Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 11:17:21 (6303)

1998-05-08 11:17:21# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[11:17]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram um frv. til sveitarstjórnarlaga er í raun að verða stórmerkileg umræða í sögu þingsins, þó ekki sé nema vegna þess að hún hefur tekið dálítinn tíma. Það er bersýnilegt að umræðunni lýkur þannig að gríðarlegur ágreiningur er um málið. Það er alvarlegt umhugsunarefni að staðan er núna þannig að víðs vegar í þjóðfélaginu hefur málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar skapað áhyggjur, jafnvel úlfúð og ótta hjá stórum hópum fólks, ekki aðeins í þéttbýli heldur líka í dreifbýli.

Þessi málatilbúnaður hefur líka orðið til þess að ýta undir átök milli þéttbýlis og dreifbýlis. Þannig hefur verið haldið á málum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og það er í raun sérstakt áhyggjuefni. Það er líka nauðsynlegt núna, herra forseti, að undirstrika að umræðunni er hvergi nærri lokið.

Þegar 2. umr. um þetta mál lýkur núna eftir kannski ekki langan tíma, er umræðan ekki búin þar með í þessari stofnun. Það er alveg greinilegt að hún heldur áfram. Í fyrsta lagi er 3. umr. málsins eftir. Í öðru lagi er eftir mjög ítarleg umræða um þjóðlendufrv. sem snertir þessi mál og í þriðja lagi er eftir mjög ítarleg umræða um eignarhald á auðlindum í jörðu þar sem ætlunin er að afhenda landeigendum eignarrétt á hvers konar auðlindum sem kunna að finnast undir landi þeirra.

Loks er það þannig, herra forseti, að eins og málatilbúnaðurinn hefur verið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar munum við ræða þessi mál í haust. Frv. til breytinga á skipulags- og byggingarlögum, sem hér liggur nú fyrir til kynningar en hefur ekki fengist tekið á dagskrá, verður einnig rætt í haust. Eins er ljóst er að ýmis önnur mál sem snerta hálendismálið, eins og tillögur hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um fjóra þjóðgarða á hálendinu með jöklana sem kjarna, koma einnig til umræðu á ný. Umræðunni er því ekki lokið. Mér liggur við að segja, herra forseti, að hún sé rétt að byrja.

Varðandi málið sjálft vil ég bara að segja, herra forseti, að ég skil frv. um breytingar á skipulags- og byggingarlögum þannig að sveitarfélögin ráði. Ég vil að það sé alveg skýrt að ég skil það þannig og ef það er rangur skilningur óska ég eftir að hæstv. félmrh. mótmæli honum. Skilningur minn byggist á því að þó að í frv. standi að skrifa eigi niðurstöðu svæðisskipulagsins inn í aðalskipulagið, þá munu sveitarfélögin geta hafnað hugsanlegum breytingum sem svæðisskipulagsniðurstaðan hefði í för með sér á aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélaga.

Ég sé ekki að svæðisskipulagshugmyndin í skipulags- og byggingarlögunum, eins og frv. liggur fyrir núna, breyti neinu um skýlausan rétt sveitarfélaga til að ákveða aðalskipulag sitt. Mér liggur við að segja: Fyrr mætti nú vera, ef menn eru komnir með sveitarfélög á annað borð, að ákveða að taka af þeim skipulagsvaldið eins og ella væri um að ræða. Þetta segi ég til að undirstrika það, herra forseti, að ég tel það rangt sem haldið hefur verið fram, að þessi breyting, að því er varðar svæðisskipulagið, sé fullnægjandi til að tryggja samstillingu hagsmuna á miðhálendinu. Það er ekki þannig. Það er greinilega ekki um það að ræða og þótt hæstv. umhvrh. og Skipulagsstofnun hafi möguleika á og reyndar lagaskyldu til að stilla strengina saman þá er því ekki að treysta að það takist. Ég held því, herra forseti, að hér geti verið um mikið umræðuefni að ræða á haustþinginu.

