Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 14:05:32 (6328)

1998-05-08 14:05:32# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, VS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[14:05]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Þá er sú stund runnin upp að gengið er til atkvæða um frv. til sveitarstjórnarlaga á sjöunda degi umræðunnar og eftir að 50 ræður hafa verið haldnar. Ég vona að sú umræða sem hér hefur farið fram verði ekki til þess að gera samskipti dreifbýlis og þéttbýlis erfiðari en verið hefur, en ýmsir hv. ræðumenn hafa með málflutningi sínum vissulega gefið tilefni til þess. Gætt hefur mikillar vanþekkingar á aðstæðum til sveita í umræðunni og ég vil einnig halda því fram að gætt hafi vanþekkingar staðháttum á miðhálendinu.

Miðhálendið er landfræðilega í beinu framhaldi af viðkomandi sveitahreppum sem að því liggja og því rökrétt að það heyri til þeirra. Þetta mál fjallar ekki um rétt almennings til að fara um landið. Um þau mál er fjallað í náttúruverndarlögum. Þau lög eru í endurskoðun í nefnd sem hæstv. umhvrh. hefur skipað. Fullur vilji er til þess innan þingflokks framsóknarmanna að breyta náttúruverndarlögum þannig að almenningur fái aukinn rétt til umgengni um landið. Ég segi nei við þessari frávísunartillögu.