Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 12:08:28 (6308)

1998-05-08 12:08:28# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[12:08]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er algjör kórvilla hjá hv. þm., að ekki sé gert ráð fyrir því hver fari með auðæfi hálendisins þegar þar að kemur. Forsrh. fer með það vald. Ég held að hv. þm. Alþfl. hafi varla lesið stafkrók í þeim frv. sem verið hafa til umræðu hér undanfarið. Alla vega hafa þeir lesið það eins og skrattinn með öfuga Biblíuna. Það hefur ekkert komið rétt fram í þeirra máli, miðað við það sem frv. gera ráð fyrir.

Stjórnskipulega, segir hv. þm. að svæðið verði skipt. Fram að þessu hefur enginn haft nein ráð um skipulag á miðhálendinu. Þar hefur verið algjört skipulagsleysi. Samtök eða einstaklingar hafa getað byggt þarna eða gengið um hálendið að eigin vild. Nú er reynt að ná tökum á þessu skipulagslega kaosi sem þarna hefur verið. Þá er risið upp og sagt að það sé verið að taka þetta frá þjóðinni.

Ég segi bara eins og er, herra forseti, að þvílíkir snillingar í áróðri, eins og Alþfl. hefur verið í þessu, hafa ekki verið hérna inni lengi. Þjóðin ætti náttúrlega að hafa áttað sig á því að þetta hefur svoddan endemis lýðskrum að fátt jafnast á við það. Og að þessu leyti held ég að við ættum kannski að horfa til þess að þegar fólk fær að tala með slíku ábyrgðarleysi um stórmál í þinginu, þá hefur því miður tekið mörg ár að snúa ofan af vitleysunni.

Ég vona að það takist í 3. umr., eins og ég sagði hér áðan, hæstv. forseti. En ég treysti því að sveitarstjórnarmenn og aðrir ábyrgir menn leggist nú á eitt og upplýsi þjóðina um það hvernig þetta verður. Ég vona að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn sjái til þess að þjóðin fái að vita hvernig hlutirnir snúast en ekki eins og hér hefur verið gert undanfarið.