Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 12:31:57 (6314)

1998-05-08 12:31:57# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[12:31]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega deginum ljósara að sveitarfélögin koma til með að bera kostnað af þjónustu og skyldum sem þau hafa á hálendinu. Þau hafa borið hann hingað til. Reyndar verður eitthvað dýrara fyrir þau að sinna jöklunum líka. Ég legg jafnframt áherslu á að mörg sveitarfélögin hafa vanrækt skyldur sínar, t.d. varðandi heilbrigðiseftirlit, frárennslismál o.s.frv.

Sveitarfélögin þurfa auðvitað einhverjar tekjur á móti. Það er ekki tekið á því í þessu frv. Það kann að verða samningsatriði milli þess sem fer með eigandavaldið, þ.e. hæstv. forsrh., og viðkomandi sveitarfélags í hverju tilfelli hvernig tekjuöflun verði háttað. Það er sjálfsagt ekki ljóst og er ekki einfalt að gefa viðhlítandi svör við því í öllum tilvikum. Ég treysti mér a.m.k. ekki til að gera það hér og nú.

Varðandi frestunina þá hefur það verið þaulrætt. Ég ætla ekki að rífa þá umræðu upp. Ég ætla hins vegar að nefna eitt atriði. Það er löggæslan. Löggæsla er ekki fyrir hendi á svæði sem er utan sveitarfélags. Það hefur enginn lögregluvald á svæði sem er utan sveitarfélaga. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að gera það en það er einmitt einn af þáttunum að skipta landinu í sveitarfélög. Sýslumannsumdæmin eru bundin við sveitarfélög og þótt einhver væri tekinn drukkinn á ökutæki uppi á Vatnajökli, reikna ég með að hann gæti sloppið vegna þess að hann væri utan starfssvæðis viðkomandi sýslumanns.