Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 10:35:14 (6300)

1998-05-08 10:35:14# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[10:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þetta eru búnar að vera langar og ítarlegar umræður og ég held að búið sé að svara flestu sem fram hefur komið. Þó eru örfáar spurningar sem beint hefur verið til mín og ég vil nota tækifærið til að svara.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir spurði um lögheimilismál. Nú er það svo að landið er orðið eitt atvinnusvæði og af því leiðir að sveitarstjórnir hafa ekki sama vald og áður til að krefjast fólksflutninga eða krefjast þess að menn flytji lögheimili sitt þó að þeir séu í vinnu í sveitarfélaginu.

Varðandi spurningu um 4. mgr. 7. gr., um gjaldskrárnar, þ.e. arðgreiðslur af fyrirtækjum í eigu sveitarfélaga, þá lít ég svo á að þar sé ekki um skatt að ræða heldur þjónustugjöld. Rétt er að geta þess í sambandi við það mál að í undirbúningi er, og er reyndar tilbúið, í félmrn. frv. um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga þar sem tekið er enn skýrar á þessu máli og enn fremur mun hæstv. iðnrh. flytja frv. um breytingu á orkulögum á hausti komanda.

Hv. þm. spurði líka varðandi 24. gr. þegar aðalmaður víkur eða fer úr sveitarfélagi og kemur aftur. Ef aðalmaður í sveitarstjórn er að hverfa úr sveitarfélagi og hugsar sér að koma aftur og taka upp þráðinn að nýju, þá þarf hann að ganga formlega frá því áður en hann fer að fá formlegt orlof frá störfum í sveitarstjórninni en getur tekið sæti sitt að nýju þegar honum hentar. Til dæmis þarf sveitarstjórnarmaður sem hverfur af vettvangi vegna náms eða tímabundinna starfa í öðru sveitarfélagi að ganga frá því fyrir fram ef hann ætlar að taka sæti sitt aftur eða láta geyma sæti sitt en varamaður gengur upp meðan hann er í burtu.

Hv. þm. spurði líka hverjir væru kjörgengir í nefndir og hvort sveitarstjórnarmenn væru ekki kjörgengir í skólanefndir. Mér hafa borist hugleiðingar frá menntmrn. um þetta efni en það er alveg skýrt að sveitarstjórnarmenn eru kjörgengir í skólanefndir og fyrir því liggja úrskurðir frá félmrn. og það er félmrn. sem er úrskurðaraðili í þessu efni, ekki einhver önnur ráðuneyti.

Hv. þm. spurði líka um 44. gr., þ.e. um þriggja mánaða uppsagnarfrest, og spurði hvort verið væri að gefa forskrift varðandi biðlaunarétt. Það er alls ekki, hv. þm., verið að gefa einhverja forskrift um biðlaunarétt og þetta er óbreytt ákvæði frá gildandi lögum.

Hv. þm. spurði um aðstoð félmrn. varðandi stækkun sveitarfélaga. Hún er með sama hætti og verið hefur, þ.e. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir skuldajöfnunarframlög þar sem á þarf að halda og að sjálfsögðu veitum við aðstoð eftir því sem við getum og erum beðin um í félmrn. þegar sameiningar eru á döfinni.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flutti mjög málefnalega ræðu og drap á mörg atriði. Ég held að svör hafi komið fram í umræðunum við flestum þeim spurningum sem hann var með. Hann talaði um sameiningu sveitarfélaga. Ég vil láta það koma fram að ég tel að þvinguð sameining sé algert neyðarúrræði. Ég er mjög einbeittur í því að það sé óskynsamlegt að hækka lágmarksíbúatöluna frá því sem verið hefur. Hún er 50 í þessu frv. eins og í gildandi lögum. Ég held að nauðsynlegt sé að fólkið í sveitarfélaginu finni það sjálft að skynsamlegt sé að sameinast, og það er mögulegt fyrir fámennt sveitarfélag að leysa sín verkefni. Að sjálfsögðu verður það ekki gert nema með meiri eða minni samvinnu við aðra ef um mjög lítið sveitarfélag er að ræða en ef sveitarfélagið uppfyllir ekki skyldur sínar og getur ekki annast þá þjónustu sem því ber, munu íbúar sveitarfélagsins þrýsta á um bætta þjónustu og finna það sjálfir að hana væri frekar að fá með því að sameinast öðrum.

Ég held að mjög mikilvægt sé þegar um sameiningu er að ræða að sveitarfélagið sé þannig að úr því geti orðið félagsleg heild sem væri sæmilega samfelld. Það þarf ekki endilega að vera að sveitarfélögin séu samföst. Það getur lánast a.m.k. tímabundið þó að sveitarfélög sem sameinast séu ekki samliggjandi, en þá verður maður að gera ráð fyrir því að þróunin verði sú að sveitarfélögin sameinist með þeim hætti að þau verði samliggjandi.

Það er hins vegar deginum ljósara að sameining sveitarfélaga er engin allsherjarlausn. Eins og kom fram í svari, sem hv. þm. hafa á borðum sínum, við mjög ítarlegri fyrirspurn frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, þá hefur þróunin í þeim sveitarfélögum sem hafa sameinast ekki orðið neitt stórglæsileg, fólki hefur t.d. fækkað í öllum þeim sveitarfélögum, sem hann spurði um, nema einu síðan þau sameinuðust. En maður getur líka spurt sig: Ef viðkomandi sveitarfélög hefðu ekki sameinast, hver hefði þróunin þá orðið? Hefði hún ekki orðið enn þá lakari hefði sameining ekki farið fram?

