Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 12:47:18 (6323)

1998-05-08 12:47:18# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[12:47]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir að hlýða á mál mitt en greinilegt er að okkur greinir á í þessu efni. Ég treysti því að hv. félmn. fari vandlega yfir málið milli umræðna eins og nefnt mun hafa verið af formanni nefndarinnar. Ég var ekki viðstaddur þegar formaður félmn. tók til máls í umræðunni í gær, þar hefur þetta væntanlega komið fram en sakar ekki þó að það kæmi fram hér í lok umræðunnar.

Varðandi þær greinar sem félmn. ætlar að taka til skoðunar, eða það liggur fyrir yfirlýsing um það, þá finnst mér álitaefni hvort greiða eigi atkvæði um þær greinar við 2. umr. Þetta er tæknilegt atriði sem ég nefni þó hérna til íhugunar varðandi atkvæðagreiðslu, ef á að taka þær fyrir. En það er kannski ekkert á móti því að breyta einhverju við 3. umr. sem væri búið að samþykkja við 2. umr.

En mér finnst þessi hugsun ekki góð. Og taka það sérstaklega fram eins og gert er í upphafi 11. gr. að: ,,Sveitarstjórnir nefnast bæjarstjórn, hreppsnefnd eða sveitarstjórn.`` --- Eða sveitarstjórn. Þarna er yfirheitið orðið eitt af þremur sem úr er að velja, og fyrr má nú vera íhaldssemin ef menn vilja halda í slíkar ambögur í framsetningu. Ég treysti hæstv. félmrh., virðulegur forseti, til þess að hugsa þetta á milli umræðna og bera þetta kannski undir fleiri fyrrverandi hreppsnefndarmenn, hvort þeir hefðu nokkuð á móti því að taka bara ákvörðun um það heima fyrir að halda þessu heiti inni í samþykkt.