Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 12:14:39 (6312)

1998-05-08 12:14:39# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[12:14]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu að marki. Það eru örfá atriði sem hér hafa komið fram á síðustu korterum sem mig langar til að fjalla aðeins um.

Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir spurði hvaða rök væru gegn því að hafa miðhálendið undir sérstakri stjórn. Við höfum auðvitað þann möguleika að hafa óbreytt ástand. Ég held við getum verið sammála um að óbreytt ástand eða ástandið eins og það er er ekki nógu gott. Nauðsynlegt er að breyta því sem fyrst. Það rekur á eftir bættu skipulagi.

[12:15]

Það eru tvö stjórnsýslustig í landinu og það er eðlilegt að halda sig við það. Menn voru einu sinni skotnir í því að setja á þriðja stjórnsýslustigið. Það var ekki gert. Menn hurfu frá því. Og það er eðlilegt að það sé samræmi um land allt.

Ég vil ítreka það sem öllum ætti að vera ljóst að frv. til sveitarstjórnarlaga sem hér hefur orðið mikil umræða um fjallar með engu móti um eignarrétt. Þjóðlendufrv. fjallar um eignarréttinn og það kemur til umræðu innan skamms, væntanlega á morgun, og þá er hægt að ræða um eignarréttinn. En þetta sveitarstjórnarlagafrv. fjallar ekki að nokkru leyti um eignarrétt. Þjóðlendufrv. er í eðli sínu þjóðnýtingarfrv. Þar er verið að slá eign ríkisins á það land sem aðrir geta ekki sannað eignarrétt sinn á fyrir dómi.

Auðlindafrumvarpið er líka sósíalískt í hugsun. Þar er verið að slá eign ríkisins eða staðfesta eign ríkisins á auðlindum í þjóðlendum. Menn hafa verið að tala hér um háhitasvæðin. Eftir að þessi löggjöf hefur verið sett þá eru háhitasvæðin næstum öll innan þjóðlendna og öll í eigu ríkisins. Hér er því um geysilega róttækan sósíalisma að ræða því að sveitarfélögin í landinu hafa mörg hver a.m.k. talið sig hafa fullar eignarheimildir á afréttum og eignarhald á þeim.

Það er eðlilegt að skoða þessa löggjöf sem hér er verið að setja í samhengi og hún er samferða og það er ekki neitt út í loftið. Það er með vilja gert. Í haust verður síðan skerpt á ákvæðum skipulags- og byggingarlaga til að tryggja samræmi og aðkomu allra landsmanna að skipulagsmálum. Og ég hef þá trú að þegar þessari hríð linnir þá muni allir verða sáttir við það fyrirkomulag sem hér er verið að taka upp.

Það er rétt að ítreka að forsrh. fer með eigandavaldið á þjóðlendunum samkvæmt þjóðlendufrv. Og við hann er að semja um hugsanlega fjáraflastarfsemi á hálendinu eða í þjóðlendum. Hann þarf að samþykkja alla mannvirkjagerð sem á að standa lengur en eitt ár. Þá þarf til hans að taka og ég hygg að það sé ekki hægt að slá neinu föstu um það hvernig fjáröflun verður á hálendinu. Fjáröflun á hálendinu er að mestu í höndum Ferðafélags Íslands eins og stendur, þ.e. Ferðafélag Íslands tekur inn fyrir gistingu eða veitta þjónustu 23--24 milljónir á hverju sumri á hálendinu. Það getur vel verið að Ferðafélagið verði ekki eitt um þessa hitu í framtíðinni en ég er ekkert að amast við þeirra bisniss sem er mikill.

Hv. 8. þm. Reykv., Svavar Gestsson, sagði að sveitarfélög gætu hafnað svæðisskipulagi. Það kann rétt að vera en mér þykir frekar ósennilegt að sveitarfélög geri það í einhverjum verulegum mæli eða komist upp með það. Svæðisskipulagsvinnan á miðhálendinu hefur gengið ákaflega vel. Ég tel að unnið hafi verið mjög gott starf í svæðisskipulagsnefndinni og af fyrirtækinu Landmótun í Reykjavík, jafnvel þó að það séu ekki nema vesælir dreifbýlingar í þessari tólf manna nefnd. Ég tel að sú vinna sé í góðum gangi. Nú heyrir sú nefnd ekki undir mitt ráðuneyti heldur undir hæstv. umhvrh. þannig að ég veit ekki hvenær sú nefnd lýkur sinni vinnu, hvenær þetta svæðisskipulag verður staðfest. Ég get ekki nefnt dagsetningu um það en ég vona að það takist fyrir áramót. En ég hef enga trú á því að þó að fleiri komi að þeirri vinnu, þ.e. fulltrúar af höfuðborgarsvæðinu og Vestfjörðum, að þeir fari að sprengja upp þá vinnu sem unnin hefur verið og ég tel að sé góð og mikilvæg.

Hv. þm. spurði líka hvaða rök væru til þess að ljúka málinu nú. Það er náttúrlega margbúið að koma fram í þessari umræðu að þetta er í tengslum við þjóðlendufrv. og ég tel að mjög brýnt sé að efla stjórnsýsluna á miðhálendinu og ganga eftir því að sveitarfélögin uppfylli þær skyldur sem þau hafa. Ég tel að líka mjög mikilvægt að einhver hafi lögregluvald á jöklunum.

