Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 12:36:22 (6317)

1998-05-08 12:36:22# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[12:36]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú þakka hæstv. félmrh. fyrir undirtektir við þau tvö atriði sem ég gerði sérstaklega að umfjöllunarefni nú fyrr í dag. Annars vegar varðandi ákvæði um frávik fyrir samþykki íbúa um sameiningu sveitarfélaga og hins vegar brtt. sem meiri hluti félmn. flytur og heimilar arðtöku eða afrakstur af fjármagni sem bundið er í stofnunum eða fyrirtækjum sveitarfélaga. Ég heyri að skoðanir eru ekki svo gagnstæðar að örvænt væri um að við næðum saman ef ekki væru aðrir til að trufla þær samningaumleitanir.

Vegna þess sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra, um að brtt. sé einungis til þess að festa í sessi fyrirkomulag sem verið hefur í 60 ár, vil ég árétta að ég er ekki alls kostar sammála því. Ég bendi á að það að brtt. skuli vera flutt helgast af þeirri ástæðu einni að lagagrundvöllur gildandi fyrirkomulags þykir hæpinn. Með öðrum orðum: Flutningur tillögunnar er yfirlýsing flutningsmanna um að arðgreiðslur undanfarinna ára séu á mjög hæpnum lagalegum forsendum. Í öðru lagi hefur orðið veruleg breyting í þessu á undanförnum árum. Ég nefni sem dæmi það sveitarfélag sem lengst hefur gengið í þessum efnum. Það er Reykjavíkurborg. Hún hefur hækkað arðgreiðslur til borgarsjóðs frá Hitaveitu Reykjavíkur úr 2% af bundnu fé upp í 6%, á undanförnum árum og auðvitað er það veruleg breyting frá gildandi fyrirkomulagi.