Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 11:48:47 (6305)

1998-05-08 11:48:47# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, Frsm. minni hluta RG
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[11:48]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Komið er að lokum 2. umr. um stærsta einstaka mál liðinna ára á Alþingi Íslendinga, þjóðareignina og meðferð hennar sem hangir á tveimur frumvarpsgreinum í 105 greina frv. um sveitarstjórnarmál sem hefur verið á dagskrá þingsins í heila viku.

Afgreiðslan í dag verður ekki lok umræðu í þjóðfélaginu þó að hún marki í raun upphaf lokaafgreiðslu stjórnarmeirihlutans á þessu máli á Alþingi. Ég hef aldrei fundið önnur eins viðbrögð almennings í landinu við einu máli og því sem hér er til afgreiðslu, þverpólitískt.

Ég spái því að hér séu að gerast stórpólitískir atburðir sem eigi eftir að draga dilk á eftir sér fyrir flokka og einstaklinga. Ályktun stjórnar Framsfl. í Reykjavík sem stuðningsyfirlýsing við þann framsóknarmann sem lagðist gegn fyrirkomulaginu um skipulag hálendisins er aðeins ein vísbending af mörgum um stöðuna sem er komin upp.

Ég ætla að taka undir með hv. þm. Svavari Gestssyni þar sem hann drap á mál næsta vetrar. En hann nefndi ekki mál sem ég tel að eigi eftir að verða sterkustu mál í umræðunni næsta vetur og það eru auðlindamál og þar með talið veiðileyfagjald sem er hluti af þessu --- hver á landið?

Það er líka mín skoðun að í ljóðlínunni ,,þetta land átt þú`` felist viðbrögð okkar Íslendinga allra gagnvart landinu okkar og eigin umráðarétti til samvista við það. Þeim umráðarétti verða settar skorður með þeirri afgreiðslu sem hér fer fram.

En það er fleira sem vekur athygli í þessari umræðu. Hér er það undirstrikað rækilega að stjórnarandstaðan á Alþingi má tala en ekki of lengi. Hún má vinna með frv. í nefndum á hvaða tíma dags sem er, hvaða vikudegi sem stjórnarmeirihlutinn kýs, en þegar kemur að því að ákveða hvaða mál og hversu mörg eru afgreidd frá Alþingi á fáum vordögum þá kemur stjórnarandstöðunni á Alþingi það ekki við.

Í dag er 8. maí. Samkvæmt starfsáætlun Alþingis hefðum við átt að ljúka þingstörfum í dag. Og miðað við þá vinnu sem við forustumenn flokkanna í sameiningu höfum lagt í til að efla virðingu Alþingis, gera vinnuna hér þannig úr garði að fólk geti reitt sig á að það sem hefur verið sett á blað um starfsáætlun Alþingis standi, þá er það mikið áfall að við skulum standa hér 8. maí og eiga eftir að afgreiða öll 40 frumvörpin sem ríkisstjórnin ætlar að taka í gegn.

Miðað við vinnuna sem við höfum lagt í það að ná samvinnu um starfsáætlun Alþingis og framvindu mála, þá er það dapurt að í dag sé það þannig að stjórnarandstaðan heyrir í fréttum hvað gera eigi, að það eigi að gera hlé í kringum sveitarstjórnarkosningar og halda áfram af því að engir samningar eru um afgreiðslu eða þinglok og engin samtöl við stjórnarandstöðu. Það er bara einn sem ræður og nú köllum við hann ,,þingvaldið``. Hann hefur tekið yfir stjórn þingsins

Þessa daga sem við höfum tekist á um þjóðareignina þá rifjast það svo vel upp hvert inntakið er í helmingaskiptastjórn Framsfl. og Sjálfstfl. Þegar sú stjórn er við völd verður eignatilfærslan, sem dregur svo oft skelfilegan dilk á eftir sér. Ég ætla að minna á kvótann. Ég minntist á það að ,,þetta land átt þú``, og við héldum að við ættum miðin og fiskinn í sjónum saman. Nú er ljóst að búið er að afhenda hann. Og greiðslan fyrir fiskinn fer frá einum einstaklingi til annars og þó að það sé ekki verðmiði á óveidda fiskinum í sjónum þá vita allir núna hvert verðmæti hans er því staðreyndirnar tala, að milli 8 og 10 milljarðar fara á milli einstaklinga þegar þeir eru að skipta með sér réttinum til að veiða sameiginlega fiskinn í hafinu.

