Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 12:03:53 (6306)

1998-05-08 12:03:53# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[12:03]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska Alþfl. og fomanni umhvn. til hamingju með það hvernig þeim hefur tekist að afvegaleiða stóran hluta þjóðarinnar í máli því sem hér hefur verið til umræðu og öðrum málum sem því tengjast. Að því er mér sýnist hefur tekist að telja stórum hluta þjóðarinnar trú um að verið sé að taka af þeim hálendið. Því er haldið fram að færa og skipta eigi hálendinu upp á milli fárra, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði hér rétt áðan.

Þetta er náttúrlega alveg ótrúlegur misskilningur og hljómar eins og öfugmælavísa í eyrum þeirra sem þekkja málið betur. Ég ætla að spyrja hv. þm. að því hvort hún geri sér ekki grein fyrir því að með þjóðlendufrv. er verið að færa allt miðhálendið til eignar hjá þjóðinni allri. Með því frv. er ekki verið að færa það í hendur á 4% þjóðarinnar, eins og hefur verið fullyrt hér úr þessum ræðustól. Það er þvert á móti verið að færa miðhálendið í hendur þjóðarinnar til eignar hjá þjóðinni, en ekki öfugt. Það er alveg með ólíkindum hvernig menn hafa getað haldið uppi slíkum málflutningi hér og komist upp með það, finnst mér, að ljúga þessu að þjóðinni.

Síðan er talað um að sérstakt kraðak verði gert úr stjórnsýslunni upp á hálendið. Gerir hv. þm. sér grein fyrir því að heilbrigðisfulltrúar, sem eru hluti þessa stjórnkerfis, eru fimm um þetta miðhálendi, en ekki 43, eins og mér finnst menn gera ráð fyrir í sínum málflutningi hér á þinginu á undanförnum dögum. Löggæslan er í höndum sýslumanna en ekki í höndum sveitarfélaga. Byggingarfulltrúar eru fáir því, eins og menn sem þekkja til sveitarstjórnar vita, búið er að sameina þessi embætti hjá flestöllum minni sveitarfélögum. Byggingarfulltrúar eru því ekki 43. Þeir eru miklu færri.

Og ég spyr hv. þm. þessara spurninga og vona að í 3. umr. verði hægt að vinda ofan af þessum öfugmælakveðskap sem viðgengist hefur á undanförnum dögum.