Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 12:06:27 (6307)

1998-05-08 12:06:27# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, Frsm. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[12:06]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fullan skilning á afstöðu þingmannsins og því að hann óski þess að geta trúað því að þessir hlutir verði í lagi. Við höfum engan afvegaleitt. Fólk gerir sér góða grein fyrir því hvað felst í þeim frv. sem ríkisstjórnin er að afgreiða hér.

Miðhálendinu verður stjórnsýslulega skipt milli fárra. Þjóðlendufrv. er frágangur á eignarhaldi og ákvörðun um málsmeðferð þar sem ágreiningur er um eignarhald á löndum hálendisins, og það er sátt um það mál. Hér erum við ekki að deila um heilbrigðisfulltrúa eða löggæslu. Enda mundi samið um það hverjir hefðu bæði heilbrigðiseftirlit og löggæslu á hendi, væri þetta svæði undir einni stjórn.

Virðulegi forseti. Það þarf ekki nema að líta á örfáa staði þar sem ágreiningurinn hefur verið mestur um fasteignir, fasteignagjöld og byggingarrétt. Menn deila um hver eigi að sjá um hvað og nægir að líta heim í kjördæmi félmrh. og sjá ágreininginn sem m.a. hefur verið um Hveravelli. Það nægir til að skynja hvað eftir á að gerast í framtíðinni. Kannski ekki eftir eitt eða tvö eða fimm ár. En í framtíðinni, þegar menn hafa að gert sér grein fyrir því að þeir hafa óumdeilanlega forræði og yfirráð á þessu landi.

Af því að hv. þm. talaði um að verið væri að tryggja eignarrétt: Það er ekki kveðið á um eignarrétt ríkisins á jarðefnum, sem hafa ekki verið hagnýtt hér, í frv. iðnrh. sem hér á eftir að ræða. Og það er óljóst um eignarrétt ríkisins á orku háhitasvæða. Þetta er meðferð stjórnarmeirihlutans hér á Alþingi.