Varðandi skipulagsmálin þá er náttúrlega dálítið einkennilegt að hugleiða hvernig þeim er fyrir komið. Við tölum hér um hálendið og ég er ekki að gera lítið úr því og mikilvægi skipulags á hálendinu. Ég er með í höndum bréf frá borgarverkfræðingnum í Reykjavík sem er dagsett 4. maí 1998. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa nýlega samþykkt að vinna að gerð svæðisskipulags, sbr. skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, sbr. lög nr. 135/1997. Hlutverk svæðisskipulagsins er að samræma stefnu um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar á svæðinu. Um svæðisskipulag er fjallað í 12.--15. gr. skipulags- og byggingarlaga.``

Það á sem sagt að fara að drífa sig í að svæðisskipuleggja höfuðborgarsvæðið og er það áreiðanlega vel og það er tímabært. Menn hafa hér verið að tala um deiliskipulag og haft miklar áhyggjur út af því. Nú er svo komið að verið er að deiliskipuleggja Alþingisreitinn. Eiginlega er ekkert af Reykjavík deiliskipulagt, aðeins örlitlir blettir eða ræmur í borginni hafa verið deiliskipulagðar. Búið er að deiliskipuleggja með sjónum upp að Hverfisgötu. Það er búið að deiliskipuleggja Elliðaárdalinn að hluta, Laugardalinn að hluta, flugvallarsvæðið, undir nýju blokkunum á Kirkjusandi og á örfáum stöðum annars staðar í borginni. Annars hefur ekki verið unnið deiliskipulag en verið er að vinna að því hér á Alþingisreitnum.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson virðist ekki hafa heyrt ræðu mína eða það sem ég svaraði honum núna fyrir hádegið. En ég vísa til þess og ætla ekki að eyða tíma í að endurtaka það sem ég sagði þá.

Þá að kosningum um sameiningu eða það að sveitarstjórnum þeirra sveitarfélaga þar sem sameining var samþykkt væri heimilt að ganga til sameiningar. Þetta er atriði sem mér finnst vera umdeilanlegt, hv. þm. Við undirbúning sveitarstjórnarlagafrv. lögðu fulltrúar sveitarfélaganna ríka áherslu á að þessi heimild væri inni. Mér finnst það hins vegar orka tvímælis. Reyndar er ekkert sem bannar kosningu en forsendur, eins og við þekkjum, geta breyst, þ.e. að hin upphaflega tillaga um sameiningu úreldist ef eitthvert sveitarfélagið gengur úr skaftinu eins og t.d. gerðist í Vesturbyggð. Núna er annað sveitarfélag í Vesturbyggð en hefði orðið ef t.d. Tálknafjörður hefði verið með eins og gert var ráð fyrir í upphaflegu tillögunni og það var um hana sem fólkið í Vesturbyggð greiddi atkvæði. Ég hef ekkert á móti því að hv. félmn. skoði þetta atriði milli umræðna.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að sameiningin er ekki töfralausn. En eins og ég sagði áðan: Hver hefði þróunin orðið í þessum sveitarfélögum sem hv. þm. spurði um ef þau hefðu ekki sameinast? Það vitum við ekki. Það er rétt að ég treysti mér ekki til þess að spá neinu um þróunina næstu fimm ár í viðkomandi sveitarfélögum. Ég get hins vegar vonað það besta, að það gangi skár en það hefur gert í viðkomandi sveitarfélögum. En það er alveg rétt, eins og hv. þm. sagði, að ekki hafa orðið þau stakkaskipti sem til þurfti.

Brtt. hv. félmn. varðandi arðgreiðslurnar miðar einungis að því að búa við óbreytt ástand. Í 60 ár hefur Reykjavíkurborg tekið arð af Hitaveitu Reykjavíkur. Eins og fram hefur komið tel ég eðlilegt að kveða skýrar á um arðgreiðslur og jafnframt hámark arðgreiðslna í orkulögum og lögum um vatnsveitur.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var með vangaveltur um heita vatnið. Mér finnst margt athyglisvert í kenningum hv. þm. og ég er ekkert að halda því fram að ég sé endilega ósammála þeim. Í þeim er mjög ágæt og félagsleg hugsun. En ef frv. í þá veru sem hv. þm. var að viðra kæmi hér til umræðu held ég að umræðan yrði löng, úr því að menn hafa getað teygt umræðuna um sveitarstjórnarlögin svo mjög sem gert hefur verið.

Hv. 5. þm. Reykn., Rannveig Guðmundsdóttir, talaði um samvistir við landið og þær eru vissulega okkur öllum mikilvægar. En það er ekki með nokkru móti verið að ganga á almannaréttinn, réttinn til samvista við landið, með þessu frv. Það er ekki hugmyndin að búa til neinar gjár í landið milli sveitarfélaganna. Almannarétturinn og umferðarréttur er tryggður í öðrum lögum. Það er ekki með neinu móti verið að þrengja að almannarétti eða umferðarrétti með þessu frv.