Það er ekki verðmiði á auðlindum miðhálendis Íslands, eins og ég hef áður sagt. Þar skynjar fólk verðmætin og þjóðareignina þó ekki sé byrjað að selja þar. Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort það var á stefnuskrá Framsfl. eða Sjálfstfl. að taka þá afdrifaríku ákvörðun sem hér er að fara fram og hvert sé umboð þeirra. Sérstaklega velti ég því fyrir mér í ljósi ályktunar stjórnar framsóknarfélaganna í Reykjavík.

Miðin, landið, auðlindir í jörðu og eignatilfærsla, þetta er það sem tengir huga fólks við þessa ríkisstjórn og verklag hennar.

Miðhálendið með víðerni sínu er dýrmæt auðlind og það ætti að vera markmið okkar að Alþingi tryggi sátt um skipulag þess og stjórn. Við höfum ekki borið gæfu til þess. Hér hefur hluti stjórnarandstöðunnar talað um að sáttatillaga sem ekki má koma á dagskrá leysi vandann. En það er alveg ljóst að aðalskipulagsrétturinn er hjá sveitarfélögunum, deiliskipulagsrétturinn er hjá sveitarfélögunum og byggingarleyfin eru hjá sveitarfélögunum. Það er alveg ljóst að samvinnunefnd um svæðisskipulag hefur ekkert stjórnsýslustig að baki sér. Hún er leiðbeinandi og hún verður leiðbeinandi og svæðisnefnd af þessum toga mun verða umsagnaraðili og ekkert annað.

Þegar við tökum ákvörðun eins og þá sem við ræðum í dag og næstu daga við 3. umr. þá er mikilvægt að líta til framtíðar af því að hún verður ekki aftur tekin. Ef stjórnarmeirihlutinn breytir húsnæðislöggjöfinni getur nýr stjórnarmeirihluti breytt henni á annan veg. Þó félmrh. breyti vinnulöggjöfinni getur nýr stjórnarmeirihluti breytt vinnulöggjöfinni. En ef stjórnarmeirihlutinn deilir miðhálendinu upp á milli sveitarfélaga og gengur frá því máli þá verður nýjum stjórnarmeirihluta ekki unnt að breyta því síðar. Þess vegna var svo mikilvægt að fresta þessu máli og reyna að ná samkomulagi svo að sátt yrði um skipulag og stjórn þessarar auðlindar.

Menn hafa talað hér eins og það hafi verið sérstök aðgerð stjórnvalda að afréttirnar færu undir sveitarfélögin og það hefur verið talað eins og sveitarfélögin nái hér um bil upp til jökla og þess vegna sé málflutningur okkar vanbúinn. Þetta er rangt, eins og ég hef bent á í umræðunni. Ég hef bent á að það var einstaklingsframtak að leggja til að afréttum yrði skipað undir sveitarfélög og eins og ég hef lesið hér upp úr þingræðum var það aðeins vegna þess, og af þeirri ástæðu einni, að viðkomandi vildi reyna að tryggja að sveitarfélög gætu lagt útsvar og skatta á einstaklinga og fyrirtæki sem væru komin upp á miðhálendið. Þetta var í kringum 1970 og þetta var vegna þess að þá voru menn byrjaðir að virkja. Að þarna hafi verið gengið frá því til frambúðar hvernig fara skuli með skipulagsmál í heild sinni, stjórnsýslu og annað hefur ekki falist í núgildandi sveitarstjórnarlögum sem segja afdráttarlaust að byggðin skiptist í sveitarfélög.

