var það enginn annar en Þórður biskup Þorláksson, langafabarn Guðbrands biskups Þorlákssonar, sem sat í Skálholti, og reyndar bróðir Gísla Þorlákssonar biskups á Hólum, svo ég fari nú með allt þetta biskuparegistur þessarar familíu. Það var hann sem gerði þrjú Íslandskort og á hinu fyrsta var ekkert örnefni nema eitt, Sprengisandur. Það var eina örnefnið sem menn þekktu á miðhálendinu árið 1696. Hvað þýðir það? Það þýðir einfaldlega að miðhálendið var ekki nýtt og það var einskis manns eign.

[25:30]

Síðar, eftir því sem sauðfjáreign landsmanna jókst, þá jukust auðvitað nytjar manna á miðhálendinu. Menn notuðu það í auknum mæli til beitar. Menn notuðu það í auknum mæli sem afréttarlönd. En það hefur verið staðfest aftur og aftur fyrir dómi að þessi takmörkuðu réttindi til nota sem í beitarnytjunum fólust réttlæta að engu leyti eignarhald á landinu. Svo spyr maður: Hver á hálendið? Ég minnist þess, af því ég var að minnast á dóma, að tilkalli til eignarréttar í krafti takmarkaðra nýtingarréttinda hefur í öllum tilvikum verið hrundið fyrir Hæstarétti. Ég held að í tveimur dómum hafi einmitt Hæstiréttur markað deilunni mjög merkan farveg.

Í fyrri dómnum sem var frá 1955 hafnaði Hæstiréttur alfarið kröfu sveitarfélags um eignarrétt í krafti beitarnytja. Þetta var fyrri dómurinn sem féll um eignarhald á Landmannaafrétti. Í seinni dómnum frá 1981 hratt hann að vísu kröfu ríkisins um að það gæti sjálfkrafa talist hafa eignarrétt á hinum umdeildu svæðum. En í síðari dómnum sem var merkur að mörgu leyti var ekki hægt að skilja orðalag öðruvísi en svo að Hæstiréttur vísaði í rauninni deilunni um eignarhaldið til Alþingis. Hann kvað upp úr með að þar fælust valdheimildir til að setja reglur um meðferð og nýtingu hálendisins. Það má segja að með því frv. til sveitarstjórnarlaga sem við höfum hér sé Alþingi loksins að taka af skarið og notfæra sér valdheimildir sínar til að setja þessar reglur um nýtingu og um meðferð á hálendinu.

En þá ber svo við að menn skrumskæla þessar valdheimildir og misbeita þeim með þeim hætti að varpa í rauninni eignarhaldi örfámenns hluta þjóðarinnar á þetta svæði sem við höfum talið sameign okkar. Það kann að skjóta skökku við þegar ég segi ,,varpa eignarhaldi örfámenns minni hluta á þetta landflæmi`` vegna þess að andstæðingar þeirrar skoðunar sem ég hef haldið fram benda á að fyrir Alþingi liggur nú frv. um þjóðlendur sem gerir ráð fyrir því, að frv. samþykktu, að á næsta áratug muni verða skorið úr um það eftir sérstöku ferli hverjir eiga löndin á miðhálendinu. Niðurstaðan virðist vera næsta skýr, þ.e. að þeir sem ekki geta sannað eignarhald sitt á tilteknum svæðum á miðhálendinu verða að tapa tilkalli til þeirra. Því fer eins og í Noregi að það sem enginn á, það eignast kóngurinn. Það sem enginn á hér á Íslandi, það eignast ríkið. Með öðrum orðum mun þjóðin eignast miðhálendið í orði kveðnu. Í þessum orðprúða bókstaf laganna segir að þjóðin muni eignast miðhálendið að mestu.

En um leið og þetta ágæta frv. sem menn hafa beðið eftir áratugum saman er loksins lagt fyrir þing, þá leggja menn fram þetta afleita frv. til sveitarstjórnarlaga og þar er með annarri hendinni því til baka kippt sem rétt er fram með hinni. Því segi ég þetta, herra forseti? Vegna þess að frv. til sveitarstjórnarlaga færir sveitarfélögunum stjórnsýslu yfir miðhálendinu. Þar með færir það sveitarfélögunum ráðstöfunarrétt yfir miðhálendinu. Og hvers virði, herra forseti, er eignarréttur ef ekki fylgir réttur til þess að ráðstafa eigninni?

Þetta höfum við því miður fundið illa á okkar eigin skinni í öðru máli sem í fljótu bragði virðist vera gjöróskylt en er þegar nánar er að gáð verulega skylt. Og það er auðvitað auðlindin í sjónum. Engum dylst, herra forseti, að lögin kveða algjörlega skýrt á um það hver það er sem á fiskinn í sjónum. Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða segir að fiskurinn, miðin, auðlindin í hafinu sé sameign þjóðarinnar. En menn vita líka að þjóðin hefur verið svipt réttinum til þess að ráðstafa þessari eign. Hann hefur verið færður með valdbeitingu í hendur örfárra manna. Við höfum kallað þá sægreifana, herra forseti.

Sveitarstjórnarfrv. sem við höfum rætt í kvöld færir á hinn bóginn hálendið í hendur örfárra manna líka, 4% af þjóðinni, ef það verður samþykkt. Ég dreg upp þessa samlíkingu vegna þess að ég held að hér sé á ferðinni mjög svipað mál. Það er verið að samþykkja með þjóðlendufrv. að þjóðin eigi miðhálendið. En með sveitarstjórnarfrv. er verið að taka frá henni réttinn til að ráðstafa þessari eign. Og það, herra forseti, get ég með engu móti fallist á.

Herra forseti. Auðvitað væri hægt að ræða miklu meira um þetta mál og hafa langt mál og snjallt um ýmislegt sem því tengist. En ég held að ég hafi í ræðu minni farið yfir obbann af þeim röksemdum sem ég hef gegn því að menn taki þá afstöðu sem við lesum í 1. gr. sveitarstjórnarfrv. og bráðabirgðaákvæðinu. Það bætir lítið úr fyrir mig þó að menn samþykki óbreytt það frv. sem hæstv. umhvrh. hefur dreift hér til kynningar. Ég hef að vísu sagt og get endurtekið það að ég tel það skref í rétta átt. En það er örlítið skref, herra forseti. Ég held þess vegna að langæskilegast væri að menn tækju sér meira andrými til að ræða þessi mál. Ég held það væri mjög jákvætt ef menn færu þá leið sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur kynnt a.m.k. í fjölmiðlum sem gerir ráð fyrir því að frv. til sveitarstjórnarlaga verði samþykkt að undanskildum þeim umdeildu greinum sem ég gerði að meginefni í ræðu minni í kvöld, þ.e. 1. gr. og bráðabirgðaákvæðinu, samþykkt og umfjöllun þeirra ákvæða yrði frestað.

Í þjóðfélaginu öllu hefur risið bylgja gegn þeim fyrirætlunum sem ríkisstjórnin hefur birt með þessum frv. sínum. Sérstaklega hér í mínu kjördæmi og á Reykjanesi og raunar víða um landið hafa menn risið upp til að mótmæla þeim gerningi sem hér er verið að leggja í. Ég tel því, herra forseti, að nauðsynlegt sé að við tökum okkur tíma til að ræða þetta til þrautar og geri það að áskorun minni til hæstv. forseta að hann beiti sér fyrir því.