Ég vil líka, í þriðja lagi, minnast á það sem ég tel kannski eitt það versta við þetta mál. Mín skoðun er sú að það að skipta hálendinu í sveitarfélög nú, áður en svæðisskipulagsnefndin hefur auglýst og fengið staðfesta sína niðurstöðu, stofni í hættu allri vinnu svæðisskipulagsnefndarinnar. Ég tel að þetta sé í öfugri röð og skynsamlegra hefði verið af hæstv. ríkisstjórn að fresta a.m.k. gildistöku sveitarfélagaskipunarinnar á hálendinu. Þannig hefði hún komið til framkvæmda síðar en niðurstaða svæðisskipulagsnefndarinnar kann að verða staðfest. Ég held að þessi röð á hlutunum hjá hæstv. ríkisstjórn muni ein út af fyrir sig þýða klúður og skapa vandamál. Ég vil því leyfa mér að ítreka spurningu mína frá fyrri hluta umræðunnar sem hæstv. félmrh. svaraði ekki: Hvaða rök eru til þess að ljúka þessari sveitarfélagaskiptingu hálendisins núna og áður en svæðisskipulagsnefndin hefur í raun og veru lokið störfum?

Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að í þessari umræðu hefur verið komið inn á mjög mörg grundvallaratriði varðandi hálendið. Í fyrsta lagi er það auðvitað spurningin um nýtingu hálendisins. Sú umræða hefur kannski ekki verið nægilega mikil þrátt fyrir ítarlegar ræður. Við höfum samt sem áður fengið tækifæri til að átta okkur á því að hættan sem steðjar að hálendinu er kannski aðallega fólgin í of miklum áherslum og sterkum hagsmunaaðilum í þjóðfélaginu. Ég er þá bæði að tala um ferðamennskuna og virkjanirnar. Ég held við þurfum að átta okkur á því að þar getur verið um mjög mikinn vanda að ræða. Ég hef enga sannfæringu í þeim efnum um að skipting landsins í sveitarfélög sé betri eða verri varðandi þessa aðalnýtingu hálendisins. Ég tel hins vegar að hálendinu og þar með Íslandi stafi veruleg hætta af því að menn ætli að ganga allt of langt í virkjunum hér á næstu árum og áratugum.

Ég las hér upp, herra forseti, allmargar umsagnir frá iðnrn., Orkustofnun og Landsvirkjun í þessu efni. Það eru skuggalegir pappírar. Þar er gert ráð fyrir því að virkja miklu meira en svæðisskipulagsnefndin gerir ráð fyrir. Það var athyglisvert, í sambandi við þessa umræðu, að hlýða á að þótt menn væru með spurningarmerki við málið sem slíkt, þá virðast menn hafa mjög mismunandi skoðanir á þessum virkjunarmálum. Áherslan á hinar grænu línur virtist misjafnlega þung hjá þingmönnum. Sumir töldu að of skammt væri gengið hjá svæðisskipulagsnefndinni í því að þrengja að virkjanakostum. Aðrir töldu að svæðisskipulagsnefndin gengi allt of langt. Þær ræður voru einnig fluttar hér, sem er athyglisvert líka, herra forseti.

Ég held nauðsynlegt sé að hafa í huga aðra notkun miðhálendisins, eins og ferðamennskuna. Þar hefur útivistarfólkið látið til sín taka og hélt glæsilegan fund á Hótel Borg fyrir nokkrum dögum. Ég tel einnig nauðsynlegt að fara yfir aðra hluti, eins og hugsanleg námuréttindi, jarðvinnsluréttindi af því tagi og sömuleiðis beitarréttindi. Ég held við þurfum að gera okkur grein fyrir því að allt verður þetta að leika saman. Það er í raun og veru gerð tilraun til að flétta þetta allt saman í skipulagstillögu svæðisskipulagsnefndarinnar og ég tel að þar sé margt mjög vel gert.

