Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 11:30:25 (6304)

1998-05-08 11:30:25# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KHG
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[11:30]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vildi segja fáein orð undir lok þessarar umræðu um tvö eða þrjú atriði sem ég hef lagt áherslu á. Ég vil fyrst undirstrika alvöru mína gagnvart því ákvæði frv. sem lýtur að því að breyta reglum um kosningu til sameiningar sveitarfélaga sem er í 2. mgr. 91. gr. frv. Þar er lagt til að frá gildandi fyrirkomulagi, sem er ófrávíkjanlega þannig að sameining verði að gerast í kjölfar samþykktar íbúanna, verði brugðið á þann veg að sveitarstjórnir hafi í ákveðnum tilvikum heimild til að sameina sveitarfélög þótt íbúar hafi ekki verið spurðir um þá sameiningu.

Ef maður veltir því fyrir sér hvaða ávinningur gæti hugsanlega verið af því að breyta gildandi reglum í þessa veru er bara einn sjáanlegur ávinningur. Hann væri undir þeim kringumstæðum þegar íbúar væru í raun sammála sameiningunni og menn mundu þá sleppa við kosninguna. Annan ávinning get ég ekki séð af þessari breytingu og ég spyr þá: Er það eðlileg þróun í lagasetningu að menn leitist við að búa til lagaramma um breytingar fram hjá kjósendum? Ég tel eðlilegra að fara hina leiðina, að breytingar sem svo miklu varða eins og sameining sveitarfélaga eigi ekki að gerast nema að undanfengnu samþykki kjósenda. Ég hefði talið eðlilegra í þessari umfjöllun um ný sveitarstjórnarlög að menn hefðu tekið til athugunar að þróa löggjöfina meira í þá áttina að kjósendur verði oftar spurðir um einstök málefni en sjaldnar eins og reyndin er ef þetta ákvæði nær fram að ganga. Ég hefði t.d. talið eðlilegt að setja inn í löggjöfina ákvæði sem gerði íbúum kleift að kalla til sín mikilsverð mál og knýja fram almenna atkvæðagreiðslu um þau. Ég minni á málflutning þáverandi stjórnarandstöðunnar við afgreiðslu EES-málsins á sínum tíma, fyrir nokkrum árum, þegar fram komu þau sjónarmið frá öllum stjórnarandstöðuflokkum, þar á meðal Framsfl., að eðlilegt væri að setja í stjórnarskrá ákvæði sem tryggði landsmönnum þann rétt að þeir gætu knúið fram atkvæðagreiðslu um mikilsverð mál. Þetta atriði tel ég að eigi að styrkja og setja inn í löggjöfina um sveitarstjórnarlög þannig að íbúar geti í ákveðnum skilgreindum tilvikum sagt: Ja, þetta mál er það mikilsvert og varðar okkur svo miklu að við viljum að um það verði kosið og málinu ráðið til lykta í almennri atkvæðagreiðslu sem bindur hendur sveitarstjórnar. Með öðrum orðum, menn eru þá að lýðræðisvæða sveitarstjórnarlöggjöfina með þessu fyrirkomulagi. Ég ítreka þessi sjónarmið og vil fara fram á það því ég veit að hv. félmn. mun hittast milli 2. og 3. umr. að hún taki þetta sjónarmið fyrir og ræði hvort ekki sé rétt að opna leið fyrir það.

Varðandi ákvæðið sem ég gerði að umfjöllunarefni, 2. mgr. 91. gr. --- og þá er ég búinn að benda á hinn eina hugsanlega ávinning af breytingunni sem er að menn geta farið fram hjá því að spyrja kjósendur. Ég spyr sjálfan mig: Er einhver ávinningur að breyta gildandi fyrirkomulagi þannig að menn sleppi við að spyrja kjósendur? Mér finnst það ekki ávinningur, mér finnst það afturför. Ég bendi líka á að hættan sem fylgir breytingunni er sú að sveitarstjórn taki ákvörðun sem meiri hluti íbúanna er ósáttur við. Hver ætlar að bera ábyrgð á því máli þegar sameining sveitarfélaga er knúin fram í andstöðu við íbúa sveitarfélaganna? Hver ætlar að bera ábyrgð á því? Ætlar hæstv. félmrh. að svara fyrir það? Ég er nefnilega ekki viss um að neinn vilji bera ábyrgð á því og ég bendi á eitt enn. Af hverju leggja menn svona mikla áherslu á sameiningu sveitarfélaganna? Hvaða töfralausn er það? Ég bendi á svar við fyrirspurn minni sem barst fyrr á þessu þingi um árangurinn af sameiningu sveitarfélaga sem fram fóru á árinu 1994, fyrstu sameiningarnar í þeirri lotu sem staðið hefur yfir síðustu ár. Ein 14 ný sveitarfélög urðu til úr mörgum sveitarfélögum. Ég spurði: Hver var árangurinn af þessu mælt í íbúaþróun, fjárhagsstöðu sveitarfélags, kostnaði við yfirstjórn, atvinnuþróun o.s.frv.? Hver var niðurstaðan í svari hæstv. félmrh.? Hún var sú að það varð enginn árangur. Það varð enginn árangur varðandi íbúaþróun, það varð enginn árangur varðandi kostnað við yfirstjórn, það varð enginn árangur varðandi skuldastöðu sveitarfélaga, það varð enginn árangur varðandi atvinnuþróun o.s.frv. Þá spyr ég: Ef þetta eru hinar talnalegu niðurstöður hvers vegna á að skrifa inn í lögin svona mikla áherslu á þennan þátt? Ég spurði hæstv. félmrh. líka: Hvernig metur ráðherra að þróunin verði í þessum sveitarfélögum næstu fimm ár? Telur hann að þróunin muni þá snúast við og árangur fara að koma í ljós, árangur sem enn hefur ekki sést? Hæstv. ráðherra treysti sér ekki til að svara því. Það var ekki einu sinni að hæstv. ráðherra gæti sagt að hann teldi að þetta mundi ganga til betri vegar á næstu fimm árum þannig að það voru engin svör um framtíðarhorfur.

