Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 11:12:42 (6302)

1998-05-08 11:12:42# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[11:12]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að hinkra augnablik, ég sé ekki að hæstv. félmrh. sé staddur í salnum. Ég vildi eiga við hann orðastað. Getur forseti upplýst hvar hann er?

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að verið er að sækja hæstv. félmrh.)

Ég kýs að bíða þangað til hæstv. félmrh. gengur í salinn.

Herra forseti. Ég vil þakka þau svör sem hér hafa komið fram þó að þau hafi því miður alls ekki komið að kjarna málsins, þ.e. þeim umdeildu greinum sem um ræðir, nefnilega 1. gr. frv. og ákvæði til bráðabirgða. Ég vil því leyfa mér að leggja þá fyrirspurn fyrir hæstv. félmrh. hvaða rök hann sjái gegn því að miðhálendið verði sérstakt stjórnsýslu- og skipulagslegt svæði undir sérstakri stjórn, samanber brtt. minni hluta félmn.

Þá vil ég heyra álit hæstv. félmrh. á því að fresta þessum ákvæðum frv. til hausts í ljósi þess að úti í þjóðfélaginu er mjög mikill óróleiki vegna þessa máls. Sumir þeirra sem eru órólegir hafa ekki haft tök á því að kynna sér þetta mál nægilega vel, og biðja um lengri frest og meiri umfjöllun til að geta áttað sig á hvað er að gerast.

[11:15]

Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvort hann sé þeirrar skoðunar að sveitarfélögin muni hafa fjárhagslegt bolmagn til að standa vel að nauðsynlegum framkvæmdum, t.d. vegna ferðamála en talið er að það kosti t.d. um 60 millj. kr., aðeins að ganga frá svæðinu í kringum Landmannalaugar. Lítur hann kannski svo á að þetta fjármagn muni koma frá ríkinu þegar um þjóðlendur er að ræða? Mikilvægt er að átta sig á hver kemur til með að standa undir útgjöldum og þiggja tekjur af þeim hluta sveitarfélaganna sem tilheyra hálendinu, eru þjóðlendur en tilheyra sérstökum sveitarfélögum ef þetta frv. verður að lögum. Landið er þá í eign ríkisins en stjórnsýsluleg ábyrgð hjá sveitarfélögunum. Hver á þá að þiggja tekjur og láta útgjöldin af hendi?

Ég vildi mjög gjarnan, hæstv. forseti, heyra svör félmrh. við þessum spurningum. Þar sem ég á kannski ekki eftir að komast í pontu aftur nema í andsvörum vil ég enn einu sinni láta í ljós vonbrigði yfir því að við skulum ekki hafa fengið að ræða almennilega grundvallarágreining málsins. A.m.k. er svo með þá sem ekki hafa verið í félmn. Ég vonast því eftir að heyra rök hæstv. félmrh. við þessum spurningum nú.