Það á eftir að taka gífurlega stórar pólitískar ákvarðanir um friðun, um það hversu víðfeðm ferðaþjónusta skuli vera, um aðgang almennings að landinu sínu, um hvaða svæði eigi að verja, um hvað megi fara undir vatn og um það hvar skuli virkja. Þetta eru stórpólitískar ákvarðanir. Þær á að taka hér. Þær á ekki að taka hjá tiltölulega umboðslítilli nefnd úti í bæ. Og þessar ákvarðanir á að taka áður en gripið er til þess ráðs að stúka landið upp eins og hér er verið að ákveða.

Herra forseti. Allar áskoranir til Alþingis og ríkisstjórnar hafa snúist um það sama. Fundir ferða-, útivistar- og náttúruverndarsamtaka hafa líka snúist um það sama. Áskoranir sem allir þingmenn hafa fengið á sínum tölvupósti hafa snúist um það sama, þ.e. að ákveða þetta ekki núna heldur hinkra við, ganga ekki frá þessu máli núna heldur ná sátt um málið. En ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hefur tekið ákvörðun sína. Þeir hafa valdið. Þeirra er viljinn og hér verður gengið til afgreiðslu og gjört svo sem þeir kjósa.

[12:00]

Ég fullyrði að meiri hluti þjóðarinnar rís gegn þessu frv. Og hvar sem maður heyrir þessi mál rædd þá er alls staðar sama viðkvæðið, fólk trúir ekki að þetta mál verði afgreitt í ágreiningi.

Það er ekki eins og við séum sammála um að auðlindir til lands og sjávar séu verðmæti komandi kynslóða. Menn virðast halda að það sem er í dag skuli vera eins og við viljum hafa það í dag, það skal afgreiðast í dag og skiptast á milli okkar í dag. Við erum búin að skipta fiskimiðunum á milli fárra, nú skulum við líka skipta landinu öllu milli fárra.

Virðulegi forseti. Ekki aðeins pólitíkin í þessu máli, heldur líka öll viðbrögð stjórnarmeirihlutans hafa verið gagnrýnisverð. Þess vegna liggur fyrir þinginu tillaga til rökstuddrar dagskrár um að þessu máli verði vísað frá og tekið verði fyrir næsta mál á dagskrá þingsins. Þessa tillögu munum við styðja. Verði hún felld munum við freista þess að leita stuðnings við tillögu okkar jafnaðarmanna sem er um að landið skiptist í staðbundin sveitarfélög sem sjálf ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð, utan miðhálendis Íslands, sem væri sjálfstæð stjórnsýslueining og lyti sérstakri stjórn.

Virðulegi forseti. Menn hafa látið að því liggja að það að vilja halda miðhálendinu sem sérstöku svæði sé vanvirða við sveitarfélög í dreifbýli. Ég hafna því. Það er skoðun á fyrirkomulagi. Þess vegna hefði mátt leggja til að miðhálendið væri eitt sveitarfélag, ef mönnum hefði liðið betur með það, með sérstaka sveitarstjórn sem færi með málefni þess. Það er hliðstæða. Allt tal um að vilji okkar til að fresta þessu máli og hafa sérstaka stjórnsýslu á hálendinu, beinist gegn sveitarfélögum, er röng. Enn á ný vil ég árétta það, virðulegi forseti, að jafnaðarmenn hafa viljað efla sveitarfélögin í landinu. Þeir hafa viljað stækka þau og færa til þeirra verkefni þannig að þau yrðu til þess bær að sjá um þau verkefni sem ríkið hefur í dag. Við munum halda áfram ótrauð á þeirri braut.

Virðulegi forseti. Ég harma að nú skulum við ganga í ágreiningi til atkvæða um svo umdeilt mál sem varðar þjóðina alla.