Ég segi því fyrir mitt leyti þótt ég hafi almennt verið heldur fylgjandi sameiningu sveitarfélaga, sérstaklega þeirra fámennari, að árangurinn af þessu gefur ekki tilefni eða rökstuðning fyrir því að menn eigi endilega að fara þessa leið. Þegar stjórnmálamenn taka einhverja stefnu verða þeir að geta útskýrt fyrir kjósendum að það sé í ákveðnum tilgangi fólkinu til hagsbóta. Til þessa hefur ekki verið hægt að sýna fram á að það sé til hagsbóta fyrir íbúana nema í örfáum tilvikum þegar um er að ræða að mjög fámenn sveitarfélög hafa verið að sameinast tiltölulega stærri sveitarfélögum, þá trúi ég því að þar hafi verið um framfarir að ræða að einhverju leyti en ekki hefur það komið í ljós í þeim 14 sameiningum sem ég spurði um, sem urðu árið 1994.

Ég set því spurningarmerki við stefnumörkunina almennt. Ég tel ef menn ætla að breyta sveitarfélagaskipaninni þannig að það verði færri sveitarfélög í framtíðinni en verið hefur verði menn að gefa löggjöfinni meira inntak þannig að ljóst sé og hægt að sannfæra íbúana um að einhverjar framfarir verði í kjölfarið.

Þetta vildi ég undirstrika, herra forseti, um 91. gr. sem ég gerði sérstaklega að umfjöllunarefni í ræðu minni fyrr í umræðunni.

Ég vil svo einnig, herra forseti, undirstrika andstöðu mína við dulda skattheimtu í gegnum stofnanir sveitarfélaganna sem er mjög farið að bera á þar sem sveitarfélög eru svo í stakk búin að þau njóta náttúruauðlinda eins og heits vatns, að þau geta nýtt sér þá auðlind til að veita íbúum sveitarfélags síns þá þjónustu sem þarf gegn vægu verði en samt haft af því verulegan hagnað. Í brtt. meiri hluta nefndarinnar eru gerðar mjög opnar breytingar á þessu fyrirkomulagi sem ætlað er að lögfesta starfsemina almennt. Ég bendi á að það getur varla staðist ákvæði stjórnarskrár að heimila sveitarstjórn gjaldtöku fyrir þjónustu sem er ekki afmörkuð en samkvæmt breytingartillögu meiri hluta félmn. 3. tölul. sem er brtt. við 7. gr. frv. er opnuð heimild sem er ótakmörkuð um hversu háan arð sveitarfélög geti reiknað sér af rekstri stofnana sinna. Hún er líka ótakmörkuð að því leytinu til að hún takmarkar enga starfsemi, undanskilur enga starfsemi sveitarfélaga þessari arðsemiskröfu þannig að t.d. gæti sveitarfélag sem hefur farið þá einkennilegu leið, leyfi ég mér að segja, herra forseti, að breyta starfsemi og rekstri félagslegra íbúða í hlutafélag, þá gætu menn sett arðsemiskröfur á þá hlutafjáreign sem bundin er í þessu hlutafélagi og krafist t.d. 10%, 20% eða 30% arðs af tekjum hvers árs sem renna eigi í sveitarsjóð. Þetta er náttúrlega alveg galið fyrirkomulag, herra forseti, og mönnum lítt til sóma í sveitarstjórnarmannastétt að boða þessa stefnu að gera félagslega starfsemi sveitarfélags að féþúfu á arðsemisgrundvelli. Þetta er náttúrlega algerlega fráleit stefna sem þeir sem að standa ættu að skammast sín fyrir að impra á yfir höfuð. Ég teldi að sveitarstjórnarlöggjöf ætti að girða fyrir misnotkun af þessu tagi, fremur en að gera hana löglega. Ég vil mjög harðlega gagnrýna þróun mála á þennan veg og sérstaklega vil ég líka gagnrýna það spor sem stjórnarflokkarnir eru að fara með því að gera þetta löglegt.

