Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 12:41:31 (6321)

1998-05-08 12:41:31# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, HG
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[12:41]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Undir lok þessarar umræðu vildi ég nefna tiltekið atriði úr frv. sem ég vakti raunar athygli á í ræðu fyrr við þessa umræðu. Það er 11. gr. frv. og ég bið hæstv. félmrh. að leggja við eyra ef forseti leyfir að ég beini þannig ósk til hæstv. ráðherra. Einnig er hér formaður félmn. sem hlýðir á. Greinin er svohljóðandi:

,,Sveitarstjórnir nefnast bæjarstjórn, hreppsnefnd eða sveitarstjórn. Byggðarráð skv. 38. gr. nefnast byggðarráð, bæjarráð eða hreppsráð og framkvæmdastjóri sveitarfélagsins nefnist bæjarstjóri eða sveitarstjóri.

Í Reykjavíkurborg nefnist sveitarstjórnin borgarstjórn, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins borgarstjóri og byggðarráð sveitarfélagsins borgarráð.

Heiti sveitarstjórnar, byggðarráðs og framkvæmdastjóra er ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.``

Ég er þeirrar skoðunar að þetta tvennt, lögfesting sú sem hér er áformuð varðandi heiti sveitarstjórnar, einhvers konar flokkun sem og sérákvæði um Reykjavíkurborg, þurfi nánari athugunar við.

Ég átta mig alls ekki á því hvers vegna menn eru að lögbjóða þrenns konar heiti sveitarstjórna þegar hugtakið sveitarstjórn er notað sem almennt hugtak um sveitarstjórnir og sveitarstjórnarstigið, samanber heiti þess frv. sem við ræðum hér. Ég tel það með öllu ástæðulaust að lögfesta nokkuð annað en sveitarstjórnarheitið, sé þörf á því. Síðan, eins og kemur fram í 3. efnismálsgrein þessarar frumvarpsgreinar, segir: ,,Heiti sveitarstjórnar er ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.`` Þannig getur hver og einn valið hvort hann vill kalla sig eitthvað annað en sveitarstjóra. Ef menn vildu taka upp heitið bæjarstjórn eða hreppsnefnd fyrir sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags þá mega þeir það, þyki þeim það eitthvað mildara.

Mér finnst með öllu ástæðulaust að lögbjóða eitthvað sérstakt um Reykjavíkurborg sem er bara sveitarfélag rétt eins og Mjóafjarðarhreppur, ekkert annað. Í samhengi þessara laga eru Reykjavíkurborg og Mjóifjörður sami hluturinn Það á að auðvelda landsmönnum skilning á þessu stigi, öðru af meginstjórnsýslustigum samfélagsins, með því að flækja það ekki með lögboðnu titlatogi, eða flokkun sveitarfélaga eftir gamaldags hugsun í bæjarstjórnir og hreppsnefndir, og hafa svo þriðja stigið hið almenna, sveitarstjórn. Þetta er svo rugluð hugsun að ég undrandi yfir því að hinu vísa fólki sem í félmn. starfar, skuli hafa yfirsést þetta atriði. Hér má auðvitað til með að verða breyting á. Hið eina sem þarf að standa í þessari grein er síðasta efnisgreinin:

,,Heiti sveitarstjórnar, byggðarráðs og framkvæmdastjóra er ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.``