Í þessari umræðu hefur talsvert verið rætt um það, sem ég vil draga fram hér í seinni ræðu minni. Það er spurningin um hver eigi miðhálendið og hver ráði miðhálendinu. Menn hafa tekið mjög stórt upp í sig í þessum efnum og sagt: Það er verið að stela miðhálendinu. Ég get ekki skrifað upp á það og get ekki séð að verið sé að breyta eignarhaldi með frv. eins og það liggur fyrir. Eftir sem áður er það þannig að sá eignarréttur sem menn hafa í öðrum pappírum, hvort sem það eru afsöl, landamerkjabréf eða hvað það nú er, helst og síðan er gert ráð fyrir að þjóðlendurnar nái yfir stóran hluta af svæði því sem við erum að tala um. Það er því ekki sanngjörn uppsetning að halda því fram að frv., eins og það lítur út núna, breyti eignarrétti á miðhálendinu í grundvallaratriðum. Það er ekki þannig.

Hitt er annað mál að frv. felur í sér mjög róttækar breytingar á formlegum yfirráðarétti og stjórnsýslurétti á svæðinu. Því er slegið því föstu að sveitarfélagamörk skuli dregin inn í jökla. Það er í raun og veru sagt: Sveitarfélög eiga að gegna öllum hefðbundnum stjórnsýsluverkefnum inn í jökla, eins og þau gera í byggð. Margar spurningar hafa verið settar fram varðandi þetta mál. Ekki vegna þess að menn vantreysti sveitarfélögunum eins og nú er gjarnan sagt. Ég talaði um það á sinni tíð að vafasamt væri að láta sveitarfélögin hafa alla þætti grunnskólans, eins og sérkennsluna. Það var kallað vantraust á sveitarstjórnarmönnum. Menn snúa sér alltaf upp í strýtu þegar hlutirnir eru settir svona fram af þingmönnum. Ég geri það nú samt hér og vek athygli á því að fjöldi þingmanna hefur látið í ljós áhyggjur yfir þessu máli. Ég tel að þær séu út af fyrir sig alveg réttmætar.

Ég held að skynsamlegra hefði verið að láta svæðisskipulagið taka gildi áður en gengið var frá staðarmörkum sveitarfélaga eins og það heitir í frv.

Næsta spurning og lokaspurning af minni hálfu í þessari ræðu er, herra forseti: Hvað nú? Hvað gerist í framhaldinu? Eins og ég sagði áðan verða miklar umræður um frv. um skipulags- og byggingarlög í haust. Ég vona að það breytist eitthvað frá því sem það er núna. Það er gallað eins og stjórnarflokkarnir hafa viðurkennt. Það verða miklar umræður um það mál næsta vetur og líka um þjóðgarðamálin.

Þegar maður horfir á sveitarfélagaákvæði sveitarstjórnarlagafrv. kemst maður líka að þeirri niðurstöðu að það skipti ekki miklu máli þó þetta mál verði látið bíða. Ég segi alveg eins og er: Ég sé í raun og veru ekkert sem skiptir sköpum fyrir sveitarfélögin í þessu frv. Niðurstaða okkar alþýðubandalagsmanna er því sú að við leggjum til að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Fyrsta ástæðan er sú að ekki hefur náðst samkomulag um mikilvæg meginatriði. Önnur ástæða er sú að frv., að því er varðar sveitafélagamálin, skiptir í raun sáralitlu máli og því allt í lagi að taka málið til meðferðar í sumar. Þess vegna er það okkar aðaltillaga í þingfl. Alþb. og óháðra, og mér heyrist að aðrir stjórnarandstæðingar muni styðja hana, að málinu verði vísað frá í heild í atkvæðagreiðslunni sem fer fram hér á eftir.

Aðalerindi mitt í stólinn er þó að undirstrika, herra forseti, að ríkisstjórnin hefur haldið á þessum málum þannig að um þau er engin sátt. Það stefnir í áframhaldandi umræðu. Þótt hún hafi verið löng við 2. umr. er rétt að byrja, herra forseti.