Herra forseti. Ég tel að náttúruauðlindir eigi að nýtast allri þjóðinni. Það er almenn sátt um það í þjóðfélaginu að fiskimið séu sameign þjóðarinnar og eigi að öllum nýtast. Á fiskimið eiga allir að geta róið, hvaðan sem þeir róa. Á fiskimið vestur á fjörðum eiga allir að geta róið, bæði úr Skagafirði, frá Hornafirði og úr Reykjavík og víðar. Um þetta er almenn sátt í þjóðfélaginu að menn hafi hlutina þannig að allir geti nýtt sér þessa auðlind og haft aðgang að henni og haft arð af henni. Önnur auðlind heitir heitt vatn. Ég tel að um það eigi að gilda hið sama. Allir eiga að njóta góðs af afrakstri hennar. Heitt vatn hefur reynst okkur ákaflega dýrmæt auðlind. Hún hefur veitt íbúum þeirra sem búa nálægt heitu vatni kost á að geta hitað hús sín gegn mjög vægu gjaldi. Ég tel að heitt vatn eigi ekki að vera einkamál þeirra sem búa á því landi sem heita vatnið er undir. Það á ekki að vera einkamál þeirra sveitarfélaga sem þannig eru í sveit sett. Það á að taka hluta af arði vegna þessa heita vatns og nýta hann til þess að aðrir íbúar geti notið góðs af heita vatninu sem búa annars staðar og utan þeirra svæða þar sem heita vatnið er. Ef menn ætla að hér eigi að búa ein þjóð í einu landi, þá tel ég að hinn mikli ágóði af heitu vatni eigi fortakslaust að vera dreift um landið til að greiða niður orkuverð þar sem það er hátt. Ég get ekki fallist á það fyrirkomulag að heitt vatn, auðlindin heitt vatn, sé háð einkarétti sem tiltekinn hluti íbúa þjóðarinnar geti afmarkað sér, slegið eign sinni á og sagt: Þessa auðlind nýtum við fyrir okkur, og þið sem búið þar fyrir utan fáið ekki grænan eyri af arðinum af þeirri auðlind. Þetta er óviðunandi fyrirkomulag, herra forseti, og er ekki til þess fallið að efla þá vitund að hér búi ein þjóð í einu landi og auðlindir séu eign þjóðar. Það getur ekki verið réttlætanlegt að sumar auðlindir séu almannaeign og nýttar í þágu allra en aðrar auðlindir séu séreign og nýttar í eigu sumra. Það er tækifæri til þess, herra forseti, þegar menn ræða þetta frv. til sveitarstjórnarlaga að láta þessar félagslegu áherslur í stjórnmálaviðhorfum koma fram.

[11:45]

Hér sker á milli hvort menn eru félagslega sinnaðir eða ekki, þ.e. að afrakstur af heitu vatni sem í einu sveitarfélagi nemur 900 millj. kr. á ári sé einkaeign þeirra sem búa í því sveitarfélagi eða hvort nýta eigi það fé líka til að greiða niður heitt vatn eða hitunarkostnað þar sem hann er mjög hár. Þeir sem eru félagslega sinnaðir svara því þannig að auðvitað eigi að taka hluta af slíkum hagnaði og nota til að greiða niður hitunarkostnað annars staðar. Þeir sem eru ekki félagslega sinnaðir segja að þetta sé einkaeign þeirra og þeir sem búi úti á landi þar sem köld svæði eru geti bara étið það sem úti frýs.

Í þessari löggjöf koma nefnilega fram eins og víðar áherslur manna í þessum efnum; eru menn jafnaðarmenn, eru menn félagslega sinnaðir eða eru menn það ekki? Og ég kalla eftir því, herra forseti, að þingheimur svari spurningu sem brennur á vörum tugþúsunda manna um land allt: Er heita vatnið fyrir okkur líka eða er það bara séreign? Eru bara fiskimiðin sameign þjóðarinnar, ekki heita vatnið? Þessi spurning brennur á vörum tugþúsunda manna um land allt.

Breytingartillaga meiri hlutans er auðvitað ákveðið svar. Hún er svarið, þetta er séreign. Þá liggur það fyrir. Þeir flokkar sem bera fram þessa brtt. hafa þá svarað fyrir sitt leyti --- að bara sumar náttúruauðlindir eru sameign þjóðarinnar, aðrar ekki.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa orð um fleiri atriði í þessu frv. Ég hef komið þeim að í ræðu minni fyrr í þessari umræðu en þessi tvö atriði þykja mér mjög veigamikil og mér er sérstaklega í mun að þeim verði breytt til betri vegar í þá átt sem ég hef talað fyrir, herra forseti.