Það er athyglisvert að ekki er mikill sparnaður í yfirstjórn að sameina sveitarfélög. Mig minnir að gegnumgangandi sé um 10% sparnaður í yfirstjórn þegar sveitarfélög hafa sameinast.

Hv. þm. spurði líka hver ég teldi að þróunin yrði á næstu árum í sameiningarmálum. Ég held að það verði áframhald á þeirri hröðu þróun sem verið hefur undanfarin tvö, þrjú ár í sameiningarmálum og sveitarfélögin haldi áfram að sameinast. Það er verið að undirbúa sameiningu sveitarfélaga á mörgum stöðum á landinu. Þeim hefur fækkað. Þau voru 172 þegar ég kom í félmrn. Í vor verður kosið til sveitarstjórna í 124 sveitarfélögum og mér kæmi ekkert á óvart að tala sveitarfélaganna yrði komin niður í 100 að ári.

[10:45]

Hv. þm. spurði líka hvað ríkisstjórnin hygðist gera til að snúa þróuninni við á landsbyggðinni. Á borðum þingmanna liggur byggðaáætlun frá ríkisstjórninni. Þar eru sett myndarleg og metnaðarfull markmið um þróun á næstu árum á landsbyggðinni. Ég held að eitt af því sem við getum gert sé að flytja verkefni til sveitarfélaganna, reyna að fjölga fjölbreyttum störfum á landsbyggðinni því að eitt af því sem landsbyggðina vantar er fjölbreyttari störf sérstaklega fyrir fólk með verulega menntun.

Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson spurði hvort ég teldi að sveitarfélögin réðu við skipulagsmál. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að sveitarfélögin ráði við skipulagsmálin. Nú er það þannig að skipulagsmál eru ekki unnin fyrst og fremst af sveitarstjórnarmönnum. Þar til menntaðir sérfræðingar sinna skipulagsmálum. Menn hafa talað mikið um svæðisskipulag á miðhálendinu og að nefnd sem skipuð var tómum dreifbýlismönnum hefði umsjón með því verki og menn hafa verið að finna mjög að því í þessari umræðu. En verkið er unnið af arkitektastofu sem heitir Landmótun og á þeirri arkitektastofu veit ég ekki til að vinni annað en Reykvíkingar. En sveitarfélögin þurfa að bera kostnaðinn.

Varðandi friðland í Geitlandi þá komu fram mjög villandi upplýsingar um stöðu mála í Geitlandi því að þar urðu málaferli og hv. þm. tók það sem dæmi um valdníðslu sveitarfélaga að þar hefði verið friðað skotveiðimönnum til bölvunar í framhaldi af málaferlum sem urðu um skotveiðar í Geitlandi. Þar voru skotveiðimenn ákærðir eftir veiðar eða tilraun til veiða 25. október 1992. Geitland var hins vegar friðlýst samkvæmt 24. gr. náttúruverndarlaga, nr. 47/1971, og friðlýsingin tók gildi samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 283/1988.

Þá gerði þingmaðurinn einnig að umtalsefni vegagerð í Geitlandi. Þessi vegur var tilkominn vegna útivistarfólks. Hann er ekki verk sveitarstjórna þó að sveitarstjórn hafi tekið ákvörðun, þegar jeppaslóðir voru komnar um svæðið, um að stuðla að því í samráði við Vegagerðina að lagfæra eina akstursleið upp að jöklinum.

Varðandi aðgengi útivistarfólks að landinu sem hér hefur verið mjög umtalað í þessum umræðum þá er rétt að vekja athygli á því að aðgengið er tryggt, almannarétturinn er tryggður í annarri löggjöf og á ekki heima í sveitarstjórnarlögum. Hann er tryggður t.d. í náttúruverndarlögum.

Hv. 8. þm. Reykv. Svavar Gestsson kom að kjarna málsins í sinni ræðu. Kjarni málsins er: Til hvers ætlum við að nota hálendið? Ætlum við að virkja? Ætlum við að sökkva því sem hægt er að sökkva eða ætlum við að varðveita og reyna að sökkva sem minnstu? Við þurfum auðvitað að framleiða rafmagn en ég legg mjög ríka áherslu á, eins og ég reyndar hef gert um áratugi, að það sé gert þannig að sem minnst landspjöll hljótist af. Sem betur fer hefur viðhorf manna til landnota í sambandi við virkjanir breyst stórkostlega á undanförnum 20 árum.

Ég er t.d. sannfærður um það að ef verið væri að hanna Blönduvirkjun núna þá mundi miðlunarlón verða allt öðruvísi en útfærslan varð þegar virkjunin var reist. Þá var þar sökkt milli 50 og 60 ferkílómetrum af algrónu landi sem er stærsta inngrip í gróðurfeld landsins af mannavöldum allt frá landnámstíð. Það var hægt að geyma þetta vatn öðruvísi á miklu minna svæði og hlífa upp undir helmingnum af því gróðurlendi sem eyðilagt var við virkjun Blöndu.

Herra forseti. Ég held að ég hafi farið í gegnum þær spurningar sem til mín hefur verið beint og læt í bili máli mínu lokið.